Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir  sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.
Mynd / smh
Fréttir 4. desember 2017

Hættan á sýklalyfjaónæmi mun vaxa og tíðni kampýlóbaktersýkinga stóraukast

Höfundur: smh
Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) og Bændasamtök Íslands stóðu fyrir opnum fundi í húsakynnum skólans á Hvanneyri föstudaginn 24. nóvember síðastliðinn. Tilefni fundarins var dómur EFTA-dómstólsins sem féll á dögunum þess efnis að íslenskum yfirvöldum væri óheimilt að banna innflutning á fersku kjöti, ferskum eggjum og afurðum úr ógerilsneyddri mjólk. 
 
Þótt innflutningur á ógerilsneyddri mjólk verði heimill verður markaðssetning ekki leyfð hér á landi, þar sem á Íslandi eru í gildi almenn skilyrði um markaðssetningu á ógerilsneyddum mjólkurvörum.
Sigurður Eyþórsson, fram­kvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, fór sögulega yfir hvernig Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994 og síðan að matvælalöggjöf Evrópusambandsins (ESB) með gildistöku 2010–2011. Í fyrstu útgáfu matvælafrumvarpsins árið 2007 átti að leyfa innflutning á ófrystu kjöti en vegna harðra viðbragða bænda tókst að koma reglum inn í matvælafrumvarpið um bann við innflutningi á hrávöru eins og eggjum, kjöti og ógerilsneyddri mjólk – nema með sérstökum leyfum. Þær reglur byggðu meðal annars á 13. grein samningsins um EES; að grípa megi til aðgerða til að vernda heilsu manna og dýra.
 
Sigurður sagði að í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstólsins verði Alþingi að breyta íslenskum lögum í samræmi við dóminn.
 
Skylt að upplýsa um hætturnar
 
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir  sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands, spurði í yfirskrift erindis síns hvort lýðheilsu Íslendinga stafaði hætta af innflutningi á ferskum matvælum. Hann byrjaði á að taka það sérstaklega fram að málflutningur hans væri algjörlega óháður nokkrum hagsmunaöflum, honum bæri einfaldlega skylda sem prófessor í sýklafræði að upplýsa landann um þær hættur sem geta stafað af auknum innflutningi af ferskum matvælum.
 
Hann sagði að meiri áhætta tengd neyslu á erlendum eða innlendum matvælum geti verið vegna þess annars vegar að viðkomandi matarsýklar eru ekki til á Íslandi eða hins vegar að viðkomandi sýklar eru sjaldgæfari í íslensku búfé og/eða landbúnaðarafurðum en erlendum. Hann sagði að á Íslandi væri ekki nema brot þeirra súnusjúkdómatilfella sem eru landlægar í Evrópu, en súnur eru sjúkdómar sem geta verið bæði í mönnum og dýrum.
 
Karl sagði að ein algengasta orsök niðurgangs í heiminum væri kampýlóbaktersýking. Í verstu tilvikum hefði hún í för með sér ristilbólgur og örsjaldan jafnvel öndunarlömun. Algengasta smitleiðin í mannfólk væri í gegnum kjúklinga.
 
Hann vék svo talinu að salmonellu, en árið 1979 var bannað að selja ferska kjúklinga á Íslandi vegna salmonellusmita. Aðgerðir til að útrýma salmonellu úr kjúklingum hófust árið 1992 og góður árangur leiddi til þess að aftur var leyft að selja ferska kjúklinga haustið 1995.  Sala á ferskum kjúklingum fór stigvaxandi, en árið 1999 var kominn faraldur kampýlóbaktersýkinga á Íslandi – og raunar flest skráð tilfelli í heiminum. Farið var í mikið átak, sem fólst að miklu leyti í eftirliti á alifuglabúunum, og það leiddi til þess að hægt var að stoppa faraldurinn. Fáum árum síðar var staðan aftur orðin eins og hún var fyrir faraldurinn.
 
Karl sagði síðan frá áliti EFSA, Eftirlitsstofnunar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Evrópu­sambandsins, um kampýló­bakter­sýkingar. Þar kemur fram að um níu milljónir tilfella eru skráð í Evrópu á ári hverju. Um 50–80 prósent tilfella tengjast kjúklingum og mikilvægt sé að fækka þeim tilfellum. Frysting í tvær til þrjá vikur getur minnkað áhættu á smiti um meira en 90 prósent. Að sögn Karls er staðan í Evrópu þannig að flest lönd leiti ekki að kampýlóbakter í kjúklingum, því séu engin vottorð til um slíkt eins og eru til um salmonellu. Vegna reglugerða á Íslandi og góðs eftirlits í alifuglaeldinu sé því staðan sú að lægsta nýgengi kampýlóbakter í Evrópu er á Íslandi og hið sama á við um salmonellu og svokallaða „hamborgarabakteríu“ (STEC/EHEC E.coli) sem getur valdið blóðugum niðurgangi og nýrnabilun – en hún hefur ekki fundist í íslensku búfé.
 
Karl telur því að áhrifin af innflutningi á fersku kjöti muni verða að kampýlóbaktersýkingum muni fjölga mjög mikið ef erlendir kjúklingaframleiðendur sem verslað er við, fylgi ekki sömu reglum og þeir íslensku þurfa að gera. Reikna megi líka með fjölgun salmonellusýkinga og tilfellum sýkinga af völdum hamborgarabakteríunnar. Aðrir sýklar kunni einnig að gera vart við sig. 
 
Hættan af sýklalyfjaónæmi vex
 
Það sem er aðalmálið, að mati Karls, er hins vegar hættan af sýklalyfjaónæmi sem muni vaxa með auknum innflutningi. Vegna þess hversu kjötframleiðsla í heiminum fer vaxandi – og verksmiðjubúskapur samhliða – þá aukist sýklalyfjanotkun í landbúnaði í takt við þá þróun. Hann sagðist meta hættuna mesta, af því að sýklalyfjaónæmi berist með matvælum til Íslands, af innflutningi frá löndum með mengað umhverfi og mikla sýklalyfjanotkun í landbúnaði. Skortur sé þó á rannsóknum og áhættugreiningu, en áhættan sé líklega mest tengd innflutningi á salati og öðru fersku grænmeti, alifugla- og svínakjöti. 
 
Nánar verður greint frá öðrum erindum fundarins í næsta tölublaði; þeirra Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum, Ólafs Valssonar dýralæknis og Þorvaldar H. Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Matvælastofnunar. 
Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...

Landbúnaður í fjárlögum  ársins 2024
Fréttir 21. september 2023

Landbúnaður í fjárlögum ársins 2024

Í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt...

Garðyrkjubændur í áfalli
Fréttir 21. september 2023

Garðyrkjubændur í áfalli

Einu landbúnaðartengdu verk­efnin í fjárlögum ríkisins fyrir árið 2024 sem fá au...

Varnarlínur breytast
Fréttir 21. september 2023

Varnarlínur breytast

Með nýjum tólum er líklegt að áherslan á varnarlínur og niðurskurð minnki í bará...

Alls staðar fækkun sláturlamba
Fréttir 21. september 2023

Alls staðar fækkun sláturlamba

Sláturtíð er komin á fullt og kemur fé vænt af fjalli. Eins og er starfa öll slá...

Nýr landnemi úr svepparíkinu
Fréttir 20. september 2023

Nýr landnemi úr svepparíkinu

Sveppur af ættkvíslinni Rhizopogon fannst nýlega á Íslandi en hann hefur ekki ve...