Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Myndin er frá árinu 2015 sem sýnir vel afstöðu húsa og þar lætur gamli Brunnhóll lítið yfir sér.  Eftir framkvæmdirnar á árinu 2017 verður búið að byggja á þrjá vegu umhverfis íbúðarhúsið, sem byggt var laust fyrir 1960 og í gamni og alvöru er sagt á bænu
Myndin er frá árinu 2015 sem sýnir vel afstöðu húsa og þar lætur gamli Brunnhóll lítið yfir sér. Eftir framkvæmdirnar á árinu 2017 verður búið að byggja á þrjá vegu umhverfis íbúðarhúsið, sem byggt var laust fyrir 1960 og í gamni og alvöru er sagt á bænu
Viðtal 25. apríl 2018

Ferðaþjónustubændur blómstra við rætur Vatnajökuls

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Ekkert lát virðist vera á uppgangi í ferðaþjónustunni og fara ábúendurnir á Brunnhóli, við rætur Vatnajökuls, ekki varhluta af því blómaskeiði sem verið hefur undanfarin ár. Hjónin Sigurlaug Gissurardóttir og Jón Kristinn Jónsson keyptu jarðirnar Árbæ og Brunnhól í Austur-Skaftafellssýslu árið 1980, en þá var þar stundaður blómlegur kúabúskapur og hefur svo verið allar götur síðan, nú í eigu sonar þeirra, Sæmundar Jóns. 
 
Fljótlega sáu þau þó tækifæri í ferðaþjónustunni og í ónotuðu íbúðarhúsi buðu þau upp á þjónustu fyrir ferðamenn frá árinu 1986. Eftirspurnin á þeim tíma var ekkert í líkingu við það sem er í dag, en dafnaði þó jafnt og þétt. Framkvæmt var í takt við eftirspurn.   
 
Hjónin Sigurlaug Gissurardóttir og Jón Kristinn Jónsson á Brunnhóli í Austur-Skaftafellssýslu hafa boðið upp á þjónustu fyrir ferðamenn í rúmlega 30 ár og standa nú í framkvæmdum til að stækka gistirými staðarins.
 
Á þeim tæplega 40 árum sem þau hafa búið á Hornafirði, þar af boðið upp á gistingu í 33 ár, hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þrátt fyrir gott orðspor af gistingunni þá er það þó heimagerði jöklaísinn sem framleiddur er úr mjólk af kúabúinu sem er í dag ímynd staðarins. Mikill fjöldi ferðamanna kemur dag hvern til að fá sér ís  og framkvæmdir eru á fullu við fjölgun á gistirýmum staðarins.  
 
„Dagarnir fljúga hér áfram og ég rembist eins og rjúpan við staurinn að láta enda ná saman. Við erum að bæta við 12 herbergjum við vesturendann sem verða öll með útsýni að jöklum. Húsið verður byggt úr límtréseiningum sem IDEX flytur inn frá Austurríki og það verður farið að reisa þær strax eftir páska, við erum bjartsýn á að geta tekið herbergin í notkun í kringum 20. júní ef allt gengur upp,“ segir Sigurlaug, sem hafði átt annasaman dag rétt fyrir páska þegar blaðamaður Bændablaðsins náði af henni tali enda vegurinn um Skeiðarársand lokaður sem þýddi alls kyns erindi og reddingar vegna ferðamanna á Brunnhóli þann daginn.
 
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Sigurlaug og Jón Kristinn keyptu Brunnhól og Árbæ árið 1980 eins og sjá má á þessari mynd.
 
Liður í kynslóðaskiptum
 
Á Brunnhóli er unnið eftir Agenda21-hugmyndafræðinni þar sem lögð er áhersla á hágæðaþjónustu og virðingu fyrir umhverfinu. Ábúendurnir leggja einnig ríka áherslu á að skila landinu af sér óspilltu til komandi kynslóða. 
 
„Þessar framkvæmdir eru liður í kynslóðaskiptum því við Jón erum hægt og hljótt að draga okkur í hlé, minnka við okkur vinnuna niður í fullan vinnudag til að byrja með.
 
Á sama tíma erum við að bæta starfsmannaaðstöðuna hjá okkur, við erum með 5 starfsmenn yfir veturinn og þeir fara upp í 12–14  á sumrin. Eftir framkvæmdirnar getum við boðið upp á 32 herbergi. Við höfum verið lengi í þessu og erum með fastar ferðaskrifstofur sem beina meginþorra af gestunum til okkar en við verðum einnig að vera á www.booking.com,“ útskýrir Sigurlaug og segir að mikil breyting hafi orðið á kauphegðun ferðamanna á allra síðustu árum.  
 
