Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Eini lausagöngugotbásinn sem getið er um í eftirlitsskýrslunni er á Ormsstöðum í Grímsnesi.
Eini lausagöngugotbásinn sem getið er um í eftirlitsskýrslunni er á Ormsstöðum í Grímsnesi.
Mynd / smh
Fréttir 8. október 2015

Frávikum var fylgt eftir á gyltubúunum

Höfundur: smh
Á undanförnum vikum hafa dýravelferðarmál verið ofarlega á baugi í þjóðfélaginu. Má að nokkru leyti rekja upphaf umræðunnar til þess að Ríkisútvarpið (RÚV) hóf undir lok septembermánaðar umfjöllun um tiltekin atriði í Starfsskýrslu Matvælastofnunar (MAST) fyrir síðasta ár, er varða aðbúnað búfjár. Skýrslan var  gefin út þann 14. ágúst síðastliðinn og lýsir samantekt á niðurstöðum eftirlits á vegum MAST árið 2014.
 
Flest frávik í nautgriparæktinni
 
Umfjöllun RÚV um þessi atriði var svo nokkuð samfelld dag hvern í rúma viku frá fyrsta degi. Talsverð óánægjubylgja reið yfir þjóðfélagið í kjölfarið, sem bitnaði harðast á svínaræktinni enda voru birtar nokkrar myndir af gyltum, sem voru komnar hvað lengst í meðgöngu, í alltof litlum básum. Myndirnar voru fengnar úr skýrsl­unni Eftirlit á gyltubúum – samantekt 2014, þar sem farið er nákvæmlega yfir þau atriði sem ekki voru í lagi á búunum á þeim tíma. Umfjöllun RÚV hefur að mestu leyti snúist um þau atriði sem þarna eru tíunduð, en ekki eru til sambærilegar samantektarskýrslur fyrir aðrar búgreinar – einungis skoðunarskýrslur úr hverri eftirlitsheimsókn. Það var hins vegar í nautgriparæktinni sem flest alvarleg frávik komu fram á síðasta ári, í aðbúnaði, fóðrun og heilbrigði, samkvæmt Starfsskýrslu Matvælastofnunar árið 2014. Oftast var um að ræða athugasemdir vegna kálfa og gripa í uppeldi. Að sögn Þóru J. Jónasdóttur, dýralæknis dýravelferðar hjá Matvælastofnun, voru oftast gerðar athugasemdir við hreinleika gripa og legusvæðis, þar á eftir athugasemdir við rými og þéttleika í stíum og á legusvæði, svo voru svipað margar athugasemdir skráðar við fóðrun/brynningu og klauf-, hóf- eða hornhirðu.
 
Dökk mynd dregin upp af gyltubúum
 
Þóra segir að skýrslan Eftirlit á gyltubúum – samantekt 2014 hafi verið gefin út í mars á þessu ári og megi drátt á útgáfu hennar aðallega rekja til veikinda þess starfsmanns sem bar ábyrgð á henni. Einnig hafi starfsskýrslunni seinkað nokkuð, en það hafi verið vegna verkfalls starfsmanna BHM. 
 
Eftirlitsskýrslan dregur upp dökka mynd af ástandi mála á gyltubúum landsins á sumar- og haustmánuðum á síðasta ári, en þó skal það haft í huga að önnur aðbúnaðarreglugerð var í gildi þá. Sú breyting til batnaðar hafði þó orðið að öll búin virtust nýta sér þjónustu dýralækna við geldingar, þar sem grísir voru staðdeyfðir. 
 
Öll bú nema eitt klipptu hala án deyfingar, sem stóðst ekki þáverandi reglugerð. Ekkert bú uppfyllti kröfur reglugerðar um lágmarksstærð bása. Ekkert bú uppfyllti kröfur þágildandi reglugerðar um gotstíur og ekkert bú var með gólftegund í öllum rýmum sem stóðust kröfur reglugerðar. Þá vantaði sjúkrastíur á mörg bú og þær sem voru til staðar stóðust ekki kröfur reglugerðar.
 
Þóra J. 
Jónasdóttir.
Þóra segir að í alvarlegustu tilfellum hafi verið farið fram á úrbætur á staðnum. „Eftirlitsaðili beið þá á meðan þær voru gerðar. Í nokkrum tilfellum voru dýr aflífuð á staðnum eða farið var fram á aflífun eða slátrun við fyrsta tækifæri. Í öðrum tilfellum var frávikum fylgt eftir með nýrri heimsókn,“ segir Þóra. 
 
Framkvæmdir eru í gangi til að uppfylla skilyrði reglugerðar
 
Eitt mál rataði þó alla leið í þvingunarferli, en það er leið sem MAST hefur til að þvinga ábyrgðaraðila til að laga tiltekin atriði. Sem þvingunarúrræði er Matvælastofnun meðal annars heimilt að stöðva starfssemi, gera úrbætur á kostnað ábyrgðaraðila og vörslusvipta ábyrgðarmann dýrum hans. Stofnunin bíður eftir nýrri reglugerð frá ráðherra til að geta nýtt ákvæði laganna um dagsektir sem þvingunarúrræði. Þóra segir að málið sem hefur verið í þvingunarferli horfi nú til betri vegar. „Þar hef ég frétt eftir síðustu skoðun, að miklar framkvæmdir séu í gangi til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar,“ segir hún. „Vinnuhópur hjá Matvælastofnun fór veturinn 2014 í gegnum áhættuflokkun búgreina og búforma við eftirlit. Niðurstaða þess vinnuhóps var að svínabú væru í frekar háum áhættuhóp sem skyldi hafa hlutfallslega tíðar eftirlitsheimsóknir.“
 
