Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fáein orð í ljósi erfiðrar stöðu sauðfjárbænda
Lesendarýni 9. september 2016

Fáein orð í ljósi erfiðrar stöðu sauðfjárbænda

Höfundur: Baldur Grétarsson
Sauðfjárbændum brá eðlilega á dögunum þegar sláturleyfishafar gáfu út fyrstu afurðaverð haustsins fyrir dilka- og ærkjöt.
 
Ég tel að við sauðfjárbændur þurfum ekki að láta okkur bregða svo mjög við þessa stöðu því að við höfum, að mínum dómi, skapað hana sjálfir á undanförnum árum. 
 
Gleymum ekki til hvers kvótinn var settur
 
Menn mega aldrei gleyma til hvers „kvótinn“ var settur á á sínum tíma. Það var vegna offramleiðslu og birgðavanda í greininni. Sem betur fer leystist úr því og jöfnuður skapaðist um langt skeið. Um leið og ástandið var orðið betra vildi stéttin óðar færa ríkisstuðninginn æ meira yfir á framleiðsluna. 
 
Baldur Grétarsson.
Ég sat í stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda í allmörg ár og varaði ætíð við þessum tilfærslum, það myndi kalla á offramleiðslu á ný og lægra afurðaverð í kjölfarið. Ég efast um að nokkur muni eftir þessum viðvörunarorðum mínum enda þóttu þau heldur íhaldssöm á þeim tíma og fengu lítinn hljómgrunn.
 
Afurðastöðvarnar hafa þurft að tappa af birgðum
 
Þrátt fyrir að sum sauðfjárræktarsvæði eigi undir högg að sækja hvað varðar þéttleika búsetu þá eru skilyrði til framleiðslu enn svo mikil í landinu að afurðastöðvarnar, sem hafa staðið sig vel í því að taka við öllu sauðfjárinnleggi, hafa þurft að tappa af birgðum á útflutningsmarkaði sem gefa lágt verð í flestum tilfellum. 
 
Nýlega tilkynntu Norðmenn að þeir tækju lítið sem ekkert kjöt þetta haustið. Þó hefur Noregur verið sá útflutningsmarkaður sem hefur gefið besta verðið í gegnum tíðina. Eftir standa markaðir sem greiða mun lægra verð. Samtímis er að safnast upp kjöt í landinu og slíkt hefur alltaf þýtt lækkun á heildsöluverði sem skilar sér beint til bænda í lægra afurðaverði.
 
Komið að hagræðingu hjá afurðastöðvunum
 
Nú er svo komið að afurðastöðvarnar lifa ekki lengur nema til hagræðingar komi. Þetta var viðbúið. Stærri fyrirtækin með fjölbreyttari rekstur hafa getað hagrætt milli greina en þau minni eru komin á ystu mörk.
Maður heyrir nú um hundruð tonna af óseldu kjöti, hundruð þúsunda af óseldum gærum. Það eru vondar fréttir, en beinar afleiðingar þess að ekki var gætt varúðar, heldur hvatt til framleiðslu með öllum tiltækum ráðum, s.s. síhækkuðu ásetningshlutfalli. 
 
Það er betra að taka skell með lægra afurðaverði einu sinni eða svo, heldur en að fá ekki greitt vegna þess að afurðastöð hefur orðið gjaldþrota. Þetta þekkjum við framleiðendur einnig af reynslu.  
 
Skrefið stigið nánast til fulls þótt hættumerkin blikki
 
Í nýjum búvörusamningi er skrefið stigið nánast til fulls þrátt fyrir hættumerkin sem alls staðar blikka. Leggja skal niður greiðslumark og hafa stuðninginn að mestu leyti framleiðslutengdan. 
 
Það er svoleiðis með okkur Íslendinga að okkur er tamt að gæta ekki hófs þegar vindar blása byrlega. Menn hafa orðið drjúgir í söfnun á greiðslumarki, sem og fjölgun fjár þegar svo ber undir. Blandaða stuðningskerfið reyndist farsælt til að halda jafnvægi. Nú er jafnvægið að bresta og afleiðingarnar láta ekki á sér standa.
 
Þótt einhverjir hygðust hætta búskap við þessar aðstæður, er það erfitt þegar greiðslumark er óseljanlegt um þessar mundir og afurðaverð í sögulegu lágmarki. Viðbúið var að þetta ástand skapaðist. Þetta er þróun sem því miður hefur verið stefnt að í langan tíma eða allt frá því að síðast leystist úr langvarandi birgðavanda. Þeir sem eldri eru í stéttinni muna vel erfiðleikatímana þar á undan og það hlýtur að renna á menn tvær grímur ef slíkt ófremdarástand ætlar að endurtaka sig.
 
Sígandi lukka er best
 
Nú þegar landið okkar er fullt af ferðamönnum um allar grundir ættum við að kynna þeim gæði lambakjötsins með öllum ráðum. 
 
Gísli Einarsson fréttamaður sagðist í morgunútvarpi 31. ágúst sl. ekki vita um neinn matsölustað sem sérhæfði sig í lambakjötsréttum, en nefndi dæmi um slíka í mörgum öðrum kjöttegundum, grænmeti og fiski. Ferðamenn koma og fara. Þegar þeir fara aftur til síns heima kynna þeir fyrir öðrum það sem gott þótti úr ferðalaginu. Það er sterk auglýsing. Þetta er leið sem við eigum að nýta okkur og stuðla þannig að aukinni neyslu á íslenska lambakjötinu hér og erlendis. Sígandi lukka er best segir máltækið.
 
Sauðfjárbændum má ekki fækka mikið meira
 
Ég vona sannarlega að sauðfjárframleiðsla komist aftur í jafnvægi þrátt fyrir erfiðleika um stund og varhugaverða stefnumótun fyrir framtíð greinarinnar. Sauðfjárbændum má ekki fækka mikið meira. Það kallar á alvarlega búseturöskun og í kjölfarið enn frekari holskeflu á innfluttu kjöti sem fáir hagnast á nema verslunin í landinu. Skoðum söguna og sýnum hyggindi til viðgangs sauðfjárræktinni í landinu.
Íslensku bændastéttinni óska ég velfarnaðar í framtíðinni. 
 
Baldur Grétarsson
Kirkjubæ á Fljótsdalshéraði
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...