Framleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 4% árið 2024
Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins árið 2024 er áætlað 93 milljarðar sem er 4% aukning frá árinu 2023. Áætlað er að 66% framleiðsluvirðisins teljist til búfjárræktar en 25% til nytjaplönturæktar. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.
Gert er ráð fyrir að kostnaður við aðfanganotkun verði 61 milljarður króna árið 2024 sem er tæplega 3% aukning frá fyrra ári, segir í frétt Hagstofunnar. Aðfanganotkun er stærsti útgjaldaliðurinn, 65% af heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins, sem er svipað og það var á fyrra ári. Rétt er að benda á að mat á aðfanganotkun er háð nokkurri óvissu og þar með verður mat á hlutdeild annarra útgjaldaliða einnig óvisst.
Áætlunin byggir á lokaúttekt fyrir árið 2023 og svo fyrirliggjandi upplýsingum um magn- og verðbreytingar á landbúnaðarvörum árið 2024.
Framleiðsluvirði 90 milljarðar árið 2023
Árið 2023 var heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins metið 90 milljarðar króna, segir í fréttinni. Virði afurða búfjárræktar, þ.e. framleiðsla dýra og dýraafurða, vegur þar langþyngst, eða um 65%, en virði afurða nytjaplönturæktar vegur um 27%. Tekjur af landbúnaðarþjónustu eru innan við 1% af heildarframleiðsluvirðinu og tekjur af óaðskiljanlegri aukastarfsemi eru tæp 8%.
Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um rúm 9% frá fyrra ári. Aukninguna má rekja til hærra afurðaverðs. Heildaraðfanganotkun árið 2023 nam 59 milljörðum króna sem er tæp 10% aukning frá fyrra ári. Aðfanganotkun er stærsti útgjaldaliðurinn og vegur rúm 66% af framleiðsluvirðinu.