Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Búnaðarstofa verði sjálfstæð stofnun sem heyri undir ráðuneyti atvinnumála
Fréttir 19. mars 2015

Búnaðarstofa verði sjálfstæð stofnun sem heyri undir ráðuneyti atvinnumála

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í samþykkt Búnaðarþings 2015 um mál nr. 25 er þess krafist að fallið verði frá áformum um að verkefni Búnaðarstofu heyri undir Matvælastofnun. Þess í stað verði hún sjálfstæð stofnun sem heyri undir ráðuneyti atvinnumála.

Starfssvið Búnaðarstofu er að stýra stjórnsýsluverkefnum sem Bændasamtökin hafa sinnt á undanförnum árum eða frá því að Framleiðsluráð landbúnaðarins var lagt niður árið 1999. Verkefnin hafa meðal annars falist í umsýslu með styrkjum í tengslum við búvörusamninga og búnaðarlagasamning, m.a. beingreiðslum og styrkjum vegna jarðabóta og til nýliða í sauðfjár- og nautgriparækt. Samkvæmt fyrirmælum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins stóð til að flytja verkefnin til Matvælastofnunar (MAST) um síðustu áramót. Undirbúningur fyrir flutninginn hófst formlega í febrúar á síðasta ári.

Fyrirkomulag með langa sögu

Að sögn Jóns Baldurs Lorange, forstöðumanns Búnaðarstofu, þá á það fyrirkomulag sér langa sögu að samtök og stofnanir á vegum bænda og samtaka þeirra sjái um umsýslu styrkja til bænda. Þannig var það í verkahring Búnaðarfélags Íslands (1899–1995) að halda utan um framlög til bænda vegna jarðabóta á jörðum sínum í samræmi við búnaðarlög og er það verkefni nú í höndum Búnaðarstofu. Jón Baldur segir að um sé að ræða umsýslu með mikilvægum stuðningi við íslenskan landbúnað í samræmi við búvörulög og búnaðarlög. Framkvæmdin formgerist síðan í búvörusamningum og búnaðarlagasamningi sem stjórnvöld og bændur hafa gert sín á milli.

,,Það er þess vegna skiljanlegt og eðlilegt að Búnaðarþing hafi sterkar skoðanir hvernig á þessum mikilvægu verkefnum verði haldið í framtíðinni. Bændur eiga mikið undir því að vel takist til.“ 

Skýrsla um stjórnsýsluverkefnin

Í apríl á síðasta ári skiluðu Bændasamtökin skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins um flutning verkefna frá samtökunum. Jón Baldur er höfundur hennar, en auk þess að vera kerfisfræðimenntaður er Jón með B.A. í stjórnmálafræði og diplómu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands.

Skýrslan fjallaði um þau stjórnsýsluverkefni sem eru unnin af Bændasamtökunum í umboði stjórnvalda, og fjallað er um í búvörusamningum og búnaðarlagasamningi. Í skýrslunni er yfirlit yfir stjórnsýsluverkefni þar sem samtökin eru ábyrgðar- og/eða framkvæmdaraðili.
Í skýrslunni er lagt til að sett verði á laggirnar sérstök stofnun, Búnaðarstofa, sem heyri undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í skýrslunni segir m.a.: ,,Markmiðið með stofnun Búnaðarstofu er að tryggja faglega framkvæmd og heildaryfirsýn yfir stjórnsýsluverkefni í tengslum við búvörulög nr. 99/1993 og búnaðarlög nr. 70/1998. Það eru augljósir kostir við að koma þessum verkefnum á einn stað undir eina yfirstjórn. Það tryggir betri samræmingu og þekkingu á viðfangsefninu, skapar ný tækifæri og meiri stöðugleika í allri framkvæmd. […] Regluverk í landbúnaði er umfangsmikið og þarf að taka breytingum í samræmi við stefnu stjórnvalda. […] Það er þýðingarmikið að haldgóð sérfræðiþekking sé ávallt til staðar svo hægt sé að tryggja skilvirka og fumlausa framkvæmd á regluverki hvers tíma enda verið að sýsla daglega með verulega fjármuni úr ríkissjóði.“

Þá er það sjónarmið rakið í skýrslunni að þar sem MAST fari með eftirlitshlutverk geti stofnunin ekki sinnt því hlutverki Búnaðarstofu sem fjallað er um í skýrslunni: ,,Það er þýðingarmikið að aðskilja annars vegar umsýslu og framkvæmd á greiðslum til bænda í samræmi við lög og reglugerðir þar um og hins vegar eftirlit sem MAST sinnir í dag með framleiðendum, þ.e.a.s. að eftirlitsaðili beri ekki ábyrgð á greiðslum til eftirlitsþega. Þetta getur ekki farið saman svo vel sé að áliti skýrsluhöfundar og er nóg að vísa þar í stjórnsýslulög. Búnaðarstofa þarf að vera sjálfstæð eining í stjórnkerfinu. Tryggja þarf að greiðslustofan sé óháð hagsmunasamtökum og eftirlits-/úttektaraðilum til að tryggja stjórnsýslulegt sjálfstæði hennar. Það fer illa saman að sami aðili beri ábyrgð á eftirliti, taki út verkefni o.þ.h. og sjái á sama tíma um úthlutun fjármagns í samræmi við stjórnvaldsákvarðanir. “ 

Búnaðarstofa sjálfstæð rekstrareining

Atvinnu- og nýsköpunar­ráðuneytið tók ákvörðun síðastliðið sumar eftir að hafa leitað umsagnar meðal annars frá MAST að verkefni Bændasamtakanna færðust til MAST. Til stóð að framkvæma flutninginn  um síðustu áramót en þeirri ákvörðun frestaði ráðuneytið. Í desember síðastliðinn var gerður þríhliðasamningur milli ráðuneytisins, Matvælastofnunar og Bændasamtakanna. Samningurinn gerði ráð fyrir að búin yrði til sjálfstæð rekstrareining innan Bændasamtakanna og yrðu þau verkefni, sem samkomulag náðist um að flytja, færð yfir til hennar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra mun skipa þriggja manna verkefnastjórn sem í eru fulltrúar frá ráðuneytinu, MAST og Bændasamtökunum. Verkefnastjórnin á að undirbúa flutning verkefna og starfsfólks og skal flutningi lokið eigi síðar en 1. janúar 2016.  
Bændasamtökin ákváðu að nefna hina sjálfstæðu rekstrareiningu Búnaðarstofu og tók hún til starfa 1. janúar 2015. Búnaðarstofa hefur sjálfstæðan fjárhag, sem þýðir að rekstur og fjárhagur hennar er aðskilinn frá rekstri Bændasamtakanna.

Hjá Búnaðarstofu starfa fjórir starfsmenn en auk Jóns Baldurs fluttust Ásdís Kristinsdóttir, Guðrún S. Sigurjónsdóttir og Ómar S. Jónsson, en Guðrún og Ómar störfuðu á sínum tíma hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Ef ákvörðun ráðuneytisins breytist ekki þá færast þessir starfsmenn yfir til MAST frá og með 1. janúar 2016 með þeim verkefnum sem færast frá Bændasamtökunum.

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...