Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Vanefndir stjórnvalda
Mynd / Teikning / Hlynur Gauti
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sagt frá hvítlauksræktun sveitunga þeirra á Neðri-Brekku. Það þykir tíðindum sæta þegar nýjar tegundir eru reyndar í útiræktun grænmetis á Íslandi til almennrar markaðssetningar.

Hlutfall innlendrar grænmetis­framleiðslu á markaði hér á landi, tegundir og uppskerumagn hefur heldur rýrnað á undanförnum árum. Kemur þar ýmislegt til; ódýrt innflutt grænmeti, letjandi stuðningskerfi og lítil nýliðun í greininni, meðal annars. Í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi, sem unnin var af Landbúnaðarháskóla Íslands og skilað var til atvinnuvega­ og nýsköpunarráðuneytisins í febrúar 2021, kemur fram að hlutdeild íslensks grænmetis á markaði árið 2019 hafi verið 43 prósent en 56 prósent tíu árum fyrr.

Uppskerumagn svipað frá ári til árs

Frá endurskoðun garðyrkjusamnings­ ins árið 2020 hafa breytingar verið litlar í grundvallaratriðum á haustupp­ skerutölum, þrátt fyrir markmið í þeim um að við endurskoðun þeirra árið 2023 hefði orðið 25 prósenta vöxtur í framleiðslu á íslensku grænmeti miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019. Hefur uppskerumagn í útiræktun frá þeim tíma fremur ráðist af veðurskilyrðum en umfangi ræktunarinnar hverju sinni – og kannski ekki síst af afkomunni í kartöfluræktuninni sem á um helmings­ hlutdeild í heildarframleiðslunni.

Styrkhæft land minnkar

Við síðustu endurskoðun búvöru­samninga, sem átti að vera á síðasta ári en lauk í janúar síðastliðnum, urðu afar litlar breytingar á starfsskilyrðum garðyrkjubænda þrátt fyrir ákaft ákall þeirra um aukna hvata til framleiðsluaukningar. Sú eina breyting varð gagnvart bændum í útiræktun grænmetis að það land sem greiddir eru jarðræktarstyrkir út á, minnkar úr hektara lands niður í fjórðung hektara. Tilgangurinn með þeirri breytingu var meðal annars sá að hvetja nýliða til að prófa sig áfram í útiræktun – og fá til þess stuðning – án þess að leggja of mikið undir.

Skiptar skoðanir eru um möguleg áhrif þessara breytinga. Sumir bændur sem hafa útiræktun grænmetis að aðalstarfi telja að breytingin geti haft neikvæð áhrif á afkomu þeirra sem fyrir eru í útiræktun grænmetis og sé lítil hjálp fyrir þá fáu sem koma nýir inn.

Möguleg neikvæð áhrif og jákvæð

Með því að minnka það land sem styrkhæft er má reikna með að fleiri ræktendur sem eru með fremur litla framleiðslu í heildarsamhenginu, eins og í lífrænni ræktun eða þeir sem eru í garðyrkju sem aukabúgrein, sæki um stuðning. Þar sem fjárhæð jarðræktarstyrkja er föst upphæð, er talið að þannig muni stuðningsgreiðslur til þeirra sem hafa útiræktun að aðalstarfi, og framleiða mest, þynnast enn frekar út, eins og öll framleiðsluaukning með stækkun á ræktarlandi leiðir af sér.

Aðrir gera lítið úr þeim áhyggjum og segja jákvætt að fleiri bætist við og benda á að þrátt fyrir að tíu ræktendur bætist við með hálfan hektara hver þá telji það lítið inn í heildarsamhengið. Einn af þeim er Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands, sem sat í samninganefndinni við síðustu endurskoðun búvörusamninganna. „Við lögðum mikla áherslu á að aukið fjármagn yrði sett í útiræktunina, ekki síst í því ljósi að því hafði verið ítrekað lofað að það ætti að skapa hvata til frekari vaxtar í greininni,“ útskýrir hann.

