Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ein fullkomnasta dráttarvélaverksmiðja í heimi
Á faglegum nótum 25. júlí 2017

Ein fullkomnasta dráttarvélaverksmiðja í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í upphafi árs 2017 tók þýski dráttarvélaframleiðandinn Deutz-Fahr í notkun nýja dráttarvélaverksmiðju í Lauingen í Þýskalandi. Verksmiðjan er líklega fullkomnasta dráttarvélaverksmiðja í heimi í dag.

Móðurfyrirtæki Deutz-Fahr nefnist SDF og er með höfuðstöðvar á Ítalíu. SDF er stórveldi á dráttarvélamarkaði því auk Deutz-Fahr framleiðir fyrirtækið Sane, Lamborghini Trattori, Hürlimann, Grégoire og Shu-He dráttarvélar. Að verksmiðjunni í Lauingen meðtaldri rekur SDF átta dráttarvélaverksmiðjur. Verksmiðjurnar eru á Ítalíu, í Frakklandi, Króatíu, Tyrklandi, Indlandi og tvær eru í Kína. Starfsmenn samsteypunnar eru 4.100 og söluaðilar yfir 3.000. Velta SDF árið 2016 var 1,366 milljón evrur, eða um 160 milljarðar íslenskra króna.

Umboðsaðilar SDF í heiminum eru 143. Þór hf. er umboðsaðili Deutz-Fahr á Íslandi.
Lodovico Bussolati, stjórnar­formaður SDF, sagði á kynningarfundi vegna opnunar verksmiðjunnar í Lauingen að hún markaði tímamót í rekstri Deutz-Fahr og styrkti rekstur fyrirtækisins til framtíðar.

Verksmiðjan í Lauingen

Nýja Deutz-Fahr verksmiðjan er 42.000 fermetrar að flatarmáli en alls er helgunarsvæði hennar með lager, geymslusvæði, sýningarsal, safni og bílastæðum 150.000 fermetrar.

Undirbúningur og bygging verksmiðjunnar og tengdra bygginga hófst 2013 og tók þrjú ár og kostaði 90 milljón evra og er stærsta einstaka fjárfesting Deutz-Fahr til þessa.

Fyrsta dráttarvélin ók úr húsi í janúar síðastliðinn. Verksmiðjunni er aðalleg ætlað að framleiða stærri týpur Deutz-Fahr, hina nýju Series 6, 7 og 9, og einnig nýja og enn öflugri dráttarvél sem mun væntanlega vera sett á markað á næsta ári. Einnig mun verksmiðjan í framtíðinni sjá um samsetningu á stærri gerðum Lamborghini dráttarvéla.

Gert er ráð fyrir að verksmiðjan í Lauingen framleiði um fjögur þúsund dráttarvélar á þessu ári en að þær verði hátt í níu þúsund þegar fullri afkastagetu er náð.

Tæknilega fullkominn

Frá upphafi var ákveðið að verksmiðjan skyldi vera eins tæknilega fullkomin og eins umhverfisvæn og hægt er. Auk arkitekta og byggingarfræðinga starfaði teymi starfsfólks á plani við hönnun á vinnuaðstöðu í samsetningarsal verksmiðjunnar og öðru starfsrými.

Til að þróa hugmyndir voru byggðir eins konar hermar fyrir hvern hluta verksmiðjunnar og þeir prófaðir og þróaðir með tækjabúnaði og starfsmönnum áður en endanleg útfærsla var ákveðin.

Um átta klukkustundir tekur að setja saman eina dráttarvél þar til hún fer í sprautun. Samsetning fer fram á færibandi og til að spara starfsmönnun við færibandið sporin standa þeir einnig á færibandi við samsetninguna.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í maí síðastliðnum í tengslum við opnun verksmiðjunnar kom fram að stjórn Deutz-Fahr hafði sett sér fimm meginmarkmið til grundvallar framleiðslunni.

Allt skipulag skal miðast við að dráttarvélarnar séu settar saman á færibandi. Uppsetning á lager skal vera þannig að hann þjóni vinnunni á færibandinu.

