Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá kornökrum í Gunnarsholti síðsumars. Sænska ríkið hefur stigið mikilvægt skref í framþróun plöntukynbóta með því að fjárfesta í byltingarkenndri og framsækinni hátæknimiðstöð. Í sumar mættu fulltrúar verkefnisins frá Svíþjóð og skoðuðu tilraunirnar í Gunnarsholti þar sem þátttaka Íslands í verkefninu var rædd í matvælaráðuneytinu.
Ávinningur þess yrði ótvíræður.
Frá kornökrum í Gunnarsholti síðsumars. Sænska ríkið hefur stigið mikilvægt skref í framþróun plöntukynbóta með því að fjárfesta í byltingarkenndri og framsækinni hátæknimiðstöð. Í sumar mættu fulltrúar verkefnisins frá Svíþjóð og skoðuðu tilraunirnar í Gunnarsholti þar sem þátttaka Íslands í verkefninu var rædd í matvælaráðuneytinu. Ávinningur þess yrði ótvíræður.
Mynd / ghp
Fréttaskýring 7. nóvember 2022

Trygg ríkisfjármögnun forsenda kornræktar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Stöðuleysi kornræktar innan landbúnaðar- og framleiðslukerfisins samhliða hvetjandi þverpólitískri samstöðu um eflingu greinarinnar er ein undarlegasta mótsögn á Íslandi í dag. Þessa dagana er unnið að því að teikna upp stefnu og aðgerðir svo búgreinin geti fest rætur og orðið, til lengri tíma, að undirstöðuframleiðslugrein sem treystir fæðuöryggi þjóðarinnar.

Í sumar fól matvælaráðherra Landbúnaðarháskóla Íslands að vinna drög að aðgerðaráætlun til eflingar kornræktar hér á landi. Innan skólans vinnur hópur að forgöngu Helga Eyleifs Þorvaldssonar aðjunkts við að skilgreina nauðsynlega uppbyggingu kynbóta á korni, bútækni við ræktun þess og aðlögun opinbers framleiðslustuðnings. Hópurinn, sem samanstendur af sérfræðingum á sviði landbúnaðar, kornræktar, hagfræði og verkfræði, er einnig að kanna fýsileika innlends kornsamlags og að skilgreina þarfir á þeim birgðum af kornvörum sem þurfa að vera til staðar hér á landi.

Sagan og staðan nú

Í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi, sem Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og kom út í fyrra, kemur fram að kornrækt hérlendis eigi sér rætur aftur til landnámsmanna, sem komu frá löndum þar sem slík ræktun var mikilvægur hluti búskaparins.

„Þeir hófu því eðlilega kornrækt þegar hingað kom en ekki í stórum stíl. Með kólnandi veðurfari og lækkandi heimsmarkaðsverði á korni lagðist kornrækt að mestu af hér á landi. Hún komst svo aftur á skrið hér snemma á tuttugustu öldinni en svo kom bakslag þegar kólnaði upp úr 1960. Aftur varð kornræktarvakning seint á áttunda áratug síðustu aldar. Ýmislegt kom þar til, t.d. öflugir leiðtogar og hugsjónamenn, breytingar í búskaparháttum og hlýnandi veðurfar“, segir í skýrslunni.

Í dag er staða kornræktar einhvern veginn svona:

Árið 2021 var kornrækt stunduð á rúmum 3.000 hekturum víða um land af 880 ræktendum. Langmest er ræktað af byggi en einnig hafrar, vetrarhveiti og rúgur í ökrunum. Ráðgera má að um 2,5 tonn af korni fáist á hvern hektara að meðaltali.

Innlend framleiðsla á korni til manneldis er um 1% af heildarneyslu en sú kornrækt sem stunduð er hér á landi er að stærstum hluta til fóðurframleiðslu. Gerðar eru meiri gæðakröfur til korns til manneldis, en það korn sem býr yfir minni gæðum er notað í fóður.