Jarðræktarstyrkir til garðyrkjubænda koma inn 2016

Stuðningsfyrirkomulagið er nefnilega þannig að bændur eru styrktir eftir stærð þess ræktarlands sem er undir hverju sinni, með jarðræktarstyrkjum. Árið 2016 koma slíkir styrkir til garðyrkjubænda fyrst inn í búvörusamningana. Þá fyrst og fremst í þeim tilgangi að ná utan um umfang útiræktunar á Íslandi. Einungis 16 milljónir kr. voru þá til úthlutunar, sem þó var nægilega mikil hvatning til að bændur sóttu um og fengu einhvern stuðning. Hugmyndin var að þetta stuðningsfyrirkomulag myndi, og landsgreiðslurnar, sem greiddar eru út á túnrækt, virka í rammasamningi búvörusamninganna.

Axel segir að reynslan af þessu fyrsta ári, þegar jarðræktarstyrkir voru fyrst í boði, hafi sýnt fram á að 540 hektarar voru þá í útirækt á Íslandi. „Þetta gaf Sambandi garðyrkjubænda vogarafl inn í endurskoðun árið 2020. Þá fengust 52 milljónir í viðbót inn í samninginn, það varð til þess að styrkurinn fer að skipta miklu máli fyrir bændur. Árið 2020 fór upphæðin samtals í 68 milljónir og hefur verið uppfærð samkvæmt verðlagi síðan,“ segir Axel.

Fjórfalt meira fyrir ofanjarðarræktun

Styrkirnir haldast óbreyttir út samningstímann, sem tók gildi 14. maí 2020 og nær til ársloka 2026, og dreifast á milli þeirra garðyrkjubænda sem sækja um vegna útiræktunar á grænmeti, kartöflum og garðávöxtum til manneldis.

Árið 2022 voru 76 milljónir kr. til úthlutunar fyrir 51 garðyrkjubýli út á um 550 hektara og á síðasta ári 86 milljónir kr. fyrir 50 garðyrkjubýli út á um 568 hektara lands. Greitt er mismikið eftir því hvort ræktað er ofanjarðar eða neðanjarðar. Rótarafurðir eru með stuðulinn 1 og grænmeti sem er ræktað ofanjarðar með stuðulinn 4, sem þýðir að fjórfalt meira er greitt fyrir þær afurðir. Ástæðan er sú að einfaldara er að vélvæða rótarafurðaræktun og mun færri hendur sem þurfa að koma þar að. Ofanjarðar grænmetið er viðkvæmara – það þarf að tína með höndum – og því mun meiri kostnaður á bak við ræktunina á því.

Árið 2022 bárust umsóknir fyrir 41,5 hektara lands vegna ræktunar á ofanjarðar grænmeti, en 508 hektara vegna ræktunar á rótarafurðum, þar sem kartöflurækt er langstærst. Á síðasta ári var sótt um styrki fyrir ræktun á 45,7 hekturum á afurðum ofanjarðar, en 522 hekturum vegna neðanjarðar afurða. Hver framleiðandi getur ekki fengið hærri greiðslur samtals en 10 prósent af því fjármagni sem er til ráðstöfunar árlega.

Eyjólfur Ingvi Bjarnason kastar hér blómkálshaus til Côme De Tournadre, fransks verknema, sem aðstoðaði við ræktunina í Ásgarði síðasta sumar. Mynd / Guðbjört Lóa
Aukabúgrein sauðfjárbænda

Garðyrkjubændur í útiræktun eru nú sem óðast að planta út í akra sína grænmetisplöntum sínum sem hafa verið í uppeldi innandyra á undaförnum mánuðum. Enda veitir ekki af því að koma þeim sem fyrst á vaxtarstaði sína, þar sem sumur eru stutt á Íslandi og sumar tegundir þurfa langan vaxtartíma. Það á við um nípubændur í Þurranesi sem ákváðu að styðja betur við búrekstur sauðfjárbúsins, fyrst með því að setja á fót ferðaþjónustu og svo nú við ræktun á nípum sem þurfa um fjögurra mánaða vaxtartíma.

