Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fræslægja – hvað er það?
Á faglegum nótum 10. mars 2015

Fræslægja – hvað er það?

Höfundur: Járngerður Grétarsdóttir

Þegar raska þarf grónu landi vegna framkvæmda af ýmsu tagi fylgir oft sú ósk að hægt væri að græða landið upp þannig að sárið hverfi sem fyrst og verði ekki áberandi í umhverfinu. 

Slík ósk var hvatinn að tilraunum með það sem kalla mætti söfnun og dreifingu fræslægju, en með því er átt við að villtur gróður í nágrenni rasksins er sleginn að hausti, eftir að fræþroska er náð, og slægjunni (í merkingunni slegið gras eða ljár) er safnað án nokkurrar meðhöndlunar eða þurrkunar og dreift strax á svæði sem græða á upp. 

Nánar um aðferðina

Í fræslægjunni, sem einnig mætti kalla ferskt fræhey, eru stönglar og blöð plantna en auk þess sitja fræ á plöntustönglum og fylgja með í slægjuna, ásamt bútum af mosa sem vex innan um hærri gróðurinn.  Eftir að slægjunni hefur verið dreift, brotnar hún smám saman niður og fræ og mosabrot ná snertingu við jarðvegsyfirborðið.  Slægjan varnar því að þessar smáu einingar fjúki burt og veitir raka meðan fræ spíra og mosabrot festa sig. Hún leggur einnig til lífrænt efni sem bætir frjósemi jarðvegsins en má þó ekki liggja í of þykku lagi á yfirborðinu (ca. 5–8 cm lag af slægju er ágætt viðmið) því slíkt getur hamlað spírun fræja og lifun mosabrota.

Reynslan erlendis

Þessi aðferð til að græða upp röskuð svæði hefur verið notuð erlendis í einn til tvo áratugi, m.a. við uppgræðslu á aflögðum námum, vegköntum, eftir jarðrask á ferðamannastöðum og náttúruverndarsvæðum og á sérstaklega vel við þar sem áhersla er á að viðhalda sjálfbærum gróðri og náttúrulegu yfirbragði svæða.  Á ensku hefur aðferðin t.d. verið nefnd fresh seed-containing hay transfer og green hay collection.  Aðferðin hefur mest verið notuð þar sem gróður er jurtkenndur og ekki mjög lágvaxinn og hægt að safna töluverðum grænmassa, s.s. í gras- og valllendi og blómlendi en einnig votlendi.

Tilraunir á Hellisheiði

Hérlendis voru gerðar tilraunir á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) með söfnun og dreifingu á fræslægju á Hellisheiði í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur, nú Orku Náttúrunnar, ON. Gerðar voru tilraunir á árunum 2007–2009 af LbhÍ og aðferðin síðan prófuð í stærri stíl á framkvæmdasvæðum ON. Reynslan af tilraunum og notkun fræslægjunnar hérlendis er sú að hægt var að sá og koma til töluvert af tegundum úr graslendi (grös, blómjurtir og mosategundir) á þennan hátt en aðferðin reyndist ekki vel með tegundir úr rýrum lyngmóa.  Dæmi um plöntutegundir sem fluttust með slægjunni voru kornsúra, vallhæra, vegarfi, ljónslappi, hvítmaðra, blávingull og ýmsar aðrar grastegundir og mosategundir.  Við slægjudreifinguna verður margföldun á fræmagni og mosabrotum miðað við sjálfuppgræðslu og flýtir það gróðurframvindunni.  Fræmyndun er þó misjöfn milli plöntutegunda, sumar tegundir mynda mikið fræ en aðrar dreifa sér aðallega með vaxtaræxlun (klónvexti).  Því skiptir miklu máli hvaða plöntutegundir vaxa á staðnum varðandi árangur aðferðarinnar. 

Sláttur og gjafasvæðin

Í tilraunum á Hellisheiði kom ágætlega út að slá gjafasvæðin (þar sem slægjunni var safnað) í lok ágúst, en það mætti einnig gera fyrrihluta september.  Notað var handsláttuorf og reynt að tæta slægjuna sem minnst, rakað með laufhrífu, slægjunni safnað í stóra poka og flutt á viðtökusvæði og dreift með hrífu. Hlutfall svæðis sem var slegið á móti svæði þar sem slægjunni var dreift var u.þ.b. 1:1.  Við söfnun fræslægju í stærri stíl af starfsmönnum ON á Hellisheiði var unnið á véltæku svæði og slegið með traktor og sláttuvél sem safnaði slægjunni. Úthagagróðurinn þoldi sláttinn í tilraununum ágætlega og var varla hægt að greina hvar hafði verið slegið í mosaríku graslendinu að ári liðnu. Lynggróður óx einnig upp aftur af slegnum sprotum en þeir tilraunareitir voru lengur að jafna sig. 
Samanburður við heydreifingu

Þessi aðferð, sem hér er lýst, á margt sameiginlegt með heydreifingu sem hefur gefist vel í uppgræðslustarfi.  Fræslægjan inniheldur þó líklega mun meira lífvænlegt fræ og mosabrot þar sem gróður er slegin að hausti og engri meðhöndlun beitt sem hristir fræið úr heyinu né efnið geymt.  Einnig má safna fræslægju úr fjölbreyttari gróðri en við venjulegan túnslátt. 
Yfirborðsgerð og frjósemi jarðvegs skiptir máli við dreifingu á fræslægju en í tilraunum á Hellisheiði var slægju dreift á raskað svæði með moldarlagi en í dreifingu ON í stærri stíl var fræslægju dreift á yfirborð með grús. Hvoru tveggja tókst vel til en meiri hætta er á að slægja fjúki til því harðara sem yfirborðið er og gæti verið ráð að dreifa henni þegar von er á góðri vætu.

Að lokum

Ef aðferðin er notuð ber að gæta þess að slá gróðurinn ekki of neðarlega til að ganga ekki hart að mosalaginu í gróðursverðinum og hvíla gjafasvæði í t.d. 3-5 ár. Einnig ætti að forðast að slá flestar lyngtegundir.  Hugsanlegt er að dreifa fleiri íslenskum plöntutegundum með þessari aðferð, s.s. gulmöðru, krossmöðru, blágresi, vallhumli, lokasjóð o.fl. og áhugavert að reyna slíkt með frekari tilraunum.

Meðfylgjandi má sjá nokkrar myndir af tilraunareitum og söfnun og dreifingu fræslægju en nánari upplýsingar um aðferðina má meðal annars finna í riti LbhÍ nr. 29.(sjá www.lbhi.is ).

Skylt efni: fræslægja | Landgræðsla

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi
Fréttir 31. maí 2023

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi

Matvælaráðherra úthlutaði nýlega styrkjum til þróunarverkefna búgreina, um 93 mi...

Afhending eftir sauðburð
Fréttir 30. maí 2023

Afhending eftir sauðburð

Matvælastofnun hefur náð samkomulagi við sauðfjárbændur á nokkrum bæjum í Miðfja...