Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Skógarbændur útskrifaðir af Græniskógum I vorið 2006.
Skógarbændur útskrifaðir af Græniskógum I vorið 2006.
Á faglegum nótum 16. maí 2018

Hafa gróðursett um 28 milljón plöntur í 11 þúsund hektara

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Krafa okkar skógarbænda er fyrst og fremst sú að ríkið standi við gerða samninga við bændur og að í fjárlögum ársins 2018 sem og í næstu fjármálaáætlunum til 5 ára verði gert ráð fyrir auknum framlögum til skógræktar. 
 
Við leggjum líka áherslu á að gróðursetningu verði haldið áfram í samræmi við samninga og að hægt verði að fara í fyrstu grisjun skóganna innan eðlilegra tímamarka,“ segir Jóhann F. Þórhallsson, gjaldkeri Félags skógarbænda á Austurlandi.
 
Frumkvöðlar í skógrækt
 
Skógarbændur á Austurlandi fögn­uðu nýlega 30 ára afmæli félagsins, en það var stofnað 3. maí árið 1988. Félagið hefur alla tíð síðan verið í fararbroddi við uppbyggingu og hagsmunagæslu varðandi bændaskógrækt. Um 180 samningar um skógrækt eru í gildi í fjórðungnum upp á um 18 þúsund hektara lands og er búið að gróðursetja um 28 milljón plöntur í alls 11 þúsund hektara.
 
„Bændur á Austurlandi eru stoltir af framlagi sínu við að byggja upp skógarauðlindina og að vera frumkvöðlar í skógrækt á Íslandi,“ segir Jóhann, en bændur eystra voru þeir fyrstu sem stofnuðu með sér félagsskap um sína skógrækt og er félag þeirra því það elsta sinnar tegundar hér á landi. 
 
Hugmyndin fæddist þegar erfiðleikar voru í landbúnaði
 
Þó nokkur undirbúningur lá að baki stofnun félags skógarbænda fyrir þremur áratugum. Erfiðleikar voru í landbúnaði á þeim tíma. Gripið var til allsherjar niðurskurðar sauðfjár á Héraði vegna riðu þannig að ekki blés byrlega fyrir austfirskum sauðfjárbændum, en þeir þurftu að vera fjárlausir í tvö til þrjú næstu ár á eftir. Til tals hafði komið á ráðstefnu um atvinnumál að eitthvað yrði að gera í málefnum landbúnaðarins og nefnt var að ef til vill væru sóknarfæri í skógræktinni. Fæddist sú hugmynd að fá ríkið til liðs svo greiða mætti úr þeim erfiðleikum sem bændur stóðu frammi fyrir og náðist það markmið með stofnun Héraðsskóga. 
 
Tilgangur þess félags var fyrst og fremst að rækta nytjaskóg á Fljótsdalshéraði, sinna umhirðu þess skóglendis sem fyrir var og treysta með því byggð og efla atvinnulíf á Héraði. Í þá daga voru einungis örfáir birkiskógar til staðar auk ræktaðra skóga á stöku stað.
 
Héraðsskógar höfðu starfað um sjö ára skeið þegar Suðurlandsskógar urðu til og síðan fylgdu önnur sams konar félög í kjölfarið í öðrum fjórðungum landsins. Landssamtök skógareigenda voru síðan stofnuð á Hallormsstað sumarið 1997, en þau halda m.a. utan um hagsmunamál skógarbænda og hafa hægt og bítandi gert sig meira gildandi í umræðunni.
 
Jóhann segir að verulega vanti upp á að staðið sé við samninga sem ríkið hefur gert við bændur, skortur sé á fjárveitingum til skógræktar á lögbýlum. Frá árinu 2008 hefur framlag til skógræktar dregist saman um meira en 40% og bendir hann á að samdrátturinn sé enn meiri þegar að Austurlandi kemur.
 
