Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Einn er þekktur gluggagægir
Fræðsluhornið 21. desember 2015

Einn er þekktur gluggagægir

Höfundur: Vilmundur Hansen

Síðasti jólasveinninn kemur til byggða á aðfangadag og á jóladag leggur sá fyrsti af stað aftur til síns heima. Einu sinni á ári gera þessir skrýtnu kallar sér ferð í bæinn með tilheyrandi hlátrasköllum, hurðaskellum og fíflalátum.

Jólasveinarnir eru synir Grýlu og Leppalúði er að öllum líkindum faðir þeirra, en Grýla var ekki við eina fjölina felld því áður en hún kynntist Lúða átti hún vingott við Bola og Gust og átti með þeim fjölda tröllabarna. Í dag eru flestir sammála um að jólasveinarnir séu þrettán og heiti Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og Kertasníkir.

Síðustu áratugi hafa jólasveinarnir fært börnunum eitthvað í skóinn og gefið þeim sælgæti á jólaskemmtunum. Ímynd jólasveinsins hefur breyst mikið með árunum en áður voru þeir tröll og mannætur.

Illir að eðlisfari

Sigfús Sigfússon, sem einkum safnaði þjóðsögum á Austurlandi, sagði að jólasveinarnir væru í mannsmynd, klofnir upp í háls, með klær fyrir fingrum, kringlótta fætur og engar tær. „Þeir eru illir að eðlisfari og líkastir púkum og lifa mest á blótsyrðum manna og óvönduðum munnsöfnuði og eru rógsamir og rángjarnir, einkum á börn.“

Í dag líkjast þeir fremur fíflalegum miðaldra offitusjúklingum, hallærislegum trúðum eða búðarfíflum en ógnvekjandi tröllum.

Litlipungur og Örvadrumbur

Nöfn jólasveinanna hafa ekki alltaf verið þau sömu og í dag og áður gengu þeir undir ýmsum nöfnum sem oft og tíðum voru staðbundin. Dæmi um það er að í Fljótunum koam fyrir nöfn eins og Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Lampa­skuggi og Klettaskora. Í Mývatnssveit þekktust nöfnin Flórsleikir og Móamangi.

Á Ströndum voru jólasveinarnir þrettán eða fjórtán og báru önnur nöfn sem koma fram í eftirfarandi nafnaþulum:

Tífall, Tútur
Baggi, Lútur
Rauður, Redda
Steingrímur, Sledda
Lækjaræsir, Bláminn sjálfur
Blámans barnið
Litlipungur, Örvadrumbur.

Tífall og Tútur,
Baggi og Hrútur,
Rauður og Redda,
Steingrímur og Sledda,
sjálfur Bjálfinn og Bjálfans barnið,
Bitahængir, Froðusleikir,
Gluggagægir og Styrjusleikir.

Fara um með ránum og hrekkjum

Skömmu eftir að kristni var lögtekin hér á landi bjó maður sem hét Steinn fyrir austan. Kona hans hét Guðrún og þau áttu tvö börn, Illuga og Sigríði. Guðrún var guðhrædd og kirkjusækin en Steinn fremur gefinn fyrir forneskju. Einu sinni þegar Guðrún var á leið til messu á jólunum biður hún Stein að fylgja sér. Hann tók því illa, segist þó munu gera það en ekki vera við tíðir. Steinn fylgir konu sinni á áfangastað en heldur svo heim. Þegar kona hans kemur heim daginn eftir lá Steinn í rúminu og var fámáll en segir: „eigi veit ég hvort ég hefði svo fljótt aftur horfið í gærkveldi ef ég hefði þá vitað það sem ég veit nú“.

Leið nú fram að næstu jólum og biður Guðrún bónda sinn aftur að fylgja sér til kirkju og gerir hann það ásamt Illuga syni þeirra. Þegar þau koma að kirkjunni biður Steinn Illuga að fylgja sér aftur heim og segir að hann þurfi að sýna honum nokkuð. Feðgarnir halda heim og þegar þangað er komið ganga þeir í skemmuna og bíða þar um stund. Skömmu seinna sýnist Illuga að stafninn á skemmunni hverfi og inn gangi tveir hvítklæddir menn með líkkistu og fjöldi anda í humátt á eftir þeim. Andarnir spyrja hvítklæddu mennina frétta af mönnum, bæði góðum og vondum, en aðallega voru þeir forvitnir um börn. Illuga fannst standa kaldur gustur af öndunum og heyrði á tali þeirra að þeim geðjaðist einkum að illum mönnum og guðlausum.

Seinna þegar Illugi sagði frá atburðinum könnuðust menn við andana og kölluðu þá jólasveina og sögðu þá illa og ganga um byggðir um jólin með ránum og hrekkjum, einkum við börn.