Raunar má segja með svolítilli einföldun að helstu vaxtarsprotarnir í íslenskri útiræktun grænmetis séu meðal sauðfjárbænda í Dölunum. Sveitungar bændanna í Þurranesi eru nefnilega fjölskylda Eyjólfs Ingva Bjarnasonar, formanns deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, í Ásgarði en á undanförnum tveimur árum hafa þau verið að hasla sér völl í þessari aukabúgrein með myndarlegum hætti.

Eydís Helga, 6 ára í Ásgarði, hjálpar til við útplöntun.

Þegar Eyjólfur er spurður um ástæður þess að sauðfjárbændurnir ákváðu að reyna fyrir sér í garðyrkju, segir hann að þau hafi langað til að sjá hvort slík ræktun væri yfirleitt möguleg á þessu landsvæði. „Í sjálfu sér vorum við ekkert að hugsa um sölumöguleikana og styrkjaumhverfið þegar við byrjuðum vorið 2022. Aðalmarkmiðið það ár var að athuga hvort útiræktun grænmetis gengi upp hér á svæðinu enda er hún ekki algeng í þessum landshluta. Við ákváðum því að byrja, fyrst bændum á Stóra-Fjarðarhorni tókst vel til við útiræktun í Kollafirði á Ströndum 2021.“

Eyjólfur segir að þau hafi ekki rætt við Sölufélag garðyrkjumanna (SFG) í upphafi um afsetningu afurðanna. „Við höfðum samband við þá þegar útlit var fyrir talsverða uppskeru og þeir tóku jákvætt á móti okkur enda frekar vöntun en hitt á þeim tegundum sem við prófuðum að rækta,“ segir hann en bæði árin hafa þau verið með blómkál, spergilkál og hvítkál í ræktun og bættu við sig gulrófum síðasta sumar.

Sjálfsafgreiðsluskúr í sumar

„Lóa [Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir, eiginkona Eyjólfs] er frá Erpsstöðum og við höfum haft grænmeti til sölu þar á sumrin og talsvert magn sem fer í gegnum búðina þar,“ heldur Eyjólfur áfram. „Við stefnum síðan á að opna sjálfsafgreiðsluskúr við afleggjarann hjá okkur í sumar þar sem vörur frá okkur verða til sölu. Við sendum einnig í SFG það sem er umfram enda erum við ekki með mikið geymslurými. Í fyrra sendum við einu sinni í viku beint suður – uppskorið að morgni, pakkað og komið í kæli síðdegis og til SFG að morgni daginn eftir. Flutningskostnaður er þó talsverður – og nánast eins og villta vestrið ef maður skoðar ekki reikningana vel – en ég vil koma þökkum til Magnúsar Svavarssonar hjá Vörumiðlun sem flutti afurðirnar suður í fyrra á góðum kjörum og studdi þannig við nýsköpun á svæðinu. Byggðastofnun sér um endur- greiðslu á styrkhæfum flutnings- kostnaði og þó hafi verið gerðar breytingar á umhverfinu í fyrra í þágu smærri framleiðenda þá er endurgreiðsluhlutfallið 10-15 prósent af útlögðum kostnaði,“ segir Eyjólfur.

Eydís Helga, 6 ára í Ásgarði, hjálpar til við útplöntun.
Stuðningur nam 495 þúsund krónum á hektarann

Fjölskyldan í Ásgarði er með eins hektara spildu undir ræktunina, en nota ekki nema rúmlega helminginn undir beina ræktun, annað fer að sögn Eyjólfs í akstursleiðir og aðgengi að reitum. Eins sé talsverð bleyta í hluta spildunnar og varla fært um hana þar.

Hann segir að á síðasta ári hafi jarðræktarstyrkurinn numið 495 þúsund krónum á hektarann fyrir útiræktun á grænmeti sem er ræktað ofanjarðar.

