Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Einstaklega ljúf og skapgóð
Líf&Starf 28. júlí 2015

Einstaklega ljúf og skapgóð

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í Berjanesi í Vestur-Landeyjum er kýr sem Snúra heitir og er fædd í apríl 1999, eða fyrir rúmlega 16 árum. Þessi kýr þykir bera af og hefur enst með fádæmum vel, en ræktandi hennar er Erna Árfells.

Á bænum eru 45 mjólkandi kýr og 90–100 aðrir gripir auk 400 sauðfjár og um 60 hrossa. Fyrir þetta þarf að heyja vel á annað þúsund rúllur auk kjarnfóðurs sem gefið er. Erna hefur alla tíð haft veg og vanda af nautgriparæktinni, en sambýlismaðurinn, Jón Guðmundsson, hefur aftur á móti haldið utan um sauðfjárræktina.

Erna segir þetta fyrirkomulag hafa hentað þeim ágætlega, Jón hafi alltaf haft meiri áhuga á sauðfjárrækt, en hún hafi verið meira fyrir kúabúskapinn. Þótt vinnan sé vissulega meiri að jafnaði við kýrnar, þá falli henni það betur í geð en sólarhringstarnirnar við sauðburðinn á vorin. Þar hleypur dóttirin, Gunnhildur, ásamt manni sínum undir bagga með föður sínum. Þykir því liggja beinast við að hún taki við sauðfjárræktinni á bænum, en sonurinn, Guðmundur, við kúabúskapnum. „Mér hentar miklu betur að hafa jafna vinnu eins og við kýrnar,“ segir Erna.

Tók við af ömmu sinni og afa

„Ég tók við kúabúskapnum eftir afa og ömmu árið 1975, en ég ólst að mestu leyti upp hjá þeim. Við vorum með básafjós hér áður og mjólkaði ég ein í marga áratugi. Þá var ég að jafnaði með 25–26 kýr.

Við fórum svo að skoða hvernig við gætum breytt þessu og vorum jafnvel með í huga að byggja mjaltabás. Svo sáum við auglýstan notaðan róbót (mjaltaþjón) í Bændablaðinu og Guðmundur sonur minn hringdi strax og bauð í hann. Við breyttum svo fjósinu í legubásafjós og vorum núna í mars búin að vera með róbótinn í notkun í fimm ár.

Við vorum líka með stóra flatgryfju sem við byrjuðum á að breyta í vetrungafjós. Þar undir fengum við haughús. Nú erum við að skoða hvort ekki þurfi að huga að því að fara að byggja við þar sem kröfurnar um dýravelferð eru alltaf að verða meiri og meiri. Svo er stöðugt verið að biðja um meiri mjólk.“

Erna segist ekki sjá fyrir sér að fyrirtæki með stórbú taki yfir hlutverk fjölskyldubúanna. Allt annað sé að reka bú með aðkeyptum starfskrafti sem engra hagsmuni eigi að gæta og hafi jafnvel litla þekkingu á því sem þar þarf að vinna. Nefnir hún nokkur dæmi orðum sínum til staðfestingar. Hins vegar séu líka nokkur dæmi um vinnufólk sem ráðið sé til afleysinga í sveitum sem reynst hafi afburðavel. Hún segist þó vera mjög kenjótt varðandi það að fá utanaðkomandi til að sinna sínum kúm.

Leggur ekki í vana sinn að taka löng frí frá búinu

Erna hefur svo sem ekki mikið verið að styðjast við afleysingafólk, nema þá soninn, enda eru frí frá búinu eitthvað sem hún þekkir helst af afspurn. Hún segist þó einu sinni hafa farið í langt frí, eða í þrjár vikur. Þá fór hún til Suður-Ameríku  og var í hálfan mánuð á Galapagoseyjum. Þá fór hún einu sinni í tveggja vikna frí til Bandaríkjanna og Kanada. Annars hefur hún látið sér nægja að skreppa í nokkra daga í einu.

