Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þórdís hefur undanfarin ár handbróderað púða og myndir og sótt innblástur í gömul mynstur og handbragð.
Þórdís hefur undanfarin ár handbróderað púða og myndir og sótt innblástur í gömul mynstur og handbragð.
Mynd / MÞÞ
Viðtalið 9. september 2015

Frábært að fá svona góð viðbrögð

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það var virkilega ánægjulegt að fá þennan titil, þarna voru mjög margir góðir handverksmenn með fallegt handverk.  Ég er því himinlifandi með þessa viðurkenningu og hún gefur mér byr undir báða vængi að halda ótrauð áfram með mín verk,“ segir Þórdís Jónsdóttir, sem valin var Handverksmaður ársins 2015 á Handverkshátíð á Hrafnagili sem haldin var um liðna helgi.
 
Þórdís hefur undanfarin ár handbróderað púða og myndir og sótt innblástur í gömul mynstur og handbragð.  
 
Í umsögn dómnefndar segir að fágað og listrænt handverk Þórdísar og samspil forms og lita hafi heillað dómnefndarmenn. 
 
„Fullkomið vald á viðfangsefninu birtist með skýrum og fjölbreyttum hætti.“
 
Áhugi á handverki frá barnæsku
 
Þórdís hefur alla tíð haft áhuga á handverki og segir að hún hafi nánast drukkið það í sig með móðurmjólkinni, en foreldrar hennar voru liðtækir handverksmenn.
 
„Þau voru bæði að sinna handverki eftir því sem færi gafst frá daglegum önnum á stóru heimili,“ segir hún. Strax á æskuárum hafi hún því lært ýmislegt sem því viðkemur og ekki síst að bera virðingu fyrir góðu handverki.
 
Fyrir allmörgum árum var Þórdís í samstarfi við mágkonu sína, en í sameiningu ráku þær Saumasmiðjuna og saumuðu barnaföt. Þórdís sá þá m.a. um að bródera mynstur í fötin.
 
„Þetta var mjög skemmtilegur tími og það gekk vel hjá okkur. Fötin voru vinsæl, við lögðum áherslu á að hafa þau vönduð og falleg. Eins og gengur snerum við okkur svo að öðru, fórum hvor í sína áttina og fundum annan starfsvettvang, en það er aldrei að vita nema við tökum þráðinn upp að nýju síðar,“ segir Þórdís.
 
Eins og hjá afa og ömmu
 
Hún tók síðan fljótlega til við að hanna og bródera í púða.
„Þetta eru púðar af því tagi sem margir kannast við af heimilum ömmu sinnar og afa, þeir voru mjög algengir fyrir þó nokkuð mörgum áratugum og þóttu þá mikil stofuprýði. Jafnvel hefur maður heyrt sögur af því að þegar komu gestir, einkum börn, hafi púðunum verið snúið við til að hlífa þeim. Ég heyri þetta reyndar enn, fólk hefur haft á orði við mig að það myndi alls ekki tíma að hafa púða af þessu tagi uppi við í stofunni sinni.
 
Ég hef þá stundum bent á að fólk kaupir skó fyrir tugi þúsunda og notar þá. Það sama ætti að gilda um púða í stofunni heima, þeir eru ekki bara til skrauts, þá má nota,“ segir Þórdís og bendir á að púðarnir eigi langa lífdaga, mun lengur en t.d. skófatnaður.  
 
„Þetta eru viðbrögð sem ég fæ stundum, en vissulega eru viðhorf manna misjöfn og smekkur með ólíkum hætti. Það er allt í lagi með það og raunar bara fínt að allir séu ekki eins.“
 
Hugarfarið breyttist eftir hrun
 
Boltinn fór að rúlla hjá Þórdísi hvað púðasauminn varðar í kringum árið 2007. Hún lagði til nokkra af púðum sínum á setustofu veitingastaðarins Friðrik V. þegar hann var opnaður í Kaupvangsstræti, Gilinu á sínum tíma.
 
„Þeir vöktu strax athygli og fólk fór að spyrjast fyrir um hvort ég gæti útvegað því púða. Ég tók sérstaklega eftir því að á árunum eftir hrun virtist viðhorf fólks breytast. Fólk þekkti púða af þessu tagi frá heimilum sem voru því kær, t.d. hjá afa og ömmu, og það var eins og menn vildu að einhverju leyti endurvekja þá góðu og ljúfu stemningu sem þar var,“ segir Þórdís.
 
„Það var eins og fólk vildi í auknum mæli halda á lofti því gamla og góða, hafa hlýlegt í kringum sig. Ég tók vel eftir því hvernig hugarfarið breyttist í þá veru.“
 
Vinsælar tækifærisgjafir
 
Hún sækir innblástur í gömlu púðana, leitar fanga hvað mynstur varðar í gamlar bækur og einnig er slík mynstur að finna á netinu.
 