Helgi Eyleifur nefnir að búgreinin, eins og hún blasi við í dag, byggi að öllu leyti á framtakssemi nokkurra eldhuga. „Margir fóru af stað með kornrækt á uppgangsárunum, sumir með litla reynslu og árangurinn var eftir því. Því heltist stór hópur úr lestinni með tímanum. En þeir sem eftir eru hafa náð gríðarlega góðum tökum á ræktuninni og hafa sýnt okkur, svo um munar, að þetta er hægt. Hins vegar aftrar margt uppgangi kornræktar. En hér vantar alla innviði, kornbændur eru með lægri jarðræktarstuðning en gengur og gerist erlendis, skjólbeltaræktun er skammt á veg komin, hér er ekkert tryggingarkerfi, ekkert samlag og plöntukynbætur í skötulíki.“

Því blasir við einhvers konar stöðuleysi búgreinarinnar. „Í dag samanstendur hún af nokkrum bændum sem hafa rosalega elju og eru allir flestir að framleiða fyrir sjálfan sig. Það er nær enginn markaður fyrir íslenskt korn, hann birtist í mýflugumynd ef bændur fá frábæra uppskeru. Þá selja þeir umframkornið til fóðurfyrirtækjanna, sem hafa þó engar kvaðir til að kaupa kornið,“ segir Helgi.

Þessa dagana eru Helgi ásamt samstarfsmönnum sínum í LbhÍ, Hrannari Smára Hilmarssyni, tilraunastjóra í jarðrækt, og Agli Gautasyni aðjunkt að kynna sér sögu, rekstur og aðferðafræði kornsamlaga og plöntukynbótastöðva í nágrannalöndunum, með það fyrir augum að koma með tillögu að æskilegri framtíðarsýn fyrir íslenska kornrækt.

Pólitísk ákvörðun

Undirbúningur að uppbyggingu kornsamlags á Íslandi er einn þáttur sviðsmyndar sem vinnuhópurinn er að skoða. Hafa þeir m.a. kynnt sér rekstrarformið í nágrannalöndunum og fengið til samstarfs við sig Þorleik Jóhannesson, verkfræðing hjá Verkís, og Daða Má Kristófersson, prófessor í hagfræði, til að meta hagkvæmni slíkrar uppbyggingar og hentugar staðsetningar m.t.t. nálægðar við ræktunarsvæði, jarðhita, flutningskerfi og neytendamarkað. Þá er fyrirkomulag slíks rekstrar kannaður.

„Rekstrarform kornsamlaga getur verið misjafnt. Í Noregi og Svíþjóð er rekið kornsamlag í samvinnufélagsformi, finnska samlagið er alfarið rekið af bændum en í Þýskalandi er það í einkaeigu,“ segir Helgi.

Kornsamlag samanstendur af þurrkstöð og geymslutönkum fyrir korn, sem svo er selt á markaði, líkt og þekkist með aðrar afurðastöðvar, eins og Sláturfélag Suðurlands og Auðhumlu. Kornsamlögin gefa út verðskrá miðað við gerð og gæði kornsins, kaupa inn það korn sem er ræktað og selja svo áfram til framleiðenda. Þar með myndast hvati til ræktunar og vettvangur fyrir markað.

Ef lagður verður grunnur að uppbyggingu á slíku kornsamlagi hér á landi þarf að skoða æskilegar nálganir, segir Helgi, enda sé slík risavaxin innviðauppbygging dýr og ljóst að hún verði ekki arðsöm fyrstu árin, miðað við reynslu annarra landa.

„Þetta er pólitísk ákvörðun þegar upp er staðið. Við getum borið þetta saman við það þegar hitaveiturnar voru lagðar hér á landi. Sú ákvörðun var fokdýr og var ekki arðsöm í fyrstu. En við höfum ekki séð eftir því og aldrei verið glaðari með þá ákvörðun en í dag,“ segir Helgi.