Frestir fást með fullnægjandi úrbótaráætlunum
 
Hinn 1. október síðastliðinn rann út frestur svínabænda til að óska eftir aðlögunartíma til að uppfylla kröfur nýrrar reglugerðar um velferð svína, sem lúta að húsakosti og aðbúnaði þeirra. Ný reglugerð um velferð svína hefur það að markmiði að bæta velferð svína meðal annars með því að afnema svínahald á básum. Að sögn Þóru tilgreinir reglugerðin að frestir séu háðir því að framleiðandi skili inn tímasettri úrbótaáætlun og kostnaðarmati. Þá sé Matvælastofnun óheimilt eftir 1. janúar 2016 at veita undanþágu til notkunar á básum sem varanlegum vistarverum gyltna nema básarnir séu þannig að gyltan geti lagst, legið og rétt úr sér liggjandi án átroðnings frá gyltum í næstu básum. „Matvælastofnun hefur í höndunum ákveðinn ramma um hvað þurfi að uppfylla til að hægt sé að veita undanþágu. Sá rammi kemur fram í reglugerðinni. Annars verðum við bara að skoða umsóknirnar og sjá og meta hvað kemur þar fram. Mögulega kalla eftir meiri upplýsingum ef þess gerist þörf,“ segir Þóra.
 
 
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur unnið úrbótaráætlun fyrir svínabændur:
Áætlaður kostnaður rúmir þrír milljarðar 
 
Eins og fram kemur í viðtalinu við Þóru J. Jónasdóttur, sérgreinadýralækni hjá Matvælastofnun (MAST), er frestur til aðlögunar að kröfum nýrra aðbúnaðarreglugerða veittur bændum að uppfylltum tilteknum skilyrðum: að fyrirliggjandi sé tímasett úrbótaráætlun og kostnaðarmat.
 
MAST má þó ekki veita lengri fresti en til 1. janúar 2025. Þá getur MAST ekki veitt undanþágur til notkunar á básum sem varanlegra vistarvera gyltna nema básarnir séu þannig úr garði gerðir að gyltur geti lagst, legið og rétt úr sér liggjandi, án átroðnings frá gyltum í næstu básum. Þá er heimilt að nota bása sem eru að lágmarki 90 sentimetrar að breidd sem varanlegar vistarverur til 1. janúar 2025.
 
Fyrir höndum eru afar kostnaðarsamar breytingar fyrir svínabændur á húsakosti sínum. Í úrbótar- og kostnaðaráætlun, sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur unnið fyrir svínaræktendur, er gert ráð fyrir að breytingarnar sem nýjar reglugerðir gera kröfu um muni kosta greinina rúma þrjá milljarða króna. Frestur til að skila inn slíkri áætlun til Matvælastofnunar rann út um síðustu mánaðamót. 
 
Að sögn Karvels Karvelssonar, ábyrgðarmanns í svínarækt hjá RML, hefur kostnaðarmatið verið unnið í samstarfi við danska ráðgjafa. Þeir Bjarni Árnason, ráðgjafi í bútækni og aðbúnaði hjá RML, hafa unnið þetta í samstarfi við Danina og leggja til grundvallar að framleiðsla á svínakjöti verði svipuð að magni til og verið hefur undanfarin ár. Það þýðir að um 6.200 tonn fara árlega á markað, frá 3.600 ársgyltum. 
 
Stíur í stað bása
 
Að sögn þeirra Karvels og Bjarna eru bændur þegar byrjaðir að breyta búum sínum á þann hátt að stíur eru settar inn í stað bása. Búin séu hins vegar ekki hönnuð fyrir lausagöngu og því verði að minnka framleiðslu verulega eigi þetta að vera mögulegt. Breyta þurfi öllum innréttingum og fjölga fermetrum í hverri deild umtalsvert. Breytingar á framleiðslukerfum krefjast annarra vinnubragða og nýrra og krefjandi úrlausnarefna fyrir bóndann.
 
Bændur standi þannig frammi fyrir því að taka út bása í fangdeildum og í framhaldinu þurfa þeir að taka ákvörðun um það hvort stefna eigi að að halda þeirri framleiðslu sem búið hafði fyrir breytingar. Til þess þurfi að stækka húsin og breyta gotdeildum og eldisdeildum eða hætta með einstaka liði búskaparins. Þannig megi til dæmis gera ráð fyrir að einhverjir ákveði að hætta með gyltur og kaupi grísi og nýti þar með húsin sín á annan hátt en áður. Ytri aðstæður, eins og verð á kjöti,  möguleikar til afsetningar og búvörusamningar, munu ráða því hvort framleiðendur sjái sér fært að stækka búin til að halda sínum markaðshlut.
 
Þeir segja að reglugerðarbreytingar í svínarækt taki mið af þeim breytingum sem hafa orðið í nágrannalöndum okkar. Margar þeirra hafa reynst framleiðendum erfiðar í framkvæmd en þær spegli það viðhorf sem er á  Vesturlöndum um velferð dýra. Sá framleiðslubúnaður sem notaður hefur verið fram að þessu hafi verið viðurkenndur og það sé í raun ekki fyrr en í reglugerð frá árinu 2011 sem breytingar eru lagðar til. Aðlögunartími hafi verið gefinn og þeir sem hafa skilað inn úrbótaráætlun fyrir 1. október síðastliðnum hafa möguleika á fresti til aðlögunar.
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...