Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Geitakál – leitt og ljúft
Fræðsluhornið 15. júní 2015

Geitakál – leitt og ljúft

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Oft fæ ég fyrirspurnir frá garðeigendum vegna „skriðullar og lágvaxinnar hvannar“ sem veður út um allt með neðanjarðarrenglum og ekki virðist nokkur vegur vera til að losna við. Uppstunga beða, sigtun á mold, stöðugur sláttur eða jafnvel „illgresiseitur“ virðist ekki vinna á þessari jurt.

Jurtin er geitakál, Aegopodium podagria, og tilheyrir Sveipjurtaætt líkt og hvannir steinselja, kerfill og gulrætur. Ættkvíslarheitið er gamalt og grískt, dregið af „aigos“ = geitur og „podos“ = fætur. Viðurnefnið kemur frá sænska grasafræðingnum Carli von Linné sem fannst sjálfsagt að tengja það við liðagikt, einkum þvagsýrugikt (podagra – liðbólgur í stórutám), því vegna þess að á hans dögum, og reyndar frá öndverðu, þótti fátt betra til að lina þá uppákomu. Sjálfur gaf Linné, hann var læknir líka, það ráð að sjóða blöðin í mauk og nota sem heitan bakstur til að leggja við eymslin og hann minnist líka á að hollt sé og fyrirbyggjandi að innbyrða ung blöðin sem salat á vorin meðan blöðin eru ung.

Holl krásjurt – í hófi

Plantan er upphaflega komin frá Kákasusfjöllum og Mið-Asíu, en hefur fylgt mannabyggð allt frá þjóðflutningunum miklu vestur til Evrópu nokkru eftir lok ísaldar. Geitakálið var ræktað sem matjurt, auk þess sem það hafði umræddan lækningamátt. Næringargildið er hátt og lítið þurfti af plöntunni til að viðhalda líkamshreystinni. Menn mokuðu því sem sagt ekki í sig í óhófi. Ef of geyst var farið í neyslunni gat það bitnað á maganum og valdið fólki full tíðum þörfum á að ganga álfreka sinna. Þetta síðara á einnig við um fleiri grænar sveipjurtir, sams konar krásjurtir sem til matar eru hafðar, svo sem ætihvönn, fennil og sellerí.

Fjallajurt upphaflega

Geitakálið er upphaflega fjallajurt. Aðlagað að óblíðri veðráttu og körgu landi. Það hagnýtir sér að smjúga um allar glufur í giljaveggjum og klettahlíðum. Sé það komið á einn stað er því þvert um geð að fara þaðan. Það heldur áfram hvað sem á dynur og nú er svo komið að varla er til nokkurt byggt ból í Evrópu sem ekki hafa góðum geitakálsbreiðum af að státa. Það er einna helst á úthafseyjum sem byggðust seint, að það finnst aðeins á miklum strjálingi.

Á unglingsárum mínum man ég eftir þrem eða fjórum stöðum þar sem mátti finna það á höfuðborgarsvæðinu. Og meira að segja einn af þeim var í Hafnarfirði. Nú er öldin önnur. Geitakálið yfirtekur hverja spilduna af annarri og byrjar að láta á sér bera. Framan af, svona á að giska fyrstu þrjú árin, sést bara blað og blað. En svo einn varman vordaginn er það komið um allt.

Góð beitarjurt

Í öðrum löndum halda dádýr og villisvín nokkuð aftur af geitakáli. Það þykir mjög góð og eftirsótt beitarjurt í sauðfjár-, geita- og kúahögum. Einkum þykir kjöt af holdagripum verða mjúkt þar sem dýrin ná í geitakál. Og svín eru sólgin í það. Þeim nægir ekki að narta í blöðin, heldur grafa þau upp rótadræsurnar til að gæða sér á þeim.

Líkn kvenna

Sem almenn lækninga- og heilsubótarjurt fyrir fólk hefur geitakál lengi verið. Því fyrir utan að lina gikt, þótti það gott við ótal kvillum og lasleika. Te af geitakáli, blandað kúmenfræi og strokið á dökka eða freknótta húð bleikti skinnið og var þar af leiðandi einskonar snyrtivara fyrir tilhaldskonur í þá tíð að hinn fullkomni kvenleiki þótti vera fólgin í fölu yfirbragði. Og eins þótti seyði af geitakáli, ef það var drukkið hóflega, lina konum fyrirtíðaspennu og ýmsa fylgikvilla yfirgangsáranna.

Þetta síðasta hefur við nokkur rök að styðjast, því geitakál inniheldur töluvert magn af „fýtóestrógenum“ sem eru harla sambærileg við kvenhormóna í hinum gangandi skepnum skaparans. Og seyði af geitakáli róar efalaust rosta karla, ef bara væri hægt að koma því ofan í þá.

Fullgildur landnemi

Geitakál er semsagt fjölær jurt sem fljót er að leggja land undir sig með því að senda út skriðular rætur neðan moldaryfirborðs. Blöðin minna á hvannablöð, en plönturnar eru mun smágerðari en ætihvönn. Eins og hvannir blómgast geitakálið upp úr miðju sumri, ef tíð er góð, með mörgum blómum í hvelfdum sveipum á um 30–45 cm háum „hvannanjólum“. Hér þroskar tegundin orðið fræ og er þar með orðin fullgildur borgari í íslenska jurtaríkinu. Með fræjunum getur geitakálið dreift sér sem laumufarþegi í buxnabrotum og fatafellingum. Þau geta loðað við verkfæri og hjólbarða, ullarreyfi á sauðfé eða hár loðhunda. 

Í sjálfu sér tekur geitakálið ekki neitt frá neinum og það bætir moldarfrjósemina. Það er gjöfull undirgróður í skjólbeltum og skógarlundum. En það heldur aftur af lægri gróðri og berst gegn grasvexti. Aðeins ein plöntutegund virðist eiga í fullu tré við það og hafa vinninginn. Það er bókhveiti. Einhverra hluta vegna hverfur geitakál á spildum þar sem bókhveiti er sáð. En því miður þrífst bókhveiti ekki á Íslandi.

Semja um jafnvægi – síðasta orðið!

Ef geitakál hefur sest að og orðið amagróður í görðum er eiginlega ekki nokkur leið að losna við það. Oftast dugar lítið að beita á það úðun með örgresislyfjum. Alltaf verður eftir einhver bútur sem sleppur og kemur upp aftur um leið og af er litið. Jafnvel það, að leggja moldarlag eða ljósþétta dúka og möl þar ofan á  yfir spilduna sem geitakálið vex á vill bregðast. Þó er það nú líkega það sem helst hrífur. Kannski er samt einfaldast og best að þroska með sér umburðarlyndi gagnvart geitakálinu. Reyta bara (og nota) það mesta þar sem hægt er að komast að því. Það er í lagi að setja kálið í moltubinginn ef ræturnar fylgja ekki með. Ræturnar má gera skaðlausar með heitu vatni eða að láta þær falla á bálköstinn.

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...