Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Margrét Hólm Valsdóttir, formaður Matvælasjóðs.
Margrét Hólm Valsdóttir, formaður Matvælasjóðs.
Fréttir 12. október 2021

Fleiri landbúnaðartengd verkefni fengu styrk

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Hlutfall landbúnaðartengdra verk­efna við úthlutun Matvælasjóðs í september er hærra en það var við fyrstu úthlutun í fyrra.Formaður sjóðsins segir að ráðgjöf og stuðningur landshlutasamtaka gætu hafa dregið fleiri verkefni úr sveitum að sjóðnum.


Tilkynnt var um aðra úthlutun Matvælasjóðs þann 15. september sl. Alls hlutu 64 verkefni styrki upp á tæpar 566,6 milljónir króna. Matvælasjóði er ætlað að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum og afurðum þeim tengdum. Alls bárust sjóðnum 273 umsóknir að þessu sinni, en 93% af þeim töldust styrkhæfar. Mun það vera aukning styrkhæfra umsókna frá því í fyrra.


Margrét Hólm Valsdóttir er nýr formaður Matvælasjóðs.
„Eftir fyrstu úthlutun var samið við landshlutasamtök um allt land taka að sér ákveðna ráðgjöf með það að markmiði að fá fleiri umsóknir, ekki síst landbúnaðartengd verkefni. Við vitum að þarna úti er fólk með fullt af góðum hugmyndum og við vildum veita þeim sem eru ekki þaulvanir að sækja um í sjóðum, einhver tæki og tól og stuðning við umsóknir,“ segir Margrét. Þetta hafi skilað sér í fleiri og betri umsóknum.


Auk þess buðu Bændasamtök Íslands upp á stuðning fyrir sína félagsmenn við þróunar- og nýsköpunarverkefni. Um tímabundið verkefni var að ræða en um 10-15 manns leituðu ásjár hjá ráðgjöfum samtakanna við að þróa hugmyndir sínar.

Fjölbreytt viðfangsefni

Upphæð styrkja var frá rúmri 1 milljón í 25,5 milljónir króna fyrir hvert verkefni sem voru af fjölbreyttum toga. Þar má nefna verk­efni um þróun og markaðssetningu gæsaafurða, púðursjampó fyrir hesta, tilraun til notkunar þangsafa við vökvaræktun grænmetis, ostrusvepparæktun, þróun á majonesi úr repju og hafraskyr og fullvinnsla á grjótkrabba.


Þá hlutu þrjú verkefni á vegum Jarðræktarmiðstöðvar Land­búnaðar­háskóla Íslands náð fyrir augum stjórnar sjóðsins, en það eru verk­efni um bygg og hafra sem miða að því að bæta ræktunaraðferðir og auka gæði afurða og finna leiðir til aukinnar matarolíuframleiðslu úr olíujurtum.


Einnig hlaut Matís úthlutun fyrir 11 verkefni sem stofnunin vinnur í samstarfi við einkaaðila. Þar á meðal eru verkefni sem skoða áhrif á endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans á kolefnisspor afurða, nýjar lausnir við merkingar matvæla og áskorun við pökkun grænmetis. Einnig mun hringrásarkerfi kjötiðnaðar vera til rannsóknar sem og næringar- og hollustuefni úr hliðarafurðum bjórgerðar.

Fyrstu vörur á markað 2022

Margrét segir fjölbreytni verkefna endurspegla þá grósku sem á sér stað. „Það er gríðarleg nýsköpun í gangi. Úti um allt land eru aðilar með alls konar hugmyndir. Okkur finnst sérstaklega gaman að sjá þegar verið er að nýta alveg nýjar afurðir og líka þegar verið er að nýta afurðir til að vinna gegn sóun og stuðla að sjálfbærni, því það er jú eitt af markmiðum sjóðsins.“


Styrkþegar fyrstu úthlutunar eru farnir að skila inn stöðuskýrslum en Margrét segir að neytendur geti farið að búast við fyrstu vörum, þróaðar með stuðningi Matvælasjóðs, á næsta ári.

Endurskoðun verkferla

Stjórn sjóðsins mun leggjast yfir aðra úthlutun og gera endurskoðun á vinnuferlum og leiðbeiningum.


„Það er í mörg horn að líta. Sjóðurinn er að slíta barnsskónum og því eigum við eftir að slípa hann við hverja úthlutun. Það má alltaf eitthvað betur fara, til að gera sjóðinn enn betri og skilvirkari. Sú vinna er nú í gangi með samstarfi fagráða og starfsmanna sjóðsins. Við erum til að mynda að fara yfir vinnubrögðin, einkunnagjöf, uppsetningu umsókna og handbókina,“ segir Margrét.


Úthlutað verður úr Matvælasjóði aftur næsta vor. Opnað verður fyrir umsóknir snemma árs 2022.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...