Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Elísabet Þorsteinsdóttir hefur rekið Klausturkaffi í aldarfjórðung, sinnt þar öllum verkum og eignast aðdáendur víða um heim fyrir matseld sína og bakstur. Hún lætur veitingastaðinn frá sér um áramótin.
Elísabet Þorsteinsdóttir hefur rekið Klausturkaffi í aldarfjórðung, sinnt þar öllum verkum og eignast aðdáendur víða um heim fyrir matseld sína og bakstur. Hún lætur veitingastaðinn frá sér um áramótin.
Mynd / sá
Fréttir 3. júlí 2025

Hættir með Klausturkaffi í árslok

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Veitingahúsið Klausturkaffi í Skriðuklaustri í Fljótsdal fagnar 25 ára afmæli í sumar. Elísabet Þorsteinsdóttir, rekstraraðili Klausturkaffis, ætlar að láta veitingahúsið frá sér í lok árs.

Klausturkaffi er sérstakur og fallegur veitingastaður á neðri hæð Skriðuklausturs. Staðurinn er annálaður fyrir afburðagóðan mat og kökur og er Elísabet Þorsteinsdóttir potturinn og pannan að baki uppskriftum, eldamennsku og vinsældum Klausturkaffis.

Þegar Bændablaðið bar að garði í Klausturkaffi var Elísabet í óða önn að bera rétti á hádegishlaðborð ásamt starfsfólki sínu. Hún var spurð að því hvernig til kom að hún stofnaði veitingastaðinn fyrir aldarfjórðungi.

„Haustið 1999 var bóndi minn, Skúli Björn Gunnarsson, ráðinn forstöðumaður á Skriðuklaustri, við Gunnarsstofnun. Þá vorum við nýflutt austur á Hérað eftir að hafa stundað nám og vinnu í Reykjavík í nokkur ár. Eldri dóttir okkar var þá á fyrsta ári og ég í fæðingarorlofi. Þá vaknaði spurning um hvort ekki væri tilefni til að reka kaffihús á staðnum. Þar kom ég inn í myndina, því að ég er framreiðslumeistari og er auk þess uppalin á Skriðuklaustri. Foreldrar mínir unnu á tilraunabúinu á þeim tíma, og ég hef alltaf haft sterkar rætur til hússins og staðarins,“ segir Elísabet.

Eftirsóttar lykiluppskriftir

Klausturkaffi var opnað í Skriðuklaustri 18. júní árið 2000. „Til að byrja með var hæfilega mikið að gera fyrir mig sjálfa, en ég hafði einn starfsmann með mér um helgar. Þetta hefur síðan undið upp á sig, frá því að vera með einn starfsmann í fullri vinnu með mér sumarið 2001, yfir í að vera með samtals um átta til níu manns í vinnu með mér í sumar, í mislangan tíma þó,“ útskýrir hún.

Frá upphafi hefur hún lagt áherslu á að bjóða upp á mat úr héraði eftir föngum. „Og allt heimalagað og heimabakað,“ bætir Elísabet við og heldur áfram: „Til dæmis hef ég boðið upp á lerkisveppasúpuna og hrútaberjaskyrkökuna nánast frá opnun, og margt fleira hefur síðan bæst við.“ Þess má geta að hvor tveggja réttanna eru beinlínis frægir og slegist um að fá uppskriftirnar að þeim. „Gestir hafa gjarnan spurt um uppskriftir, og sem einfalda lausn á því, þá gaf ég út uppáhaldsuppskriftir mínar, á lausum spjöldum sem einfalt er að grípa með sér,“ segir hún.

„Ég hef alla tíð gengið í öll verk á kaffihúsinu, séð um bakstur, matseld, þrif, skipulag, þjálfað starfsfólk, geri allt bókhald og ársreikninga. Í þetta litlu fyrirtæki þarf maður að geta gert allt sjálfur, það er kostur að vera skipulagður og fjölhæfur í verkum, ásamt því að vera vinnusamur!“ segir Elísabet og hlær við.

Umhverfi Klausturkaffis er sannarlega sérstætt og fallegt í húsi Skriðuklausturs í Fljótsdal.

Gestirnir hrifnir

Yfir sumarið byrja dagarnir hjá henni gjarnan á því að hún skýst (39 km) á Egilsstaði að sækja vörur. Síðan er mætt í vinnuna milli kl. 9–10, hádegið undirbúið og í kjölfarið kaffihlaðborðið. Eftir lokun og frágang þarf svo oft að versla, á Egilsstöðum, og loks þegar heim er komið þarf að kíkja aðeins á bókhaldið, panta inn, svara tölvupóstum og slíku. „Það er aldrei alveg frí,“ segir hún.

