Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Slátrarateymið á Vaðbrekku á Efra-Jökuldal: Brynjólfur Júlíusson, Sigurður Aðalsteinsson, Aðalsteinn Hákonarson og Aðalsteinn Sigurðsson, bóndi á Vaðbrekku.
Slátrarateymið á Vaðbrekku á Efra-Jökuldal: Brynjólfur Júlíusson, Sigurður Aðalsteinsson, Aðalsteinn Hákonarson og Aðalsteinn Sigurðsson, bóndi á Vaðbrekku.
Mynd / Hjörtur Magnason
Fréttaskýring 18. mars 2021

Tilraunaverkefni um heimaslátrun sauðfjár á liðnu hausti gekk vel

Höfundur: smh

Á fundi Kristjáns Þórs Júlíus­sonar sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðherra með aðgerða­hópi sauðfjárbænda um heima­slátrun þann 25. febrúar kom fram að hann hyggst heimila næsta haust að sauðfjárslátrun geti farið fram heima á bæjum til markaðssetningar. 

Ákvörðun ráðherra kemur í kjölfar útgáfu skýrslunnar Aukin verðmætasköpun við slátrun sauðfjár á Íslandi, um tilraunaverkefni um heimaslátrun á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (ANR) sem skilað var 1. febrúar. Fjallar skýrslan um verkefni sem stóð yfir í síðustu sláturtíð. Markmið þess var meðal annars að leita leiða til að auðvelda bændum sauðfjárslátrun heima til markaðssetningar, með það fyrir augum að auka möguleika sauðfjárbænda til verðmætasköpunar.

Hólmfríður Sveinsdóttir, skýrsluhöfundur og verkefnisstjóri. Mynd / Aðsend

Bændur slátruðu og tóku sýni

Í samantekt Hólmfríðar Sveinsdóttur skýrsluhöfundar kemur fram að 25 býli hafi tekið þátt í verkefninu víðs vegar á landinu og stóðu bændur sjálfir að slátrun og sýnatökum vegna mælinga á örverum og sýrustigi. Ávinningur verkefnisins er að mati skýrsluhöfundar þríþættur; könnun á áhuga bænda á slíku verkefni og lausnunum sem þar voru prófaðar, könnun á umfangi opinbers eftirlits og tímalengd skoðunar og könnun á möguleikum rafrænnar heilbrigðisskoðunar.

Þar kemur fram að magn gerla hafi aldrei verið óásættanlega mikið þegar sýni bárust rannsóknarstofu innan 24 klukkustunda frá slátrun. Sýrustig var einnig yfirleitt í góðu lagi, en einungis á fjórum bæjum var það yfir því sem gott þykir – eftir 12 til 24 klukkustundir frá slátrun.

Tæknileg vandamál

Í núverandi reglum er gert ráð fyrir heilbrigðisskoðun opinberra dýralækna fyrir og eftir slátrun þegar um hefðbundið sláturferli er að ræða í sláturhúsum. Í tilraunaverkefninu var bændum skipt upp í tvo hópa með tvenns konar fyrirkomulag heilbrigðisskoðunar; heilbrigðisskoðun á staðnum annars vegar og með rafrænum hætti í beinni útsendingu hins vegar. Ellefu bæir fengu heilbrigðisskoðun á staðnum en á 14 bæjum fór heilbrigðisskoðun fram með rafrænum hætti. Fjórir dýralæknar á vegum Matvælastofnunar tóku þátt í heilbrigðisskoðuninni á bæjunum.

Í tilraunaverkefninu virðist hafa gengið á ýmsu með rafrænu heilbrigðisskoðunina þegar á heildina er litið, samkvæmt samantekt skýrsluhöfundar, Hólmfríðar Sveinsdóttur. Netsamband var til dæmis í lagi á fimm af 14 bæjum, í öllum rýmum, þar sem heilbrigðisskoðun fór fram með rafrænum hætti. Á helmingi bæja var netsamband í lagi í sumum rýmum, en á tveimur bæjum var netsamband alls ekki í lagi. Myndgæði fyrir heilbrigðisskoðun í rauntíma voru að mati dýralæknis ekki í lagi á neinum af þeim 14 bæjum sem tóku þátt í heilbrigðisskoðun á rafrænan hátt.