Heildargróðursetning skógarbænda hefur hrapað úr 5 milljónum plantna niður í ríflega 2 milljónir árlega. 
„Á tímabilinu frá 1990 til 2008 lögðu stjórnvöld metnað í fjárframlög til bændaskógræktar í landinu og lögðu þar með grunn að uppbyggingu skógarauðlindarinnar. Eftir hrun hefur kveðið við annan tón, fjárveitingar hafa dregist saman og hefur greinin svo sannarlega fengið að gjalda fyrir það,“ segir Jóhann. 
 
Gróðursetning gengur of hægt
 
„Staðan sem við okkur blasir er sú að gróðursetning gengur alltof hægt og fjármagn dugir ekki til að standa við gerða samninga. Það hefur verið samið um ræktun skóga með stuðningi ríkisins á um 650 jörðum hér á landi í um 50 þúsund hektara lands, en aðeins er búið að gróðursetja í 22 þúsund hektara, tæpan helming. Stöðugt bætast við nýir samningar og það land sem samið er um stækkar,“  segir Jóhann. 
 
Hann bætir við að markmið samninga sé að það taki 10 ár að gróðursetja í land sem samið er um til skógræktar, en þegar mið er tekið af fjárveitingum muni það taka um 40 ár að gróðursetja í það land sem þegar er búið að semja um. 
 
Mikilvægt að grisja á réttum tíma
 
Jóhann segir grisjun skóga mikilvæga við uppbyggingu auðlindarinnar og auki verðmæti hennar. 
„Það er mjög víða hér á Austurlandi sem komið er að fyrstu grisjun og bíða nú um 3.700 hektarar grisjunar í fjórðungnum, þetta eru skógar frá árunum 1990 til 2005. Á næstu 5 árum verður þetta mjög aðkallandi verkefni, en staðan er sú að aðeins er búið að grisja um einn sjötta af fyrirliggjandi þörf af nauðsynlegri grisjun og þörfin eykst stöðugt. Ef grisjunin frestast stöðugt dregur það verulega úr gæðum skógarins og seinkar nytjum um frá 10 og upp í 60 ár. Grisjun verður líka dýrari og áhættusamari fyrir skóginn sem eftir stendur eftir því sem lengra dregst að farið verði í verkið,“ segir Jóhann.
 
 
 
Umbreyting á landi með skógrækt. Efri myndina, sem  sýnir skóglaust land á Hrafnkelsstöðum, tók Skúli Björn Gunnarsson 1995. Neðri myndin er tekin á sama stað af Jóhanni F. Þórhallssyni árið 2010.
 
Fjárveitingar til skógræktar lækka ár frá ári
 
Hann bendir á að fjárveitingar til skógarbænda nemi á þessu ári 224,9 milljónum króna, á næsta ári er gert ráð fyrir 222,5 milljónum króna og 220 milljónum árið 2020. Framlög til skógræktar fari því lækkandi.  
 
„Við erum að benda á að fyrstu áætlanir um skógrækt á lögbýlum voru m.a. settar af stað til að mæta samdrætti í sauðfjárrækt og styrkja byggð. Okkur þykir því skjóta skökku við um þessar mundir þegar verulegur samdráttur er í tekjum sauðfjárbænda að einnig er dregið saman í fjárveitingum til skógræktar á lögbýlum,“ segir Jóhann.
 
Hliðaráhrif af því að samdráttur er í fjárveitingum eru að þeir sem þjónusta skógarbændur með sölu skógarplantna eða verktakar við umhirðu og grisjun geta hvorki byggt upp þekkingu né búnað til þjónustunnar.
 
 
 
Myndir frá Skógargerði, þá fyrstu tók Skúli Björn árið 1995 og Jóhann tók hinar, þá fyrri  árið 2005 og hinar síðari árið 2010.

10 myndir:

Tíu ára starfsafmæli
Fréttir 3. febrúar 2023

Tíu ára starfsafmæli

Tíu ár eru síðan Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var sett á laggirnar. Af ...

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis
Fréttir 3. febrúar 2023

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis

Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. hefur unnið að skýrslu í samstarfi við verkfræð...

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði s...

Úrskurður MAST felldur úr gildi
Fréttir 1. febrúar 2023

Úrskurður MAST felldur úr gildi

Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi úrskurð Matvælastofnunar sem hafði stöðva...

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...