Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hægt verður á niðurtröppun greiðslumarks í sauðfjárrækt.
Hægt verður á niðurtröppun greiðslumarks í sauðfjárrækt.
Mynd / smh
Fréttir 25. janúar 2024

Ekkert viðbótarfjármagn

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Endurskoðun búvörusamninga lauk 17. janúar. Ekkert viðbótarfjármagn var í boði af hálfu stjórnvalda inn í samningana og urðu því litlar breytingar á starfsskilyrðum bænda.

Um seinni endurskoðun er að ræða, en sú fyrri fór fram á árinu 2019. Strax frá upphafi viðræðna gaf samninganefnd ríkisins út skýr skilaboð um að ekki yrðu settir inn í samningana auknir fjármunir, sem varð svo raunin á endanum þrátt fyrir skýra kröfugerð Bændasamtaka Íslands (BÍ) um þörf búgreinanna á viðbótarfjármagni.

Helstu breytingarnar eru á sauðfjársamningnum. Þannig verður hægt á niðurtröppun greiðslumarks sauðfjárbænda sem helst óbreytt frá þessu ári og út gildistíma samninga sem er í lok árs 2026. Hlutfall beingreiðslna sem greiddar eru út á greiðslumark verður 33 prósent af heildarstuðningi við sauðfjárræktina. Á móti lækkar hlutfall býlisstuðnings í 16 prósent heildarstuðnings og sömuleiðis ullarnýtingargreiðslna í 11,5 prósent á sama tímabili. Ónýttar beingreiðslur í sauðfjárrækt verða nýttar í fjárfestingarstuðning í sauðfjárrækt. Þá verður sú breyting á fjárfestingastuðningi í sauðfjárrækt að hann getur numið allt að 40 prósentum af stofnkostnaði í stað 20 prósenta eins og fyrri samningur gerði ráð fyrir.

Greitt fyrir ræktun á yfir fjórðungi af hektara

Sú breyting verður á starfsskilyrðum garðyrkjubænda að jarðræktarstyrkir til útiræktunar á grænmeti og garðávöxtum til manneldis verða frá þessu ári greiddar fyrir ræktun á yfir fjórðungi af hektara í stað eins hektara. Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá BÍ, segir að tilgangurinn með breytingunni sé hvatning til bænda að prófa sig áfram í útiræktun án þess að leggja of mikið undir.

„Ráðuneytið var ekki tilbúið að standa við stjórnarsáttmála um að festa niðurgreiðsluhlutfall í dreifingar kostnaði á raforku né koma með aukið fjármagn til útiræktunar. En bæði þessi atriði komu skýrt fram í stjórnarsáttmála,“ segir Axel. Í breytingum á rammasamningnum, um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins kemur fram að fjármagn til leiðbeiningaþjónustu mun haldast óbreytt árin 2025 og 2026 – á verðlagi þessa árs. Þá mun framlögum sem kveðið er á um í 5. grein rammasamningsins verða varið til jarðræktar út samningstímann, það er nýræktar og endurræktar á túnum, kornræktar og ræktunar annarra fóðurjurta og annarra niturbindandi plantna.

Þróunarfé verður með sama hætti í búgreinunum

Þá verður þróunarfé garðyrkju ráðstafað frá þessu ári af matvælaráðuneytinu með sama hætti og þróunarfé í sauðfjár- og nautgriparækt samkvæmt ákvæðum rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.

Ráðuneytið úthlutar styrkjum að fenginni umsögn fagráðs í garðyrkju, en horfið verður frá því að framkvæmdanefnd búvörusamninga geri tillögu að úthlutun til ráðherra. Meðmæli fagráðs er forsenda styrkveitingar.

Fjármagni sem ekki er ráðstafað til aðlögunar að lífrænni ræktun í garðyrkju- og rammasamningi verður heimilt að ráðstafa til aðgerða í samræmi við aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar ræktunar að tillögu framkvæmdanefndar.

Vonbrigði nautgripabænda

Engin breyting verður á starfsskilyrðum nautgripabænda með endurskoðuninni. Rafn Bergsson, formaður deildar nautgripabænda hjá BÍ, segir að hjá þeim hafi mest snúist um að fá meira fjármagn inn í samninginn. „Við vildum fá meiri stuðning inn í framleiðslutengda liði, mjólkurframleiðsluna og sláturálag fyrir nautakjöt. Því var hafnað en boðið upp á að fjármagn yrði fært eitthvað á milli liða samningsins. Það var mat okkar í stjórninni að þiggja það ekki þar sem rekstur margra búa er mjög þröngur og það að fara að færa á milli liða myndi raska forsendunum í tekjuflæði einhverra búa. Niðurstaðan er auðvitað vonbrigði fyrir okkur,“ segir Rafn.

Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, skrifaði undir endurskoðaða búvörusamninga fyrir hönd samtakanna. Hann segir að í raun hafi ekki orðið breyting á búvörusamningunum þar sem ekki var um aukna fjármuni inn í samningana að ræða. „Það sem kom mér mest á óvart er að lítið af atriðum sem getið er um í stjórnarsáttmálanum rataði inn í endurskoðunina.“

RML heldur óbreyttu framlagi

Gunnar sat samninganefnd bænda ásamt formönnum búgreinadeildanna; Rafni Bergssyni, Trausta Hjálmarssyni, formanni deildar sauðfjárbænda hjá BÍ, og Axel Sæland.

Hann segir að á rammasamningnum hafi nánast engar breytingar orðið nema að Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins komi til með að halda óbreyttu framlagi út samningstímann og stuðningur við lífræna ræktun verður umfram aðlögunartímann sem eru þrjú ár, ef fjármunir sem skilgreindir eru í lífrænan stuðning ganga ekki út. Einnig verði til dæmis í jarðræktarstuðningi hægt að fá stuðning vegna ræktunar á niturbindandi plöntum.

Viðræður um starfsumhverfi landbúnaðar til framtíðar

Í bókunum við samkomulagið um endurskoðunina er lögð áhersla á sameiginlegt markmið samningsaðila um að landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 og að nauðsynlegt sé að hefja undirbúning innleiðingar á loftslagsbókhaldi landbúnaðarins.

Einnig er bókun um að samningsaðilar séu sammála því að forsendur fyrir tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins frá árinu 2015 séu breyttar. Þá eru samningsaðilar sammála því að hefja nú þegar viðræður um starfsumhverfi landbúnaðar til framtíðar.

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...