„Maður fer ekki mikið frá ef maður ætlar að hugsa almennilega um búið. Þetta gengur ekkert nema það sé hugsað vel um alla hluti og vakað yfir öllu. Auðvitað þurfa bændur samt að komast frá annað slagið.“

Sonurinn kom inn í reksturinn

Nú er sonurinn, Guðmundur Jón Jónsson, að miklu leyti tekinn við kúastofninum, en hann býr á Hvolsvelli sem er í um tíu mínútna akstursfjarlægð frá Berjanesi. Kom hann inn í þetta fyrir nokkrum árum þegar stofnað var sameignarfélag um reksturinn. Hann var einmitt að hefja slátt heima við hús þegar tíðindamann Bændablaðsins  bar að garði þann 11. júní síðastliðinn, þótt eiginlegur túnsláttur hæfist ekki fyrr en 25. júní.  Þótti honum sprettan fara seint af stað sökum kulda þetta sumarið, en í fyrra var það óvenjumikil bleytutíð sem angraði bændur. Guðmundur segir að samt hafi heyskapurinn sloppið til á síðasta ári.

„Maður ætlaði þá að byrja að slá í byrjun sumars en þótti ekki alveg nógu vel sprottið. Við hættum því fljótlega og ætluðum að bíða í nokkra daga. Þá kom rigning sem stóð samfellt í tíu daga og þá var grasið farið að skríða meira en við helst vildum sætta okkur við. Seinni hluta sumarsins náðum við þó þokkalegum heyjum.“

Mikið ræktunarstarf unnið á sandinum

Jörðin Berjanes er um 1.100 hektarar en þar ef eru túnin 120 hektarar beggja vegna þjóðvegarins. Nokkuð stór hluti af túnunum, eða um 40 hektarar, hafa verið græddir upp af svörtum foksandinum. Segir Erna að fyrir nokkur hundruð árum hafi bærinn reyndar verið færður ofar í landið vegna sandfoks. Hún segir að þótt mikil uppgræðsla hafi átt sér stað á jörðinni sé mikið af sandinum enn ógróið land, en fyrir nokkrum áratugum hafi 2/3 hlutar jarðarinnar verið svartur sandur. Hún segir þó tímafrekt að græða upp nothæf tún og mynda nægilega þykkan jarðveg. Slík tún vilji líka oft brenna illa í miklum þurrkum þar sem rakinn er fljótur að hverfa í sandinn.

Ekki tilviljanakennd ræktun

Þótt Guðmundur sé nú orðinn öflugur liðsmaður í nautgriparæktinni á bænum er Erna þó enn að, enda nautgriparæktaráhuginn afar mikill alla tíð. Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur í nautgriparækt hjá Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins, segir að Erna hafi alltaf notað sæðingar og heimanaut nokkuð jöfnum höndum. Hún hafi ræktað liti (gjarnan hryggjótt) og fallegar kýr. Segir hann að Berjanes-kýrnar hafi yfir sér ræktarlegt yfirbragð og beri þess vitni að þar hafi verið stunduð markviss en ekki tilviljanakennd ræktun.

Snúra er einstaklega ljúf og skapgóð

Erna segir það ekki verra að Snúra sé einstaklega ljúf og skapgóð. Samkvæmt skýrsluhaldi hennar hafði Snúra skilað þann 30. júní síðastliðinn samtals 97.292 lítrum af mjólk sem er með því besta sem þekkist á æviskeiði einnar kýr. Að meðaltali er fituinnihald mjólkurinnar 4,02 og próteininnihald 3,63.

Snúra hefur átt 15 kálfa, þar af 13 bolakálfa og tvær kvígur. Eignaðist hún tvo nautkálfa (tvíbura) árið 2008 og það ár mjólkaði hún mest á æviskeiði sínu, eða hvorki meira né minna en 8.694 lítra. Annar tvíburinn, Þáttur að nafni, fór til brúkunar á sæðingarstöð. Hinn var notaður á kvígur í Berjanesi.

Eftir síðasta burð hefur nytin heldur minnkað hjá Snúru og telur Erna ólíklegt að hún nái því að komast yfir 100 þúsund lítra markið úr þessu.

Hefur aldrei safnað spiki

− Hver er galdurinn við að rækta svona góða og fallega kú?
„Ég get sagt þér hluta af því, en það er að hún hefur aldrei safnað spiki. Ég held að það hái einmitt mörgum kúm að þær verða of feitar.“

− Stafar það af ofgjöf?
„Bæði það og að þær mjólka ekki nóg. Snúra hefur aldrei á ævi sinni orðið feit og verið alveg óhemju hraust. Á síðasta ári, þegar hún átti fimmtánda kálfinn, fékk hún þó smá burðarslen sem hún hefur ekki fengið áður.

