Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Börn í leikskólanum Álfasteini tóku fyrstu skóflustungu að stækkun leikskólans, en ljóst er að þörf verður fyrir meira rými á leikskólanum samhliða fólksfjölgun í Hörgársveit.
Börn í leikskólanum Álfasteini tóku fyrstu skóflustungu að stækkun leikskólans, en ljóst er að þörf verður fyrir meira rými á leikskólanum samhliða fólksfjölgun í Hörgársveit.
Mynd / Karl Eskil
Fréttir 29. apríl 2019

Framkvæmdir hafnar við nýtt svæði við Lónsbakka í Hörgársveit

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Framkvæmdir standa yfir við gatnagerð og lagnavinnu á þéttbýlissvæðinu við Lónsbakka í Hörgársveit, skammt norðan Akureyrar, en samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt var á liðnu ári er gert ráð fyrir að það svæði stækki verulega.  Samkvæmt skipulagi verða um 100 íbúðir á þessu nýja byggingarsvæði.
 
Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, segir að áætlun gangi út á að jarðvegsvinnu ljúki  þegar kemur fram á sumar, í júní næstkomandi, og að stefnt sé að því að byggingarhæfar lóðir fyrir um 50 íbúðir verði tilbúnar á þeim tíma. „Það verður byrjað að byggja á svæðinu um leið og lóðir verða tilbúnar,“ segir hann.
 
Framkvæmdir eru hafnar við nýtt íbúðasvæði í þéttbýlinu við Lónsbakka í Hörgársveit. Fyrsta skóflustunga var tekin á dögunum, en frá vinstri eru  Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri, Axel Grettisson oddviti, María Albína Tryggvadóttir og Jón Þór Benediktsson, sem sæti eiga í sveitarstjórn. Mynd / MÞÞ
 
Áhuginn var strax mikill
 
Fulltrúar Hörgársveitar kynntu áform um þetta nýja byggingarsvæði síðastliðið haust og fengu að sögn Snorra þá þegar sterk viðbrögð. „Það kom snemma í ljós að áhugi fyrir svæðinu var mikill og við erum ánægð með það,“ segir hann. Þegar er búið að úthluta nokkrum lóðum á svæðinu, öllum til byggingaverktaka, en þar er um að ræða 6 parhúsalóðir með alls 12 íbúðum, þremur raðhúsalóðum með 18 íbúðum og einnig þremur fjölbýlishúsalóðum með 14 til 28 íbúðum. Þá segir Snorri að ein raðhúsalóð fyrir 5 íbúðir sé laus og í auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins.
 
Á annað hundrað nýir íbúar
 
„Gangi öll okkar áform eftir með 1. áfanga þessa verkefnis má áætla að á annað hundrað nýir íbúar hafi bæst við sveitarfélagið á næstu tveimur árum. Við erum sannfærð um það hér í Hörgársveit að þeir byggingaverktakar sem eru í startholum að hefja hér byggingaframkvæmdir séu með sölulegar íbúðir sem henta breiðum hópi fólks,“ segir Snorri. Mikil íbúafjölgun varð í sveitarfélaginu árið 2018, í upphafi þess árs voru þeir 580 en nú í ársbyrjun 2019 voru þeir 624 talsins, hefur fjölgað um 44 íbúa eða 7,6%, sem er með því mesta hér á landi. Snorri segir að framhaldið, þ.e. hvenær hafist verði handa við næsta áfanga í Lónsbakkahverfinu, ráðist af viðtökum, svæðið sé til staðar og skipulag fyrir fjölbreyttar húsagerðir.
 
Þörf fyrir að stækka leikskólann
 
Snorri segir að byggja þurfi upp þjónustu samhliða fólksfjölgun, en þegar eru hafnar framkvæmdir við viðbyggingu við leikskólann Álfastein. „Það er ljóst að þörf fyrir meira rými á leikskóla verður fyrir hendi strax núna í sumar og við erum að bregðast við því,“ segir hann, en jafnvel gera menn ráð fyrir að ráðast þurfi í aðra stækkun á leikskólanum á árinu 2020. „Það mun fara eftir íbúasamsetningu í nýju götunum.“ Snorri segir að húsnæði í Þelamerkurskóla sé á hinn bóginn nægjanlegt og þar þurfi ekki að grípa til ráðstafana, í það minnsta ekki fyrst um sinn.
 
Skoða breytingar á skipulagi á Hjalteyri
 
Tveir þéttbýlisstaðir eru í Hörgársveit, sá við Lónsbakka sem er við bæjarmörkin við Akureyri og annar á Hjalteyri. Á liðnu ári var einnig gengið frá nýju deiliskipulagi fyrir Hjalteyri og þar er að sögn Snorra talsvert af nýjum einbýlishúsalóðum sem hafa verið auglýstar. 
 
Eftirspurn hefur verið mjög dræm og segir hann því að verið sé að skoða breytingar á skipulaginu svo auka megi úrval húsagerða á þessu svæði. „Við erum líka að skoða hvort þetta svæði á Hjalteyri geti fallið að átaki sem hrinda á af stað í samvinnu Íbúðalánasjóðs og Hörgársveitar auk 6 annarra sveitarfélaga um að efla íbúðabyggingar á landsbygginni,“ segir Snorri. Í þeim efnum er líka til skoðunar hvort að nýta megi heimavistarhús að Laugarlandi á Þelamörk sem staðið hefur nær ónotað undanfarin misseri. „Við sjáum fyrir okkur að þar sé möguleiki á að koma fyrir nokkrum smærri íbúðum á mjög góðum og glæsilegum stað,“ segir hann. 

Skylt efni: Hörgársveit

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...