Ilmbjörk að laufgast. Birki er tvíkynja tegund og myndar bæði karl- og kvenrekla. Sá sem hangir niður myndar frjó sem svífur um loftið og frævar kvenreklana sem standa upp í loftið en þykkna og þrútna eftir því sem líður á sumarið og hanga loks niður á haustin með þroskuðum fræjum líkt og karlreklarnir á vorin. Frjóið úr karlreklunum er það sem veldur fólki ofnæmi.
Ilmbjörk að laufgast. Birki er tvíkynja tegund og myndar bæði karl- og kvenrekla. Sá sem hangir niður myndar frjó sem svífur um loftið og frævar kvenreklana sem standa upp í loftið en þykkna og þrútna eftir því sem líður á sumarið og hanga loks niður á haustin með þroskuðum fræjum líkt og karlreklarnir á vorin. Frjóið úr karlreklunum er það sem veldur fólki ofnæmi.
Mynd / Aðsend
Fræðsluhornið 10. júní 2022

Ilmbjörk

Höfundur: Skógræktin

Birki (Betula pubescens) var eina trjátegundin á Íslandi áður en landið byggðist sem myndað gat samfellt skóglendi. Formlegt heiti tegundarinnar á íslensku er ilmbjörk enda fyllir ilmur hennar vitin, einkum þegar hún laufgast á vorin og fram á sumar.

Vinsælt er að safna birkilaufi í jurtaseyði, teblöndur eða sem krydd og þá er best að tína það snemmsumars, helst ekki seinna en í júní, því smám saman verður það beiskara.

Ilmbjörk er oftast fremur smávaxið tré, frá hálfum metra og upp í 14-15 metra. Hæsta villta birkitré sem vitað er um á Íslandi stendur í Vaglaskógi og hefur mælst um fjórtán metrar. Eilítið hærra íslenskt birki vex í Minjasafnsgarðinum á Akureyri.

Vaxtarlag birkis er mjög fjölbreytilegt enda er erfðabreytileikinn talinn mjög mikill. Birkið hér er líka meira og minna blandað fjalldrapa, náskyldri tegund af Betula-ættkvíslinni. Breytileiki birkisins hefur töluvert verið rannsakaður, bæði með rannsóknum á erfðaefni þess og með kvæmatilraunum sem settar hafa verið út víða um land. Næst á að kanna hvernig mismunandi birkikvæmi þrífast við hálendisbrúnina. Kvæmatilraunir hafa leitt í ljós í grófum dráttum að birki af Norðaustur- og Suðausturlandi vill mynda einstofna tré en birki af Norðvestur- og Suðvesturlandi frekar runna eða margstofna tré. Almennt er birki af Suðurlandi, svo sem úr Bæjarstaðaskógi og Steinadal, duglegasta birkið í ræktun í öllum landshlutum.


Vaxtarhraði birkis er oftast hægur en á frjósömu landi getur það vaxið hratt í æsku. Birki vex um allt land, á láglendi og einnig til fjalla. Það hefur á nokkrum stöðum fundist í yfir 600 metra hæð yfir sjó, svo sem í Austurdal Skagafirði, í Útigönguhöfða Þórsmörk og í Hvammsfjöllum Ódáðahrauni.

Birki er ljóselsk tegund og þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti. Það á erfitt á mjög rýru landi svo sem á uppblásnum svæðum eða mjög rofnu landi. Þar þarf að hjálpa því af stað með því að efla gróðurhuluna og auðga landið með áburðarefnum. Á Hekluskógasvæðinu hefur kjötmjöl nýst mjög vel til að búa í haginn fyrir birkið og sjálfgræðslu þess. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með moltu svo sem á Hólasandi.

Tegundin er vindþolin, frostþolin og lífseig. Hún hefur fallega haustliti sem eru yfirleitt gulir en eftir því sem birkið er meira blandað fjalldrapa verða haustlitirnir rauðleitari. Helstu veikleikar birkisins eru að það er seinvaxið og smávaxið í rýru landi, oft kræklótt og vill mynda þétt og illfært kjarr. Það er viðkvæmt fyrir trjámaðkafaröldrum, birkiryðsvepp og nýjum vágestum svo sem birkikembu og birkiþélu. Nokkur vá vofir því yfir birkinu, einkum á hlýjustu svæðunum á láglendi.

Talið er að við landnám hafi birki vaxið á fjórðungi landsins og jafnvel á allt að 40 prósentum þess. Birki er mjög duglegt að koma upp aftur ef það er fellt eða skógur brenndur. En ef landið er beitt kemst það ekki upp aftur.

Beit hefur nú dregist saman í landinu og hlýnað í veðri. Góð fræár eru tíðari og skilyrði fyrir útbreiðslu birkis því betri, sérstaklega þar sem ekkert er beitt. Skógræktin og Landgræðslan vinna saman að birkiútbreiðslu og hafa íslensk stjórnvöld sett sér það markmið fram til ársins 2030 að þekja birkis á landinu fari úr 1,5 prósentum nú í um fimm prósent.

Þetta er meginmarkmið Íslendinga í svokallaðri Bonnáskorun um útbreiðslu skóga í þágu náttúru og samfélaga fólks.

Skylt efni: Skógrækt Íslands | Birki

Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur
Fræðsluhornið 6. júlí 2022

Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur

Heilnæm nýting náttúruafurða landsins okkar hefur gjarnan verið í umræðunni,...

Hækkun sýrustigs ræktunarjarðvegs
Fræðsluhornið 4. júlí 2022

Hækkun sýrustigs ræktunarjarðvegs

Lögð hefur verið út tilraun á Hvanneyri með það að markmiði að hækka sýrusti...

Stíllhreinn og sterklegur pallbíll
Fræðsluhornið 30. júní 2022

Stíllhreinn og sterklegur pallbíll

Að þessu sinni var pallbíllinn Isuzu D-Max Lux, sem BL selur, tekinn í reynslu...

Kvígur frá NautÍs
Fræðsluhornið 30. júní 2022

Kvígur frá NautÍs

Uppbygging hreinræktaðrar Angushjarðar hjá Nautgriparæktarmiðstöð Íslands á ...

Angus-holdanaut frá NautÍs fædd 2021
Fræðsluhornið 29. júní 2022

Angus-holdanaut frá NautÍs fædd 2021

Hér er nú kynntur fjórði árgangur Angus-holdanauta frá Nautgriparæktarmiðst...

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – Fyrsti hluti
Fræðsluhornið 29. júní 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – Fyrsti hluti

Nýverið var haldið hið árlega Fagþing Nautgriparæktarinnar í Danmörku, eða „...

Reyniviður
Fræðsluhornið 28. júní 2022

Reyniviður

Reyniviður, Sorbus aucuparia, er um margt sérstætt tré. Til dæmis myndar reyni...

Svartþröstur
Fræðsluhornið 28. júní 2022

Svartþröstur

Svartþröstur er orðinn algengur varpfugl á Suðvesturlandi, einna helst í þét...