Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Hross á útigangi. Hófsperra er sérlega sársaukafullur sjúkdómur í hrossum og virðist vera að aukast. Hans gæti orðið meira vart vegna hlýindanna í vor og sætleika grasa. Myndin tengist efni greinar ekki beint.
Hross á útigangi. Hófsperra er sérlega sársaukafullur sjúkdómur í hrossum og virðist vera að aukast. Hans gæti orðið meira vart vegna hlýindanna í vor og sætleika grasa. Myndin tengist efni greinar ekki beint.
Mynd / Pixabay
Fréttir 20. júní 2025

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hófsperra er kvalafullur sjúkdómur í hrossum sem sífellt er að verða algengari hér á landi. Um er að ræða efnaskiptasjúkdóm sem getur átt sér mismunandi orsakir en offita er talin stór áhættuþáttur.

Þegar hestur fær hófsperru (laminitis) hefur hófhornið losnað frá hófbeininu en hefur hann þá þjáðst af efnaskiptavandamálum um nokkurt skeið. Hesturinn á erfitt með að hreyfa sig og reynir að hlífa framfótunum, hallar sér aftur og setur þungann á hælana til að létta á framfótunum, þar sem hann er sárkvalinn, en einnig getur þetta gerst fyrir afturfætur. Finna má hita í hófunum og jafnvel slátt í æðum ofan við hófana. Að sögn dýralæknis er hestur með hófsperru alvarlega veikur og ber í öllum tilfellum að kalla til dýralækni.

Mikilvægt er að hestaeigendur fylgist vel með ástandi hrossa sinna á útigangi. Ef vart verður við einkenni sjúkdómsins þarf að hafa strax samband við dýralækni og taka hrossið af ótakmarkaðri beit. Jafnframt þarf að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum án þess að hrossum sé gefið of lítið til að grenna þau þegar þau eru of feit. Beitarstýring er mikilvæg í þessu efni og að hrossum sé þá helst beitt á trénisríkt hátt gras og hafi aðgang að salti.

Hestaeigendur þekki einkennin

Linda Karen Gunnarsdóttir, hestafræðingur og formaður Dýraverndarsambands Íslands, segir að meðhöndlun hófsperru sé erfið og þurfi hross sem fá þennan sjúkdóm að vera undir eftirliti það sem eftir er ævi þeirra. Í sumum tilfellum verði að aflífa hrossin ef þau eru sárkvalin vegna hófsperru og bati ekki í vændum. Hún segir mikilvægt að hestaeigendur þekki einkenni sjúkdómsins og vinni jafnframt að því að fyrirbyggja hann.

Fyrstu einkenni hófsperru geta verið fitusöfnun í makka eða svokallaður harður makki. „Ef vart verður við þetta er hesturinn byrjaður að þróa með sér efnaskiptavandamál og þá er mikilvægt að bregðast við. Stirðleiki, varfærnislegar hreyfingar, deyfð eða að hesturinn hlífi sér þegar hann beygir geta einnig verið einkenni. Hestar geta þjáðst lengi af vægri hófsperru og bera þá hófar yfirleitt merki þess, verða flatir og hófbotninn siginn. Ef vart verður við einkenni er brýnt að hafa strax samband við dýralækni og koma hrossinu af ótakmarkaðri beit, ekki síst ef það er á grænum grösum,“ segir Linda Karen.

Orsakir sjúkdómsins geta verið mismunandi en offita er, sem fyrr segir, mikill áhættuþáttur. Beitiland hefur einnig sitt að segja og að hrossum sé helst beitt á hátt, trénisríkt gras. „Veðurfar á Íslandi hefur farið hlýnandi á síðustu árum sem þarf einnig að líta til. Þegar hlýtt er eykst sykurmagn í grasi í tengslum við ljóstillífun, sérstaklega í nýgræðingi. Vorið í ár hófst með miklum hlýindum sem er varasamt fyrir hross á útigangi, mikilvægt er því að fylgjast sérstaklega vel með hrossum um þessar mundir. Hross geta einnig þróað með sér sjúkdóminn að hausti þegar sólríkt er yfir daginn og kalt yfir nóttina, en það veldur auknum sykri í grasi,“ segir hún.

Fyrirbyggja með beitarstýringu

Linda Karen segir hófsperru vel þekkta í nágrannalöndum okkar og sífellt sé unnið að því að fyrirbyggja sjúkdóminn, eins og með beitarstýringu hrossa.

„Á Íslandi höfum við notið þess að geta sleppt hrossum á sumarhagana án slíkrar fyrirhafnar en líklega sér fyrir endann á þeirri nálgun. Erlendis er meðal annars notast við randbeit og aðrar áþekkar leiðir eða að hrossum sé beitt hluta úr degi, að morgni til þar sem sykurinn eykst í grasinu þegar líður á daginn. Þó þarf að nálgast slíkt út frá fóðurþörfum hrossa sem eru mismunandi. Unghross, fylfullar hryssur og folaldshryssur hafa til dæmis aðrar fóðurþarfir en önnur hross þó að vissulega verði að fylgjast vel með öllum hrossum varðandi einkenni hófsperru,“ segir hún jafnframt.

Hófsperra hafi líklega alltaf fylgt íslenska hestinum en tíðni sjúkdómsins verið að aukast mjög undanfarin ár og líklega eigi offita og hlýrra veðurfar mikinn þátt í aukningu sjúkdómsins í hrossum hér á landi.

„Mikilvægt er að það verði vitundarvakning á meðal hestaeigenda um þennan erfiða og kvalafulla sjúkdóm í hrossum. Tíðni hófsperru er að aukast. Fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og beitarstjórnun, þurfa að verða hluti af ábyrgu hestahaldi hér á landi, ásamt því að fylgst sé vel með því hvort hross á útigangi séu að þróa með sér einkenni sjúkdómsins, svo hægt sé að grípa inn í áður en illa fer,“ segir Linda Karen enn fremur.

Hún bætir því við að mikilvægt sé að hross, eins og annað búfé á útigangi, hafi aðgang að saltsteini. Salt stuðli að vökvajafnvægi og eðlilegri líkamsstarfsemi, en saltskortur valdi vanlíðan. Sérstaklega mikilvægt sé að huga að þessu í hlýju veðri þar sem hrossin svitni meira og tapi salti úr líkamanum. Of algengt sé að hross hafi ekki aðgang að saltsteini í útigangi.

Dýraverndarsambandið hefur lýst áhyggjum af vaxandi hófsperrutilfellum og var fyrir tveimur árum send út sérstök hvatning til hestaeigenda um að hafa varann á sér gagnvart sjúkdómnum. Hlýindin nú í vor geti orðið til þess að tilfellum fjölgi.

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...