Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Afli úr einum sandsílaplógi í Faxaflóa þar sem farið var yfir botn sem samsvarar 357 fermetrum. Aflinn sem fékkst var mest síli á fyrsta ári (0-grúppu síli) eins og sjá má í hendinni.
Afli úr einum sandsílaplógi í Faxaflóa þar sem farið var yfir botn sem samsvarar 357 fermetrum. Aflinn sem fékkst var mest síli á fyrsta ári (0-grúppu síli) eins og sjá má í hendinni.
Mynd / Valur Bogason
Fréttaskýring 2. mars 2021

Örlagavaldur kríu og lunda

Höfundur: Vilmundur Hansen

Sandsíli er algengur fiskur við Ísland. Ekki hafa verið stundaðar atvinnuveiðar á sandsíli hér við land líkt og í Norðursjó. Þótt sílið gefi ekki af sér beinar tekjur hér gegnir það afar þýðingarmiklu hlutverki í lífríkinu. Sandsíli er nefnilega mjög mikilvæg fæða margra nytjafiska, sjávarspendýra og ekki síst sjófugla. Suður og suðvestur af landinu er síli fæða þorsks, ýsu, skarkola og fleiri tegunda.

Þrjár tegundir og nafnaruglingur

Valur Bogason, sjávarvistfræð­ingur og starfsstöðvarstjóri Hafrannsókna­stofnunar í Vestmannaeyjum, hefur lagt stund á rannsóknir á sandsílinu og er hér á eftir byggt á upplýsingum frá honum.

Hér við land eru 3 tegundir af sandsílaætt: Sandsíli (Ammodytes tobianus), marsíli (Ammodytes marinus) og trönusíli (Hyperoplus lanceeolatus). Sandsíli og marsíli eru svo lík í útliti að það þarf að telja hryggjarliði til að greina tegundirnar í sundur. Ekki var gerður greinarmunur á sandsíli og marsíli fyrr en skoskur maður sýndi fram á það árið 1934 að hér væri um tvær tegundir að ræða. Bæði í Norðursjó og hér við land er marsílið mun algengara. Í daglegu tali er orðið sandsíli notað sem samnefnari fyrir marsíli og sandsíli, því nafn marsílis hefur aldrei náð að festa sig í sessi í málinu.

Trönusílið er töluvert stærra en sandsíli og tiltölulega auðvelt að greina það frá sandsíli. Eiginlegt sandsíli og trönusíli eru frekar sjaldgæfar tegundir hér við land og finnast aðeins við suður- og vesturströndina.

Botngerð afgerandi

Marsíli er lang algengasta tegundin af ætt sandsíla eins og áður er getið og finnst umhverfis allt land. Það lifir á 10 til 150 metra dýpi en mestur er þéttleiki þess á 30 til 70 metra dýpi. Marsílið getur orðið átta ára og er meirihluti orðinn kynþroska eins árs. Sílið er langvaxið og mjótt og verður allt að 25 sentímetrar að lengd. Hrygning fer fram frá nóvember til janúar.

Verið að losa pokann úr sandsílatogi með trolli. Aflinn sem sést er mest tveggja ára og eldra síli.

Fyrir síli er búsvæði (botngerð) afgerandi þáttur og ræðst val búsvæða af kornastærð í botni og dýpi auk þess sem straumur yfir botni þarf helst að vera meiri en 0,6 metrar á sekúndu. Eftir að þau taka botn á fyrsta sumri þá eru þau staðbundin á sínu búsvæði og eru ýmist uppi í sjó eða grafa sig í niður í sandbotn. Það fer síðan eftir tíma dags og árstíma í hve miklum mæli þau liggja grafin. Síli eru í vetrarástandi frá hausti fram á vor og liggja þá meira og minna grafin í sandinn fyrir utan hrygningartímann. Sjómenn kannast við það að sílið gýs allt í einu upp í sjó í miklu magni eins og hendi sé veifað. Þá er sílið að koma upp úr sandinum.

Slæmt ástand

Íslenski sandsílastofninn hefur verið í lægð nánast frá aldamótum. Steininn tók úr árið 2005 þegar varp sjófugla beið mikinn hnekki vegna fæðuskorts. Einkum brást varp kríu á sunnanverðu landinu og varp lunda í Vestmannaeyjum en þeir reiða sig á sandsílaseiði til að koma upp ungum.

Sandsílið hafði lengi vel verið lítið rannsakað en þegar varp fugla fyrir sunnan misfórst hófust reglubundnar rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á fjórum svæðum sunnan og vestan við landið árið 2006. Í ljós kom að aldursdreifing var svipuð og kom fram í eldri gögnum frá árinu 1998 en nýliðun var léleg. Síðan þá hefur nýliðun verið léleg flest ár. Það var aðeins 2007 árgangur sem skilaði sér vel sem eins árs fiskur og var áberandi næstu ár á eftir. Eftir það hefur aldursdreifing sílis verið þannig að seiði eru mest áberandi en hafa ekki náð að skila sér sem eins árs nýliðar og lítið fæst af eldra síli.

Þegar vöktun hófst var þéttleiki mjög lítill við Vestmannaeyjar og virtist sem stofn sandsílis þar hafi orðið fyrir áfalli sem hafði nánast þurrkað hann út. Svæðið tók aðeins við sér með tilkomu 2007 árgangs en fjaraði síðan aftur út. Við Ingólfshöfða minnkaði þéttleiki smá saman þegar eldra síli, sem var til staðar í byrjun, lauk sínu æviskeiði. Staðan þar er á svipuðum nótum og við Vestmannaeyjar í dag. Ástandið í Breiðafirði og Faxaflóa hefur verið heldur skárra og komið hafa toppar í fjölda seiða í Faxaflóa sem hafa þó ekki skilað sér árið eftir.

