Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Eflum skógrækt á Íslandi
Mynd / HKr.
Skoðun 19. apríl 2017

Eflum skógrækt á Íslandi

Höfundur: Góðar stundir! Guðjón Jensson leiðsögumaður í Mosfellsbæ
Síðastliðið sumar skrifaði ég grein sem birtist í seinna tölublaði Skógræktarritsins 2016: Hvers vegna fjárfesta lífeyrissjóðir ekki í skógrækt?
 
Mér skilst að þegar hafi stjórnendur a.m.k. eins lífeyrissjóðs, Almenna lífeyrissjóðsins, ígrundað gaumgæfilega fjárfestingar í skógrækt. Hann er talinn vera einn best rekni lífeyrissjóður landsmanna.
 
Hingað til hafa lífeyrissjóðir einkum fjárfest í hlutabréfum sem og skuldabréfum, þar á meðal lánum til sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir töpuðu mjög miklu fé í bankahruninu (um 480 milljörðum) sem og smærri fjárfestar, einkum eldri borgarar. Þeir glöptust af að leggja fé sitt í hlutabréf en verðgildi þeirra varð að engu. Það er nefnilega svo að lífeyrissjóðum er skylt eftir landslögum að ávaxta sitt fé að lágmarki 3,5%.
Þeir sem sennilega hafa mesta þekkingu á þessum málum, hafa bent á að þarna sé meginástæðan fyrir mjög háum útlánavöxtum hér á landi. Er líklegt að svo sé.
 
Fjárfesting í skógrækt er til framtíðar. Sá sem leggur fé sitt í skógrækt getur fengið tekjur eftir 15–20 ár og jafnvel fyrr. Hann getur ekki vænst þess að fá arð á morgun eða í næstu viku eins og gerist oft á tíðum í spákaupmennsku hlutabréfamarkaða. En fjárfesting í hlutabréfum getur einnig orðið að engu vegna rangs mats á innra virði viðkomandi félags. Þannig máttu hluthafar í Flugleiðum horfa fram á lækkun um 35% á hlutabréfum í byrjun þessa árs og óvíst er hvort og hvenær verð hlutabréfa félagsins nær aftur fyrra gildi. Og það sannaðist einnig í bankahruninu þegar athafnamennirnir „átu“  fyrirtækin að innan og skildu allt eftir í óreiðu og gjaldþrotum.
 
Ísland er skammt norðan við miðju barrskógabeltisins sem er að mestu leyti milli 50 og 60 breiddargráðu. Barrskógabeltið teygir sig töluvert norður fyrir heimskautsbaug þannig að við megum vel við una hvað skógræktarmöguleika varðar og heppilegum tegundum er plantað. Hér á landi er talið að CO2 binding sé nálægt því að vera tæp 8 tonn á hektara miðað við árið. Þessar upplýsingar eru frá Aðalsteini Sigurgeirssyni, fagstjóra Skógræktarinnar. 
 
Þegar Hákon Bjarnason skógræktarstjóri hóf sín störf fyrir rúmum 80 árum gerði hann sér grein fyrir því að mjög árangursríka skógrækt mætti stunda hér á landi að tveim forsendum fullnægðum. Við gætum reiknað með sams konar árangri í skógrækt eins og í löndum á sömu breiddargráðum og við svipað veðurfar. Hugur Hákonar var bundinn við vesturströnd Norður-Ameríku, einkum syðri hluta Alaska. Hann vann mjög merkt brautryðjendastarf ásamt nokkrum starfsfélögum sínum vestan hafs sem austan.
Kappkostaði hann að fá fræ úr könglum frá þessum slóðum. Einnig voru fengin fræ frá Noregi og Rússlandi. Fyrsta plöntun skógartrjáa varð 1938 og má víða sjá frábæran árangur á nokkrum stöðum hér á landi.
 
