Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Helgi Hallgrímsson er höfundur Foldarskarts, hinnar nýju stórbókar um íslenskar blómplöntur.
Helgi Hallgrímsson er höfundur Foldarskarts, hinnar nýju stórbókar um íslenskar blómplöntur.
Mynd / aðsend
Fréttir 21. ágúst 2025

Foldarskart í máli og myndum

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í nýrri stórbók Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings eru blómplöntum gerð fræðileg skil í máli og myndum, auk þess sem fjallað er um notkun þeirra til matar, lækninga, litunar o.fl. að fornu og nýju.

Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur hefur sent frá sér nýtt stórvirki: Foldarskart – Blómplöntur á Íslandi. Í bókinni er fjallað um íslenskar blómplöntur, að undanskildum grasleitum plöntum, sem hafa óveruleg blóm.

„Lýst er um 300 tegundum sem hér hafa vaxið frá alda öðli og rakin saga þeirra, nýting, nöfn o.fl. Auk þess er getið um 240 tegunda sem hafa numið hér land á síðustu einni og hálfri öld, eða hafa verið hér lengi í ræktun, flestum þeirra er stuttlega lýst. Notuð er hefðbundin skipting í kvíslir og ættir og þeim er ýtarlega lýst. Ættir eru flokkaðar eftir lögun blóma og blómskipunar, en líka í tré og runna og vatnaplöntur,“ segir á baksíðu bókarinnar.

Útgáfunni verður fagnað hinn 16. ágúst nk. í gamla bænum á Elliðavatni, húsi Skógræktarfélags Reykjavíkur, kl. 15. Eru allir velkomnir á kynninguna meðan húsrúm leyfir. Einnig var útgáfuhóf á Egilsstöðum, í heimabæ höfundar, 20. júlí sl. og var húsfyllir.

Ágrip íslenskrar grasafræði

Um 500 ljósmyndir prýða bókina, þar af eru 50 heilsíðumyndir. Birt er ágrip af sögu grasafræði á Íslandi, sem ekki hefur áður sést á prenti. Nokkuð er um íslensk nýnefni í bókinni, en eldri nafna er þá jafnan getið.

Bókin er að sögn höfundar ekki flóra í venjulegum skilningi, þó eflaust geti hún notast til að greina flestar tegundir blómplantna. „Tilgangur hennar er fyrst og fremst að vekja athygli almennings á blómskrúði landsins okkar, og veita nánari fræðslu um þær plöntur sem hér er að finna, m.a. um nýtingu þeirra til matar, litunar, lækninga o.fl.,“ segir hann.

Helgi skrifar í formála Foldarskarts að bókin sé unnin upp úr ritsmíðum sínum um plöntur allt frá árinu 1963, er hann var við grasarannsóknir og stofnaði ásamt Steindóri Steindórssyni og Herði Kristinssyni Flóru, tímarit um íslenzka grasafræði, sem kom út um sex ára skeið. Hann birti einnig margar greinar um plöntur í tímaritinu Glettingi sem hann átti þátt í að stofna og enn er við lýði, sem og í Garðyrkjuritinu, Skógræktarritinu og Náttúrufræðingnum. Greinar þessar hafi hann endurritað og stytt, auk þess að bæta við greinum um fleiri tegundir og ættar- og kvíslalýsingar.

Titill bókarinnar er fenginn úr Hulduljóðum Jónasar Hallgrímssonar; „Smávinir fagrir, foldarskart ...“

Útgefandi er Skrudda. Bókin er 687 bls. með atriðisorða- og heimildaskrám og prentuð í Bosníu Herzegovínu. Útgáfufélag Glettings á Egilsstöðum styrkti, auk höfundar sjálfs, útgáfu bókarinnar.

Ötull fræðimaður

Helgi Hallgrímsson fæddist árið 1935 í Holti í Fellum og ólst upp á Arnheiðarstöðum og Droplaugarstöðum í Fljótsdal. Hann nam líffræði, með grasafræði sem aðalgrein, við háskóla í Göttingen og Hamborg 1955–1963. Var kennari við Alþýðuskólann á Eiðum 1957– 1958 og Menntaskólann á Akureyri 1959–1969. Forstöðumaður við Náttúrugripasafnið á Akureyri 1964– 1987 og rannsóknastöðina Kötlu á Árskógsströnd 1970–1979.

Helgi hefur fengist við margs konar rannsóknir á náttúru Íslands, aðallega vatnalífi og sveppaflóru landsins og ritað bækur um þau efni: Sveppakverið (1979) og Veröldin í vatninu (1979, 1990), auk fjölda greina í blöðum og tímaritum. Árið 2005 kom stórbókin Lagarfljót – mesta vatnsfall Íslands út, árið 2010 kom út Sveppabókin, íslenskir sveppir og sveppafræði og hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka 2011. Árið 2016 kom svo út bókin Fljótsdæla, mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi, og ári síðar bókin Vallastjörnur – einkennisplöntur Austurlands.

Helgi stofnaði og stýrði Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi 1969– 1980 og Vísindafélagi Norðlendinga 1970–1975. Stofnandi og ritstjóri Týlis – tímarits um náttúrufræði og náttúruvernd 1971–1985 og í ritstjórn Glettings, tímarits um austfirsk málefni 1991–2002. Hann hefur beitt sér fyrir verndun náttúrunnar á ýmsum vettvangi og hefur alla tíð verið ötull skógræktarmaður. Helgi var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 2014 fyrir ritstörf og rannsóknir á íslenskri náttúru. 

Skylt efni: Foldarskart

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats
Fréttir 27. janúar 2026

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats

Í niðurstöðum vísindagreinar í tímaritinu Regulatory Toxicology and Pharmacology...

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum
Fréttir 27. janúar 2026

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum

Sunnlenskir bændur heimsóttu á dögunum Förka, lífgas- og áburðarverið í Færeyjum...

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið
Fréttir 27. janúar 2026

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið

Hjónin Eva Sæland frá Espiflöt í Bláskógabyggð og Óskar Sigurðsson frá Sigtúni í...

Orka án næringar
Fréttir 23. janúar 2026

Orka án næringar

Fæðan sem við borðum gæti orðið orkumeiri en næringarsnauð og jafnvel eitraðri v...

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði
Fréttir 20. janúar 2026

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði

Hinn 29. desember fór fram úthlutun í Múlaþingi úr svonefndum Snorrasjóði en þet...