„En svo tekur sköpunargleðin völdin, ég útfæri mynstrin og myndirnar eftir mínu höfði, þannig að mín verk eru mitt hugarfóstur frá grunni, þó svo að ég styðjist við eldri verk og mynstur.“
 
Þórdís vinnur við púðagerðina heima við og býður þeim sem áhuga hafa að koma og skoða, en einnig heldur hún úti síðu á Facebook, handbróderaðir púðar, þar sem áhugasamir geta fylgst með hennar verkum. Hún segir að verk hennar séu vinsæl til tækifærisgjafa ýmiss konar, eins og brúðkaups- eða jólagjafa.
 
Jákvæð þróun í handverki
 
Þórdís segir að það hafi verið einkar ánægjulegt að taka þátt í Handverkshátíðinni, en þar hafi hún hitt fjölmarga sem lögðu leið sína í kynningarbás hennar.
 
„Ég hef  aldrei sýnt púðana þar áður, það hefur bara einhvern veginn staðið þannig á hjá mér að ég hef ekki séð mér fært að taka þátt. Það var því mjög skemmtilegt að taka þátt núna og sjá þróunina sem orðið hefur á þessum vettvangi. Hún er jákvæð, það er fjöldinn allur af mjög svo frambærilegu handverksfólki að störfum hér á landi um þessar mundir,“ segir Þórdís.
 
Þá segir hún jákvæðar viðtökur gesta við handverki sínu ekki hafa spillt fyrir gleðinni.  „Það er frábært að fá svona góð viðbrögð, gefur manni svo mikið að sjá og heyra að fólki líki það sem ég er að fást við, í aðdraganda svona sýningar situr maður mikið einn við vinnu sína svo að það er gaman að hitta allt fólkið sem leggur leið sína á þessa sýningu og ég er afskaplega glöð eftir helgina,“ segir Þórdís.  
 
Í nógu að snúast
 
Næsta verkefni er handan hornsins, en Þórdís mun taka þátt í sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóvember næstkomandi.
 
„Nú fer ég á fullt við að undirbúa þá sýningu, það þýðir ekki annað en að bjóða upp á eitthvað nýtt og spennandi á hverri sýningu,“ segir hún og bætir við að ýmsar hugmyndir séu á ferðinni í hennar höfði. 
Auk púðanna hefur hún til að mynda líka saumað út myndir, bæði litlar og stórar, og einnig gert púða með myndum sem tengjast íslenska þjóðbúningnum. Hún sýndi nokkur útsaumsverk sín af því tagi á gluggasýningu hjá Litlu saumastofunni við Brekkugötu fyrr í sumar en hún var sett upp í tengslum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og bar yfirskriftina: Skundum á kjörstað.
 
Seinlegt verk en ánægjulegt
 
Þórdís segir að mikil vinna liggi að baki hverju og einu verki, hvort heldur sem er púði, mynd eða annað. „Þetta er afskaplega seinlegt og þeir eru býsna margir klukkutímarnir sem fara í hvert og eitt þeirra.
Ég hef stundum ætlað mér að tímamæla eitthvert verkefni, en sú fyrirætlan hefur alltaf farið út um þúfur, enda er þetta ekki verk sem maður gerir í einum rykk. En ég hef svo gaman af þessu að ég er ekki að horfa í tímann sem í verkið fer, fremur ánægjuna sem ég hef út úr því og svo líka þeir sem á endanum eignast verkið,“ segir Þórdís og bætir við að hún sé afskaplega lánsöm að hafa tækifæri til að geta einbeitt sér algjörlega að handverkinu.
 
„Tímakaupið er ekki hátt og eflaust ekki hægt að lifa á þessu einu saman. En þetta gengur upp, áhugi á íslensku handverki hefur á liðnum árum aukist til muna og æ fleiri hafa á því skilning að handverksfólk þarf að hafa laun fyrir sína vinnu.“
 
Viðurkenningar á Handverkshátíð
Valnefnd Handverkshátíðar velur árlega fallegasta sölubás ársins og handverksmann ársins.  
Handverksmaður ársins er Þórdís Jónsdóttir og verðlaun fyrir sölubás ársins hlaut Vagg og velta. Valnefnd veitti ein aukaverðlaun í ár, Gleði og bjartsýnisverðlaunin, en þau hlaut Hildur Harðardóttir með sölubásinn Hildur H. List-Hönnun. Fleira vakti athygli valnefndar, s.s. bás Hjartalags, Leðurverkstæðið Hlöðutúni og Erna Jónsdóttir leirlistamaður. Verðlaunagripina í ár gerði Guðrún Gísladóttir. 
 

12 myndir:

Skylt efni: Handverkshátíð | handverk

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði
Fréttir 6. desember 2021

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði

Það er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. E...

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Fréttir 6. desember 2021

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng

Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyr...

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn
Fréttir 6. desember 2021

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu fyrsta áfanga Móabyggðar, nýs 450 íbúða h...

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...