Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sala á hreinleikavottorðum orkufyrirtækja samræmist alls ekki og vinnur gegn þeim áherslum sem bændur í garðyrkju og öðrum greinum hafa lagt á hreinleikaímynd Íslands.
Sala á hreinleikavottorðum orkufyrirtækja samræmist alls ekki og vinnur gegn þeim áherslum sem bændur í garðyrkju og öðrum greinum hafa lagt á hreinleikaímynd Íslands.
Mynd / BBL
Fréttaskýring 24. október 2018

Landsvirkjun neitar að gefa upp tekjur af sölu upprunavottorða á raforku

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Enn er ekkert lát á sölu hrein­­leika­vottorða íslenskra orku­fyrirtækja úr landi. Það er þrátt fyrir að ráðherrar og þingmenn hafi lýst furðu sinni á þessu athæfi fyrir þrem árum. Eru slík vottorð í hávegum höfð hjá jarðefnaeldsneytisknúnum erlendum raforkuverum. Enda geta þau með slíkum vottorðum sagst framleiða raforku með hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum. 
 
Þrátt fyrir að þetta sé vitað, neitar hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun að upplýsa hvert vottorðin eru seld og hvað fáist nákvæmlega greitt fyrir þau. 
 
 
Ef við setjum þessar tölur Orkustofnunar í samhengi við þá mengun sem Íslendingar tóku á sig í fyrra fyrir erlend orkuver og verksmiðjur, þá sitjum við uppi eftir vottorðasöluna á síðasta ári með  8.602.141.680.000 grömm, eða rúmlega 8,6 mill­jónir tonna ígildi af koldíoxíði og 16.737.930.000 milligrömm af geislavirkum úrgangi, eða 16,74 tonn. Þetta eru opinber gögn em vísa til hreinleikaímyndar Íslands af raforkuframleiðslu. Landsvirkjun segir aftur á móti að engin tengsl séu vegna sölu hreinleikavottorða og þátttöku Íslands í samevrópska upprunaábyrgðakerfinu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. – Er sá leikur þá bara blekking?
 
Í staðinn fyrir útflutning uppruna­vottorða verða Íslendingar að taka á sig og skrá það inn í bókhaldið hjá Orkustofnun um orkuframleiðslu að íslenska orkan, sem framleidd er með vatnsafli og jarðvarma, sé menguð í takt við það sem erlendu fyrirtækin losa sig við á pappírunum. Þannig var einungis 13% af raforku sem framleidd var á Íslandi 2017 sögð vera framleidd með endurnýjanlegri orku í gögnum Orkustofnunar. Hins vegar var 58% orkunnar sögð eiga uppruna sinn í jarðefnaeldsneyti og 29% í kjarnorku. 
 
Er verið að blekkja almenning? 
 
Landsvirkjun segir í svari til Bændablaðsins um þessi mál að sala upprunaábyrgða hafi engin tengsl við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Ef það er svo þá hljóta erlend orkuver sem kaupa þessar ábyrgðir einungis að vera að fegra sína ímynd og eru þá um leið að blekkja viðskiptavini sína með fölsunum á uppruna sinnar orku. Það er þá gert með dyggri aðstoð íslenskra orkufyrirtækja og velvilja íslenskra stjórnvalda. 
 
Stærstu mengunarvaldarnir utan sviga
 
Þetta er hluti af gríðarlega umfangs­mikilli umræðu um loftslagsmál þar sem stór hluti þeirrar mengunar sem þjóðir heims sögðust vera að kljást við t.d. í Parísarsamkomulaginu er utan sviga og ósnertanleg. Þess vegna hefur meginaflinu í baráttunni hingað til verið beint að orkunotkun almennra borgara og þá ekki síst að notkun fólks á ökutækjum. Þar eru stærðir sem tiltölulega auðvelt er að skilgreina og skattleggja ef svo ber undir. Það er allavega talið geta friðað samvisku sumra, en á meðan fá allir stærstu mengunarvaldarnir frið, m.a. með beitingu á blekkingum á borð við flöggun hreinleikavottorða. Þar á meðal eru orkuver sem knúin eru með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku,  sem og allur flugrekstur eins og hann leggur sig. 
 
