Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flutti framsögu á bændafundinum í Borgarnesi.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flutti framsögu á bændafundinum í Borgarnesi.
Mynd / smh
Fréttir 25. ágúst 2022

Brýn mál til umræðu á fyrsta fundinum í Borgarnesi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Bændasamtök Íslands standa fyrir bændafundum um allt land í ágúst undir yfirskriftinni „Samtal um öryggi“ og var fyrsti fundurinn haldinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi mánudaginn 22. ágúst, þar sem húsfyllir var á efri hæðinni. Brýn mál íslensks landbúnaðar voru þar á dagskrá og sköpuðust líflegar umræður.

Góð aðsókn var á fyrsta bænda­fundinn í Landnámssetrinu.

Fundurinn hófst með framsögu Gunnars Þorgeirssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, þar sem hann fór yfir þau verkefni sem hafa verið á borði samtakanna að undanförnu ásamt því að fjalla um helstu áherslumál fyrir næstu vikur og mánuði.

Innviðabreytingar Bændasamtakanna

Fyrst greindi Gunnar frá breytingum á innviðum Bændasamtaka Íslands; nýju starfsfólki, skipuriti og fyrirhuguðum flutningum samtakanna í Borgartún 25. Á undanförnum vikum hefði verið unnið að undirbúningi fyrir flutninga með róttækri tiltekt í Bændahöll, auk þess sem verið væri að standsetja nýtt skrifstofuhúsnæði í nýjum húsakynnum.

Gunnar sagði að verkefnavinnan að undanförnu hefði einkum falist í skipulagningu á landbúnaðarsýningu sem haldin verður í Laugardalshöll 14.–16. október næstkomandi, degi landbúnaðarins 14. október og undirbúnings fyrir endurskoðun búvörusamninga á næsta ári. Fyrsti samráðsfundurinn við fulltrúa matvælaráðuneytisins væri áætlaður um miðjan október.

Fæðuöryggismál til umfjöllunar

Í máli Gunnars kom fram að fæðuöryggismál hafi mjög verið til umfjöllunar hjá samtökunum á síðustu mánuðum eftir að ógnarástand á alþjóðlegum hrávörumörkuðum með korn og aðföng bænda setti matvælaframleiðslu á Íslandi í alvarlega stöðu. Í þeim málum hafi verið lagður ákveðinn grunnur með starfi Spretthóps matvælaráðherra, til bjargar fyrir afkomu bænda, og starfshópi forsætisráðherra um neyðarbirgðir í landinu.

Sú vinna hafi að talsverðu leyti verið unnin af hálfu starfsmanna Bændasamtaka Íslands, en í samvinnu við ráðuneytin.

Önnur öryggismál bænda

Því næst fór Gunnar yfir  önnur undirstöðuatriði svo íslenskur landbúnaður geti sem best þrifist á næstu árum; öryggismál eins og sálgæslu, vinnuvernd og afkomuöryggi bænda, loftslags- og umhverfismál auk markaðssetningar íslenskra landbúnaðarafurða.

Í haggreiningartölum, sem Gunnar sýndi fundargestum í Landnáms- setrinu, um markaðshlutdeild innflutts kjöts frá 2018, kom fram að á síðasta ári hefur hlutdeild svínakjöts vaxið mest og nálgast hratt 30 prósent þess kjöts sem er á íslenskum markaði. Hlutdeild alifuglakjöts vex jafnt og þétt og er nú rétt rúmlega 20 prósent, en var undir 15 prósentum árið 2018.

Gagnasöfnun og nýliðunarvandi

Gunnar sagði að söfnun gagna væri mikilvægur liður í að bæta samningsstöðu bænda og því væru Bændasamtökin farin af stað í það verkefni að byggja upp gagnagrunn hagtalna fyrir landbúnaðinn. Fyrsta skrefið hefði verið að birta hálfsmánaðarlega hagtölur landbúnaðarins í Bændablaðinu á sérstakri síðu.

Í umræðum um nýliðunarvanda í íslenskum landbúnaði, varpaði Gunnar fram þeirri hugmynd hvort ekki mætti horfa til lánafyrirkomulags varðandi fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði. Þannig væri hægt að hugsa sér að ríkið myndi fjárfesta í bújörðum nýliða upp á 20–30 prósent, sem væri svo gert upp þegar hún væri seld eða hluturinn greiddur til baka á tilteknum árafjölda.

Áherslur við endurskoðun búvörusamninga

Endurskoðun búvörusamninga, sem eru í gildi til 2026, er sem fyrr segir á næsta ári og sagði Gunnar að undirbúningsvinna væri hafin innan Bændasamtakanna. Meta þyrfti hvort markmið samninganna hefðu náðst.

Markmið rammasamnings eru að efla íslenskan landbúnað og auka verðmætasköpun. Nýta einnig sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins. Nefndi Gunnar að í samningnum væru ákvæði um að fjármunir til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins væru skornir alveg niður á samningstímanum. Þetta ákvæði væri eitt af áhyggjuefnum samtakanna varðandi samninginn og þyrfti að endurskoða.

Endurskoða þyrfti líka markmiðið með samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt, þar sem segði að bæta þurfi hagræði, efla samkeppnishæfni og auðvelda nýliðun. Sömu sögu væri að segja um sauðfjárræktina, en þar segir í markmiðum samnings að stuðla verði að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu – og treysta stoðir í byggða- og atvinnulegu tilliti.

Gunnar sagði að helst væri það í garðyrkjusamningnum að nálgast væri markmiðið, að treysta tekju- og starfsgrundvöll framleiðenda.

Hann sagði að þetta væru raunverulegar áskoranir við endurskoðun samninganna; að meta hvort núverandi markmiðum miði áfram í rétta átt og ef ekki að skoða þá hver eigi að vera hin eiginlegu markmið þeirra.

Tollamál, verðlagsgrundvöllur og afurðaverð

Talsverðar umræður sköpuðust í seinni hluta fundar um margvíslegar hliðar landbúnaðar á Íslandi. Meðal umræðuefna sem komu frá fundargestum má nefna tollamál og misræmi í innflutningstölum, mikilvægi þess að undirbúa vel vinnu við endurskoðun búvörusamninga, þörf á uppfærslu fyrir verðlagsgrundvöll kúabúa og úrræðum fyrir kornbændur til varnar álftum og gæsum.

Auk þess voru afurðaverðsmál til umræðu, eins og oft áður á bændafundum. Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda innan Bændasamtakanna og stjórnarmaður í samtökunum, tók til máls og greindi frá því að áfangasigur hefði náðst í sumar í kjarabaráttu sauðfjárbænda. Ljóst væri að meðaltalshækkun fyrir kíló af dilkakjöti væri komin í 35 prósent frá fyrra ári. Þá gæti hann flutt þau gleðitíðindi að birgðastaðan væri í sögulegu lágmarki um þessar mundir, einungis um rúm760 tonn væru í geymslu frá síðasta ári en til samanburðar nefndi hann að mánaðarsala lambakjöts væri í kringum 500 tonn.

Alls verða bændafundirnir 11 talsins, á 11 mismunandi stöðum á landsbyggðinni, og lýkur fundaröðinni á morgun, föstudag, á Icelandair Hótel Flúðum klukkan 16.

Skylt efni: bændafundir

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...