Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Hundruð þúsunda rafknúinna ökutækja streyma nú úr verksmiðjum bílaframleiðenda sem búnar eru rafhlöðum sem innihalda margvísleg efni sem geta verið skaðleg mönnum dýrum og náttúru. Lítil eftirfylgni virðist vera með að endurvinnsla á slíkum rafhlöðum sé  framkvæmd með ábyrgum hætti. Þá virðist í vaxandi mæli vera farið að senda þær til förgunar til fátækra ríkja með veika umhverfis- og lýðheilsulöggjöf.
Hundruð þúsunda rafknúinna ökutækja streyma nú úr verksmiðjum bílaframleiðenda sem búnar eru rafhlöðum sem innihalda margvísleg efni sem geta verið skaðleg mönnum dýrum og náttúru. Lítil eftirfylgni virðist vera með að endurvinnsla á slíkum rafhlöðum sé framkvæmd með ábyrgum hætti. Þá virðist í vaxandi mæli vera farið að senda þær til förgunar til fátækra ríkja með veika umhverfis- og lýðheilsulöggjöf.
Fréttaskýring 3. júní 2021

Endurvinnslumálum sópað undir teppið

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Innleiðing orkuskipta í sam­göngum er nú keyrð áfram af miklum krafti víða um heim á viðskiptalegum forsendum, en mikið skortir á að umhverfislegar afleiðingar hafi verið skoðaðar til hlítar. Einn þáttur þeirra orkuskipta er innleiðing rafbíla sem geyma orkuna í liþíum­jónarafhlöðum (Lithium-Ion) sem innihald margvísleg umhverfislega hættuleg efni. Innan við 5% af slíkum rafhlöðum sem teknar eru úr umferð eru nú endur­unnar.

Í mikilli ákefð við að vinna gegn loftslagshlýnun reyna flestir bílaframleiðendur nú að skora stig í vinsældasókninni með framleiðslu á rafbílum. Í blaðinu National Observer í Kanada segir að stjórnvöld í fjölda landa hafi stokkið á þann vagn og umfaðma tæknina sem felur í sér innleiðingu á rafhlöðum gerðum úr liþíum, kóbalti, mangani og fleiri hættulegum efnum. Áhugavert sé að þessi tækni er nú innleidd af svipuðum hraða og þegar plastiðnaðurinn hóf innreið sína af alvöru upp úr miðri síðustu öld, en ekki sé þar allt sem sýnist.
Orkuskipti og breyting á bílaflota yfir í rafknúin ökutæki er sagt stórt og nauðsynlegt skref til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, svo koma megi í veg fyrir verstu áhrifin af loftslagsbreytingum. Einnig er þessum umskiptum ætlað að draga verulega úr heilsufarsáhættu í tengslum við losun ökutækja á koltvísýringi. Stóru bílaframleiðendurnir eru því farnir að bjóða upp á að minnsta kosti einn rafknúinn bíl í framleiðslu, og sumir – þar á meðal Daimler, Volkswagen og General Motors –hafa heitið því að hætta framleiðslu bensín- og dísilvéla alfarið. Meira en tugur landa, þar á meðal mörg í Evrópu, hafa sagst ætla að banna sölu á bensíni og dísilbílum árið 2040 eða fyrr. Kalifornía tilkynnti einnig nýlega áætlun um að hætta notkun bensín- og dísilbíla fyrir árið 2035.

Rafbílar hafa líka sitt skítuga litla leyndarmál

National Observer birtir grein þar sem Perry Gottesfeld fjallaði um þessi mál í síðasta janúarmánuði en greinin birtist upphaflega í óhagnaðardrifna vefmiðlinum Undark í Bandaríkjunum. Gottesfeld er framkvæmdastjóri Occupational Knowledge International og meðlimur í ráðgjafarhópi um endurvinnslu á liþíumjónarafhlöðum í Kaliforníu sem heitir; California Environmental Protection Agency’s Lithium-ion Car Battery Recycling Advisory Group. Þar segir hann m.a.:

„Rafbílar hafa líka sitt skítuga litla leyndarmál. Sérhver rafbíll og flestir tvinnbílar reiða sig á stórar liþíumjónarafhlöður sem vega hundruð kílóa. Ein sú stærsta, er rafhlaðan fyrir Mercedes-Benz EQC, sem vegur um 700 kg. Venjulega eru slíkar rafhlöður gerðar úr kóbalti, nikkel og mangani, meðal annarra efna. Þessar rafhlöður kosta þúsundir dollara og þeim fylgja mikil umhverfisáhrif. Í þær þarf efni sem eru fengin úr mengandi námum og málmbræðslum víða um heim og þau geta að lokum mengað jarðveg og vatnsveitur ef þeim er ekki fargað á réttan hátt.“