Engin rafræn heilbrigðisskoðun heppnaðist algjörlega

Myndskeiðsupptökur og myndir voru hins vegar taldar í lagi á 12 bæjum af 14 þar sem rafræn heilbrigðisskoðun fór fram. Ekki náðist þó að ljúka heilbrigðisskoðun á fullnægjandi hátt með rafrænni heilbrigðisskoðun á neinum af þeim 14 bæjum sem tóku þátt með þessum hætti. Helstu ástæður sem dýralæknir nefndi voru að ekki náðist í gegnum fjarbúnað að fullvissa sig um að fullnægjandi skoðun á eitlum hefði náðst en einnig var erfitt að meta hvort hreinlæti við meðferð afurða hefði verið gætt þar sem myndskeið og myndir voru ekki af þeim gæðum að hægt væri að meta t.d. hár á skrokk.

Í samtali verkefnastjóra við dýralækninn sem framkvæmdi rafræna heilbrigðisskoðun kom fram að myndgæði og netsamband hefðu ekki verið nógu góð til að framkvæma heilbrigðisskoðun í rauntíma. Í samantekt skýrsluhöfundar kemur fram þess beri að geta að ekki hafi verið gerð krafa um ákveðinn búnað í sambandi við upptöku eða móttöku myndefnis.

Tekið er fram að þar sem staðið er að framkvæmd rafrænnar heilbrigðisskoðunar í fyrsta skiptið í tilraunaverkefninu sé líklegt að eitthvað af þeim tæknilegu vandamálum sem við var að etja gæti fækkað með þeirri vitneskju sem byggst hefur upp í verkefninu og aukinni þróun í stafrænni tækni i framtíðinni.

Þar sem heilbrigðisskoðun var gerð á staðnum gekk hún almennt vel að sögn dýralækna, sem og samskipti við bændur sem voru einnig ánægðir með samskiptin.

Samtals var 112 lömbum slátrað í verkefninu, 49 á bæjunum þar sem skoðun fór fram á staðnum og 68 lömbum á bæjum með rafræna skoðun.

Heilbrigðisskoðunin á staðnum tók að meðaltali mun skemmri tíma, 80,3 mínútur á hverjum bæ, eða um 18 mínútur á hvert lamb. Fyrir hvert lamb tók þó 43 mínútur að keyra á staðinn, skoða og rita skýrslu fyrir hvert lamb.

Rafræn skoðun tók að meðaltali 120 mínútur á hverjum bæ, eða 24,7 mínútur á hvert lamb. Það tók dýralækni að meðaltali um 31,7 mínútu á hvert lamb að skoða og rita skýrslu.

Sýrustig í góðu lagi

Í verkefninu var fylgst með eftir­farandi gæðaþáttum; sýrustigi í vöðva 24 klukkustundum eftir slátrun og örveruvexti á afurðum. Bændur tóku sjálfir sýnin sem þurftu sem fyrr segir og mældu sýrustig. Sýni fyrir örverumælingarnar voru send á rannsóknarstofu.

Í skýrslunni kemur fram að vel hafi gengið hjá bændum að mæla sýrustig og taka sýni fyrir örverumælingar og koma þeim á rannsóknastofu innnan tilskilins tíma. Samtals voru 102 skrokkar sýrustigsmældir. Viðmiðunarhámark á sýrustigi í vöðvum í sauðfé er 5,8 við eðlilegar aðstæður þegar 12 til 14 klukkustundir eru liðnar frá slátrun. Í verkefninu var meðalsýrustig um 5,66. Á fjórum bæjum voru meðaltalsgildi sýrustigs yfir 5,8.

Gerlamagn aldrei óásættanlega mikið

Meðaltal gerlafjölda við 30 gráður var um 2,14 fjölda þyrpinga á hvern fersentimetra yfirborðs. Gildi fyrir ofan 4,3 telst óásættanlegt. Enginn af þeim bæjum þar sem sýni bárust á rannsóknastofu innan 24 klukkustunda var með gildi fyrir ofan óásættanlegt gildi og 19 bæir af 23 bæjum voru með meðaltalsgildi undir 2,8. Meðaltal iðragerla gilda var um 0,13 á hvern fersentimetra yfirborðs. Gildi fyrir ofan 1,8 telst óásættanlegt. Enginn af þeim bæjum þar sem sýni bárust á rannsóknastofu innan 24 klukkustunda var fyrir ofan óásættanlegt gildi. Einungis einn bær var með gildið 1,8 og á 15 bæjum mældust ekki iðragerlar úr stroksýnum. 