Vantar fjárfestingastuðning við greinina

Þegar Eyjólfur er spurður um hvort þau hafi leitt hugann að tilraunum með nýjar tegundir, segir hann að það séu vissulega tækifæri. „Það vantar hins vegar talsvert upp á stuðninginn við greinina til að taka næstu skref. Við erum alltaf að prófa okkur eitthvað áfram, en eins og kemur fram í viðtali við Höllu Sif Svansdóttur Hölludóttur [garðyrkjubónda hjá Sólskins grænmeti] í síðasta Bændablaði þá er talsverð fjárfesting fólgin í þessari ræktun og fjárfestingastuðningur við að koma sér upp aðstöðu, svo sem til frekari úrvinnslu eða geymslu á vörunni, er ekki til staðar. Slík aðstaða gæti vel aukið framboð af vörunni og aukið vöruúrval.

Til að stunda þetta þarf fólk að hafa áhuga á verkefninu en það skortir ekki síður talsvert stuðning og almenna fræðslu til að fá fleiri inn í greinina. Við höfum mest verið að fikta okkur áfram og vitum ekkert endilega hvort við séum alltaf að gera rétt eða fara nákvæmlega eftir fræðunum.

Eins verð ég að nefna óbeinan stuðning við greinina en í fyrra komst íslenska framleiðslan ekki á markað því verslunin var að klára stóran innfluttan lager. Það ætti að vera einföld aðgerð sé vilji til þess að hafa verndartoll á útiræktuðu grænmeti til að tryggja innlendu framleiðslunni aðgang að markaði þessa 2-3 mánuði sem er möguleiki að uppskera á Íslandi.

Varðandi okkar ræktun þá erum við að prófa og höfum hugmyndir en fæst orð bera minnsta ábyrgð um hvað verður í framtíðinni,“ segir Eyjólfur. 

Jákvætt skref

Eyjólfur telur það jákvætt skref að styrkhæft land hafi verið minnkað niður í fjórðung hektara við síðustu endurskoðun búvörusamninga, því fleiri smærri framleiðendur eigi nú kost á stuðningi.

„Það er nú bara allnokkur uppskera sem hægt er að fá af 0,25 hekturum. Hvort fleiri komi inn í ræktunina held ég að ráðist frekar af ytri stuðningi við greinina því það er hellings fjárfesting að byrja í þessari ræktun og okkur finnst aðfangakostnaður eins og til dæmis fræ, bakkar, dúkar og fleira hafa hækkað talsvert síðustu tvö ár. En breytingin er jákvæð og sjálfsagt lækkar styrkupphæðin eitthvað sem hver og einn fær, en hún ein og sér er ekki aðalmálið í stóra samhenginu.“

Aðrir styrkir í boði

Að sögn Eyjólfs fengu þau veglega styrki úr Sóknaráætlun Vesturlands og Dala Auði, sem munað hafi um. „Það vantar hins vegar alveg stuðning og hvata til þróunar og tilraunamennsku.

Sjálfsagt er hægt að rækta og kynbæta yrki sem henta betur við okkar aðstæður en það vantar líka fjárfestingastuðning – það er enginn að fjárfesta í miklum tækjabúnaði eða aðstöðu í dag miðað við þau kjör sem lánastofnanir bjóða.

Við sóttum líka um í Lóu nýsköpunarsjóði og fengum þau svör að hugmyndin væri góð en félli ekki að markmiðum sjóðsins – þannig að það skortir verulega á stuðning við útiræktun grænmetis og vert að minnast á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru stór orð á blaði en minna um efndir frá því stjórnin tók við í árslok 2021,“ segir Eyjólfur og vísar til ákvæða í sáttmálanum þar sem segir: „Aukinni framleiðslu á grænmeti verður náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun í gegnum búvörusamninga.“

Staðreyndin er hins vegar sú að stöðnun hefur ríkt í innlendri framleiðslu á útiræktuðu grænmeti, sem sést þegar skoðaðar eru framleiðslutölur áranna frá 2017 til 2023.

Í gildandi búvörusamningum sem voru undirritaðir árið 2016 var þó tiltekið að við endurskoðun hans árið 2023 hefði framleiðsla á íslensku grænmeti aukist um 25 prósent, miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019, í því miði að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu.