Vegna stríðsins var tekið fyrir alla fræsöfnun og sendingar til Íslands. Varð því langt hlé á plöntueldi en hugað þess betur að ungviðinu sem þegar var að festa rætur í íslenskri jörð. En eftir stríðið var tekinn upp þráðurinn og hefur verið nánast óslitin sigurganga erlendra trjátegunda á Íslandi. Vorið 1963 telst til undantekninga þegar mjög slæmt hret gerði nær útaf við allar aspir á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel víðar. Teljast slík hret fremur til undantekninga þó ætíð megi búast við öllu mildari vorhretum. Eftir er tekið hversu barrtré hafa náð góðum vexti og þroska hér á landi og gefur lítið eftir hvað önnur lönd varðar. Hér á landi höfum við eldfjallaösku sem er ígildi áburðar. Hún er mjög snefilefnarík sem er nauðsynleg flestum plöntum í vexti.
 
Er fjárfesting raunhæf?
 
Ein hindrunin við fjárfestingu í skógrækt er tekjuleysið fyrstu árin og mikil vinna. Það þarf að friða væntanlegt skóglendi jafnvel með fremur dýrum girðingum sem eru það traustar að þær haldi búsmala utan við. Þá er nauðsyn á lagningu vinnuvega um landið áður en gróðursetning á sér stað. En þegar trjáplönturnar eru komnar í um 4–5 metra þá þarf að fara að huga að grisjun. Fram að þessu hefur grisjunarviður ekki verið talinn mikils virði en nú er svo komið að Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notar hreinan við í stað kola. Hefur verksmiðjan keypt trjáboli sem ekki eru nægjanlega stórir til flettingar í borðvið. Það hefur jafnvel borgað sig að flytja grisjunarvið austan af Héraði um 700 km alla leið á Grundartanga. Kemur þetta fram í ársskýrslum Skógræktarinnar undanfarinna ára. Um 5% af þörfum Járnblendiverksmiðjunnar kemur innanlands frá en 95% þarf verksmiðjan að flytja inn, einkum frá Kanada. Þannig að það verður að öllu óbreyttu nægur markaður fyrir grisjunarvið næstu áratugina til hagsbóta fyrir íslenska skógrækt. Spurning er með verð en eins og staðan er í dag þá er innlendi viðurinn eftirsóknarverðari enda reiknast hann sem 0 í kolefnisbókhaldi landsins. Binding CO 2 helst í hendur við brennslu. Innflutti viðurinn kemur fram sem – mínus í sama bókhaldi þar sem verksmiðjan þarf að greiða sérstaklega fyrir CO2 kvóta vegna alþjóðlegra samninga um umhverfismál sem Ísland er aðili að. 
 
Annað mikilsvert atriði og ekki síðra er að með aukinni skógrækt eykst verðmæti landsins umtalsvert. Öll ræktun í skjóli skóga verður auðveldari og hagkvæmari sem ekki veitir af nú á tímum. Skógana mætti jafnvel nýta sem beitarskóga þegar fram líða tímar. Skógurinn veitir mörgum í sveitum landsins atvinnu. 
En hvernig má hugsa sér aðkomu lífeyrissjóða að aukinni skógrækt á Íslandi?
 
Ein leið væri stofnun hlutafélags. Strax í upphafi yrði að semja um æskilegasta fyrirkomulag byggt á skynsemi og hagsýni. Framlag bænda væri landið en lífeyrissjóðirnir leggðu fram starfsfé. Unnið væri eftir mjög nákvæmlegum og faglegum forsendum til að tryggja sem bestan árangur. Fagleg þekking í skógrækt er orðin mjög góð hérlendis. Bændur væru eftir sem áður vörslumenn landsins sem hafa eftirlit með skóginum. 
 
Við skulum hafa í huga að hér er dæmi um mjög gott samvinnuverkefni bænda, lífeyrissjóða og fagaðila. Eg sé fyrir mér að þarna gæti orðið mjög farsælt og heillaríkt starf.
 
Góðar stundir!
Guðjón Jensson
leiðsögumaður í Mosfellsbæ

Skylt efni: Skógrækt

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...