Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Breytingartillögur um ný fánalög
Fréttir 16. apríl 2014

Breytingartillögur um ný fánalög

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Til tíðinda dró í lok marsmánaðar síðastliðnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í máli sem snertir breytingar á lögum um notkun á þjóðfána Íslendinga. Bændasamtök Íslands sóttust fyrst eftir því árið 2008 að fá að nota íslenska fánann til að auðkenna innlendar landbúnaðarafurðir á markaði. Núna kemur breytingar­tillaga í fyrsta skiptið fram til annarrar umræðu.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmda­stjóri Landssamtaka sauðfjár­bænda, kom fyrir nefndina af hálfu Bændasamtaka Íslands og segir hann að áður hafi verið mælt þrisvar fyrir málinu en það ekki komist lengra – það hafi sofnað í nefndinni. „Þrátt fyrir að vel hafi verið tekið í málið á sínum tíma hefur hvorki gengið né rekið við að afgreiða það á Alþingi. Er nú svo komið að málið hefur verið flutt í fjórgang án þess að hljóta afgreiðslu. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, flutti það tvisvar og nú er verið að flytja það í annað sinn sem þingmannamál. Ég tek eftir því að núna kemur meirihlutaálit frá nefndinni, en vonandi þýðir það ekki að ágreiningur sé uppi, því að það mun örugglega hafa neikvæð áhrif á hvort það kemst til afgreiðslu fyrir þinglok.

Samtök bænda hafa lengi haft áhuga á að koma upp merki sem gæti aðgreint íslenskar búvörur frá innfluttum. Árið 2007 var byrjað að fara yfir það hvernig þessum málum væri háttað í nágrannalöndunum en einnig var horft til þess merkis sem garðyrkjubændur höfðu komið sér upp, það er að segja fánarandarinnar. Ákveðið var að leita eftir því hvort hægt væri að útvíkka þá notkun á fleiri vörur. Niðurstaða garðyrkjubænda varð hins vegar sú að þeir vildu ekki heimila það. Þeir töldu sig hafa fjárfest of mikið í merkinu til að óhætt væri að hleypa fleiri vörum undir það. Auðvitað höfðu þeir fullt vald til þess, enda eiga þeir merkið og hafa byggt það upp frá grunni.“

Sigurður telur líklegt að umræða um írskt smjör og almenn umræða um upprunamerkingar undanfarin misseri, meðal annars að frumkvæði bænda, hafi nú ýtt við málinu. Neytendur hafi almennt meiri áhuga á upprunamerkingum og það hafi örugglega skilað sér til þingsins. Hann segir málið mikilvægt bæði fyrir framleiðendur og neytendur. „Meginhugmyndin er auðvitað sú að koma á fót merki sem bæði neytendur og framleiðendur geti treyst. Ákvörðunin er síðan neytandans en bændur vilja sjá skýra aðgreiningu og það er varla til nein skýrari upprunamerking en íslenski fáninn. Verði frumvarpi samþykkt er svo undir framleiðendum komið að nýta þá möguleika sem þarna gefast, en merkingarnar eru valfrjálsar. Ég er þó í engum vafa um að bændur vilja að sem flestir sem vinna úr þeirra vörum nýti sér þetta.“

Útvíkkaðar heimildir til notkunar á fánanum

Sigurðar segir að í breytingar­tillögunum nú sé heimild til notkunar fánans útvíkkuð nokkuð frá fyrri útgáfum. „Hvað varðar bændur þá eru meginatriðin þau að nota má fánann á afurðir dýra sem hér eru ræktuð, hlunnindaafurðir (svo sem æðardún) og nytjajurtir, bæði villtar og ræktaðar. Það var okkar upphaflega hugmynd að þetta gilti bara um innlendar matvörur úr innlendum hráefnum sem koma af landinu, en fáninn er auðvitað eign okkar allra svo ég skil vel að fleiri vilji nýta hann.