Árið 2014 var áætlað að flug í íslenskri lofthelgi mengaði margfalt á við stóriðjuna í landinu. Síðan hefur flugið margfaldast. 
 
Í skýrslu Carbon Footprint of Inbound Tourism to Iceland frá 2016 segir meira að segja að hlutur íslensku flugfélaganna í losun CO2 á Íslandi sé meiri en frá álverunum. Þá  menga álverin fjórfalt meira en allur bílafloti landsmanna.
 
Utan sviga er líka koltvísýrings- og brennisteinsvetnislosun frá skipum, stóriðnaður eins og stál-, áliðnaður og kísilver sem og losun mýrlendis. Svo ekki sé talað um gríðarlega losun á metangasi úr freðmýrum Rússlands og Kanada og koltvísýringslosun, m.a. úr íslenskum eldfjöllum eins og nýlegar vísindarannsóknir sýna. Þær rannsóknir komu mönnum mjög á óvart, en þær sýndu að Katla er stöðugt að losa um 20 þúsund tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið á dag. 
 
Töldu vísindamenn að þetta ástand gæti allt eins hafa varað í áratug eða jafnvel marga áratugi. Þá hafa menn engar slíkar mælingar yfir öll önnur eldfjöll og háhitasvæði á Íslandi. 
 
Þessi nýju sannindi vörpuðu óneitanlega ljósi á hvað vísinda­menn virðast í raun hafa litlar forsendur til að áætla hvaðan heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni er upprunnin. Eina haldbæra reiknanlega nálgunin virðist vera losun af mannavöldum. Hún er svo að stærstum hluta utan sviga í markmiðum og samningum sem gerðir hafa verið um að draga úr losun. Svo furða menn sig á slökum árangri í þessari baráttu.
  
Skýrsla IPCC veltur miklu uppnámi
 
Þessi skekkja í umræðunni kom berlega í ljós eftir mikið upp­hlaup í kjölfar birtingar 400 blaðsíðna harðorðrar skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) þann 8. október sl. Hefur skýrslan valdið miklu fjaðrafoki, enda er þar örlítið komið við kaun stórra mengunarvalda eins og í kolaiðnaði, sem eru enn utan sviga í alþjóðasamningum. Öfgaraddir á báða bóga fengu þar sannarlega byr undir báða vængi. Gæti þetta hæglega dregið dilk á eftir sér og valdið uppnámi í frekari takmörkunum á losun CO2 sem flestir telja þó mikilvæg markmið. 
 
Baráttan getur hæglega snúist upp í andhverfu sína
 
Það er stundum þannig að þegar menn beita of miklum ákafa í baráttunni og taka of djúpt í árinni til að koma sínum málstað áfram, þá getur viðleitnin fætt af sér harða  andstöðu. Talsvert hefur bryddað á slíku í síaukinni skattlagningu á sumar eldsneytistegundir. Nú vilja sumir ganga þar enn harðar fram á meðan stærstu mengunarvaldarnir fá frið. Um leið er ekki verið að taka tillit til þess að á notendahliðinni sem helst verður fyrir barðinu á skattlagningu er oftar en ekki venjulegt fjölskyldufólk, ásamt öldruðum og öryrkjum. Þetta fólk þolir illa endalausar skattahækkanir. 
 
Krafa um 45% samdrátt í losun á CO2
 
Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna segir að þörf sé á skjótum og víðtækum breytingum í orkumálum, landnýtingu, iðnaði, samgöngum og skipulagi borga í heiminum til að afstýra loftslagsbreytingum sem geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir mannkynið. Minnka losun koltvísýrings af mannavöldum um 45% fyrir árið 2030 frá því sem hún var árið 2010. 
 
Gert er ráð fyrir því að 85% af orkunni, sem notuð er í heiminum, komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum ekki síðar en árið 2050 og notkun kola verði næstum þá orðin nær engin. 
 