Indíana Þórsteinsdóttir í Vallakoti.
Byrjuðu í einum hektara til reynslu

Annar öflugur vaxtarsproti útiræktunar er í Vallakoti í Þingeyjarsveit, þar sem Indíana Þórsteinsdóttir og fjölskylda eru að hefja sitt þriðja ræktunarsumar með óvenju margar tegundir en þau komu alveg ný og óreynd inn í greinina sumarið 2022. Á síðasta sumri var fjölskyldan með spergilkál, blómkál, grænkál, hvítkál, rauðkál, gulrófur, rauðrófur, hnúðkál og sellerí í ræktun. Af þessum tegundum eru rauðrófur, hnúðkál og sellerí fágætar innlendar tegundir á markaði.

Að sögn Indíönu, sem fluttist með fjölskyldu sinni í heimahagana í Þingeyjarsveit frá Noregi og byrjaði að rækta grænmeti á bújörð foreldra sinna, er ætlunin nú að rækta svipað magn og sömu tegundir og þau voru með í fyrra.

„Fyrir fyrsta sumarið okkar fórum við í raun út í ferlið án þess að hugsa mikið um hvernig varan yrði seld. Við byrjuðum í einum hektara til þess að prófa og vorum þokkalega róleg yfir sölumálum. Hugsuðum okkur að þetta myndi seljast enda engin í þessum bransa á svæðinu en gerðum okkur svo sem ekki grein fyrir magni af grænmeti sem kemur upp úr einum hektara. Við vissum af ræktunarstyrk og höfðum hugsað okkur að sækja styrki í þróunarverkefni seinna meir. Við sóttum um styrk hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi vorið 2022 til þess að breyta parti af ónotuðu fjósi í pökkunaraðstöðu og vinnslu en fengum þann styrk þó ekki. Rétt eftir að við vorum búin að forsá bauð SFG okkur á fund og vildu fá okkur í sölufélagið. Mér fannst það persónulega bara fyndið þar sem við erum svo lítil. En það hefur borgað sig að vera þar. Góð þjónusta sem verður vonandi enn betri núna á okkar þriðja ári. Við seljum okkar vörur á Akureyri í gegnum SFG, en annars staðar seljum við sjálf eins og í nærsveitum og í heimasölu. Í fyrra keyptu Bananar slatta af annars flokks grænmeti hjá okkur sem er vel og vonumst við til þess að selja enn meira af þeirri frábæru vöru í ár.“

Nálgast ræktunina sem mataráhugafólk

Á öðru ræktunarári sínu stækkuðu Vallakotsbændur ræktarlandið upp í þrjá hektara og fengu út á það um eina og hálfa milljón króna í jarðræktarstyrk. Indíana útskýrir valið á ræktunartegundunum þannig að í raun nálgist þau ræktunina sem mataráhugafólk, rauðrófu- og selleríræktunin sé til dæmis birtingarmynd þess.

„Rauðrófuræktunin er mjög óalgeng hér en okkur þykir hún mjög skemmtileg. Við höfum líka verið að prófa sellerí án þess að vera með upphitaðan jarðveg. Það hefur tekist ágætlega. Það vex ekkert voðalega en hefur verið mjög bragðgott hjá okkur. Síðasta haust settum við svo niður slatta af hvítlauk í tilraunaskyni og við erum mjög spennt að sjá hvað kemur út úr því. Við erum mikið matarfólk, áhugasöm um ræktun og tilraunir sem og sjálfbærni. Okkur þykir fátt skemmtilegra en að gleðja fólk sem getur keypt fjölbreytta og ferska vöru í matinn hjá okkur.

