Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Frá urðunarstaðnum í Stekkjarvík.
Frá urðunarstaðnum í Stekkjarvík.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 5. maí 2025

Hagnýting á hauggasi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í apríl var sett af stað verkefni við gagnasöfnun og fýsileikagreiningu vegna mögulegrar hagnýtingar á hauggasi frá urðunarstað í Stekkjarvík, norðan við Blönduós, sem er einn sá stærsti á landinu.

Um 30-40 rúmmetrar af hauggasi safnast saman á hverri klukkustund í núverandi gassöfnunarkerfi, þar af er metangas um 32 prósent. Það hefur verið metið sem allt að 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Það er leitt í gegnum lagnakerfi, þaðan er því dælt upp og að sérstakri brennslustöð í Stekkjarvík þar sem það er brennt til að lágmarka útblástur frá urðunarstaðnum.

Stekkjarvík tekið við 250 þúsund tonnum

Frá árinu 2011 hefur Stekkjarvík tekið við rúmlega 250 þúsund tonnum af úrgangi frá sveitarfélögum á Norðurlandi, mest blönduðum úrgangi auk sláturúrgangs.

Stofnað hefur verið til samstarfs til að finna hagkvæma lausn á nýtingu hauggassins á milli Eims, sem er samstarfsverkefni um bætta nýtingu auðlinda á Norðurlandi, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Norðurár, sem rekur urðunarstaðinn. Eimur fékk nýlega styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar fyrir verkefnið. Markmið verkefnisins er að greina hagkvæmni og fýsileika raf- og varmaorkuframleiðslu úr metangasinu með tilliti til efnahags og umhverfis, en ekki síður samfélagslegra þátta nærliggjandi sveitarfélaga.

Skoða mögulega nýtingu á koltvísýringi

Hauggas kemur til með að myndast í urðunarhólfinu í Stekkjarvík næstu ár og áratugi, þó umfang lífræns úrgangs muni dragast saman vegna breytinga á lögum um meðferð úrgangs. Því er talið að um auðlind sé að ræða sem mikilvægt sé að finna farveg fyrir.

Ragnhildur Friðriksdóttir.

Ragnhildur Friðriksdóttir, verkefnastjóri hjá Eimi, segir að dæmi um nýtingarmöguleika gassins geti verið framleiðsla á raforku og varma í þágu nærumhverfisins. „Eins stefnum við á að skoða hvort koltvísýringur, sem er hliðarafurð úr þessu ferli, geti nýst á einhvern hátt hérlendis, en eftir því sem ég best veit er allur koltvísýringur sem nýttur er í gróðurhúsum hérlendis innfluttur.“

Ónýtt auðlind

Ragnhildur segir að hvað magnið varðar, sem hægt sé að vinna með, þá hafi það mælst um 234 þúsund rúmmetrar sem kom til brennslu á síðasta ári. Þar af voru rúmlega 85 þúsund rúmmetrar af metani. „Slíkt magn myndi duga til þess að knýja um 80–100 metanbíla í eitt ár. Nú stendur hins vegar til að leggja nýtt gassöfnunarkerfi í öðrum hluta urðunarstaðarins og þar með mun gasframleiðslan líklega tvö- eða þrefaldast á næstu árum.

Stærsta atriðið í þessu öllu saman er einfaldlega það að hér er til staðar auðlind sem er með öllu ónýtt. Auðlind sem hægt er að finna farveg til nýtingar, samfélaginu til góða. Okkur þykir því fullt tilefni til að skoða, í góðu samstarfi við hlutaðeigandi aðila, á hvaða hátt gasið geti nýst, umhverfinu og nærsamfélaginu til góða. Markmiðið hér er því einfaldlega að draga fram staðreyndir málsins í sem víðustu samhengi umhverfis, efnahags og samfélags, svo hægt sé að öðlast skýra sýn á þá möguleika sem eru fyrir hendi.

Samhliða gagnasöfnun og fýsileikakönnun sem er áætlað á næstunni, er ætlunin að taka samtöl við hagaðila til að átta okkur á samfélagslega hluta verkefnisins. Við áætlum að verkefninu ljúki í nóvember á þessu ári og þá verða niðurstöður kynntar hagaðilum og öðrum áhugasömum,“ segir Ragnhildur.

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...