Ástand síðustu árin hefur verið svipað og lítil merki um breytingar. Í rannsóknarleiðangri síðastliðið haust var þéttleiki með því besta sem sést hefur frá því vöktun hófst en það á enn eftir að koma í ljós hvernig sú mæling skilar sér sem eldra síli.

Áður en vöktun hófst var lítið vitað um stofnstærð og því ekki hægt að leggja mat á það hversu langt stofninn hefur farið niður á þeim svæðum sem eru vöktuð. Vöktunin gengur út á það að fylgjast með stofnbreytingum. Þegar stofninn tekur aftur við sér verður hægt að leggja mat á stærðargráðuna á því hversu langt hann fór niður í þessari lægð sem hófst um aldamótin.

Þess má geta að meðalfjöldi sandsíla í þorsk- og ýsumögum hefur verið talsvert breytilegur á milli ára en hefur farið minnkandi smám saman. Rannsóknir hafa sýnt að hlutfall ýsumaga sem innihalda sandsíli að haustlagi hefur farið lækkandi frá árinu 1999 og hefur verið í lágmarki flest ár frá 2004 fyrir utan árið 2007.

Breytt umhverfisskilyrði

Þessa lægð í sandsílastofninum má að öllum líkindum rekja til þeirra umhverfisbreytinga í hafinu sem hafa orðið með hækkandi sjávarhita. Hins vegar hefur ekki enn tekist að tengja eina ákveðna umhverfisbreytu við þetta ástand og líklega eru margir samverkandi þættir sem hafa áhrif. Hugsanlega gæti hrygning og klak verið að hitta illa á þann tíma þar sem fæðuframboð er mest fyrir seiðin. Einnig gæti fæðuframboð og samkeppni við aðrar tegundir um fæðu verið einn áhrifaþáttur ásamt auknu afráni.

Eftir síðustu aldamót uxu hér upp stórir árgangar af ýsu en ýsan étur fullvaxin sandsíli og líklega einnig hrogn sandsílis. Einnig voru stofnar lýsu, skötusels og síldar í sókn. Þá hóf makríll innreið sína í íslenska landhelgi á sumrin en hann leggur sér síli til munns. Þótt aukið afrán geti átt sinn þátt í því að stofn sandsílis hafi minnkað frá síðustu aldamótum er samt talið ósennilegt að afrán sé beinn orsakavaldur nýliðunarbrests hjá sandsíli.

Ástæður þess hvers vegna ástandið við Vestmannaeyjar var mun lakar við upphaf vöktunar en annars staðar eru ekki enn þekktar.

Hlutfall ljósátu aukist

Fiskar og fuglar eru misjafnlega háðir því að nægt framboð sé af sandsíli því flestar tegundir hafa aðgang að annarri fæðu. Lægð í sandsílastofninum hefur aðallega komið fram í erfiðleikum í kríuvarpi, lengst af sunnan og vestanlands, og viðvarandi erfiðleikum í varpi lunda í Vestmannaeyjum.

Pysjur nærðust nær eingöngu á sandsílum á vaxtartíma sínum. Sé sandsílið ekki til staðar í hæfilegri fjarlægð frá varpstað er mun erfiðara að koma pysjum á legg. Lundi hefur verið að bjarga sér á öðrum tegundum sem fæðu fyrir pysjur, t.d. hefur hlutfall ljósátu vaxið mikið í fæðu lundans síðustu ár. Betri varpárangur lunda frá 2017 má rekja til þessara fæðubreytinga en ekki til aukningar í sandsíli.

Tilraunir til veiða við Ísland

Tilraunir voru gerðar til að veiða sandsílið hér við land á árunum 1978 til 1980. Eyjólfur Friðgeirsson fiskifræðingur gerði grein fyrir þessum tilraunaveiðum í tímaritinu Ægi 1983.
Á þeim tíma var talið að enginn vafi léki á því að sandsílið, þ.e. marsílastofninn, væri vannýtt tegund og byði upp á nokkra veiðimöguleika. Eyjólfur taldi sennilegt að óhætt væri að veiða um 30 til 40 þúsund tonn á ári.

Árið 1978 fékk einn bátur leyfi til tilraunaveiða á sandsíli fyrir sunnan land. Árangurinn var misjafn eftir svæðum. Aflinn varð samtals 1.200 tonn. Árið eftir voru tveir bátar að veiðum og þrír fengu leyfi árið 1980. Svo fór að meðafli reyndist vandamál, sérstaklega árið 1980, og var það meginástæðan fyrir því að tilraunaveiðum var hætt að sögn Eyjólfs.

Valur Bogason sagði að nokkrar umsóknir hefðu borist um heimild til að veiða marsíli/sandsíli til beitu á árunum í kringum síðustu aldamót. Fékk einn bátur leyfi til tilraunaveiða árið 2001. Veiðum hefði hins vegar verið hætt eftir stuttan tíma vegna mikils meðafla.

Veiðar Dana og Norðmanna

Atvinnuveiðar eru stundaðar á marsíli/sandsíli í Norðursjó, Skagerak og Kattegat, aðallega af dönskum og norskum skipum. Sílið er mjög mikilvægt hráefni fyrir fiskimjölsiðnaðinn.

ESB gefur út heildarkvóta fyrir aðildarríki sín og ganga rúm 90% kvótans til Danmerkur. Norðmenn gefa út sinn eigin kvóta. Á síðasta ári veiddu Danir samtals 248 þúsund tonn af sandsíli en Norðmenn veiddu um 244 þúsund tonn.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...