Með breytingunum má nota merkinguna á sjávarafurðir sem koma úr íslenskri landhelgi. Til viðbótar má nota hana á matvæli framleidd hérlendis sem hafa verið hér á markaði í að minnsta kosti 30 ár þó hráefnið sé erlent. Dæmi um það væri til dæmis ORA grænar baunir, Royal búðingur og annað sambærilegt. Þessar vörur eru framleiddar hér þó að hráefnið sé erlent.“

Hannaðar á Íslandi, úr íslensku hráefni eða framleiddar hér

„Opnasta heimildin gildir um aðrar vörur en matvörur. Þar er til dæmis átt við aðrar vörur sem eru hannaðar á Íslandi, úr íslensku hráefni, eða framleiddar hérlendis. Nægilegt er að eitt þessara þriggja skilyrða sé uppfyllt. Lopapeysa sem er hönnuð á Íslandi, gæti til dæmis fengið merkið þó hún sé ekki úr íslenskri ull og ekki framleidd hér. Um slíkt eru dæmi. Að vísu gilda líka lög um að ekki megi blekkja neytendur, en þessir skilmálar eru nokkuð opnir og orka tvímælis. Hugsunin er auðvitað sú að það megi merkja íslenska hönnun, en ég tel að eftirlitsaðilar þurfi að fylgjast vel með því hvernig þessi ákvæði verða nýtt og taka sérstaklega á því að þau séu ekki notuð til að villa um fyrir neytendum.

Ráðherra er síðan ætlað að útfæra skilgreiningar nánar í reglugerð. Það þarf til dæmis að skilgreina lágmarkshlutfall innlendra hráefna í matvælum sem mega fá merkinguna t.d. mjólkurvörum sem blandað er í ávöxtum og/eða öðrum innfluttum hráefnum. Þetta þarf klárlega að liggja fyrir um leið og lögin taka gildi – ef þau verða endanlega afgreidd.

Óheimilt í dag að merkja vörur fánanum

Nú hefur borið nokkuð á því að íslenskir framleiðendur eru þegar farnir að merkja vörur sínar íslenska fánanum, en er það ekki ólöglegt í dag? Sigurður segir óheimilt að merkja vörur með fánanum sjálfum. „En það er hægt að nota og fá skráð margs konar merki sem skírskota til fánans, eins og fánarönd garðyrkjubænda er dæmi um. Að vísu eru notkunarheimildir í núverandi lögum en þær byggja á leyfi sem forsætisráðuneytinu er ætlað að gefa út.. Skilyrði fyrir því leyfi hafa aldrei verið útfærð og því engin slík gefin út,“ segir Sigurður og bætir við að það sé lögreglan sem fari með eftirlit með notkun fánans. „Mér vitanlega hefur hún aldrei skipt sér af því þó að hann hafi verið notaður til að merkja vörur án leyfis. Hún hefur oft gert athugasemdir við fánatíma og almenna meðferð fánans, en ég hef aldrei heyrt um að þessu ákvæði hafi verið fylgt eftir.“

Sigurður segir að samkvæmt breytingar­tillögunum er Neytenda­stofu ætlað að hafa eftirlit með notkun fánans á merkingar og úrskurða um vafaatriði eða misnotkun. „Það fellur ágætlega að þeirra verkefnum sem snúa meðal annars að því að tryggja að neytendur séu ekki blekktir. Ég held að það sé betra en að eftirlit verði hjá ráðuneytinu eða lögreglunni. En það á eftir að koma í ljós. Mestu skiptir að nýjum lögum verði fylgt eftir í þegar þau taka gildi.“ 

Listeríusýkingar vaxandi vandamál
Fréttir 27. maí 2024

Listeríusýkingar vaxandi vandamál

Tíðni listeríusýkinga í Evrópu fer vaxandi og samkvæmt greiningum á fyrstu þremu...

Göngustígar hjá Geysi
Fréttir 27. maí 2024

Göngustígar hjá Geysi

Framkvæmdir við nýtt gönguleiðakerfi á Geysissvæðinu í Haukadal í Bláskógabyggð ...

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár
Fréttir 27. maí 2024

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár

Alþjóðlegu vínsamtökin International Organisation of Vine and Wine (OIV) segja í...

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...