Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Íslenski hópurinn ásamt Vincenzu og Johan frá Svíþjóð við elsta ólífutréð á búgarðinum.
Íslenski hópurinn ásamt Vincenzu og Johan frá Svíþjóð við elsta ólífutréð á búgarðinum.
Mynd / Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Líf&Starf 21. apríl 2017

Hágæða ólífuolía af 1000 ára gömlum trjám

Höfundur: /Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Inni á miðri Sikiley er lítill ólífubúgarður sem lætur ekki mikið yfir sér en þar er aðaláherslan á sjálfbæra og lífræna ræktun. 
 
Vincenza Ferrara á búgarðinn, Azienda Agricola DORA, hún er einungis 36 ára en hefur nú fengið verðlaun sem annar besti ólífubóndinn á Ítalíu. Olían er sérstaklega bragðgóð og selst uppskeran upp á örskömmum tíma. 
 
Í byrjun mars fór hópur Norðlendinga til Sikileyjar í vinnulotu um sjálfbæra þróun. Námslotan er partur af Evrópuverkefninu Cristal en þetta voru kennarar úr Norðurþingi, starfsmenn frá Þekkingarneti Þingeyinga, Háskólanum á Akureyri og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem stýrir verkefninu. Verkefnið snýst um að koma sjálfbærni, frumkvöðlamennt og tæknimennt betur inn í kennslu á mismunandi skólastigum. Auk þessara aðila er Vincenza Ferrara samstarfsaðili í verkefninu ásamt sænsku tæknifyrirtæki.
 
Frumkvöðull með hugsjónir
 
Það má með sanni segja að Vincenza sé frumkvöðull og syndi á móti straumnum. Mikið atvinnuleysi er meðal ungs fólks í héraðinu þar sem búgarðurinn hennar er og fólksflótti úr nærliggjandi bæ, Villarosa, þar sem fjöldi íbúa hefur farið úr 10–15 þúsund í 3 þúsund á örfáum árum. Það hefur ekki áhrif á þessa ungu konu en árið 2012 fékk hún Erasmus-styrk til að koma sér upp lítilli ólífuvinnslu. Á meðal þess sem í því fólst var að koma upp stórri sólarsellu sem sér vinnslunni fyrir rafmagni. 
 
Afi hennar átti húsið og landskikann upphaflega og foreldrar hennar búa þar núna með henni. Eins og hjá flestum Ítölum voru nokkur ólífutré nærri íbúðarhúsinu, en þau voru ekki nýtt nema til heimavinnslu þangað til ólífuvinnslunni DORA var komið á fót. Vincenza hafði þá sótt sér háskólamenntun og unnið nokkur ár í Palermo. Hugurinn sótti þó heim og í að nýta náttúruauðlindina sem var til staðar. Eftir að hafa kynnt sér sögu ólífutrjáa kom í ljós að elstu trén sem eru á búgarðinum eru áætluð vera á milli 900–1000 ára gömul. Mörg trjánna eru þó nýrri en hún segir að eldri trén skili alveg jafn góðum ólífum og þau nýrri. Þau hafa nú plantað fleiri trjám til að auka við vinnsluna en með því að nota engan áburð tekur um 15 ár fyrir trén að verða tilbúin til að skila hæfum ólífum, að öðrum kosti tæki það um 8 ár. Síðastliðið haust var fjórða haustið sem þau framleiddu olíu og hefur ferlið allt verið mjög lærdómsríkt. 
 
Kaldpressuð og bragðmikil
 
Þar sem ræktunin er lífræn þá er enginn áburður notaður í jarðveginn eða á trén. Allur gróður og illgresi gefa bragð, að sögn Vincenzu, og í kringum trén má finna fennel, anísplöntur og alls kyns gróður. Engin eiturefni eru notuð á skordýrin en í janúar snjóar lítillega, sem hjálpar til við að drepa sníkjudýr og sér jarðveginum einnig fyrir raka. Í október og nóvember er uppskerutími. Þá hjálpast öll stórfjölskyldan að við að tína ólífurnar, enda ærið verk. Samhliða er byrjað að vinna ólífurnar í olíu og er það afar nákvæmt ferli, til að fá hana bragðmikla og kaldpressaða. 
 
Vinnslan er ekki stór og því þarf margar umferðir til að komast yfir alla framleiðsluna. Fyrst eru ólífurnar settar í eins konar þeytivindu sem sprengir þær og býr til fljótandi massa. Sá massi er síðan látinn bíða í rúmar 20 mínútur og má hitastigið ekki fara upp fyrir 27 gráður. Á þessi stigi vinnslunnar er hægt að lengja tímann og fá meiri olíu, en að sögn Vincenzu verður hún þá útþynntari og bragðminni, og leggur hún áherslu á gæði umfram magn. Þá er farið í næsta stig vinnslunnar, að skilja olíuna frá og rennur hún sína leið í tanka þar sem hún bíður þess að vera sett í flöskur.
Hratið nýtt til húshitunar
 
Ársframleiðslan er um 3.000 lítrar á venjulegu ári og er framleiðslan yfirleitt fljót að seljast upp. Mikið af olíunni fer til Svíþjóðar á Michelinstjörnu-veitingastaði en einnig er eitthvað um að heimamenn kaupi olíuna til heimilisnota, þó oft í stærri einingum, enda notar hvert heimili tugi lítra á ári af olíu. Olían er þó dýr miðað við venjulega framleiðslu. Það sem vakti sérstaka athygli hópsins var síðasti hlekkurinn í ferlinu, en þegar búið er að skilja olíuna frá massanum, er ferlið ekki búið. Vincenza lét útbúa fyrir sig vél sem skilur að vökvann og hratið. Vökvinn fer út í stóran tank og er notaður til að vökva jarðveginn við ólífutrén. Hratið er hins vegar þurrkað og verður eins og örsmá viðarspæni. Það er síðan notað til að kynda upp íbúðarhúsið. Þannig næst nánast 100 prósent nýting á ólífunum og sjálfbærnihugtakið ekki bara á blaði heldur fylgt eftir eins og hægt er. Vincenza leggur mikla áherslu á að borða mat úr héraði, hreinan mat og að láta sér nægja það sem fæst á hverjum árstíma. Í garðinum eru appelsínu- og sítrónutré, þau nota fennel úr garðinum auk annarra gjafa sem náttúran gefur. 

13 myndir:

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...