Aðspurð um veitingasöluna hjá sér segir hún: „Við höfum ekki auglýst veitingasöluna beint og erum þar fyrst og fremst að þjóna okkar gestum, en sífellt fleiri detta þó inn fyrirvaralaust.“ Það tengist ekki síst íssölunni sem hefur vaxið jafnt og þétt og þau hafa kosið að líta á sem afþreyingu en ekki veitingasölu. 
 
„Um íssöluna má segja eins og allt annað að orðsporið er besta auglýsingin enda hefur allt frá upphafi ekki verið lagt í mikinn kostnað við auglýsingar, en við alla tíð verið virkir þátttakendur í sölu- og kynningarkerfi Ferðaþjónustu bænda, nú Hey Iceland sem og í landshlutabundnu markaðssamstarfi. Og síðast en ekki síst heima í héraði, í ríki Vatnajökuls. Við höfum aldrei átt okkar eigin bækling, en látið gera nafnspjöld og póstkort sem gestir geta tekið með sér til minningar um dvölina,“ segir Sigurlaug en ísborðið er opið alla daga frá 10–22 og drjúgt er að gera í því og fáir dagar sem enginn kemur.  
 
„Við höfum þó valið að hafa lokað í allt að þrjá mánuði yfir veturinn, í nóvember, desember og janúar. Við höfum ekki farið út í að leyfa gestum að koma ótakmarkað inn í fjósið enda spyr maður sig hvort slíkt sé æskilegt út frá heilbrigðissjónarmiðum. Allur er varinn góður í þeim efnum. Þess í stað hafa eftirlitsmyndavélar sem eru í fjósinu verið tengdar inn á sjónvarpskerfið og þar geta gestir fylgst með því sem er að gerast í fjósinu, allan sólarhringinn.“
 
Vinna við gólfhitakerfið, en slíkt er í öllum gólfum á gistiheimilinu. 
 
Án ferðaþjónustu – engin byggð
 
Þegar Sigurlaug var spurð um hver væri hennar sýn á þolmörkum ferðaþjónustunnar, sagði hún að áralangt starf hennar í félagsmálum ferðaþjónustunnar hefði meðal annars kennt henni að aðstæður eru mjög misjafnar milli landshluta og jafnvel innan héraða.  
 
„Stóra verkefnið framundan er að vinna markvisst að því að gera það eftirsóknarverðara og auðveldara að sækja heim þau svæði sem þola meira álag. Veigamikill þáttur hér eru bættar samgöngur, hvort heldur er með betri vegum eða með flugi, annaðhvort beint til landsvæðanna eða það sem ég hef raunar alltaf sagt, að tengiflug frá Keflavík til annarra flugvalla vítt og breitt um landið væri skynsamlegur kostur. Satt að segja hef ég fengið bágt fyrir þá eindregnu skoðun mína að innanlandsflugið ætti að vera í Keflavík eða nágrenni, það muni auka hlut ferðaþjónustunnar úti um allt land,“ útskýrir Sigurlaug og segir jafnframt:
„Og gleymum ekki samspili búsetu um allt land og ferðaþjónustu. Án byggðar, engin ferðaþjónusta, og um leið langar mig að segja, án ferðaþjónustu, engin byggð. Hæfileg blanda af hefðbundinni atvinnustarfsemi og ferðaþjónustu er það sem gestir okkar vilja. 
 
Annar stór þáttur er auðvitað staða krónunnar en það er augljóst að hún gerir það að verkum að samkeppnisstaða Íslands er veikari og í stað þess að koma ekki til landsins, dvelja gestir skemur og álag á þá staði sem næst eru innkomuleiðum verða fyrir auknu álagi. Þetta þarf einfaldlega að laga.“ 
 
Framkvæmdir á Brunnhóli, unnið við þakfrágang á starfsmannahúsi. Jón Kristinn Jónsson á Brunnhóli og Salómon, bróðir hans, hjálpast að við vinnuna. 
Mest aukning í svínakjöti
Fréttir 11. október 2024

Mest aukning í svínakjöti

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um þrjú...

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu
Fréttir 11. október 2024

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu

Bændasamtök Íslands hafa lagt umsögn sína um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inn ...

Vambir liðnar undir lok
Fréttir 11. október 2024

Vambir liðnar undir lok

Ekki fást lengur vambir með slátri frá SS. Neytendur sakna þeirra.

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 11. október 2024

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði standa fyrir málþingi á Hó...

Stýrihópur greiðir úr misfellum
Fréttir 11. október 2024

Stýrihópur greiðir úr misfellum

Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýrihópur hefu...

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf
Fréttir 10. október 2024

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf

Mikill gangur hefur verið í arfgerðargreiningum í sauðfé frá áramótum.

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum
Fréttir 10. október 2024

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum

Tvær nýlegar hópsýkingar hafa orðið í Noregi sem raktar voru til hamborgarakjöts...

Afkomutjón blasir við
Fréttir 10. október 2024

Afkomutjón blasir við

Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum f...