Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Gera eigi mun ríkari kröfur á Íslandi en í útlöndum
Fréttir 5. apríl 2017

Gera eigi mun ríkari kröfur á Íslandi en í útlöndum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) gera margvíslegar athugasemdir við frumvarp um endurskoðun á samkeppnisstöðu mjólkuriðnaðarins og frétt um málið sem birt var á fréttavef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 6. mars 2017. 
 
Forsvarsmenn SAM benda á að í frétt ráðuneytisins séu ýmsar undarlegar fullyrðingar sem hafi ekkert með frumvarpið að gera. Þar sé t.d. fullyrt að verði frumvarpið að lögum muni allir aðilar í mjólkuriðnaði geta keypt mjólk með sama kostnaði og markaðsráðandi afurðastöð. Af þessu tilefni segir SAM rétt að taka fram að nú þegar kaupa allir aðilar í mjólkuriðnaði mjólk á sama verði og markaðsráðandi afurðastöð. Verði frumvarpið að lögum mun það því engu breyta um þennan þátt.  
 
Einnig bendir SAM á að í frétt ráðuneytisins sé eftirfarandi fullyrðing:  
„Markaðsráðandi afurðastöð mjólkur verður skylt að selja óháðum afurðastöðvum og vinnsluaðilum hrámjólk sem nemur allt að 20% af þeirri hrámjólk sem hún tekur við.“  
 
Vegna þessa telur SAM rétt að taka fram að nú þegar sé öllum afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum mjólk og mjólkurafurðir á verði sem verðlagsnefnd búvöru ákvarðar samkvæmt 13. grein, 3. mgr. búvörulaga. Verði frumvarpið að lögum muni það engu breyta um skyldu markaðsráðandi afurðastöðvar til sölu mjólkur sem hráefnis til frekari vinnslu.
 
Þá segir í frétt ráðuneytisins að „Framleiðsluhluti markaðsráðandi afurðastöðvar skal vera fjárhagslega og stjórnunarlega aðskilinn frá annarri starfsemi afurðastöðvarinnar.“ Í athugasemd SAM segir að nú þegar sé starfsemi aðildarfélaga SAM skipt í fjárhagslega og stjórnunarlega aðskildar afurðastöðvar.  Verði frumvarpið að lögum muni það engu breyta um þennan þátt. 
 
Í niðurlagi fréttar ráðuneytisins segir enn fremur um vinnslu frumvarpsins: 
„Einnig var tekið mið að því hvernig skipulagi fyrir mjólkuriðnaðinn er háttað í Noregi og Hollandi.“ Forsvarsmenn SAM segja aftur á móti að það skipulag sem frumvarpið leggur til fyrir íslenskan mjólkuriðnað sé mjög ólíkt því sem gildir í Noregi og Hollandi. 
 
„Því er erfitt að sjá merki þess að tekið hafi verið mið af skipulagi í Noregi og Hollandi við vinnslu frumvarpsins.“
 
Stærsta mjólkursamlag Noregs nýtur undanþágu 
 
Bendir SAM á að í Noregi séu sértækar reglur um stjórnun markaða með mjólk og mjólkurafurðir.  „Forskrifter om markedsregulering til å fremme omsetning av jordbruksvarer.“  
 
Í reglunum er stærsta mjólkursamlag Noregs; TINE, skilgreint sem „markaðsstjórnandi“. Því er TINE skylt að selja að lágmarki 1% af móttekinni mjólk til hvers vinnsluaðila sem taka þátt í verðútjöfnun fyrir mjólk.
 
Sem markaðsstjórnandi leggjast skyldur á TINE en einnig öðlast fyrirtækið sérstök réttindi. Til dæmis getur TINE fengið greitt fyrir söluhvetjandi aðgerðir, og greidda styrki til að selja undanrennuduft á lægra verði og fyrir geymslu á osti, smjöri og þurrmjólk til að jafna framboð afurðanna. Skyldu TINE til að taka á móti allri mjólk fylgja því opinberar reglur um réttindi sem TINE nýtur fyrir þá kvöð, bæði heimildir til markaðsaðgerða og beinn opinber stuðningur vegna kostnaðar sem fellur á TINE vegna móttökuskyldunnar.  
 
