Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Á undanförnum misserum hefur umræða um geðheilbrigði bænda aukist. Á vordögum 2023 var Bændageð kynnt: fræðsluefni um andlega heilsu miðað að bændum. Í febrúar var svo gefin út skýrsla sem sýndi vísbendingar um aukin einkenni þunglyndis og kvíða hjá bændum í samanburði við aðrar vinnandi stéttir. Sérfræðingar og fólk kunnugt málefninu segja samtal um geðheilsu mikilvægt.
Á undanförnum misserum hefur umræða um geðheilbrigði bænda aukist. Á vordögum 2023 var Bændageð kynnt: fræðsluefni um andlega heilsu miðað að bændum. Í febrúar var svo gefin út skýrsla sem sýndi vísbendingar um aukin einkenni þunglyndis og kvíða hjá bændum í samanburði við aðrar vinnandi stéttir. Sérfræðingar og fólk kunnugt málefninu segja samtal um geðheilsu mikilvægt.
Mynd / Hlynur Gauti
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og þunglyndis en annað vinnandi fólk á Íslandi. Geðheilsa er komin á dagskrá Bændasamtaka Íslands og er umræðan að færast upp á yfirborðið meðal stéttarinnar.

Mikið var rætt um geðheilsu bænda á Búgreinaþingi 2022. Hvatinn að því var meðal annars alvarlegt dýravelferðarmál sem kom upp skömmu áður og mátti rekja til andlegra veikinda. Á þessum fundi stigu bændur í pontu og töluðu um mikilvægi þess að Bændasamtökin tækju andlega líðan bænda á dagskrá.

Halla Eiríksdóttir. Myndir / Aðsendar

Halla Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur, sauðfjárbóndi á Hákonarstöðum á Jökuldal og meðlimur í stjórn Bændasamtaka Íslands, tók upp á sína arma að leiða verkefnið sem var sett á koppinn í kjölfarið. Afurðin úr því var í fyrsta lagi Bændageð, sem er fræðsluefni um geðheilbrigði miðað að bændum og var birt á vordögum 2023. Í öðru lagi setti Halla sig í samband við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) sem framkvæmdi könnun á geðheilbrigði bænda, þar sem mjög lítið er til af rannsóknum um andlega líðan íslensku bændastéttarinnar.

Könnun meðal bænda

Á haustmánuðum 2023 lagði RHA netkönnun fyrir félagsmenn Bændasamtaka Íslands þar sem markmiðið var að sjá hvort einhver munur væri á geðheilbrigði bænda og annarra á vinnumarkaði. Í febrúar var gefin út skýrslan Líðan og seigla íslenskra bænda þar sem kynntar eru helstu niðurstöður.

Bára Elísabet Dagsdóttir.

Samkvæmt könnuninni bendir ýmislegt til þess að bændur séu líklegri til að upplifa einkenni streitu og þunglyndis en samanburðarhópurinn. Bára Elísabet Dagsdóttir, höfundur skýrslunnar, segir mikilvægt að vita hver staðan sé því þá sé hægt að grípa til einhverra ráðstafana. Samkvæmt erlendum rannsóknum sem Bára vitnar til í skýrslunni er hægt að sjá ýmsa þætti sem séu sérstakir í bændastarfinu sem geti haft slæm áhrif á andlega líðan.Einn af veigamestu þáttunum er að afkoman stjórnast mjög af ytri þáttum sem bændurnir geta ekki haft stjórn á. Þar má nefna regluverk stjórnvalda, afurðaverð og náttúrulega þætti eins og veður og sjúkdóma. Bára nefnir að í mörgum erlendum rannsóknum sé sýnt fram á að einangrun bænda geti leitt af sér geðræn vandamál. Þá sé mikil hlutverkatogstreita sem fylgi því að heimilið sé líka vinnustaðurinn sem geri mörkin milli vinnu og frítíma óljós.

Erfitt sé fyrir bændur að vera alveg í fríi á meðan almennt launafólk geti frekar aftengt sig þegar það fer í frí.

Erlendar rannsóknir hafi sýnt mismunandi niðurstöður hvað varðar andlega heilsu bænda. Bára segir þó að samkvæmt stórri samantektarrannsókn sem framkvæmd var nýlega hafi bændur almennt komið verr út en samanburðarhópar. Slíkar rannsóknir geti gefið nákvæmari mynd af stöðu mála en stakar rannsóknir.