- Hefur þú átt fleiri slíka gæðagripi?
„Nei, enga sem hafa enst svona lengi. Hún er búin að eiga 13 naut og tvær kvígur, en önnur þeirra fékk beinkröm en var að öðru leyti mjög vel gerð. Ég hafði þá ekki áttað mig á því að hana skorti D-vítamín og kalk. Ég hafði líka lent í þessu með einn og einn vetrung og varð meira að segja að skjóta naut sem við ætluðum að nota og ég sá mikið eftir. Það var svo Grétar Hrafn Harðarson dýralæknir sem benti mér á þetta og sagði mér að gefa þeim lýsi og kalk. Hann sagði að nautin yxu svo hratt að þau væru ekki að ná úr heyinu öllum þeim næringarefnum sem þau þyrftu á að halda. Þessu mætti bjarga með aukagjöf á þeim næringarefnum.

Við höfum notað naut undan Snúru og erum með eitt núna inni í fjósi. Öll nautin undan henni hafa verið ágætlega holdi farin. Þetta hefur skilað sér í góðum gripum og ég hef aðeins fengið eina kvígu undan nauti Snúru sem ég hef ekki verið ánægð með.“

Væntumþykjan um íslensku kúna skín í gegn

Það er greinilegt að Erna ber hag gripanna sinna mjög fyrir brjósti og væntumþykjan um dýrin skín þar berlega í gegn. Hún er líka stolt af íslenska kúastofninum og segist ekki mega til þess hugsa að menn taki inn nýtt kúakyn til mjólkurframleiðslu. 

„Ég vil ekki sjá það, því þetta er auðlind sem við eigum. Okkur ber skylda til að vernda íslensku dýrategundirnar óblandaðar. Ég efast til dæmis um að hrossabændur yrðu kátir ef farið yrði að blanda erlendum stofnum saman við íslenska hestinn.“ 

Erna var reyndar ein af þeim 18 kúabændum sem stofnuðu Búkollu, samtök áhugamanna um íslensku kúna. Það var gert þegar upp kom áhugi meðal margra kúabænda um að koma hér upp nýjum og afkastameiri mjólkurkúastofni. Markmið félagsins var að standa vörð um íslenska kúakynið og verja það erfðamengun, efla kúabúskap og ræktun kýrinnar, hafa í heiðri sögu og menningu tengda kúnni og að tryggja velferð kýrinnar og hollustu afurða.

Ekki eru allir kúabændur sammála því að ekki sé hægt að verja íslenska kúastofninn samfara því að rækta við hlið hans mjólkurkýr af erlendu kyni. Fróðlegt verður því að fylgjast með til hvers nýsamþykkt lög um innflutning á erfðaefni, sem að vísu er eingöngu miðað við holdanautgripi, leiða í framtíðinni.

Nafngift skiptir máli

Erna segir að nafngift skipti líka miklu máli í kúabúskapnum. Staðreyndin sé nefnilega að ósjálfrátt sé betur hugsað um kýr sem hafa eitthvert nafn, en þær sem eingöngu hafa númerið sem þær eru skráðar með.

„Umgengnin um þær verður persónulegri. Snúra skilur vel þegar ég tala til hennar, líka þegar ég kalla hana „Gömlu mína“. Í vetur var hún farin að verða svolítið löt að fara í heyið og lét hún mig vita af því. Murrar í henni þegar svo er og ef ég spyr; „á ég að gefa þér núna?“ þá murrar aftur í henni. Við tölum því saman og hún veit alveg hvernig hún á að haga sér til að ég komi með tuggu handa henni. Hún kemur yfirleitt alltaf upp á sama básinn og þá gef ég henni þar, en hún er sannarlega búin að vinna fyrir því. Sonur minn er þó ekkert sérlega hrifinn af þessu dekri. 

