Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Stórum framleiðslustöðvum fyrir hauggas fjölgar stöðugt í Danmörku og oftast er reksturinn annaðhvort í eigu bænda eða orkufyrirtækja.
Stórum framleiðslustöðvum fyrir hauggas fjölgar stöðugt í Danmörku og oftast er reksturinn annaðhvort í eigu bænda eða orkufyrirtækja.
Mynd / SS
Fréttir 15. september 2016

Hauggasframleiðsla í Danmörku er í miklum vexti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Árið 1984 var fyrsta hauggasorkuver Danmerkur tekið í notkun og þrjátíu árum síðar var fjöldinn kominn yfir 20 en þegar Danir tala um hauggasorkuver er átt við stórar gasverksmiðjur. Nú fjölgar þeim nokkuð hratt en skýringin felst í því að árið 2012 var hleypt af stokkunum metnaðarfullu verk­efni en þá var sett upp áætlun um margföldun á hauggasframleiðslu í landinu. 
 
Ríkisstjórnin setti á fót styrkjakerfi svo komið yrði upp fleiri framleiðslustöðvum. Dönsk hauggasorkuver nýta að stærstum hluta kúamykju og svínaskít til að framleiða gasið en annar úrangur er þó einnig nýttur eins og t.d. úrgangur frá heimilum. Hauggasið er oftast nýtt til raforkuframleiðslu og hitinn sem myndast við brennsluna nýttur til húshitunar. Gasið má einnig hreinsa og nota í stað þess að nota jarðgas, þó svo að það sé ekki algengasta nýtingin til þessa. Áætlað er að framleiðslan árið 2020 verði þrefalt meiri en hún var árið 2012.
 
Mismunandi rekstrarform
 
Langflest fyrirtækin sem eru í gasframleiðslu eru annaðhvort rekin af stórum orkufyrirtækjum eða sem samvinnufélög bænda og er fjöldi slíkra fyrirtækja nú á þriðja tuginn.
 
Minni framleiðslustöðvar eru þó einnig til og er nokkuð um það að einstaka bú séu með sína eigin gasframleiðslu. Fyrsta slíka gasframleiðslustöðin var tekin í notkun á sjöunda áratugnum og í dag eru um fimmtíu slíkar einingar í rekstri í Danmörku. Þetta er ekki hátt hlutfall sé litið á fjölda bóndabæja landsins. Ástæðan felst í því að sé framleiðslan heima á búum bændanna verður gasframleiðslan svo lítil að það þykir ekki sérlega hagkvæmt. Þess utan krefst það verulegrar nákvæmni að framleiða hauggas svo vel takist til og því þarf að stýra framleiðslunni afar vel. Það getur verið erfitt á minni búum og því er algengara að bændur taki sig saman og stofni samvinnufélög sem sjá um framleiðsluna. Skíturinn er þá sóttur reglulega heim á búin af þar til gerðum tankbíl og hann kemur einnig fullur af afgasaðri mykju svo ferðin nýtist í báðar áttir.
 
Framleiða einnig úr seyru og sorpi
 
Þó svo að mestu umsvifin við hauggasframleiðslu sé frá stöðvunum sem nota landbúnaðarúrgang þá eru einnig fleiri á þessum „markaði“. Þannig er til dæmis stór hluti skólps nýttur til gasframleiðslu og á slík notkun sér afar langa sögu en árið 1920 var í fyrsta skipti sett upp gasvinnsla við skólpsöfnun í landinu. Í dag eru um 60 slík gasver í landinu og auk þess er hauggas tekið af nærri 30 sorphaugum víða um landið, rétt eins og gert er t.d. í Álfsnesi á Íslandi.
 
Gerjast í 18–100 daga
 
Margir líkja hauggasframleiðslu við nákvæmnisfóðrun mjólkurkúa og það er alls ekki fjarri lagi að líkja þessu saman enda er í báðum tilfellum verið að fóðra örverur. Þess vegna þarf að vanda til verksins og „mata“ örverurnar með réttu hlutfalli af hráefnum á réttum tíma við rétt hitastig. 
 
Stærri gasframleiðslustaðirnir ráða vel við þetta með notkun á tölvubúnaði og fullkomnum mötunarbúnaði sem sér um að skammta bæði skít og önnur hráefni í gerjunartankana með mikilli nákvæmni. Minni gasframleiðslustaðirnir eru ekki eins vel tækjum búnir og kemur það niður á framleiðslunni. Þess vegna er gerjunartíminn afar ólíkur eftir framleiðslustýringunni, allt frá því að vera einungis 18 dagar og upp í 100 daga.
 