Samanburður við vinnandi fólk

Til að hafa einhvern samanburð við þá sem ekki eru bændur var stærstur hluti könnunarinnar hannaður þannig að hægt væri að bera niðurstöðurnar saman við rannsóknina Heilsa og líðan Íslendinga sem embætti landlæknis stendur fyrir á fimm ára fresti. Sú rannsókn var síðast framkvæmd árið 2022 og afmarkaði Bára samanburðarhópinn við fólk sem er á vinnumarkaði og ekki bændur.

Í rannsókn RHA voru fengnar ýmsar bakgrunnsbreytur um þátttakendur sem vitað er að geti haft áhrif á andlega líðan; það er kyn, aldur, menntun, hjúskaparstaða og fjárhagserfiðleikar sem kallast lýðfræðilegir þættir. Mjög skýrt var bæði í könnun RHA og embættis landlæknis að þeir sem glíma við fjárhagserfiðleika sé sá hópur sem líður verst.

Í skýrslu RHA er tekið tillit til áðurnefndra bakgrunnsbreyta og þegar bændur eru bornir saman við aðra af sama kyni, aldri, menntun, hjúskaparstöðu og fjárhagsstöðu kemur í ljós að hlutfallslíkur á að bændur flokkist með alvarleg einkenni þunglyndis og streitu eru nokkuð hærri en fyrir samanburðarhópinn, en munur hvað varðar kvíða fannst ekki í þessari rannsókn. Þeir bændur sem höfðu uppi áform um flutninga voru líklegri til að upplifa meiri einkenni kvíða, streitu og þunglyndis miðað við aðra bændur.

Hluti af könnuninni var spurningalisti sem á að gefa vísbendingar um seiglu, sem er verndandi eiginleiki fyrir ýmsum geðröskunum og hæfnin til að aðlaga sig í erfiðum aðstæðum og líta á björtu hliðarnar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir sem eru með meiri seiglu takast betur á við mótlæti og streitu og komi því betur út í mælingum á geðrænum vandamálum. Seiglukvarðinn hefur ekki verið notaður mikið hér á landi og er því ekki hægt að draga miklar ályktanir út frá niðurstöðunum úr þessari könnun. Skorið hjá bændum reyndist þó lægra en meðalskor almenns bandarísks þýðis.

Aðspurð hvað henni þætti rétt framhald, segir Bára að áhugavert væri að framkvæma viðtöl sem gæfu betri innsýn í hvað það er sem orsakar muninn á geðheilsu bænda og annarra. Rannsóknin hennar hafi gefið gott yfirlit en ekki rýnt í smáatriði.

Einkenni þunglyndis andleg og líkamleg

Í skýrslunni er þunglyndi skilgreint sem „lyndisröskun sem lýsir sér í breytingum á geðslagi, hugsunum, virkni og líkamlegum einkennum. Einkennin eru mörg og misjöfn milli einstaklinga, t.d. depurð, skert sjálfsmynd, neikvæðar hugsanir, einbeitingarerfiðleikar, minni virkni og áhugi og svefnerfiðleikar.“ Þá er kvíði sagður einkennast af hræðslu, áhyggjum og óróleika. Það sé tilfinning sem flestallir upplifi einhvern tímann, en sé hún langvarandi sé talað um kvíðaraskanir.

Á Vísindavefnum er streita skilgreind sem hluti af varnarviðbragði líkamans við aðsteðjandi hættu. Í því ástandi eykst virkni ósjálfráða taugakerfisins og kortisól og adrenalín streyma út í blóðið. Séu streituviðbrögðin mikil eða langvarandi geti þau haft neikvæð áhrif á heilsuna.

Sérstaklega er tekið fram í skýrslunni að þar sem gögnunum um bændur var aflað haustið 2023 á meðan gögnin um samanburðarhópinn eru frá 2022 sé ekki hægt að útiloka breytingar á þjóðfélaginu á þeim tíma sem leið milli kannana og gætu haft áhrif á svörin.