Takmörkuð þekking á reglugerð um lítil matvælafyrirtæki

Í samantekt á athugasemdum frá þeim dýralækni sem fór á flesta bæina til skoðunar kemur fram að bændur hafi almennt haft takmarkaða þekkingu á reglugerð um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli. Þeir hafi ekki gert sér grein fyrir að eftirlitsgjald vegna eftirlits dýralækna með kjötskoðun væri bundið við krónutölu á hvert innvegið kíló og það væri ákveðið í reglugerð. Því hefðu bændur verið búnir að ákveða fyrirfram að ef þeir myndu koma sér upp sláturaðstöðu yrði eftirlitskostnaðurinn meiri en raunveruleg efni standa til.

Í athugasemdunum kemur einnig fram að aðstæður bænda séu mjög misjafnar og vegasamgöngur sem og símasamband oft af mjög lélegum gæðum. Bæta þurfi þekkingu bænda almennt varðandi heimaslátrun um hættuna af jarðvegsmengun, til dæmis listeríu. Einnig þurfi að auka þekkingu bænda á því að skera óhreinindi í burtu frekar en að skola af með vatni. Sumir bændur hafi ekki verið meðvitaðir um það stress sem getur skapast hjá dýrum þegar þeim er lógað.

Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson í Birkihlíð eru þátttakendur í aðgerðahópi sauðfjárbænda um heimaslátrun. Mynd / Þórkatla Björt Sumarrós Þrastardóttir

Átak til verðmætasköpunar kynnt í mars

Samkvæmt heimildum úr ANR verður átak til að ýta undir mögu­leika sauðfjárbænda til verðmætasköpunar kynnt í mars, en í því felst að heimila heimaslátrun sauðfjár og markaðssetningu afurðanna næsta haust. Vísar ráðuneytið til fréttatilkynningar um aðgerðaáætlun til eflingar íslensks landbúnaðar frá 17. febrúar. Þar kom fram að meðal aðgerða í mars verði að kynna átak til að ýta undir möguleika bænda til að framleiða og selja afurðir beint frá býli til að styrkja verðmætasköpun og afkomu þeirra fyrir næstu sláturtíð.

Með þeirri aðgerð verði stuðlað að frekari fullvinnslu, vöruþróun, og varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matvæla. Tilgangurinn sé að auðvelda landbúnaðinum að nýta betur tækifærin sem í því geta falist.

Í fréttinni kemur fram að fjármagn til að hrinda átakinu í framkvæmd sé tryggt.

Eva Margrét Jónudóttir við mælingar í tilraunaverkefni Matís á bænum Birkihlíð í Skagafirði, þar sem slátrað var samkvæmt örslátrunartillögunum. Mynd / Matís

Ræturnar liggja í Örslátrunarverkefni Matís 

Rætur þessarar framvindu, að ANR hafi staðið fyrir tilraunaverkefninu síðasta haust og að nú hillir undir að heimaslátrun og markaðssetning afurðanna verði heimil næsta haust, ná til svokallaðs Örslátrunarverkefnis Matís frá haustdögum 2018. Þá var nokkrum lömbum slátrað heima á bænum Birkihlíð í Skagafirði samkvæmt tillögum Matís að reglum um örslátrun og afurðir úr slátruninni seldar í kjölfarið á bændamarkaði á Hofsósi. Mælingar voru gerðar meðal annars á örverum og sýrustigi – og kjötafurðirnar bornar loks saman við afurðir sem komu úr hefðbundinni sauðfjárslátrun.

Sveinn Margeirsson, þáverandi forstjóri Matís, stóð fyrir Örslátrunarverkefninu og var ákærður af Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra fyrir brot á lögum um slátrun og sláturafurðum í október 2019, en sýknaður ári seinna um að hafa gerst brotlegur við þau ákvæði laganna sem ákæran náði til.

Matvælastofnun sendi í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem áréttað var að óheimilt væri að dreifa eða selja kjöt úr heimaslátrun til annarra. Þar kom fram að dýrum sem slátra eigi til að dreifa afurðum þeirra á markað skuli slátra í sláturhúsum með starfsleyfi. Bændum væri hins vegar heimilt að slátra sínu búfé til eigin neyslu.

Í örslátrunartillögum Matís var ekki gert ráð fyrir kröfu um beina aðkomu dýralækna til heilbrigðisskoðunar; hvorki fyrir, né eftir slátrun. Dýralæknum væri hins vegar heimilt að skoða dýrin, samkvæmt tillögunum.