Ef að það væri ekki svona mikið vesen myndum við gjarnan vilja hafa stærri part af akrinum undirlagðan í alls konar grænmetistegundum. En til þess þarf réttu græjurnar, eins og t.d. þvottaaðstöðu fyrir rófurnar sem við erum því miður ekki með. Helmingurinn af akrinum hjá okkur er spergilkál en það er tegund sem þolir kalda tíð, auðvelt í vinnslu, selst alltaf og geymist vel. Þessar tilraunir okkar gefa ekki mikið í budduna en mikið væri gaman að rækta rauðrófur á þremur hekturum.“

Vöruúrval frá Vallakoti.
Verðmætin í hliðarafurðunum

Indíönu er umhugað um hámarks nýtni og sjálfbærni ræktunarinnar. „Okkur finnst líka spennandi, en hefðum líka verið til í betri viðbrögð yfir því, að nýta akurinn betur eftir að uppskeru lýkur. Það liggja nefnilega þvílík gersemi eftir niðri á akri þegar við erum búin að uppskera. Öll þessi næringarríku blöð og stilkar sem fáir vilja og við höfum hvorki efni né tíma í að nýta sjálf nema aðeins ofan í kindurnar okkar. Það er hreint ótrúlegt að ekki sé gert meira við þessa parta af plöntunum. Það væri frábært ef einhver væri til í að nýta þessar aukaafurðir í eitthvert
þróunarverkefni til dæmis.

Síðan auðvitað ætlum við að fara að vinna úr vörunni okkar. Það er þar sem áhugi okkar liggur og þar sem peningarnir eiga heima. Foreldrar mínir, Jóhanna Magnea og Þórsteinn Rúnar, hafa selt heimaunnar búvörur í mörg ár en aldrei úr sínu eigin grænmeti. Það þykir okkur ótrúlega spennandi og vonumst við til þess að geta fengið styrk út á það, eins og til dæmis til að bæta aðstöðu okkar og útbúa vinnslu,“ segir Indíana.

Liljar Þór Arnþórsson hjálpar til við skurðinn.
Kostnaðurinn við að byrja að rækta

Indíana telur að breytingarnar sem urðu á búvörusamningunum leiði ekki beint til fjölgunar í greininni. „Því miður held ég að það verði ekki. Það fylgir því auðvitað kostnaður að byrja að rækta grænmeti. Þú þarft að hafa aðstöðu til þess að forsá í gróðurhúsi, þú þarft að vinna upp land, kaupa vélar ef þú átt þær ekki fyrir, mold, dúka og fleira. Eða ef þú ferð í grænmetisræktun sem ekki þarf að forsá fyrir þá þarftu réttu græjurnar í þvotta og annað.“

Varðandi möguleikana í íslenskri útiræktun bendir Indíana á að hér sé hægt að rækta miklu meira af því grænmeti sem selt sé innanlands. „Það ætti auðvitað að vera hvatning fyrir bændur að prófa nýja hluti sem og þróa sínar vörur og tala nú ekki um að kynbæta tegundir með tilliti til íslenskt veðurfars, þá myndum við nú öll vinna. Það hlýtur að vera miklu betra fyrir okkur öll að við gætum ræktað og alið mat ofan í okkur sjálf heldur en að fá það sent að utan. Við vitum aldrei hvað gerist í þessum furðulega heimi okkar og hvort eða hvenær við þurfum að geta staðið á okkar eigin fótum óháð öðrum.“

Tækifæri sem aukabúgrein

Halla Sif, sem Eyjólfur nefnir hér að framan, er garðyrkjubóndi, eigandi Sólskins grænmetis, auk þess sem hún situr í stjórn deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands. Hún kom sjálf ný inn í greinina fyrir fáeinum árum og keypti þá Mela á Flúðum, sem var ein af stærri garðyrkjustöðvum Íslands, bæði í úti- og ylrækt grænmetis. „Við sáum þetta dálítið þannig við endurskoðunina að fyrst ekki var meira fjármagn í boði þá gæti þetta ákvæði, að minnka styrkhæft land í útiræktuninni, kannski verið gagnlegt til að opna dyrnar bæði fyrir nýliða og bændur í öðrum búgreinum að koma inn. Það var nefnilega dálítið stórt skref að taka áður, að fara beint í ræktun á einum hektara til að geta fengið einhvern stuðning. Þetta er hvatning fyrir þá sem stunda annan búskap að sjá meiri tækifæri í að taka hluta af hektara af landi undir til dæmis kálræktun sem ýtir þá undir betri skiptiræktun og bættari rekstrargrundvöll á þeirra búum. Salan getur þá mögulega farið fram beint frá bændunum til nærumhverfisins, fjarri borginni, frekar en að allt grænmeti fari í dreifingu í gegnum þessar hefðbundnu söluleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu.

