Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tanni 15065.
Tanni 15065.
Á faglegum nótum 2. mars 2021

Öflug naut komin til notkunar

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson ráðunautur í nautgriparækt - mundi@rml.is

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í janúar að loknu ársuppgjöri og því er ágætt að líta á hvað er í boði, vega og meta nautin og skoða kosti þeirra og galla.

Fagráð í nautgriparækt ákvað að gera töluverðar breytingar á reyndum nautum í dreifingu. Eldri kappar á þeim hópi hverfa úr notkun enda búnir að vera lengi í dreifingu og inn koma nýjar og upprennandi stjörnur. Þannig hverfa Bakkus 12001, Pipar 12007, Loki 12071, Dúett 12097 og Steri 13057 úr notkun eftir langan notkunartíma. Það þýðir ekki að þessi naut hafi á nokkurn unnið sér neitt til saka, þvert á móti standa þau öll við fyrra mat en teljast fullnotuð. Aðrir sem fara úr dreifingu eru Golíat 15018 sem þvert á væntingar lækkaði umtalsvert í mati, Jólnir 15022, Svampur 15027 og Flóði 15047, en þeir falla í skugga hálfbræðra sinna. Ákveðið var að setja sjö ný reynd naut í notkun úr 2015 og 2016 árgöngunum.

Í heildina standa þau naut sem voru í dreifingu mjög vel við fyrra mat og tiltölulega litlar breytingar milli keyrslna. Við skulum líta aðeins nánar á þau naut sem áfram verða í dreifingu.

Hæll 14008, f. Kambur 06022, mf. Hræsingur 98046. Hæll stendur við fyrra mat, er tiltölulega lítið skyldur flestum hinna mest notuðu nauta síðustu ára sem ýtir undir not á honum. Hæll er efnahlutfallanaut sem gefur úrvalsgóða júgurgerð. Rétt er að hafa bak við eyrað að spenar dætra hans eru fremur grannir. Hæll lækkaði um eitt en stendur með 109 í heildareinkunn og verður áfram í hópi nautsfeðra.

Hnykkur 14029, f. Lögur 07047, mf. Stígur 97010. Hnykkur er efnahlutfallanaut auk þess sem dætur hans hafa til að bera ákaflega vel borin júgur með mikla festu. Hann gefur nokkuð granna spena. Fyrir marga hljómar einnig spennandi að allnokkur hluti afkvæma hans skartar gráum lit enda var hann sjálfur kolgráskjöldóttur. Hnykkur er nú með 105 í heildareinkunn en hann stóð í stað milli keyrslna.
Kláus 14031, f. Hjarði 06029, mf. Laski 00010. Kláus gefur sérlega mjólkurlagnar kýr með góð efnahlutföll í mjólk. Þær eru einnig ákaflega skapgóðar en aðrir þættir liggja nærri meðaltali. Kláus hverfur úr hópi nautsfeðra en áfram verða keyptir kálfar undan honum að einhverju marki. Hann hækkaði um eitt stig og er með 109 í heildareinkunn.

Stáli 14050, f. Lögur 07047, mf. Reykur 06040. Styrkleikar Stála felast í góðri mjólkurlagni dætra, prýðilegri júgur- og spenagerð auk þess sem mjaltir og skap eru ofan meðallag. Stáli lækkaði um eitt stig frá síðustu keyrslu og stendur nú með 105 í heildareinkunn.
Bjarki 15011, f. Laufás 08003, mf. Ás 02048. Bjarki hefur fengið góða notkun eftir að hann kom til dreifingar sem reynt naut. Hans styrkleikar liggja mjólkurlagni, góðri júgurgerð og úrvalsgóðum mjöltum og skapi. Hafa verður í huga að spenar eru nokkuð grannir. Bjarki lækkaði um tvö stig og er nú með heildareinkunn upp á 106.

Risi 15014, f. Laufás 08003, mf. Hjarði 06029. Risi verður áfram í hópi nautsfeðra en hann er með jákvætt mat fyrir flesta þætti en hvað öflugastur hvað afurðagetu snertir, einkum mjólkurmagn og fituhlutfall. Þá er júgurgerð dætranna góð, spenar fremur stuttir, mjaltir góðar og skapið framúrskarandi. Dætur Risa eru stórar kýr, nokkuð sem gott er að hafa í huga við notkun hans. Risi lækkaði um eitt stig og er heildareinkunn hans nú 108.

Köngull 05019, f. Toppur 07046, mf. Bambi 08049. Köngull er öflugt efnahlutfallanaut og júgurgerð dætra með afbrigðum góð og spenar vel gerðir en stuttir. Köngull stendur í stað og er með 108 í heildareinkunn.

Ábóti 15029, f. Bambi 08049, mf. Þollur 99008. Styrkur Ábóta liggur í stórgóðri júgurgerð og mikilli júgurhreysti. Spenar eru mjög grannir. Undan Ábóta geta komið skapgallaðir gripir án þess að hægt sé að flokka það sem vandamál. Heildareinkunn Ábóta er 110 sem fyrr.

