Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Dúrra – fæða framtíðarinnar
Á faglegum nótum 28. maí 2015

Dúrra – fæða framtíðarinnar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Af korntegundum er dúrra í fimmta sæti yfir mest nytjuðu plöntu í heimi. Dúrra er hluti af fæðu milljóna manna í 30 löndum á hverjum degi. Miklar vonir eru bundnar við aukna ræktun plöntunnar og því haldið fram að hún verði meginfæða stórs hluta mannkyns áður en langt um líður.

Áætluð heimsframleiðsla á dúrru, ræktunarárið 2014 til 2015, eru rétt rúm 64 milljón tonn sem er 4 milljón tonnum meira en 2013 til 2014 en tæpum 14 milljón tonnum minna en árið 1985 þegar heimsframleiðslan náði hámarki um 88 milljón tonn.

Mest er ársframleiðslan í Banda­ríkjunum, 11 milljón tonn, 7,3 milljón tonn í Mexíkó, í Afríkuríkjunum Nígeríu og Súdan um 6,3 milljón tonn í hvoru landi. Því næst koma Indland með 5 milljón tonn og Argentína sem framleiðir um 4 milljón tonn af dúrru á ári.

Bandaríkin eru langstærsti útflytjandi dúrru í heiminum með um 70% markaðshlutdeild. Í öðru sæti og ekki einu sinni hálfdrættingur er Argentína með rúm 24%. Innflutningur Kínverja á dúrru hefur margfaldast á síðustu fimm árum og er Kína það land í heiminum sem flytur inn mest af dúrru, 8,5 milljón tonn. Áætluð framleiðsla í Kína er um 2,7 milljón tonn. Japan er í öðru sæti hvað innflutning varðar og flytur inn um eina milljón tonn á ári.

Ræktun á dúrru hefur tvöfaldast á síðustu fimmtíu árum. Meðal uppskera í heiminum af dúrru á hektara er 1,4 tonn, 4,5 tonn í Bandaríkjunum og mest hefur hún verið í Jórdaníu, 12,7 tonn.

Korn 21. aldarinnar

Dúrra er hluti af daglegri fæðu milljóna manna í 30 löndum og miklar vonir eru bundnar við ræktun plöntunnar í framtíðinni og hefur hún verið kölluð korn 21. aldarinnar. Rannsóknir á dúrru og skipulagðar kynbætur hafa verið litlar til þessa en benda samt til að sem ræktunarplanta geti hún gefið mun meiri uppskeru en í dag. Yrki og staðbrigði skipta hundruðum og í þeim leynist urmull erfðaefna sem gera kynbætur vænlegan kost, ekki síst til að auka ræktun plöntunnar á svæðum þar sem matarskortur er viðvarandi.

Hraðvaxta grastegund

Dúrra, eða súdangras eins og plantan kallast á íslensku, er hraðvaxta grastegund og þar með einkímblöðungur. Einær, þrátt fyrir að sum yrki séu fjölær. Getur vaxið í fjögurra metra hæð en oftast eru lágvaxnari yrki valin til ræktunar. Yfirleitt einstofna. Stofninn er þurr í þurrkatíð en í raka verður hann safaríkur og er safinn sætur á bragðið og oft skorinn og soginn vegna sætunnar. Sé stofninn skorinn við rót spretta einn eða fleiri stofnar úr rótarhálsinum.

Þar sem jarðvegur leyfir teygir trefjarót plöntunnar vel á þriðja metra niður í jarðveginn í leit að vatni og skýrir það þol hennar við þurrki. Mest er rótarkerfið í efsta metra jarðvegsins þar sem það breiðir vel úr sér. Blöðin löng, sverðlaga og með vaxhúð sem hindrar útgufun, 7 til 24 eru á hverri plöntu eftir því um hvaða yrki er að ræða. Ung blöð eru upprétt en fara að hanga eftir því sem þau eldast, í þurrkatíð verpast blöðin saman eftir endilöngu og draga þannig út vökvatapi. Blómin tvíkynja og mynda ax, frjóvgast með vind og sjálffrjókun algeng. Fræin með hýði og þrír til fjórir millimetrar að þvermáli. Hýðið mismunandi á litinn, ljósgul yfir í dökkbrún, eftir yrkjum en kjarni fræjanna er hvítur. Dökk fræ eru bitrari á bragðið en ljós og stafar það af meira magni af tanníni í dökkum fræjum en ljósum.
Dúrru er gróflega skipt í beiskt og sætt korn eftir magni tanníns í fræjunum og er það síðarnefnda algengara í ræktun.

Nafn plöntunnar á latínu er Sorghum bicolor, kjúklingakorn, sorghum eða milo á ensku, jola á indversku. Nafnið dúrra er komið úr egypsku.

Hita- og þurrkþolin

Plantan getur ná fullum þroska á 90 dögum við góð skilyrði og gefið uppskeru þrisvar á ári. Plantan er einstaklega hita- og þurrkþolin en á sama tíma stendur hún af sér úrhellisrigningu og vatnssósa jarðveg tímabundið. Dúrra gerir litlar kröfur til jarðvegs aðrar en að hann hafi náð 17° á Celsíus fyrir sáningu og plantan þolir að talsvert af salti sé í jarðveginum.