Fræðsluefni fyrir bændur

Á vordögum 2023 var verkefninu Bændageð hleypt af stokkunum. „Markmiðið með þessu var að skapa grunn til að bændur gætu stigið fram og benda á að geðrænir kvillar eru eins og aðrir líkamlegir sjúkdómar,“ segir Halla Eiríksdóttir.

Þetta eru myndbönd sem félagsmenn Bændasamtakanna hafa aðgang að á lokuðu vefsvæði.

Þar segja bændur og ættingjar frá sinni líðan, ásamt því sem rætt er við sérfræðinga, og segir Halla markmiðið að hafa þetta tímalaust efni sem lifir. Hún vonast til að fræðsluefnið og niðurstöður könnunar RHA verði til þess að auðvelda bændum að leita sér aðstoðar, sem þeir hafi gert síður en aðrir.

Birgir Arason.
Nauðsynlegt að ræða um geðheilsu

Birgir Arason, bóndi í Gullbrekku í Eyjafjarðarsveit, er einn þeirra bænda sem opnaði sig um geðheilsu sína í Bændageðinu. Þar ræddi hann opinskátt um sína glímu við þunglyndi og hvaða leiðir hann hefur farið í átt að bata. Í samtali við blaðamann segir Birgir einkenni þunglyndis hafa verið til staðar fyrir hans búskapartíð og að veikindin séu líklega meðfædd.

Birgir segir nauðsynlegt að bændur séu tilbúnir til að ræða um geðheilsu, enda sé hún hluti af lífinu. Rétt eins og í öðrum öngum samfélagsins sé feimnismál að viðurkenna geðræn vandamál í bændastéttinni. Umræðan sé nýlega komin upp á yfirborðið, hvort sem um ræðir bændur eða aðra.

Flestir þeir sem finni fyrir þunglyndi eða slæmri geðheilsu til lengri tíma ætli sér að berjast áfram án þess að það sé eitthvað vandamál. Fyrsta skrefið að bata sé að taka samtal og í hans huga þurfi það ekki endilega að vera við sérfræðing, heldur sé hægt að tala við góðan vin sem er hægt að treysta.

Lyfin göngustafur

Birgir viðurkennir fúslega að hann hafi fengið lyf við þunglyndi þó hann reyni almennt að sneiða hjá meðölum. Lyfjunum líkir hann við göngustaf sem hann þurfti að styðja sig við á vegferð sinni upp úr öldudalnum. Á ákveðnum tíma hafi hann verið kominn í aðstæður sem hann réð ekki við að komast úr sjálfur, meðal annars þar sem hann hafði barist lengi á móti því og ekki rætt geðheilsu sína við neinn. Það sé svo undir honum komið að ná lengra, því lyfin ein og sér dugi ekki til að læknast af þunglyndi.

Aðspurður reiknar Birgir með að talsvert sé um að bændur glími við slæma geðheilsu þó þeir beri það mismikið utan á sér. Bændur búi við það að þurfa ekki að hitta neinn frekar en þeir vilji og geti því einangrað sig. Eins og staðan er núna sé hátt vaxtastig og þungur rekstur það erfiðasta fyrir bændur.

Hann hafi fundið fyrir auknum vaxtakostnaði á eigin skinni þar sem hann jók hjá sér framleiðsluna til að auka tekjur sínar. Sú tekjuaukning hafi hins vegar öll farið í fjármagnskostnað. Það sé glötuð staða fyrir bændur að vera í þeirri stöðu að afborganir af lánum margfaldist. Eftir að hann hóf meðferð við þunglyndi segist Birgir þola mótlæti sem þetta mun betur.

Regína Ólafsdóttir.
Aðstæður bænda einstakar

Regína Ólafsdóttir, klínískur sálfræðingur, segir að í starfi bænda blandist saman óvissa, óljós skil milli vinnu og einkalífs og mikið álag. Líklegast séu fáar stéttir sem búi við sömu aðstæður og því væri fengur að því að bjóða upp á sérhæft úrræði fyrir bændur. Það hjálpi mjög mikið að eiga samtal, sérstaklega við einhvern sem þekkir þá reynslu sem viðkomandi er að fara í gegnum.