Ný reynd naut í notkun

Að þessu sinni var ákveðið að taka sjö ný naut til notkunar sem reynd naut og við val þeirra var horft til þess að dreifa faðerni þeirra eins og hægt er. Fagráð ákvað að teygja sig eins langt og hægt er út frá fjölda dætra á bak við afkvæmadóminn vitandi það að hann getur tekið breytingum. Þau naut sem valin voru á þeim grunni eru þó það há í mati að þetta þótti réttlætanlegt. Til notkunar koma þrír Bambasynir, tveir Sandssynir, einn Flekkssonur og einn Boltasonur. Hér verður farið yfir þau og helstu einkenni dætrahópa þeirra.

Steinar 15042 er frá Steinum í Stafholtstungum undan Bamba 08049 og Eik 242 Gæjadóttur 09047. Hann kemur inn sem nautsfaðir en dætur hans flagga stórgóðri júgurgerð, mjög góðum mjöltum og skapi. Aðrir eiginleikar liggja nær meðaltalinu en flestir vel yfir. Steinar er með 110 í heildareinkunn.

Mikki 15043 er frá Hóli í Svarf­aðardal undan Sandi 07014 og Urði 343 Bambadóttur 08049. Mikki er efnahlutfallanaut auk þess sem dætur hans státa af úrvalsgóðri júgurgerð og góðum mjöltum og skapi. Hafa þarf í huga að hann gefur granna spena. Mikki verður nautsfaðir og með 111 í heildareinkunn.

Sjúss 15048 er frá Daufá í Skaga­firði undan Flekk 08029 og Rósalind 441 Glæðisdóttur 02001. Sjúss er efnahlutfallanaut sem gefur júgurhraustar kýr með góða júgurgerð og stutta spena. Hann er auk þess fjarskyldari afkomendum Laska en mörg önnur hinna reyndu nauta sem eru í notkun. Sjúss er með 107 í heildareinkunn.

Tanni 15065 er frá Tannstaðabakka í Hrútafirði undan Sandi 07014 og Silfru 553 Koladóttur 06003. Tanni kemur til notkunar sem nautsfaðir en hann gefur ákaflega júgurhraustar kýr með úrvalsgóða júgurgerð en spenar eru langir og grannir. Tanni er með 109 í heildareinkunn.

Knöttur 16006 er frá Búvöllum í Aðaldal undan Bolta 09021 og Lænu 659 Bambadóttur 08049. Knöttur er eitt hinna fjölmörgu efnahlutfallanauta sem nú standa til boða auk þess sem dætur hans eru júgurhraustar með úrvalsgóða júgurgerð og gott skap. Knöttur verður notaður sem nautsfaðir og er með 111 í heildareinkunn.

Bikar 16008 er frá Stóru-Hildisey 2 í Landeyjum undan Bamba 08049 og Bollu 831 Vindilsdóttur 05028. Bikar er sterkastur hvað snertir hina úrtökugóðu júgurgerð og sérlega góðar mjaltir og skap. Heildareinkunn hans stendur í 113 en hafa verður í huga að sú einkunn getur tekið breytingum við næstu kynbótamatskeyrslu vegna algjörs lágmarksfjölda dætra.

Jarfi 16016 er frá Helgavatni í Þverárhlíð undan Bamba 08049 og Völku 743 Stílsdóttur 04041. Styrkleikar Jarfa liggja í mikilli júgurhreysti, frábærri júgurgerð, góðum mjöltum og geysigóðu skapi auk þess sem dætur hans skora hátt í gæðaröð. Rétt er að hafa bak við eyrað að spenar eru grannir. Heildareinkunn er 112 en vegna lágmarksfjölda dætra gæti sú einkunn breyst nokkuð næst þegar kynbótamat verður keyrt.

Nautsfeður

Að undanförnu hefur Nautastöðin einkum verið að kaupa kálfa undan Pipar 12007, Jörfa 13011, Hálfmána 13022, Ými 13051, Hæl 14008 og Kláusi 14031.

Á næstu misserum verður sjónum einkum beint að kálfum undan Pipar 12007, Hæl 14008, Kláusi 14031, Risa 15014. Þeim tilmælum er beint til manna að láta sæða kýr á nautsmæðraskrá og efnilegar kvígur með einhverju eftirtalinna nauta; Hæl 14008, Risa 15014, Steinari 15042, Mikka 15043, Tanna 15065 eða Knetti 16006.