Dúrra er yfirleitt ræktuð af fræ og þurfa fræin um mánaðar dvalartíma frá því þeim er safnað af axinu þar til þau spíra. Einnig er hægt að fjölga plöntunni með stöngulgræðlingum við góðar aðstæður. Kjörhitastig er 30° C og æskileg úrkoma á ári 500 til 600 millimetrar. Verulega dregur úr vexti plöntunnar fari hitastig niður fyrir 17° og hún drepst fari hitinn niður að frostmarki. Villt dúrra blómstrar við daglengd undir tólf klukkustundum en tegundir í ræktun eru ekki eins viðkvæmar fyrir daglengd. Plantan þrífst í jarðvegi með sýrustig á bilinu pH 5,0 til 8,5.

Dúrra þykir jarðvegsbætandi og oft fyrsta plantan sem er sáð í jarðveg sem er verið að brjóta til ræktunar. Ástæða þess er meðal annars að plantan gefur frá sér efni sem er vaxtarhamlandi fyrir annan gróður og nýtist henni í samkeppninni um vaxtarrými og næringarefni. Efnið veldur því einnig að dúrra er ekki góð til samplöntunar. Efnið fælir einnig frá skordýr en sjúkdómar af völdum sveppa og vírusa geta valdið umtalsverðu uppskerutjóni.

Hundruð yrkja og staðbrigða

Til ættkvíslarinnar Sorghum teljast um 30 tegundir og hundruð yrkja og staðbrigða sem geta frjóvgast innbyrðis og gera greiningu í tegundir því erfiða. Villt dúrra er kölluð S. arundinaceum til aðgreiningar frá ræktunartegundinni.

Til að einfalda flokkunina er dúrru í ræktun skipt í fjóra undirflokka. Korndúrru sem er aðallega mulin í mjöl, grasdúrru sem er notuð í skeppnufóður, sætdúrru í sýrópsgerð og sópdúrru sem eins og nafnið gefur til kynna er notuð í kústa og sópa.

Vegna fjölbreytileikans innan tegundarinnar vex dúrra víða í heita- og heittempraða beltinu, milli fertugstu breiddargráðu norður og suður.

Mannamatur og dýrafóður

Í Afríku og Asíu er dúrra aðallega nýtt sem hráefni í mjölgrauta, flatbrauð og til að brugga úr en í Bandaríkjunum sem fóður fyrir nautgripi og hænsni. Áður fyrr var unnið sýróp í stöngli plöntunnar í suðurríkjum Bandaríkjanna en slíkt er fáséð í dag. Ómalað korn er notað til brauðgerðar, í kúskús og súpur í Arabalöndunum. Í Mið- og Suður Ameríku er bakað tortillabrauð í dúrrumjöli.

Einn af kostum dúrrukorns er að það er laust við glúten og því vænlegur kostur fyrir þá sem eru með glútenofnæmi. Hægt er að poppa dúrrukorn líkt og maís.

Víðast þar sem dúrra er ræktuð eru bruggaðir áfengir drykkir úr plöntunni. Algengasti drykkurinn er dökkur bjór sem er 3 til 8% af styrkleika. Í Kína er bruggað rótsterkt eldvatn sem logar sé borinn að því eldur og kallast mao-tai og til siðs að skála í drykknum við hátíðleg tækifæri. Þegar Nixon Bandaríkjaforseti heimsótti Kína var honum ráðlagt af ráðgjöfum sínum að sleppa drykknum. Nixon lét ráðlegginguna sem vind um eyru þjóta og skálaði við hvern þann kínverska ráðamann sem lyfti glasi í átt að honum í hátíðarkvöldverði. Sagan segir að forsetinn hafi verið orðinn ansi þvoglumæltur og reikull í spori þegar hann yfirgaf samsætið.

Í annarri sögu af Nixon og dúrruspíra segir að eftir að heim var komið hafi hann kallað dóttur sína inn í eldhús í Hvíta húsinu og ætlað að sýna henni hvernig vökvinn logaði. Nixon hellti áfenginu í skál og kveikti í en ekki vildi betur til en að skálinn sprakk og spírinn rann logandi yfir eldhúsborðið þannig að brunavarnakerfið fór í gang. Sagan hefur aldrei fengist staðfest.

Plantan er sögð rík af B-vítamínum og ýmsum steinefnum.

Byggingarefni og eldiviður

Stönglar og blöð plöntunnar eru notuð sem byggingarefni í hús, eldivið, sópa, girðingarefni og til að vefa úr mottur, körfur og ílát og búa til skrautmuni. Dúrru er getið sem lækningajurtar í íslömskum miðaldatexta. Rannsóknir benda til að nýta megi plöntuna til framleiðslu á lífdísil.

Náttúrulegur uppruni og útbreiðsla

Uppruni plöntunnar er á reiki enda ekki mikið um fornminjar sem sýna fram á ræktun hennar. Flest bendir til að plantan hafi breiðst út frá svæðum í Norðaustur-Afríku þar sem í dag eru Súdan og Eþíópía með úlfaldalestum Araba. Fjöldi afbrigða og staðbrigða er mestur í Afríku og það bendir til að plantan hafi verið lengi í ræktun þar.

Talið er að nytjar á dúrru nái allt aftur til ársins 6000 fyrir Krist. Elstu minjar um nytjar á dúrru eru frá um 2000 fyrir Krist og koma frá Indlandi. Á leiðinni frá Afríku til Indland skaut dúrra rótum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku þar sem Rómverjar ræktuðu plöntuna fyrir heimsveldi sitt. Frá Indlandi barst plantan til Kína og annarra landa í Asíu. Til Vesturheims barst dúrra með þrælum frá Afríku.

Skylt efni: nytjaplöntur | dúrra

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...