Koma á selskinnsbátum

Að sögn Sigfúsar Sigfússonar koma jólasveinarnir til landsins í byrjun jólaföstunnar á „selskinnsbátum vestan frá Grænlandsóbyggðum eða, að sumra sögn, austan frá Finnmörk og kalla sumir byggðarlag þeirra Fimnam. Þeir leggja að landi í leynivogum undir ófærum og geyma báta sína í hellum og halda huldu yfir þeim uns þeir fara aftur nærri þrettánda.“

Sigfús segir jólasveinana skipta sér á bæi þegar þeir koma að landi og „hér þekkjast þeir oft varla frá púkum og árum af verknaði sínum og eru illkaldir sem hafís og heljur. [. . .] Jólasveinar eiga kistur sem þeir bera menn á brott í.“

Kattarvali kaffærður í fjóshaugnum

Í þjóðsagnasafni Sigfúsar er meðal annars að finna eftirfarandi sögu um viðureign jólasveinsins og manns á bænum þar sem jólasveinninn hélt til um jólin.

„Einu sinni var maður á ferð og kom að læk eða á. Sá hann að þar sátu margir menn í röð við ána og héldu allir á sömu þurrkunni og þurrkuðu sér allir í einu á henni þegar þeir höfðu þvegið sér. Sá maðurinn, þegar hann gætti betur að, að þetta voru allt jólasveinar og bjuggu sig undir vistarverur sínar. Einn þeirra lenti auðvitað á heimili hans. Maðurinn var fjósamaður. Hann var orðgætinn og stilltur maður og því ekki neinn vinur jólasveinsins. Einu sinni mættust þeir í fjósdyrum og ræður jólasveinninn á fjósakarl. Eigast þeir lengi við allt þangað til fjósakarl hefur hann undir og kaffærir hann í fjóshaugnum. Þá æpir jólasveinninn hátt og kvað við:

Kattarvali, kom þú hér,

kæri bróðir, hjálpa mér.

Heyrðist fjósakarli tekið undir. Kom þá jólasveinninn sem var á hinu búinu og varð fjósamaður að flýja. En aldrei áttust þeir oftar við svo getið sé.“

Að draga jólasveina og jólameyjar

Jónas Jónsson frá Hrafnagili segir frá einkennilegri jólaskemmtun í bók sinni, Íslenzkir þjóðhættir, en leikurinn virðist til þess gerður að para ungt fólk um jólin, svipað því og gert var í leikbrúðkaupum sem tengdust vikivakaleikum.

„[. . .] víða tíðkast, að rita upp á miða alla þá, sem koma á jólaföstunni og fram á aðfangadag. Þetta heita jólasveinar og jólameyjar. Svo er dregið um miðana á jólanóttina, konur draga drengi, en piltar stúlkur. Ef margir hafa komið, falla mörg nöfn í hlut, og dregur þá hver einn miða úr sínum hóp, og verður það, sem hann eða hún hlýtur, hans eða hennar jólamey eða jólasveinn um jólin. Stundum gefur þá einn heimamanna, sem til þess er kjörinn, allar persónurnar saman með því að lesa upp vísu úr einhverri ljóðabók, sem hann flettir upp í blindni.“

Þekktur gluggagægir

Upp úr miðri síðustu öld fara jólasveinarnir að taka á sig alþjóðlega mynd rauðhvíta jólasveinsins. Þeir verða vinir barnanna og færa þeim gjafir í skóinn síðustu dagana fyrir jól og eru ómissandi á jólaskemmtunum.

Íslensku jólasveinarnir hafa haldið þeim sið að vera hávaðasamir og hrekkjóttir og ekki er laust við að börn séu enn hrædd við þá. Hræðsla barnanna er fullkomlega eðlileg. Fullorðið fólk hikar ekki við að segja börnunum að þessir ókunnugu ríflega miðaldra offitusjúklingar, sem ganga um í skrýtnum rauðum fötum, komi í herbergið til þeirra á nóttinni og taki óþekk börn og þau sem ekki vilja fara snemma í rúmið. Einn þeirra er meira að segja þekktur gluggagægir.

Gleðileg jól!

Skylt efni: Jól | jólasveinar

Endurskipulagning og hagræðing í slátrun og kjötvinnslu
Fréttir 9. desember 2022

Endurskipulagning og hagræðing í slátrun og kjötvinnslu

Í Samráðsgátt stjórnvalda liggur til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á b...

Jólaskógarnir opnir á aðventunni
Fréttir 9. desember 2022

Jólaskógarnir opnir á aðventunni

Á aðventunni opna jólaskógar skógræktarfélaganna í landinu fyrir þeim sem vilja ...

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri
Fréttir 8. desember 2022

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri

Auðhumla hefur ráðið Jóhannes Hreiðar Símonarson framkvæmdastjóra Auðhumlu svf.

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum
Fréttir 8. desember 2022

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum

Matvælastofnun hefur lagt stjórn­valdssekt á Arnarlax ehf. upp á 120 milljón kró...

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn
Fréttir 7. desember 2022

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn

Talsverðar breytingar urðu á stjórn samtakanna Slow Food Reykjavík á aðalfundi þ...

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti
Fréttir 7. desember 2022

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið HorseDay rekur samnefnt smáforrit um flest allt se...

Framleiðsla á krefjandi tímum
Fréttir 6. desember 2022

Framleiðsla á krefjandi tímum

Fyrir skemmstu komu tveir fulltrúar frá landbúnaðartækjaframleiðandanum Kuhn í h...

Samvinna möguleg
Fréttir 6. desember 2022

Samvinna möguleg

Á Matvælaþingi matvælaráðuneytisins í Hörpu 22. nóvember flutti gestafyrirlesari...