Gæði framleiðslunnar skulu tryggð með reglubundnu eftirliti gegnum allt framleiðsluferlið.
Verkferlar skulu vera í samræmi sérhæfingu verkþátta.

Skipulag framleiðslunnar og aðgangur að aðföngum henni tengdri skal vera samhæfð.
Tryggja skal að allur búnaður og verkfæri séu af bestu gerð til að tryggja skilvirkni og gæði framleiðslunnar.

Flókið birgðahald og eftirlit

Dæmi um flækjustigið við að láta allt ganga upp við jafn flókna framleiðslu eins og að setja saman dráttarvél er að á lager verksmiðjunnar eru að jafnaði um 4.000 stórir hlutir og 25.000 litlir hlutir. Allir þessir hlutir verða að vera til staðar á réttum tíma meðan á samsetningu vélanna stendur á færibandinu.

Auk reglulegs eftirlits á öllum stigum framleiðslunnar er vökvabúnaður vélanna prófaður sérstaklega áður en þær eru sprautaðar. Eftir sprautun er tölvubúnaður settur í vélarnar og hjólabúnaðurinn prófaður áður en þær eru sendar úr húsi.

Sprautaðir með róbótum

Sprautunarklefinn í verksmiðjunni er sá fullkomnasti sinnar gerðar í heiminum, hann er fullkomlega sjálfvirkur og kemur mannshöndin þar hvergi nærri. Klefinn er dýrasta einingin innan verksmiðjunnar og kostaði einn og sér um 20 milljónir evra.

Framleiðandinn ábyrgist að eftir sprautun eigi málningin og undirlagið að þola stanslaust saltúðapróf í 720 klukkustundir en að lakk á venjulegum fólksbílum þoli slíkt próf í um 240 klukkustundir.

Heyra mátti á tali fulltrúa Deutz-Fahr að þeir væru einstaklega stoltir af sprautuklefanum því auk þess að vera tæknilega vel búinn er hann búin fullkomustu mengunarvarnar- og vatnshreinsunarbúnaði sem völ er á fyrir slíka klefa.

Sýningarrými og safn

Í júní síðastliðinn var formlega tekið í notkun nýtt sýningarrými og dráttarvélasafn í tengslum við nýju verksmiðjuna í Lauingen. Gólfflötur sýningarrýmisins og safnsins er 3.800 fermetrar en alls er það 38.000 rúmmetrar enda hátt til lofts og vítt til veggja. Í sýningarrýminu er meðal annars kvikmyndasalur þar sem hægt er að horfa á kynningarefni um Deuts-Fahr dráttarvélar og sögu fyrirtækisins. Framan við sýningarrými er minjagripaverslun og leiksvæði fyrir börn og á efri hæð þess veitingahús, ráðstefnusalur, skrifstofur starfsmanna og kennslustofur. Fyrir utan sýningarrýmið er stórt svæði til æfinga- og reynsluaksturs dráttarvéla.

Dráttarvélasafnið

Á dráttarvélasafninu er hægt að skoða fjöldann allan af gömlum Deutz-Fahr dráttarvélum sem búið er að gera upp í upprunalega mynd. Dráttarvélarnar eru flestar í eigu einkaaðila sem lána þær til safnsins tímabundið þannig að sýningin tekur sífelldum breytingum.

Elsti traktorinn sem var til sýnis í maí síðastliðum var jafnframt einn sá fyrsti sem fyrirtækið framleiddi,  MTH 222 árgerð 1927.

Góð sala á Íslandi

Thomas Hahme, aðstoðar­sölu­fulltrúi í Evrópu, sagði í samtali við Bændablaðið að markaðsstaða Deutz-Fahr á Íslandi væri góð og að markaðshlutfall Þórs hf., umboðsaðila fyrirtækisins, væri mjög gott og hefði verðið það lengi.

„Markaðshlutfall Þórs á Íslandi var til dæmis það hæsta á Norðurlöndunum árið 2016.“
Árið 2016 seldust sextán Deutz-Fahr nýjar dráttarvélar á Íslandi, sem er um 10% af innflutum dráttarvélum það árið og gert er ráð fyrir svipuðu markaðshlutfalli á ári.

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...