Í greininni í National Observer er vísað til þess að rafbílaframleiðandinn Tesla hafi tilkynnt það í september síðastliðnum að fyrirtækið hygðist hætta notkun á kóbalti á næstu þrem árum. Kemur það í kjölfar mikillar gagnrýni á notkun þessa þungmálms og þann skaða sem vinnsla á honum veldur bæði á umhverfi og fólki sem við það vinnur. Bent er á að ef Tesla hætti að nota kóbalt í sína rafgeyma þá muni það líka leiða til þess að ávinningurinn af því að endurvinna notaðar bílarafhlöður hverfi. Síðan segir greinarhöfundur:

Endurvinnslumálum sópað undir teppið

„Þeir halda því fram að notaðar rafhlöður verði endurunnar. Sannleikurinn er þó sá að þeim er sópað undir teppið. Engar af liþíumjónarafhlöðum í rafknúnum ökutækjum er hægt að endurvinna í sama skilningi og pappír, gler og blýrafhlöður. Þó að viðleitni til að bæta endurvinnsluaðferðir sé í gangi, er almennt aðeins um það bil helmingur efna í þessum rafhlöðum tekinn og endurnýttur. Án dýrmætustu innihaldsefna verður lítill efnahagslegur hvati til að fjárfesta í endurvinnslutækni. Niðurstaðan er, að ef ekkert er gert til að auka hvatann til endurvinnslu, gæti þróunin leitt til umhverfislegrar skelfingar.“

Innan við 5% af bílarafhlöðum eru endurunnar

„Þrátt fyrir áframhaldandi rann­sóknir á endurvinnslutækni er ólíklegt að þetta ástand lagist. Framleiðendur litíum-rafhlöðu eiga enn eftir að þróa tæknina svo hægt sé að endurnýta efnin til að búa til nýjar liþíum-rafhlöður. Þess í stað er helst reynt að ná dýrmætu kóbalti og nokkrum öðrum dýrum málmum úr rafhlöðunum, en stór hluti efnanna verður afgangs. Við endurvinnslu á þeim efnum sem helst er sóst eftir myndast mikil loftmengun og úrgangsefni sem þá verða eftir eru gjarnan nýtt sem fylliefni í steypu eða aðrar byggingarvörur. Þetta er ein ástæðan fyrir því að innan við fimm prósent af liþíumjónarafhlöðum eru nú endurunnar.“

Flókin samsetning á rafhlöðum gerir endurvinnslu erfiða

Perry Gottesfeld segir að það flæki málið enn frekar að mismunandi rafhlöðuframleiðendur noti mis­munandi innihaldsefni, mis­munandi einingar, sem gerir alla endurvinnslu flóknari og dýrari. „Reyndar eru framleiðendur ekki einu sinni skyldaðir til að upplýsa um innihald í sínum rafhlöðum til væntanlegra endurvinnsluaðila.

Til að gera grein fyrir óhjá­kvæmi­legum vexti þessa úrgangs­efna eru framleiðendur og talsmenn rafknúinna farartækja margsaga um möguleika þess hvernig þessar rafhlöður verði endurnýttar eftir að líftíma þeirra í ökutækjum lýkur. Sum fyrirtæki hafa hafið tilraunir til að endurnýta þessar háspenntu, eldfimu bílarafhlöður við geymslu sólarorku og sem varaaflslausn. Það er gert með því að endurbyggja rafhlöður með blöndu af endurnýttum og nýjum hlutum. En jafnvel þó með þessari viðleitni takist að þróa tækni til að endurnýta rafhlöður á öruggan og hagkvæman hátt, þá gerir það ekki annað en að tefja endanleg örlög bílarafhlöðunnar um nokkur ár.“

Ábyrgðin af eyðingu á bílarafhlöðum flutt til lágtekjulanda

Greinarhöfundur National Ob­server bendir á að það þurfi bæði að vera fjárhagslegur hvati til staðar að endurvinna bílarafhlöðurnar og til að safna þeim saman til endurvinnslu. Það þurfi að vera arðbært að endurvinna þær. Án þessara hvata verði rafhlöðunum einfaldlega hent, þær brenndar eða fluttar til landa þar sem löggjöfin er veikari gagnvart mengun umhverfis og ógn við lýðheilsu.
„Sýnt hefur verið fram á að nikkel veldur krabbameini í lungum og nefi, dregur úr lungnastarfsemi og veldur berkjubólgu. Kóbalt getur valdið alvarlegum heilsufarslegum sjúkdómum eins og astma og lungnabólgu og það er hugsanlega krabbameinsvaldandi. Útsetning fyrir mangani getur valdið öndunarerfiðleikum, truflað samhæfingu og valdið öðrum taugasjúkdómum.