Enn fremur er talið að nota þurfi alls sjö milljónir ferkílómetra af landi (svæði sem er heldur minna en Ástralía) til að framleiða lífrænt eldsneyti. Það er þá væntanlega jurtaolía og etanól til notkunar á dísilbíla sem um leið er gert ráð fyrir að verði meira og minna bannaðir. Einhverjir kunna að spyrja hvort í því felist ekki töluverð þversögn. 
 
Ástralir æfir
 
Það er kaldhæðnislegt að talað sé um að taka þurfi land á stærð við Ástralíu undir framleiðslu á lífdísil. Enda brugðust Ástralir ókvæða við skýrslunni, en þeir eru einmitt stórframleiðendur á kolum og standa kol fyrir 60% af þeirra raforkuframleiðslu. 
 
Neita áströlsk yfirvöld algjörlega að gefa kolavinnslu og notkun upp á bátinn eins og IPCC gerir ráð fyrir og telja þessi áform algjörlega óraunhæf. Michael McCormack, varaforsætisráðherra Ástralíu, segir að stefnu stjórnvalda í notkun á kolum verði ekki breytt. Bent er á að fjölmörg þróunarríki reiði sig á kol frá Ástralíu og vandséð hvar þau eigi að fá nægilega ódýra orku í staðinn. 
 
Landsvirkjun neitar að upplýsa um tekjur af hreinleikavottorðum
 
Menn hafa farið ýmsar leiðir í viðleitni til að draga úr losun gróðurhúsa­lofttegunda. Snjallir  fjármálamenn hafa jafnvel fundið þarna leiðir til að búa til nýjar matarholur til að braska með. Ein þeirra eru huglæg viðskipti með hreinleika orkunnar eins og sölu upprunavottorða. Þar er búið að koma á kerfi í kringum sölu á hreinni ímynd. Þetta dregur samt alls ekkert úr mengun en slíkir hreinleikastimplar geta hins vegar stuðlað að því að fyrirtæki fái frið til að halda áfram að menga andrúmsloftið. 
 
Bændablaðið sendi Landsvirkjun margítrekaðar fyrirspurnir um sölu hreinleikavottorða eftir birtingu forsíðufréttar 23. ágúst síðastliðinn um sölu íslenskra orkufyrirtækja á „hreinleikavottorðum“ til erlendra orku- og iðnfyrirtækja. Svar barst loks þann 18. september og þar segir m.a.:
 
„Landsvirkjun hefur ekki gefið upp sundurliðaðar tekjur af sölu til einstakra viðskiptavina eða eftir tegund viðskiptavinahópa í ársreikningum, en hægt er að áætla útflutningsverðmæti fyrir Ísland í heild með því að skoða viðskipti orkufyrirtækjanna samanlagt.
 
Verð á markaði fyrir uppruna­ábyrgðir fer eftir samningum: tegund vinnslunnar, stærð virkjunar, aldri virkjunar og gæðavottunar sem virkjun hefur fengið. Verð á mörkuðum er síbreytilegt en hefur á síðustu árum verið frá 0,3 EUR til 2 EUR fyrir hverja MWst.“
 
Landsvirkjun vísar einnig til þess að Noregur flytji út miklu meira af hreinleikavottorðum en Ísland hefur gert, eins og það sé einhver afsökun. Það er hins vegar ekki tekið fram að hlutfall Norðmanna í sölu hreinleikavottorða af heildar­orkuframleiðslu er mun lægra en þekkist á Íslandi. Virðist hlutfallið vera hæst samkvæmt tölum AIB samtakanna, á Íslandi, í Hollandi og í Danmörku. 
 