Af mikilvægi plöntukynbóta

En það er tómt mál um að tala, að efla kornrækt hér á landi með því að reisa kornsamlög, ef engar plöntukynbætur eiga sér stað, segir Helgi. Því er og verður alltaf fyrsta skrefið að hefja hér markvissar kynbætur á því korni sem við hyggjumst rækta.

Það er í reynd þjóðþrifamál, að sögn Hrannars Smára. Allar siðaðar þjóðir stundi plöntukynbætur og kollegar þeirra á Norðurlöndum gapi yfir þeirri staðreynd að þær séu ekki til staðar hér á landi.

„Plöntukynbætur eru munaðarlausar með öllu hér á landi. Bændur líta til Landbúnaðarháskólans í þessum málum og ætlast réttilega til að þær séu stundaðar í einhverjum mæli. Verkefninu, plöntukynbótum, hefur ekki verið útdeilt. Það er engin stofnun eða fyrirtæki sem hefur þetta lögboðna hlutverk, það er ekki á föstum fjárlögum en eftirspurnin og krafan er til staðar.“

Hrannar nefnir að plöntukynbótastöðvar í Noregi og öðrum löndum, þar sem tekjur kynbóta standa ekki undir rekstri, sé á föstum fjárlögum ríkja. Skiljanlega séu stór plöntukynbótafyrirtæki aldrei að fara að fjárfesta í kynbótum fyrir jafn einangraðar ræktunaraðstæður og Ísland, enda ekki arðbært. Til að hægt sé að stunda nauðsynlegar kynbætur þurfi að tryggja opinbera fjármögnun til langs tíma.

Framfaraskref með sænskri hátæknihvelfingu

Helgi segir að tildrög plöntukynbóta í korni á Íslandi sé, líkt og saga kornræktar, byggð á hugsjón og ástríðu einstaklings. „Jónatan Hermannsson tók kynbætur á byggi föstum tökum og gerði það á kvöldin og um helgar, með smávegis rannsóknarfé sem oft dugði eingöngu til að setja olíu á þreskivél og flytja þær. Hann náði ótrúlegum árangri, við eigum honum mikið að þakka.“

Kornrækt og kynbætur var stórt hugsjónamál Þorsteins Tómassonar, fyrrum forstjóra RALA. Hann hóf samstarf við kollega á Norðurlöndum sem hefur síðan verið viðhaldið. Eitt þeirra rótgrónu tenginga er aldeilis að bera ávöxt í dag.

Samstarf LbhÍ við sænska landbúnaðarsamvinnufélagið Lantmännen byggði á samvinnu Jónatans og Lars Gradin byggkynbótafræðings fyrir Norður- Svíþjóð en úr hans smiðju hafa komið mörg yrki sem íslenskir kornræktendur kannast við, eins og Judit. Lantmännen, sem er alfarið í eigu bænda, er nú að koma á fót byltingarkenndri hátæknistöð, sem mun geta kynbætt plöntur á háhraða en þeir voru einna fyrstir til að innleiða erfðamengjaúrval í starfsemi sína.

Helgi segir sænska ríkið hafa stigið þar mikilvægt skref í framþróun plöntukynbóta, sem nauðsynlegt er að stíga í ljósi loftslagsbreytinga. Aðlaga þarf plöntur að breyttum aðstæðum og það hratt. Alls var fjárfest fyrir meira en milljarð króna til að byggja þessa hátæknihvelfingu. Helgi segist binda vonir við að fjármagn fáist hér á landi til að taka þátt í samstarfi og nýta aðstöðuna.