Við erum þegar byrjuð að flytja ábyrgðina af eyðingu á liþíumjónafhlöðum til lág- og meðaltekjulanda, sem mörg skortir stranga umhverfisvernd og aðstöðu til að endurvinna þessi efni með öruggum hætti. Sum lönd hafa jafnvel komið á hvata í sína löggjöf til að hvetja til innflutninga á notuðum raf- og tvinnbifreiðum. Það er m.a. í gegnum skattaafslætti.

Í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kom fram að árlega eru flutt út hundruð þúsunda raf- og tvinnbifreiða frá Japan, Evrópusambandinu og Bandaríkjunum til landa eins og Sri Lanka og Máritíus. Til að flýta fyrir fyrir rafbílavæðingunni verður regluverk í þessum löndum að vera í takti við þróunina.

Kína og Evrópusambandið krefjast þess að framleiðendur rafknúinna ökutækja taki aftur rafhlöður frá neytendum til endurvinnslu eða eyðingar. Engin sambærileg reglugerð eða löggjöf hefur verið tekin upp í Bandaríkjunum (BNA). Aðeins þrjú ríki í BNA hafa framlengt lög um framleiðendaábyrgð sem gera það að verkum að framleiðendur taka til baka liþíumjónarafhlöður sem notaðar eru í rafeindatækni, en engin gera slíkar kröfur varðandi ökutæki. Engin skýr bönn eru svo á að flytja út notaðar litíumjónarafhlöður eða selja notaðar bifreiðar með lélegar rafhlöður til lágtekjulanda á útsöluverði.“

Enn er möguleiki á að snúa við blaðinu

Greinarhöfundurinn Perry Gottesfeld segir þó að enn sé möguleiki á að snúa blaðinu við og tími til að hrinda í framkvæmd löggjöf sem getur hjálpað til við að afstýra yfirvofandi „úrgangskreppu“ eins og hann orðar það.

„Í því skyni hefur umhverfis­verndar­stofnun Kaliforníu stofn­að nefnd með mörgum hagsmuna­aðilum, sem ég er aðili að, sem mun ráðleggja löggjafarvaldinu um að búa til hagnýtar lausnir. Í dag niðurgreiða yfirvöld flest rafknúin ökutæki í lúxusenda markaðarins. Er það gert til að hvetja til innleiðingar rafbíla í stað hefðbundinna bíla með brunahreyflum. Um leið og framleiðslukostnaður og verð á rafhlöðum lækkar verður ekki lengur þörf á slíkum niðurgreiðslum. Í aðdraganda væntanlegrar sölu­aukningar verðum við líka að skipuleggja framtíðina þegar þungi rafhlöðunotkunarinnar færist úr smá rafhlöðum eins og í farsímanum yfir í tækin í bílskúrnum þínum.“

Skylt efni: rafbílar | bílarafhlöður

Vísindin á tímamótum hvað varðar plöntusöfn
Fréttaskýring 24. janúar 2022

Vísindin á tímamótum hvað varðar plöntusöfn

Ólíkt því sem gert var fyrr á tímum, þegar menn voru að kynnast flóru landsins o...

Framleiðsla hreinnar ofurorku þokast nær með bjartsýnisbústi frá Kína
Fréttaskýring 18. janúar 2022

Framleiðsla hreinnar ofurorku þokast nær með bjartsýnisbústi frá Kína

Kínverjar virðast smám saman vera að ná forskoti við að virkja kjarnasamrunaorku...

Leitin að hinu heilaga rafhlöðu-grali
Fréttaskýring 20. desember 2021

Leitin að hinu heilaga rafhlöðu-grali

Fyrir utan að gefa ekki frá sér mengandi útblástur er trúlega einn helsti kostur...

Umvendingar á plastmarkaði skapa tækifæri
Fréttaskýring 19. desember 2021

Umvendingar á plastmarkaði skapa tækifæri

Allflestir bændur losa sig við notað heyrúlluplast gegnum þjónustuaðila sem sækj...

Erfitt að sitja undir því að vera kallaður dýraníðingur
Fréttaskýring 18. desember 2021

Erfitt að sitja undir því að vera kallaður dýraníðingur

„Mér þykir mjög erfitt að sitja undir því að vera kallaður dýraníðingur. Eins og...

Heildarhagsmunir í húfi
Fréttaskýring 18. desember 2021

Heildarhagsmunir í húfi

Svandís Svavarsdóttir sjávar­útvegs- og landbúnaðar­ráðherra hefur skipað starfs...

Blekkingarleikur á blálöngumiðum
Fréttaskýring 17. desember 2021

Blekkingarleikur á blálöngumiðum

Frönskum togaraskipstjóra, sem fann gjöful blálöngumið við landhelgislínuna á Re...

Þorskurinn gaf 132 milljarða
Fréttaskýring 7. desember 2021

Þorskurinn gaf 132 milljarða

Sjávarafurðir vega sem fyrr þungt í vöruútflutningi landsmanna. Þorskurinn ber h...