Snúra hefur elst rosalega mikið eftir að hún bar síðasta kálfinum, enda komin á sautjánda árið. Þetta þykir hár aldur í dag, en ég  man eftir því sem krakki að þá var kýr seld frá bænum Stíflu að bænum Skipagerði. Hún var þá 16 vetra gömul og var til í Skipagerði í að minnsta kosti þrjú ár eftir það. Þar sem ég er formaður Nautgriparæktarfélags Vestur-Landeyja þá gat ég flett upp í gömlum kúaskýrslum til að skoða hvort þetta væri rétt munað hjá mér. Þar stóð þetta allt saman svart á hvítu. Hverjum dytti í hug í dag að selja frá sér 16 vetra kú?“

Betur verði hugað að ræktun á háfættum kúm

Erna benti á einn þátt sem skipt gæti máli í ræktun mjólkurkúa úr íslenska stofninum. Það er að hugsað sé meira um að rækta gripi sem eru sæmilega háfættir. Það skiptir t.d. miklu máli við innleiðingu á tækni eins og mjaltaþjónum. Þeir eru hannaðir fyrir mun stærra og háfættara kúakyn og ná því ekki alltaf að grípa síða spena eins og oft má sjá hjá íslenskum kúm. Til að mæta þessu hafa bændur víða sett sérstakar upphækkanir fyrir kýr sínar svo þær passi mjaltaþjónunum. Þetta skipti kannski ekki alveg eins miklu máli þegar notast er við mjaltagryfjur.
Í Berjanesi er De Laval mjaltaþjónn. Til að hann réði við lágfættar kýr með síð júgur, þá skar Guðmundur, sonur Ernu, út gúmmípúða sem upphækkun fyrir kýrnar til að standa á. Slíkt er jafnvel enn algengara þar sem Lely mjaltaþjónar eru notaðir.

Fljótar að aðlagast tækninni

Það er annars alltaf jafn furðulegt að fylgjast með  hversu fljótar íslensku kýrnar eru að aðlagast tækniundrum eins og mjaltaþjónum. Síðan umgangast kýrnar þessi tæki og láta mjólka sig, oftast sjálfviljugar og án vandræða.

„Þær fara í þetta sjálfar en við erum þó með eina sem aldrei fer í mjaltaþjóninn af sjálfsdáðum. Það er eins og hún sjái draug um leið og hún kíkir fyrir hornið. Það eru því alltaf einhver vandamál sem koma upp í búskapnum, sama hvaða tækni sem menn annars nota.“


Erna segir mjaltaþjónana vissulega oft vera til góðs. 
„Fyrir kýr sem mjólka mikið munar auðvitað heilmiklu fyrir þær að komast oftar en tvisvar á sólarhring í mjaltir. Ég er viss um að það heldur slíkum kúm heilbrigðari að geta farið oftar í mjaltir.“

Mikil aukning á nyt frá því sem áður var

Erna segir ekkert óalgengt að kýr í dag geti skilað 50 lítrum á dag, en það sé mjög ólíkt því sem áður var. Þá þótti líka gott ef sumar kýr fengju eitt kíló af mjöli á dag á meðan aðrar fengu ekkert. Þóttu það ofurkýr sem gáfu af sér 4.000 lítra af mjólk á ári. Þá voru heyin trúlega mun næringarefnasnauðari, oft úr sér sprottið grasi sem gjarnan var búið að liggja lengi á túnum. Talsvert var þá einnig um engjaslátt þar sem slegin voru stör í mýrlendi og þurrkuð á heimatúnum. Nú eru íslensku „ofurkýrnar“ af sama gamla stofninum gjarnan að skila 8.000 lítrum eða meiru. Sýnir það vel hvað hægt er að gera með ræktun, markvissri umhirðu og fóðurgjöf.

„Ég man að þegar ég var krakki,  þá komst ein kýr, hún Skjalda, í 28 merkur í mál sem þótti einstakt og það var lengi talað um hana. Maður sér á þessu að það er ekki síst umhugsunin sem skiptir miklu. Að mínu mati skiptir fóðrunin samt mestu máli, þótt ræktunin sé auðvitað að gefa eitthvað líka,“ segir Erna.

Þótt kýrnar í gamla daga hafi kannski ekki verið að gefa ýkja mikið af sér voru bændur lítið að fárast út af því. Segir Erna það vera staðreynd að á árum áður hafi fólk oftar verið ánægðara með það litla sem það hafði en þekkist hjá fólki í allsnægtunum í dag.

Skylt efni: Snúra | Berjanes

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...