Hér er tilraun til að útskýra vinnsluferli hinnar nýju hátæknistöðvar á einfaldan hátt:

Foreldralínum er víxlað saman margfalt og DNA sýni eru fengin úr afkvæmum og í þeim greindir vísar sem stýra eftirsóknarverðum eiginleikum, s.s. sjúkdómaþoli. Afkvæmi paranna fara svo í háhraða ræktun í hvelfingunni, þar sem þeim er búin hámarksaðstæður til að ná þroska á stuttum tíma. Afköstin eru gríðarleg. Talið er að hægt sé að ná sex uppskerum yfir einn vetur í hvelfingunni, sem þýðir að við hverja uppskeru er náð fram enn æskilegri einstaklingum til ræktunar. Í hverri kynslóð eru plönturnar erfðagreindar og spáð fyrir um frammistöðu þúsunda jafnvel tugþúsunda einstaklinga með líkani erfðamengjaúrvals. Frammistöðuþættirnir eru eiginleikar sem eru stýrðir af þúsundum gena eins og til dæmis uppskerumagn og gæði. Að því loknu er er úrvalið sent til Nýja-Sjálands til fjölgunar og þaðan til Íslands, þar sem þær verða reyndar í jarðræktartilraunum víða um land. Tölulegar niðurstöður mælinga og uppskeru á Íslandi munu svo nýtast til að bæta enn frekar erfðamengismódelið í Svíþjóð þar sem ferillinn endurtekur sig svo.

En hvað þýðir þetta?

Á innan við áratug gætum við fengið hingað til lands kynbætt yrki fyrir séríslenskar aðstæður, sem bændur gætu nýtt til að framleiða hér innlent hveiti.

Það sætir reyndar furðu að Ísland skuli geta tekið þátt í svo byltingarkenndu og framsæknu verkefni, enda dýrt í framkvæmd. Í ljósi velvildar í samstarfi Lantmännen og LbhÍ, undanfarin ár og áratugi, hafa þeir boðið Íslandi að vera með. Engum öðrum hefur verið boðið að með í verkefninu að sögn Hrannars.

Rannsóknir í Gunnarsholti

Í sumar hefur LbhÍ verið með fjölda rannsókna á korni í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Þar mátti sjá yfir 1.000 tilraunareiti sem höfðu fjölbreyttan tilgang.

Til að mynda mátti þar líta tilraunaefnivið frá Lantmännen af 100 kynbótalínum sem voru prófaðar á sama tíma hér, í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Þá héldu starfsmenn Jarðræktarmiðstöðvarinnar úti byggyrkjatilraunum á yrkjum sem þegar eru á markaði hér á landi ásamt íslenskum línum til samanburðar. Einnig var þar úðunartilraun með sveppa og illgresiseyði, til að kanna áhrif varnarefna á kornið. Þá var áhrif fljótandi áburðar frá sprotafyrirtækinu Atmonia borin saman við hefðbundinn áburð. Önnur tilraun snýst um ræktun á nöktu byggi sem aðlagað er íslenskum aðstæðum ásamt stóru safni fjölbreytts byggstofns sem var settur saman í samnorrænu verkefni styrktu af Norrænu ráðherranefndinni til þess að rannsaka flýti í byggi og allir þeir einstaklingar hafa þegar verið erfðagreindir með öflugri örflögu. Niðurstöðurnar leggja grunn að erfðamengjaúrvali fyrir byggkynbætur á Íslandi.

Vonast eftir sérstökum rammasamningi

Þverpólitísk samstaða virðist vera um að efla kornrækt á Íslandi. Ef rétt er haldið á spöðunum, fjármagn til framkvæmda og framþróunar fæst segja þeir Helgi og Hrannar að ný sviðsmynd geti blasið við þjóðinni innan áratugar.

Land sem hefur ekki þótt hagkvæmt til grasræktar gæti nýst vel til kornræktar. Við gætum orðið sjálfbær í byggi og ræktað verulegan hluta af öllum höfrum og við ættum að leggja mikla áherslu á hveiti líka. Ný gróskumikil atvinnugrein gæti blómstrað, sem búgrein bænda og nokkurra stórræktenda. Allt bendir til þess að til lengri tíma geta þær framfarir, sem verða af uppbyggingu innviða í kornrækt, orðið þjóðhagslega hagkvæmar. Þá eru óræddar afleiður eins og jákvæð umhverfisáhrif og atvinnuuppbygging á landsbyggðinni.