Fáum í raun smáaura fyrir að menga 87% af okkar raforku 
 
Þótt Landsvirkjun gefi ekki upp hvað fyrirtækið fær fyrir sölu upprunavottorða, þá er hægt að áætla heildarsöluna á Íslandi með meðaltalsreikningi samkvæmt þeirra eigin tölum. Á árinu 2017 voru framleiddar 19.237 gígawattstundir (GWst) af raforku á Íslandi með vatnsafli, jarðhita og vindorku. Það jafngildir 19.237.000 megawattstundum (MWst). Meðaltalsverð fyrir hverja MWst samkvæmt tölum Landsvirkjunar gæti verið 1,15 evrur. Það þýddi að fyrir alla orkuna ætti þá að fást 22.122.550 evrur fyrir sölu hreinleikavottorða. 
 
Landsvirkjun selur þó 80% af sinni orku til stóriðju sem ekki er í þessu vottunarkerfi. Ef miðað er við að 80% af heildarorkuframleiðslunni fari líka til stóriðju, þá sætu eftir 4.424.510 evrur fyrir þau 20% sem eftir eru. 
 
Aðeins146 milljónir fyrir þátttöku í samevrópskum blekkingarleik?
 
Þar sem Landsvirkjun segir að 15% af sinni orku fari til fyrirtækja og heimila á Íslandi sem væntanlega eru enn ekki látin greiða fyrir hreinleikavottorð og ef það hlutfall yrði til einföldunar yfirfært á allan orkugeirann, þá standa eftir 5% eða rúmar 1.106.127 evrur fyrir sölu hreinleikavottorða. Það gerir á miðgengi Seðlabanka 16/10. 2018  rúmar 148 milljónir króna. 
 
Þátttakan í þessu samevrópska upprunaábyrgðakerfinu kostar Íslendinga það að þurfa opinberlega að vera með í bókhaldi sínu 87% af allri sinni raforkuframleiðslu 2017 skilgreinda sem skítuga orku. Orku sem framleidd er með kolum, olíu, gasi og kjarnorku. Fyrir þessa fórn eru menn einungis að fá samkvæmt meðalverði á markaði um 148 milljónir króna. Það hlýtur að vekja spurningar um hvort þátttakan í þessum blekkingarleik sé virkilega þess virði. 
 
Hrópandi þversagnir
 
Þá segir einnig í svari Lands­virkjunar til Bændablaðsins að öll sala Landsvirkjunar inn á heildsölumarkað sé vottuð sem endurnýjanleg með samevrópska upprunaábyrgðakerfinu fyrir árin 2016 og 2017. Þetta samstarf við sölufyrirtæki rafmagns var tilkynnt í maí 2017. Samt segir í gögnum Orkustofnunar að einungis 13% orkuframleiðslunnar eigi uppruna sinn í endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta virðist vart benda til annars en að samevrópska upprunaábyrgðakerfið sé hreinlega búið til sem peningamaskína í blekkingarskyni. Í rökum Landsvirkjunar um þetta atriði segir: 
 
„Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri. Tilgangur upprunaábyrgðakerfisins er að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu með því að gera raforkukaupendum kost á að styðja sérstaklega við endurnýjanlega framleiðslu. Það skapar aukinn fjárhagslegan hvata til slíkrar framleiðslu.“
 
Erfitt er að sjá hvernig kaup kolaorkuvera í Evrópu á upprunaábyrgðum frá Íslandi til að segjast selja hreina orku, styður þessa skýringu. Hins vegar er augljóslega auðvelt að nota kaup á hreinleikavottorðum til að búa til falleg rök til að hækka orkuverð þó orkan sé áfram framleidd með kolum. Enda segir Landsvirkjun beinlínis að slík vottun geti opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu.
 