Verið að leggja til harðari reglur en í Noregi
 
Vísar SAM til þess að í Noregi séu því bæði verðtilfærslur á milli mjólkurafurða og sérstakar reglur um markaðssetningu á mjólkurvörum til að auka söluna. Þær reglur eru undanþágur frá almennum samkeppnislögum.  
 
Í frumvarpinu er lagt til að leggja af heimild til verðtilfærslu á Íslandi og fella úr gildi mun takmarkaðri undanþágu frá samkeppnislögum, en þær víðtæku undanþágur frá samkeppnislögum sem í gildi eru í Noregi. Frumvarpið leggur því til að skipulag mjólkuriðnaðarins á Íslandi verði með öllu ólíkt því skipulagi sem í gildi er í Noregi.  – Það er að ekki sé tekið mið af skipulagi í Noregi. 
 
Ekki með jafn ríkar kaupskyldur á mjólk í ESB-ríkjum
 
Í Hollandi gilda reglur Evrópu­sambandsins um mjólkuriðnað. Í Evrópusambandinu eru í gildi sértækar reglur um skipulag markaða fyrir landbúnaðarafurðir sem nefnt er; „Common Organisation of the Markets in agricultural products“.  Reglugerðin er 180 blaðsíðna upptalning á sértækum reglum um skipulag og markaðssetningu á landbúnaðarafurðum og nær samfelld upptalning á undanþágum frá almennum samkeppnislögum sem annars gilda í Evrópusambandinu. 
 
Segir SAM að í reglugerðinni sé bændum til dæmis heimilað að hafa samráð við samninga um mjólkurverð við afurðastöðvar og er Evrópusambandinu veitt heimild til að grípa til aðgerða vegna ójafnvægis á markaði með landbúnaðarafurðir. Skipulag Evrópusambandsins tryggir afurðastöðvum einnig lágmarksverð fyrir smjör og undanrennuduft, ásamt því að greiða afurðastöðvum fyrir geymslu á smjöri og dufti ef framboð á markaði þykir of mikið. Samt er afurðastöðvum ekki gert skylt að kaupa alla mjólk af bændum, eins og lagt er til í íslenska frumvarpinu.  
 
Mun vægari skyldur á afurðastöðvar í Hollandi
 
Við sameiningu tveggja fyrirtækja í Hollandi árið 2008, Friesland og Campina, settu samkeppnisyfirvöld í Hollandi þá skyldu á sameinað félag að selja að lágmarki 1,2 milljarða lítra af mjólk til samkeppnisaðila, eða um 12% af mjólk sem fyrirtækið vinnur. Í íslenska frumvarpinu er lagt til að söluskylda markaðsráðandi aðila verði 20%, eða mun hærra hlutfall en krafist er í Hollandi og Noregi.
 
Í Hollandi eru engar skyldur á afurðastöðvum um að kaupa alla mjólk af framleiðendum og þar eru í gildi sértækar reglur um markaðssetningu og skipulag í mjólkuriðnaði.  
 
Í íslenska frumvarpinu er lagt til að á Íslandi verði móttökuskylda á allri mjólk lögð á eitt fyrirtæki sem einnig þurfi að sæta opinberri verðlagningu, en almennar samkeppnisreglur gildi í mjólkuriðnaði þar fyrir utan. Bendir SAM á að þó fullyrt sé af ráðuneytinu að tekið sé mið af regluverki í Noregi og í Hollandi, þá sé samt ekki lagt til að skipulag á Íslandi taki mið af því skipulagi sem raunverulega er við lýði í Hollandi.
 
„Ef sækja á fordæmi frá Noregi og Hollandi til að skipuleggja íslenskan mjólkuriðnað væri eðlilegast að byrja á því að setja ítarlegar sérreglur um markaðssetningu mjólkurafurða (Noregur og Holland),  ásamt því að auka við verðtilfærslur í mjólkuriðnaði á Íslandi og skylda alla aðila markaðarins til þátttöku í verðtil­færslunum (Noregur) og að lokum að lækka kröfu um afhendingu á hráefni frá markaðsráðandi aðila úr 20% í að hámarki 12% (Hollandi). Til að klára skipulag sem getur virkað þarf einnig, samkvæmt reynslu frá þessum tveimur löndum, að setja reglur um viðbrögð við offramboði á mjólkurafurðum,“ segir í athugasemdum SAM.

Skylt efni: SAM | mjólkuriðnaðurinn

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...