Hún veltir því fyrir sér hvort ekki þyrfti að vera eitthvert úrræði þar sem bændur geti hist og rætt saman undir handleiðslu fagaðila ef markmiðið er að bæta geðheilsu stéttarinnar. Eftir Covid- 19 faraldurinn hafi orðið mikil efling í fjarheilbrigðisþjónustu og miðað við þær rannsóknir sem hafi verið framkvæmdar hingað til geti þannig meðferðir borið jafn mikinn árangur og þegar fólk mæti á staðinn, hvort heldur sem um ræðir einkatíma eða hópameðferðir.

Óvissa vond fyrir sálarlífið

Regína segir að eitt af því sem einkenni bændastarfið sé mikil óvissa og það sé sammannlegt að finnast hún óþægileg. Mikið álag fylgi því að vita ekki hvað sé í vændum og geti fólk þróað með sér hugsanir sem geri ýmist ráð fyrir verstu eða bestu framvindu. Í þessu samhengi nefnir Regína fólk sem fari í rannsóknir vegna krabbameinseinkenna, en sá tími sem reyni hvað mest á sálarlífið sé á meðan beðið er eftir niðurstöðum.

Eitt af því sem vakti sérstakan áhuga Regínu í skýrslu RHA hafi verið hversu hátt hlutfall bænda svaraði því að þeir hefðu oft eða alltaf of mikið að gera.

Auðvelt sé að hafa gaman af því þegar mikið er í gangi í skemmri tíma, en því fylgi streita og spenna og neikvætt sé að vera stöðugt í aðstæðum þar sem upplifunin sé sú að verkefnin hlaðist upp og ekki sé hægt að sinna þeim fyllilega.

Regínu fannst sláandi þegar hún las skýrsluna hversu hátt hlutfall bænda sagðist hafa áhyggjur af fjármálum sínum. Það sé hins vegar mikilvægt að taka tillit til hvenær könnunin var framkvæmd, eða á haustdögum 2023. Þá hafi stýrivextir verið búnir að hækka umtalsvert frá þeim tíma sem könnun Landlæknisembættis, sem var nýtt til samanburðar, var framkvæmd.

„Það góða við rannsóknir er að þær gefa okkur alls konar myndir og vísbendingar, en maður getur oft ekki dregið eins stórar ályktanir og mann langar,“ segir Regína.

Hún varar því við því að fullyrða að það að vera bóndi geri fólk líklegra til að glíma við geðræn vandamál. Spurningalistinn sem var notaður sé skimunarlisti með tuttugu og einu atriði sem sé gjarnan notaður í rannsóknum og í klínísku starfi til að meta árangur meðferðar. Þeir dugi ekki einir og sér til að staðfesta greiningu á þunglyndi, streitu eða kvíða, þó þeir geti gefið ákveðna vísbendingu.

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu skert

Halla Eiríksdóttir telur að eina af skýringunum á verri geðheilsu bænda megi rekja til aðgengis fólks á landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu. Í þeim rannsóknum sem hún hefur skoðað nýta allir hópar í dreifbýli sérfræðiþjónustu heilbrigðiskerfisins minna en fólk í þéttbýli.

Þá bjóði starfsumhverfi bænda ekki upp á mikið jafnvægi og þeir þurfi að þola mikinn breytileika. Halla bendir á hluti eins og þegar veðurglugginn til heyskapar er stuttur, þá þurfi bændur að vinna allan sólarhringinn og þá megi engin vél bila. Svo þegar komi kalár eða rigningasumur sé öll uppskeran sett úr skorðum. Þá sé afurðaverð og regluverk eitthvað sem bændur geti ekki stjórnað og það geti verið breytilegt milli ára. Starfið virðist enn fremur geta verið niðurdrepandi, sérstaklega ef þeir búa einir.

„Það eru margir sem sitja uppi með atvinnu sem er miklu meira en atvinna,“ segir Halla. Fólk búi oft á jörðum sem hafi farið mann fram af manni í kynslóðir. Því finni fólk fyrir þrýstingi að viðhalda búskap á jörðinni og að sjálfsmynd fjölskyldunnar skerðist fari bærinn í annarra hendur eða ef landbúnaðarstarfsemi er lögð niður á þeirra vakt. Það sem þeir líti gjarnan fram hjá sé að allir aðrir fluttust í burtu og létu búskapinn í þeirra hendur.

Skylt efni: geðheilsa

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...