Viðskiptakerfið njörvað við innleiðingu upprunavottorða
 
Greinilega er búið að tryggja þetta viðskiptakerfi í bak og fyrir og samkvæmt svari Landsvirkjunar er eingöngu hægt að segjast nota 100% endurnýjanlega orku með því að flagga upprunaábyrgðum. Þannig er verið að festa það í sessi að orkukaupendur eins og garðyrkjan verði að hafa upprunavottorð til að geta sagst framleiða sitt grænmeti með hreinni orku. Um þetta segir í svari Landsvirkjunar:
 
„Ef ekki er stuðst við uppruna­ábyrgðir er raforkukaupanda eingöngu heimilt að vísa til meðalsamsetningar orkugjafa í Evrópu sem er að stærstum hluta jarðefnaeldsneyti og kjarnorka. Þetta endurspeglast í tölum Orkustofnunar.“ 
 
Með öðrum orðum, garðyrkjustöð eða önnur matvælaframleiðsla sem ekki hefur upprunavottorð frá orkufyrirtækjunum getur ekki sagt annað en að orkan sem það notar sé haugskítug. Þannig hafi raforkan sem notuð var í fyrra verið 87% skítug og að 58% hluta framleidd með jarðefnaeldsneyti og 29% hluta með kjarnorku. 
 
Ímyndarlega mikilvægt
 
Einungis um 15% af raforkusölu Landsvirkjunar eru til heildsölunnar sem selur áfram til endanotenda (fyrirtækja og heimila). Landsvirkjun segir að slík vottun „auðveldi fyrirtækjum á Íslandi að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfismerkja og getur slík vottun opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum og þjónustu.“ – Skrítið, – þetta gátu fyrirtækin sjálf sem kaupa orkuna kinnroðalaust fullyrt með góðri samvisku á Íslandi og staðið við það, áður en viðskiptakerfi upprunaábyrgðanna var fundið upp.
 
Væntanlega hljóta menn að spyrja um leið hvort upprunavottorðin séu í raun ókeypis eða muni í framtíðinni verða falin inni í hærra orkuverði eða skilgreind sérstaklega á orkureikningum. 
 
Neyðast til að láta upprunavottorð fylgja orkunni á Íslandi
 
Landsvirkjun segist frá árinu 2016 hafa látið upprunaábyrgðir fylgja með allri raforku í heildsölu. 
 
„Öll sala Landsvirkjunar inn á heildsölumarkað [15%] er vottuð sem endurnýjanleg með samevrópska uppruna­ábyrgðakerfinu fyrir árin 2016 og 2017. Þetta samstarf við sölufyrirtæki rafmagns var tilkynnt í maí 2017,“ segir Landsvirkjun.
 
Það  þýðir að öll raforka sem keypt er í heildsölu af Landsvirkjun er vottuð að komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Ekkert kemur hins vegar fram um hvort þetta hafi breytt raforkuverðinu til hækkunar nú þegar, eða muni gera það í framtíðinni. 
 
Rétt er að benda á að uppruna­ábyrgðir voru ekki látnar fylgja til íslenskra orkukaupenda fyrr en eftir uppnám sem varð í kjölfar þess að  Bændablaðið birti fyrst fréttir um þessi mál sumarið 2015. Þar lýsti þáverandi formaður Sambands  garðyrkjubænda því þegar stilla átti garðyrkjubændum upp við vegg og neyða þá til að kaupa upprunavottorð fyrir ákveðna upphæð á kílóvattstund til að geta sagst nota hreina orku. 
 
Stórnotendur ekki inni í myndinni
 
Álver og önnur stóriðjuver á Íslandi hafa ekki óskað þess að vera inni  í samevrópska upprunaábyrgðakerfinu.
 
„Stórnotendur, sem kaupa um og yfir 80% af rafmagnsvinnslu Landsvirkjunar, hafa ekki óskað eftir slíku samstarfi, en við höfum lýst okkur reiðubúin til þess,“ segir í svari Landsvirkjunar til Bændablaðsins.   
 
Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hafa öll álverin á Íslandi flaggað því óspart að sú „hreina“ orka sem þau nota dragi úr loftmengun sem annars yrði ef álið væri framleitt með raforku frá kola-, olíu- eða gasorkuverum. Velta má fyrir sér hvort næsta skref Landsvirkjunar verði þá ekki að senda álverunum reikning fyrir hreinleikavottorð sem þau hafa ekki viljað kaupa til þessa. 
Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Hundrað hesta setningarathöfn
12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn