Gripir finnast með ARR-breytileikann í Mýrdal
Staðfest er að á bænum Skammadal í Mýrdal hafa fundist þrjár kindur með arfgerðabreytileikann ARR, sem er viðurkenndur sem verndandi gegn riðuveiki í sauðfé. Þær eru óskyldar þeim gripum sem áður hafa fundist.
Þetta er þá þriðja erfðaauðlindin fyrir ræktun á breytileikanum sem finnst í íslenskum sauðfjárhjörðum og gríðarlegur fengur í þeirri viðbót, að sögn Eyþórs Einarssonar, ráðunautar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. „Fyrst fannst ARR í kindum á Þernunesi við Reyðarfjörð í janúar 2022, fyrir réttu ári síðan var svo staðfest að í Vífilsdal í Dölum væri ættlína sem bæri ARR og í kjölfarið fannst ARR á fleiri bæjum í Dölum í skyldum gripum.“

Álitlegir ræktunargripir
„Kindurnar þrjár eru hálfsystur, ær númer 22-224 og 21-117 og dóttir yngri systurinnar sem er númer 24-424. Þessar kindur eru allar hyrndar og komnar af hyrndu fé og eru hinir álitlegustu ræktunargripir. Tvær af þeim eru hvítar og ein svarbotnótt (golótt), dóttir Blossa númer 16-837 frá Teigi,“ heldur Eyþór áfram.
Hann segir að þau Jóhann Pálmason og Lára Oddsteinsdóttir búi í Skammadal. Á bænum sé blandaður búskapur þar sem stunduð er ferðaþjónusta, búið með holdakýr, stunduð hrossarækt og sauðfjárrækt. Í dag séu þar um 200 kindur.
Afar mikils virði
„Fyrir ræktunarstarfið er það afar mikils virði að fá inn nýja ættlínu af ARR, en breytileikinn er sá eini í dag sem er skilgreindur sem verndandi. Afar gott er að fá inn öfluga línu af hyrndu fé þar sem framboðið af ARR fram til þessa hefur fyrst og fremst verið í gegnum kollótt fé eða fé sem er mjög blandað af hyrndu og kollóttu,“ segir Eyþór enn fremur.
„Þá gefur þessi fundur einnig fyrirheit um að víðar sé von í að finna nýjar ættlínur. Þá hafa, í gegnum arfgerðargreiningar síðustu þriggja ára, fundist nokkrar nýjar uppsprettur af hinum mögulega verndandi breytileikum T137 og C151. Allt hjálpar þetta verulega til við að rækta upp í landinu þolinn stofn tiltölulega hratt án þess að ganga þurfi á erfðafjölbreytileika stofnsins. Þá er slíkur fundur hvatning til bænda að vera duglegir að taka sýni því greinilega er vinnings von víða.“
Glænýtt Bændablað er komið út. Þú getur lesið það rafrænt með því að smella hér.