Ákvörðunin og fjármögnunin liggur hjá ríkinu. „Menn mega ekki fara að bera fyrir sig einhverjum pólitískum ómöguleika. Kornræktin verður að fá sjálfstætt fé, sérstaklega í byrjun, ef meiningin er að gera alvöru úr þessu. Það sýnir saga annarra þjóða. Það má ekki gerast að búgreinar fari að bítast um fjármagn þegar búvörusamningar verða teknir upp. Ég óttast að ef það yrði gæti ekkert orðið úr þessu. Það er sjálfsagt að endurskoða kerfi hverrar greinar, gera þau skilvirkari og hagkvæmari, en nauðsynlegt er að tryggja starfsskilyrði hverrar greinar fyrir sig, þá einkum afkomu bænda – sem er eitt af aðalatriðum í fæðuöryggisskýrslunni. Því vona ég að sérstakur rammasamningur verði gerður fyrir kornræktina ef raunverulegur pólitískur vilji er fyrir því að greininni vaxi fiskur um hrygg,“ segir Helgi.

Uppgangur kornræktar í Noregi

Saga kornræktar í Noregi er áhugaverð í samhengi umfjöllunar um gríðarlega möguleika Íslands til uppbyggingar á búgreininni.

Í byrjun síðustu aldar var kornrækt í Noregi brot af heildarnotkun. Það breyttist þegar leið á öldina. Árið 1930 ákvað norska ríkið að taka yfir allan innflutning og kaup á korni og selja það svo áfram til framleiðenda. Á sjötta áratugnum var tekin sú ákvörðun að efla kornrækt í landinu. Þrátt fyrir að aðeins 2,7% af landsvæði Noregs sé tækt til jarðræktar var besta ræktunarsvæðið, undirlendi í Suður-Noregi, tekið undir kornrækt.

Veittir voru styrkir til að færa túnrækt þaðan og tók þá mjólkurframleiðsla og kvikfjárrækt á land þar sem grasrækt er hagkvæm en síður akuryrkja. Kornræktin byggðist upp með aðstoð jarðræktarstyrkja og fór að dafna sunnan til í landinu. Ríkið rak kornsamlög sem keypti allt korn af bændum. Samhliða var farið að vinna að plöntukynbótum og ríkið rekur plöntukynbótamiðstöðina Graminor, sem enn þann dag í dag heldur úti öllum helstu kynbótalínum fyrir yrki í jarðrækt og garðyrkju; korn, kartöflur, jarðarber, epli og fleira . Árið 1992 var gerður samningur við fyrirtækið Felleskjøpet um að sjá um kornsamlögin, sem rekin eru víða um land.

Í dag eru Norðmenn rúmlega sjálfum sér nógir um bygg, þeir rækta um 30-70% af öllu sínu hveiti og hlutfall hafra á markaði er yfir 90% innlend framleiðsla.

Norska landbúnaðarstefnan miðar að því að halda uppi framleiðslu um allt land og nýta hvert svæði út frá þeirra náttúrulegu eiginleikum. Eins og áður sagði er aðeins tæplega 3% af landsvæði Noregs tækt til hvers lags jarðræktar, eða sem nemur 9.860 ferkílómetrum.

Eingöngu þriðjungur þess svæðis er hentugur í kornrækt. Samkvæmt tölum hins opinbera var 68% af landbúnaðarsvæði Noregs notað fyrir fóðurræktun (þ.á m. túnrækt), 30% í kornrækt, kartöflur þöktu 1,2% af svæðinu og grænmeti, ávextir og ber minna.

Til samanburðar er 18,6% af landsvæði Íslands flokkað sem landbúnaðarland, eða 18.720 fer- kílómetrar samkvæmt tölum The World bank og í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi kemur fram að allt að 600.000 hektara hafi verið áætlað sem gott ræktunarland hér á landi.

Skylt efni: fæðuöryggi | Korn

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...