Hafdís Sturludóttir og Matthías Lýðsson í kjötvinnslunni í Húsavík á Ströndum.  Mynd / Húsavík

Grundvallarbreyting fyrir möguleika sauðfjárbænda

Meðal sauðfjárbænda í aðgerðar­hópi um heimaslátrun eru hjónin Hafdís Sturludóttir og Matthías Lýðsson í Húsavík á Ströndum. Matthías er ánægður með framvindu mála varðandi heimaslátrunarverkefnið frá síðasta hausti og fagnar því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið muni hafa fulltrúa úr aðgerðahópnum með í ráðum varðandi útfærslur á ýmsum atriðum í væntanlegri reglugerð um heimaslátrun.  

Hann telur að breytingarnar muni geta gagnast þeim sem hafa verið að taka heim skrokka úr sláturhúsunum til vinnslu og sölu afurða beint frá býli, þeim sem hafa selt kjötafurðir beint frá afurðastöðvum – og þeim sem hafi aðstöðu, getu og vilja til að fara út í heimaslátrun og sölu. Fyrirhugaðar breytingar muni hins vegar ekki breyta afkomumöguleikum greinarinnar sem slíkrar.

Um 200 skrokkar fara frá Húsavík hvert haust í sláturhús og til baka í vinnslu.

Talsverður sparnaður

„Ég þekki talsverðan fjölda bænda sem selja verulegan hluta af innlegginu strax í sláturtíðinni og fyrir þá verður þetta góð breyting. Einnig þeir sem eru með eigin vinnslu, eins og við erum með, fyrir þá getur orðið talsvert hagræði af breytingunni. Það kostar auðvitað að láta slátra fyrir sig, vinna kjötið og flytja það til baka. Staðan hjá okkur er þannig að miðað við núverandi forsendur myndum við spara okkur um milljón krónur ef við gætum sjálf slátrað þeim fjölda sem við tökum heim til vinnslu úr sláturhúsinu. Þá er ég að miða við um 200 skrokka, bæði lömb og ær.

En staðan á lambakjöts­mark­aðnum er hins vegar þannig að það er offramboð á markaði þannig að það bjargar ekki greininni þó að fleiri framleiðendur færi sig yfir í hóp þeirra sem selja frekar beint frá býli. Það er kaupendamarkaður með lambakjöt en ekki seljendamarkaður,“ segir Matthías. Hann bætir við að fyrir þau sé ekkert endilega víst að þau muni taka stærri skerf til sín til slátrunar og vinnslu en sem nemur þessum skrokkum sem þau taka heim núna. 

Slátrun og kjötmat

Matthías telur að það þurfi að huga að ýmsum hagnýtum atriðum í reglugerðinni; til að mynda hvað verður um úrgang eins og vambir og gor – og hvernig gæðastýringin verður á þessum bæjum til dæmis. „Sumsé, það þarf að ganga frá ýmsum atriðum varðandi eftirlit og umgjörð fyrir þessari starfsemi,“ segir hann.

„Það þarf líka að gera kröfur um lágmarkskunnáttu þeirra sem munu starfa við slátrun og hægur vandi að verða sér úti um viðeigandi menntun auðvitað – ég bendi til dæmis á námskeið á vegum Matís sem heitir Slátrun og kjötmat sem leið.“

Ánægð með niðurstöður skýrslu um heimaslátrunarverkefnið

Að sögn Matthíasar er ánægja í aðgerðahópunum með skýrsluna um heimaslátrunarverkefni ANR. „Fyrst og fremst erum við ánægð með niðurstöður mælinganna. Þá á ég við örverumælingarnar og sýrustigsmælingarnar. Sýrustigsmælingarnar er áreiðanlegur mælikvarði á kjötgæði afurðanna; hvað varðar meyrni og áferð. Niðurstöðurnar voru hreint út sagt frábærar – enda höfðu lömbin ekki þurft að ferðast um langan veg til slátrunar. Síðustu dvalarstaðir lamb­anna voru þeirra eigin fjárhús.

Síðan eru það örverumælingarnar, sem komu mjög vel út þrátt fyrir að slátrunin fari fram við mismunandi aðstæður, á mismunandi stöðum og fólk stóð að slátruninni sem hafði mismunandi reynslu. Tilraunin sýnir mér það að ef gerðar eru kröfur um ákveðnar ytri aðstæður og innri þekkingu slátraranna þá sé þetta bara í góðu lagi.“ 

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...