Ég ímynda mér að það sé ekkert auðvelt til dæmis fyrir nýjan blómkálsræktanda sem er með litla framleiðslu að koma sér fyrir á markaði. Þá var hugsunin kannski sú að gera nýliðum auðveldara fyrir með þessari minnkun á styrkhæfu ræktarlandi að reyna fyrir sér í nýjum tegundum sem þá er hægt líka að selja á betra verði sem sérvöru í raun,“ segir Halla sem segist þó ekki vita af neinum sem ætli að nýta sér þessar breytingar í sumar. „Þetta var þó skásta leiðin sem í boði var sem hvatning til nýliðunar í útiræktuninni. Til dæmis þeir sem eru tilbúnir til að leigja land og bara fara ferskir af stað,“ bætir hún við.

Halla segir að á móti þessu vegi sú staðreynd að heildarstyrkupphæðin þynnist út eftir því sem fleiri bætist við. Hins vegar sé mikilvægt þá að sýna stjórnvöldum að það sé áhugi á því að komast inn í greinina, í því skyni að hægt verði að sækja aukna fjármuni í framtíðinni.

Vænleg rauðrófuræktun

Eins og fram hefur komið hér að ofan hafa nokkrar nýjar tegundir verið reyndar á undanförnum árum; hvítlaukur, nípur og rauðrófur til dæmis. Rauðrófur nefnir Helgi Jóhannesson, garðyrkjuráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð land- búnaðarins, sérstaklega sem vænlega tegund sem væri hægt að rækta í meira mæli hér auk þess sem markaðsaðstæður séu líka hagstæðar þar sem mikið er flutt inn af henni. Hann segir að hún sé þó ekkert auðveld í ræktun og þurfi langan vaxtartíma.

Varðandi breytingarnar á garðyrkjusamningnum segir Helgi að með þeim hafi verið að vissu leyti komið til móts við smærri framleiðendur, þannig að þær ættu rétt á einhverjum stuðningi.

Jarðræktarstuðningurinn virki þannig að hver framleiðandi sæki um þann hektarafjölda sem hann er með í ræktun og svo fá þær umsóknir sem samþykktar eru eftir úttektir útdeilt hlutfallslega úr þeim potti sem sé til ráðstöfunar. Það þurfi að vera uppskorið land.

Helgi Jóhannesson
Skortur á þróunarfé til þekkingaröflunar

Helgi segir að einungis örfáir nýir aðilar hafi gefið sig að honum undanfarið og óskað eftir ráðgjöf um fyrstu skrefin í útiræktun. Þeir séu þó ekki að hugsa um neinar nýjar tegundir fyrst um sinn, heldur þær sem þegar er komin góð reynsla af. Varðandi annað rótargrænmeti, matlauk og annað grænmeti sem flutt er til landsins í stórum stíl, segir Helgi að vandamálið sé að verðið sem þurfi að keppa við sé svo lágt. Garðyrkjubændur geta eiginlega ekki lagt út í slíka samkeppni nema hægt sé að skapa sér einhverja sérstöðu, til dæmis á forsendum gæða og uppruna – eins og ýmis dæmi séu um Íslandi. Til dæmis væri örugglega vel hægt að selja ferskan íslenskan matlauk, eins og nú er reynt til dæmis með hvítlauk.

Hann segir margar tegundir sem fluttar eru hingað inn vera á mörkum þess að vera hægt að rækta á Íslandi, en undirstöðurannsóknir og tilraunir með yrki vanti þó tilfinnanlega fyrir greinina eins og sé í kornræktinni.

Þar vanti þróunarfé, sem væri þá hægt að nýta til þekkingaröflunar hjá bændum og í fræðasamfélögum. 

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...