Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fögur framtíð í Fljótsdal
Líf og starf 24. maí 2019

Fögur framtíð í Fljótsdal

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Fljótsdalur býr yfir margvíslegum auðlindum og ef byggt er annars vegar á grunni fortíðar og hefðar og hins vegar á styrkleikum og tækifærum á öllum sviðum, verður  „fögur framtíð í Fljótsdal“.  Þetta kom fram á samfélagsþingi sem haldið var í Fljótsdal fyrir skömmu, en það var haldið af Fljótsdalshreppi og var hluti af samfélagsverkefni sem hófst í ágúst í fyrra. 
 
Skilaboð þingsins verða nýtt til að skilgreina valkosti sveitarfélagsins, við stefnumörkun í margvíslegum málum, s.s. varðandi skipulagsmál, atvinnumál, þjónustu og eflingu samfélagsins. Þingið var haldið í Snæfellsstofu og stóð í tvo daga. Það var ætlað Fljótsdælingum, búsettum og brottfluttum, ásamt þeim sem hafa tengsl og rætur í dalinn, eiga þar hús eða jarðir eða starfa hjá fyrirtækjum og stofnunum í Fljótsdal. Það gekk eftir, allir þessir hópar áttu fulltrúa á þinginu og fór þátttaka fram úr björtustu vonum, því hátt í 50 manns mættu. 
 
Búskapur, matvælavinnsla og kolefnisbinding
 
Fyrirkomulag þingsins byggði á alþjóðlegu fundaformi sem kallast Open Space, eða Opið rými. Þingið hófst á því að þeir þátttakendur sem það vildu, gátu stungið upp á málefnum til umræðu, sem síðan voru rædd í minni hópum. Þannig var rætt um 20 ólík mál, sem vörðuðu samfélag, atvinnulíf og umhverfi. Í lok þings var þessum málefnum síðan forgangsraðað. Þar skoraði langhæst málaflokkur sem kallaður var „búskapur, matvælavinnsla og kolefnisbinding“. Þar var allt undir, búskapur og landnýting tengd hestum, kindum, skógi, ferðaþjónustu, grænmeti, kornrækt, hreindýrum, villtum jurtum, fuglum, fiskum og orku. Kallað var eftir sameiginlegri aðstöðu til úrvinnslu matvæla og átaki í markaðssetningu og sölu. Þá var rætt um tækifæri og einnig ógnanir sem geta falist í loftslagsbreytingum. 
 
Þátttakendur á þinginu töldu viðburði og félagslíf vera næst mikilvægasta málefnið til eflingar byggðar og samfélags í Fljótsdalshreppi. Þar kom fram mikill áhugi á að gera meira úr mörgum þeirra viðburða sem þegar eru til staðar, en þó að varast að búa aðeins til viðburði fyrir gesti, heldur leggja áherslu á að heimamenn skemmti sér saman. Meðal annars var stungið upp á að búa til handverkshóp. 
 
Sýnileiki markaðssetningar
 
Rætt var um möguleika tengda virkjunum, bæði heimavirkjunum og orkuauðlindum í stærra samhengi og kallað eftir stefnumótun af hálfu sveitarfélagsins. Þá var lögð áhersla á sýnileika og markaðssetningu Fljótsdals. Af öðrum málum sem þátttakendur töldu mikilvæg, má nefna atvinnu- og verðmætasköpun, náttúruvernd og sjálfbærni, merkingu gönguleiða, bætta aðstöðu við Hengifoss og á fleiri áfangastöðum og hvað mætti gera betur varðandi Vatnajökulsþjóðgarð og þann hluta hálendisins sem tilheyrir sveitarfélaginu. Á þinginu fór fram vönduð greining á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum Fljótsdals og var einnig skoðað hvaða innviðir og þjónusta þyrftu að vera til staðar til að laða að nýja íbúa. Þar var t.d. rætt um húsnæðismál, leik- og grunnskóla, íþróttaaðstöðu, almenningssvæði og öldrunarheimili og varpað fram hugmynd um uppbyggingu byggðakjarna á aðlaðandi stað. Einnig þarf, að mati þátttakenda, að huga að samgöngum, gsm sambandi, útsendingarskilyrðum sjónvarps, sorpmálum og gámasvæði. Þá kom fram að bygging iðnaðarhúsnæðis gæti skapað ýmis tækifæri og bent var á leiðir til að bæta aðstöðu á tjaldsvæði. 
 
Sameining við önnur sveitarfélag verði skoðuð
 
Hægt væri að gera enn meira úr fræðastarfi og rannsóknum í tengslum við stofnanir og fyrirtæki sem þegar eru starfandi í Fljótsdal og voru viðraðar ýmsar hugmyndir um verkefni og samstarf. Loks var rætt um mannauð og tengsl, s.s. erlend samskipti, tengingu við brottflutta og móttöku nýrra íbúa. Rætt var um kosti og galla sameiningar við önnur sveitarfélög og fólk meðvitað um að ekki sé spurning um hvort, heldur hvenær komi til sameiningar, vegna stefnumörkunar ríkisvalds og talið nauðsynlegt að hreppsnefnd greini mögulegar sviðsmyndir og móti stefnu. Einnig var ýmsum hugleikið hvernig sveitarfélagið gæti stutt við nýsköpun og m.a. nefndir þeir möguleikar að koma á fót stöðugildi við sveitarfélagið og/eða að stofna sprotasjóð. 
 
Umsjón samfélagsþings var í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur hjá ILDI, sem nú mun vinna samantekt um skilaboð þingsins, sem síðan fer til frekari úrvinnslu og eftirfylgni hjá samfélagsnefnd og sveitarstjórn. 
 
Á þinginu létu margir ungir Fljótsdælingar að sér kveða og ljóst að hjarta Fljótsdælinga slær fyrir dalinn, jafnvel þeirra sem hleypt hafa heimdraganum. Með þennan kraft fólksins, auðlindir og sterka stöðu sveitarfélagsins, ættu markmið samfélagsverkefnis að nást, enda var því í lok þings gefið nafnið „Fögur framtíð í Fljótsdal“. 

Skylt efni: Fljótsdalur

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...