Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Gunnlaugur Karlsson og Sverrir Sverrisson, forsvarsmenn Pure Arctic, með gúrkur og lambakjöt, vörur sem hafa haslað sér völl í Danmörku.
Gunnlaugur Karlsson og Sverrir Sverrisson, forsvarsmenn Pure Arctic, með gúrkur og lambakjöt, vörur sem hafa haslað sér völl í Danmörku.
Mynd / ghp
Fréttir 18. nóvember 2021

Gúrkutíð í öðru veldi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Margfalda þyrfti framleiðslu á íslensku grænmeti ef markmið Sverris Sverrissonar og Gunnlaugs Karlssonar eigi að ná fram að ganga. Þeir hyggja á útrás á íslensku grænmeti á erlenda markaði og hafa þegar haslað sér völl í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi. Sóknarfærin blasa við að þeirra sögn, því bæði hagrænir og markaðslegir þættir eru að þróast íslenskri grænmetisræktun í hag.

Sverrir er stjórnarformaður fyrirtækisins Pure Arctic og Gunnlaugur framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna. Þeir fara fyrir erkefninu Íslenskt grænmeti á erlenda markaði, sem hlaut einn hæsta styrk Matvælasjóðs í ár, rúmar 20 milljónir króna. Um er að ræða markaðsátak sem miðar að því að gera íslenskt grænmeti að framtíðar útflutningsvöru, þar sem áherslan verður lögð á náttúrulegan uppruna, sjálfbærni og hreinleika. 

„Tæknilega séð er okkur ekkert til fyrirstöðu að framleiða meira grænmeti til útflutnings. Margir utanaðkomandi þættir snúa í þá átt. Í Evrópu eru menn í vandræðum með orkuverð og vatnsmengun. Inn í þetta spilar líka kolefnissporið. Áhuginn er byrjaður að kvikna á vörunum og við viljum finna út hvort viðskiptalegar forsendur séu fyrir hendi áður en við förum að byggja undir meiri framleiðslu,“ segir Gunnlaugur.

„Samkeppnishæfni íslenska grænmetisins er að styrkjast. Afurðin okkar hefur alltaf möguleika á að vera hreinni en sambærilegar afurðir úti. Við erum með endurnýjanlega orku, heita vatnið sem hitar gróðurhúsin og vökvum grænmetið með hreinu köldu vatni. Við höfum því hágæðavöru. Eftirspurn eftir slíkum vörum er að aukast. Þekking neytenda á hvað er góð matvara er líka að aukast. Yngra fólk er miklu harðara í því að taka upplýstari kaupákvarðanir og horfa meira til umhverfisþátta en áður þekktist. Þetta allt vinnur með okkur,“ segir Sverrir.

Danir stöðva framleiðslu vegna orkuverðs

Orkuverð hefur hækkað gríðarlega í Evrópu að undanförnu, ástæðan er m.a. viðvarandi skortur á gasi. Bæði danskir og hollenskir framleiðendur hafa tilkynnt um stöðvun á grænmetis­framleiðslu yfir vetrartímann vegna þessa.

Í frétt danska landbúnaðar­frétta­miðilsins Agriwatch kemur fram að einn stærsti gúrkuframleiðandi landsins, Kurt Christiansen, muni hætta framleiðslu á árinu. Enginn muni taka við af honum. Eingöngu tíu gúrkubændur eru þá eftir í Damörku og flestir nota þeir gas til að hita upp gróðurhúsin. Tekið er dæmi um gróðurhús sem horfi fram á aukakostnað upp á meira en 40 milljónir íslenskra króna í ár vegna verðhækkana á orku. Ljóst er að framleiðsla á gúrkum mun því snarminnka í Danmörku í vetur.

Af þeim sökum hefur skapast enn frekar sóknartækifæri fyrir íslenska grænmetis­framleiðslu.

Uppgangur Pure Arctic

„Ég var formaður Dansk-íslenska viðskiptaráðsins í mörg ár og bjó lengi í Danmörku og þekki því vel til. Þeir Danir sem höfðu komið til Íslands nefndu oft hvað grænmetið okkar væri gott og hvort ekki væri hægt að nálgast þessar vörur í Danmörku,“ segir Sverrir, en út frá því stofnaði hann ásamt Jörgen Peter Poulsen sprotafyrirtækið Pure Arctic árið 2016 með það að markmiði að hefja útflutning á hágæða matvöru sem síðan þá hefur undið upp á sig.
Fljótlega leituðu þeir samstarfs við Sölufélag garðyrkjumanna sem urðu hluthafar og hafa félögin því unnið saman allar götur síðan. Þá fór félagið einnig að flytja út íslenskt lambakjöt í samvinnu við KS sem einnig komu inn sem hluthafar.

„Hugmyndin er að vörumerkið Pure Arctic verði samnefnari í augum markaðsaðila yfir umhverfisvæn hágæða matvæli frá norðurslóðum,“ segir Sverrir.

Fyrsti vöruútflutningur fyrirtækisins átti sér stað árið 2018. „Við byrjuðum smátt en höfum tvöfaldað veltuna á hverju einasta ári síðan þá. Við reiknum með að veltan í ár verði nálægt 300 milljónum króna.“

Í dag eru reglulegar sendingar af grænmeti og lambakjöti til Grænlands, Færeyja og Danmerkur í nafni Pure Arctic. Ein vörutegund sem fyrirtækið þróaði í samvinnu við Esju gæðafæði er Pulled Lamb, tilbúinn réttur úr íslensku lambakjöti, sem hefur náð fótfestu á danska markaðnum og er nú kominn í sölu hérlendis.

Sjá Grænlandi fyrir ferskvöru

Grænland er stærsta útflutningsland Pure Arctic enn sem komið er, en þangað fara matvörur vikulega.