Nota einnig maís og rófur
 
Þó svo að skítur frá nautgripum og svínum sé algengasta hráefnið til gasframleiðslunnar, þá eru bæði maís og sykurrófur einnig notaðar sem orkugjafar við framleiðsluna. Reyndar henta orkumiklar plöntur afar vel til gasframleiðslu en þar sem heppilegra er að gefa skepnum slíkt fóður hafa stjórnvöld í Danmörku sett takmörk á hlutfall plantna við framleiðsluna, eigi orkuverið að fá styrk.
 
50% landbúnaðarúrgangs í gasframleiðslu 2020
 
Í áætlun danskra stjórnvalda er gert ráð fyrir að 50% alls úrgangs frá landbúnaði fari til hauggasframleiðslu árið 2020. Áætlað er að það ár verði hauggasframleiðslan komin í 16 petajúl (PJ) en það svarar til um 4,4 milljarða kílóvatta sem er einmitt 50% af áætlaðri mögulegri hauggasframleiðslu landsins. Hvort þetta markmið náist er erfitt að spá fyrir um en víða um land standa nú yfir framkvæmdir við uppbyggingu á gasframleiðslustöðvum svo það er ekki talið útilokað að takmarkinu verði náð.
 
Ekki raunhæft án styrkja
 
Þó svo að margir telji að það geti ekki verið mikið mál að framleiða hauggas þá er kostnaðurinn við framleiðsluna umtalsverður og í samanburði við aðra orkuframleiðslu þá er hauggasframleiðslan einfaldlega verulega dýr. Þannig þarf t.d. framleitt rafmagn frá hauggasorkuveri að kosta tvöfalt meira en rafmagn sem er framleitt við brennslu á jarðgasi og því liggur í augum uppi að það þarf að styrkja þessa framleiðslu, eigi hún yfirhöfuð að fara fram. 
 
Þarna hafa Danir sýnt í verki að þeir hafa mikla framtíðarsýn og því er þessi framleiðsla styrkt. Styrkjakerfið er reyndar frekar flókið en misjafnt er hve orkan er mikið niðurgreidd, allt eftir því hvernig gasið er nýtt o.s.frv. Styrkirnir gera það að verkum að ásókn er í að byggja upp þessi hauggasorkuverk og um leið minnkar neikvætt umhverfisálag danska landbúnaðarins enda gefur afgasaður úrgangur takmarkað frá sér af gróðurhúsalofttegundum.
 
Breytt notkun í framtíðinni
 
Þegar líður á þriðja áratug þessarar aldar áætla Danir að notkunin á hauggasi muni breytast úr því að framleiða rafmagn yfir í það að gasið verði hreinsað og þá nýtanlegt sem hefðbundið jarðgas. Slíkt gas má þá nota sem orkugjafa á farartæki svo dæmi sé tekið. Ástæðan fyrir þessari breytingu felst m.a. í því að áætlað er að rafmagnsframleiðsla með vindmyllum og sólarsellum muni aukast verulega. Þess má geta að árið 2015 nam rafmagnsframleiðsla með vindmyllum í Danmörku 42% af heildarrafmagnsnotkun landsins en gert er ráð fyrir að þetta hlutfall fari í 60% árið 2025.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku
Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.

Lækka gjöld fyrir sorphirðu
Fréttir 10. júní 2024

Lækka gjöld fyrir sorphirðu

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur samþykkt samhljóða að lækka sorphirðugjöld.

Uppbygging á Hauganesi
Fréttir 10. júní 2024

Uppbygging á Hauganesi

Nýlega undirrituðu sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar og forsvarsmenn einkahlutafyrir...

Kortleggja ræktunarland sem hentar vel til matvælaframleiðslu
Fréttir 7. júní 2024

Kortleggja ræktunarland sem hentar vel til matvælaframleiðslu

Þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu til ársins 2038, ásamt fimm ára að...

Hálfur milljarður til nautgripa- og sauðfjárbænda
Fréttir 7. júní 2024

Hálfur milljarður til nautgripa- og sauðfjárbænda

Matvælaráðuneytið hefur birt niðurstöður um úthlutanir vegna fjárfestingastuðnin...