„Það sem rekur mig áfram er að gestirnir sem koma til okkar eru svo ánægðir. Þeir láta okkur vita af því að þetta sé besti matur, súpa, hlaðborð, kökur o.s.frv. sem þeir hafi fengið hér á landi, og jafnvel þótt víðar væri leitað. Það gefur manni orku til að halda áfram og þá veit maður að eitthvað er rétt gert! Ánægður gestur gerir svo miklu meira fyrir mann en krónur og aurar sem maður gæti mögulega haft meira af í annarri vinnu,“ segir Elísabet kankvís.

Hún kveðst alla tíð hafa verið einkar heppin með starfsfólk og fjöldann allan af fólki sem hafa unnið með henni þessi ár. „Oft hefur þetta verið svolítið fjölskyldufyrirtæki, á tímabili vann mamma mín með okkur og síðan dætur okkar tvær, þær byrjuðu að vinna með mér 14 ára og flest sumur síðan,“ bætir hún við.

Sjaldan vinnufriður

Staðsetning Skriðuklausturs, 30 mínútna akstur frá næsta þéttbýli á Egilsstöðum, gerir það að verkum að umferðin til Skriðuklausturs er æði breytileg, eftir veðri og vindum. Elísabet segir að gestagangurinn hjá þeim sé ýmist í ökkla eða eyra.

„Á góðviðrisdögum á sumrin, þegar fullt er á tjaldsvæðum allt í kringum okkur, getur orðið ansi líflegt. Síðan koma tímar á milli þar sem er rólegra, þá segjum við að sé vinnufriður!“ segir hún og brosir. Engir tveir dagar séu eins og þegar þau mæti í vinnuna á morgnana viti hún alla jafna ekki hvort komi fimm eða 75 í hádegismat. Það sé ekki mikið af hópum sem bóki fyrir fram, þó það sé vissulega í myndinni, þannig að aðsóknin byggist einkum á lausatraffík.

„En nú er mál að linni. Undanfarin ár hef ég tekið að hámarki tvo daga samliggjandi frí, kannski átt fjóra frídaga frá 1. apríl fram til 15. október. Það getur verið leiðinlegt að komast ekki á viðburði hjá fjölskyldu sinni, heimsækja ekki staði á Íslandi yfir sumarið, geta ekki gengið hingað og þangað um landið, og vera alltaf bundin,“ segir Elísabet, þegar talið berst að því að um næstu áramót hverfa þau Skúli Björn frá Skriðuklaustri, að loknu drjúgu verki.

Nýr forstöðumaður hefur verið ráðinn að Gunnarsstofnun frá áramótum, Oddný Eir Ævarsdóttir, og því mun Gunnarsstofnun nú leita eftir nýjum aðila til að leigja út reksturinn hjá Klausturkaffi.

Fyrsta sumarfrí í aldarfjórðung

„Með nýju fólki koma breytingar en það verður örugglega áfram gott að koma í Skriðuklaustur. Auðvitað verður eftirsjá af öllum þeim sem maður hittir á Skriðuklaustri. Það eru fastagestir sem koma ár eftir ár og margir oft á ári. Svo dæmi sé tekið eru hjón frá Frakklandi sem koma með ferjunni Norrænu á hverju vori og dvelja allt sumarið á Íslandi, fara svo aftur með ferjunni út á haustin. Þau koma við hjá okkur þegar þau koma á vorin og áður en þau fara á haustin og hafa gert í 12–15 ár,“ segir Elísabet.

Hún segist hafa verið einstaklega heppin með að vera hraust, það hafi ekki gerst að hún hafi ekki komist í vinnuna vegna veikinda öll þessi 25 ár. „Ég elska vinnuna mína, en ég hlakka líka til að hafa meiri tíma fyrir ýmislegt annað. Á næsta ári ætlum við að eiga fyrsta alvöru sumarfríið í 25 ár, síðan kemur í ljós hvað verða vill. Við erum ekkert að flytja frá Hallormsstað, en þar er okkar heimili og verður vonandi áfram,“ segir Elísabet enn fremur og hlakkar til að fá næði til að sinna garðyrkju og handavinnu, sínum helstu áhugamálum utan Klausturkaffis.

Skylt efni: Fljótsdalur

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...