Nautsmæður

Á nautsmæðraskrá í Huppu (með rautt flagg) eru kýr með a.m.k. 106 í heildareinkunn, 90 fyrir fituhlutfall og 100 fyrir mjaltir. Þegar tilkynnt er um nautkálf undan væntanlegri nautsmóður eru aðrir þættir vegnir og metnir svo sem afurðir og frjósemi.
Á skrá yfir efnilegar kvígur (með grænt flagg) eru kvígur sem eru með a.m.k. 108 í heildareinkunn, 90 fyrir fituhlutfall og 100 fyrir mjaltir. Þegar tilkynnt erum nautkálf undan kvígu eru aðrir þættir skoðaðir og beðið fyrstu mælingar, kýrsýnis og ákveðinnar reynslu áður en ákvörðun um framhaldið er tekin.

Mjaltaathugun

Að öllu jöfnu er keyrð mjaltaathugun tvisvar sinnum á ári. Þessi upplýsingaöflun gefur mikilsverðar upplýsingar um dætur nautanna og er mikilvægur þáttur í afkvæmadómi þeirra. Skil á mjaltaathugunum hefur tæpast verið nógu góð og seinkar hvað mest afkvæmadómi nautanna. Ég vil því biðja menn að huga að skilum sem allra fyrst sé þeim ekki þegar lokið.

Nautakosturinn og pörunaráætlanir

Eins og sjá má á yfirlitinu hér á undan er sá nautakostur sem í boði er fjölbreyttur og mörg nautanna hafa mikla kosti til að bera. Eins og gengur eru þeir misjafnir og því þarf að huga að pörun þeirra við einstakar kýr af kostgæfni. RML býður upp á gerð pörunaráætlana og fyrir þá sem hafa áhuga á því er um að gera að notfæra sér þá þekkingu sem ráðunautar RML hafa á einstökum nautum, kostum þeirra og göllum.

Hópur reyndra nauta í notkun er að þessu sinni mjög öflugur og til boða standa úrvalsgóð naut þar sem hægt er að finna kosti sem fallið geta vel að þeim kostum og göllum sem þær kýr og kvígur sem sæða á hafa til að bera. Við val nautanna er ávallt reynt að horfa til ætternis þannig að ekki þurfi að sæða kýr eða kvígur með of skyldum nautum en það er eitthvað sem ávallt þarf að hafa í huga þegar um er að ræða jafn lítinn stofn og íslenski kúastofninn er.

Óreynd naut

Útsending úr nautum fæddum 2019 er vel á veg komin og mun ljúka á næstu vikum. Þar er einkum um að ræða syni Dropa 10077, Bakkusar 12001 og Sjarma 12090 þó önnur naut eigi þarna einnig syni. Árgangurinn frá 2020 tekur þá við en þá munu koma til dreifingar synir Jörfa 13011 og Hálfmána 13022 auk Pipars 12007, Ýmis 13051 og Kláusar 14031.

Að lokum

Kynbótastarf í nautgriparækt er langhlaup þar sem gott og vandað skýrsluhald og mikil og góð þátttaka í sæðingum eru undirstaðan. Hér á landi er notkun heimanauta mikil og yfir 30% allra fæddra kálfa eru undan þeim og kynbótastarfið því keyrt á 2/3 mögulegra afkasta. Sem dæmi þá hafa nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum valið aðra leið. Þar eru langt innan við 10% fæddra kálfa undan heimanautum og menn dreifa því kostnaði og áhættu á fleiri hendur.

Í niðurstöðum skýrsluhaldsins fyrir árið 2020 má sjá að íslenskar kýr bera sínum fyrsta kálfi ríflega 27 mánaða gamlar. Fyrir nokkrum árum vann Þórdís Þórarinsdóttir BS-verkefni á Hvanneyri þar sem hennar niðurstaða var sú að æviframlegð íslenskra kúa er mest með því að þær beri fyrsta kálfi við 23 mánaða aldur og uppeldiskostnaður kvígna sem báru 27 mánaða var 18% hærri en þeirra sem báru 23 mánaða. Eftir því sem kvígurnar bera eldri því styttri verður framleiðsluævi þeirra í hlutfalli af heildaræviskeiði. Samkvæmt rannsókn Þórdísar eyða kvígur sem bera 20-22 mánaða 35% ævinnar í uppeldi og 65% til framleiðslu. Hjá kvígum sem bera 29 mánaða eru hlutföllin 43% og 57% og hjá kvígum bera 35-37 mánaða eru hlutföllin orðin nánast jöfn eða 49% og 51% milli framleiðsluævinnar og heildaræviskeiðs.

Ef við notum tölur Þórdísar til þess að áætla þann kostnað sem liggur í háum burðaraldri má ætla að hann sé 425-426 milljónum króna hærri á ári en hann þyrfti að vera fyrir greinina í heild. Þar er þá miðað við þann kostnað sem liggur í að ala kvígurnar umfram 24 mánaða aldur, 25 þús. mjólkurkýr og 37% endurnýjunarhlutfall. Á hvert bú í framleiðslu er því um að ræða nálægt 800 þús. krónum á ári til jafnaðar eða 2,8 kr. á hvern framleiddan lítra. Þarna er því verulega fjármuni að sækja í betri rekstur og bætta afkomu.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...