„Fyrir einu og hálfu ári síðan byrjuðu reglulegar siglingar milli Íslands og Grænlands og við það jukum við töluvert við flutning ferskvöru þangað. Nú fara vikulega agúrkur, tómatar, salat, krydd og lambakjöt auk þess sem við sjáum þeim fyrir ávöxtum, mjólkurvörum og fleiru. Í fyrsta sinn eru Grænlendingar því að upplifa það að hafa reglulegan aðgang að ferskum vörum í miklum gæðum,“ segir Sverrir.

Pure Arctic sér um stóran innflutning á ferskvöru til Grænlands, sem er stærsta útflutningsland fyrirtækisins enn sem komið er. Hér má sjá íslenskt grænmeti í grænlenskri matvörubúð.

„Þetta hefur heilmikil áhrif á Grænland, þetta er tiltölulega lítill markaður og við erum að flytja mikið þar inn og erum orðin nokkuð þekkt stærð þar,“ bætir Gunnlaugur við. Í pípunum sé matvælakynning þar í landi sem gæti haft í för með sér enn frekari aukningu á vörum.

Íslenska gúrkan einstök vara

Gúrkan er til þessa ein eftirsóttasta útflutningsvara Pure Arctic. „Eftir­spurnin er nú þegar orðin meiri en framboðið, þrátt fyrir 600 tonna aukningu á gúrkuframleiðslu hér á landi í fyrra, þannig að staðan er mjög áhugaverð,“ segir Sverrir.

Vikulega fara nokkur vörubretti af gúrkum til Danmerkur, Grænlands og Færeyja.

„Við erum með eftirspurn sem nemur um það bil 250 tonnum af gúrkum á ári. Aðalvandamálið hefur verið framboð, en innan­landsmarkaður er í forgangi svo við seljum bara umframmagnið. Hingað til hafa Danir haft mestan áhuga á gúrkum yfir veturinn, en nú horfir í að það verði eftirspurn allt árið. Ef svo verður, þá þarf að fara að framleiða meira,“ segir Gunnlaugur.
Verðið á íslenskri gúrku í Dan­mörku er svipað og hér heima. Gúrkurnar eru seldar gegnum vefverslunina Nemlig.com og er stykkjar­verðið 8 danskar krónur, eða það sama og spænsk lífræn gúrka kostar.

„Ég vil meina að okkar gúrkur séu heilbrigðari en þær spænsku, því samkvæmt EU tilskipun um lífræna ræktun má nota örlítið af vægum varnarefnum í lífrænt stimplaðar gúrkur og nýta spænskir framleiðendur sér það. Við getum hins vegar lagt áherslu á okkar sérstöðu, sem er varnarefnalaus vara, ræktuð með grænni orku og hreinu íslensku vatni, og margir neytendur sem sjá akk í því,“ segir Sverrir.

Lífrænar gúrkur framleiddar eins og þær íslensku

Danskar lífrænar gúrkur eru hins vegar seldar á hærra verði.
„Við fáum ekki lífrænan stimpil því við ræktum plönturnar í eins metra hæð. Samkvæmt Evróputilskipuninni verður plant­an að vera í snertingu við vistkerfið, ræktuð frá jörðu. Það merkilega er að vetrarræktaðar lífrænar danskar, norskar og finnskar gúrkur eru oft framleiddar á sama hátt og okkar gúrkur. Þessi lönd hafa veitt undanþágu frá þessari eins metra reglu til næstu tíu ára. Þar sem ekki var sótt um sambærilega undanþágu hér á landi er ekki hægt að votta okkar vöru lífræna, sem er miður,“ segir Sverrir.

„Um leið og vara fær lífrænan stimpil þá er hún komin í aðra deild. Við vorum næstum því komnir með gúrkuna í verslanir Irmu, hágæðaverslunarkeðju í Danmörku. Þar á bæ sögðu menn okkur að ef við fengjum lífrænan stimpil, þá myndu þeir eingöngu taka inn gúrkur frá Íslandi. Það gekk því miður ekki upp út af þessum mun á undanþágureglum.“

Margföldun á framleiðslu í framtíðinni

Sverrir bendir á að Danmörk sé lítill markaður í stóra samhenginu. Hægt sé að vera afar stórhuga.

„Við erum með augastað á Þýska­landi, enn sem komið er erum við þó of litlir framleiðendur til að fara í viðræður við þá. En tæknilega séð gætum við gert grænmetisframleiðslu að stórri útflutningsgrein hér á landi og rennt þannig stoð undir efnahagslíf landsins með gjaldeyrisskapandi, vistvænni framleiðslu og minnkað áhrif af tekjusveiflum í öðrum útflutningsgreinum eins og ferða­iðnaði. En við viljum ekki að menn fari að offjárfesta í framleiðslu nema við finnum markaðina fyrst,“ segir Sverrir.

Talandi um það, þá er von á fulltrúum frá stórri verslunarkeðju, sem rekur yfir 600 búðir í Danmörku og Noregi, til landsins í janúar til að ræða mögulegan viðskiptasamning.

„Þeir eru að kaupa af okkur núna í tilraunaskyni. Við höfum því miður ekki átt neitt annað en gúrkur fyrir þá. Þeir hafa hins vegar lýst yfir áhuga á ýmsum vörutegundum,“ segir Gunnlaugur. Ef samningar nást gæti þurft að tvöfalda, og jafnvel þrefalda, framleiðslu á gúrkum og það hratt.

„Friðheimar tóku skóflustungu að nýju húsi og átta mánuðum síðar var farið að tína tómata úr því. Ef markaðirnir skapast getum við brugðist við, við höfum allt bolmagn til þess. Þetta snýst einmitt um að finna markaði áður en byggt er. Ekki að byggja og spyrja svo.“

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...