Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Birta er arfhrein með T137 breytileikann, undan Björk frá Reykjum og Teiti frá Sveinsstöðum.
Birta er arfhrein með T137 breytileikann, undan Björk frá Reykjum og Teiti frá Sveinsstöðum.
Mynd / Aðsend
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arfgerðarbreytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi gegn riðuveiki í sauðfé.

Erindið var sent í nafni bændahópsins „Breiðvirkt riðuþol strax“, stutt áliti alþjóðlegs vísindateymis sem hefur unnið að víðtækum riðurannsóknum á Íslandi frá 2021. Markmið vísindamannanna er að fá þessa viðurkenningu einnig hjá Evrópusambandinu.

Aldrei fundist riðusmituð kind með T137

Í erindinu kemur fram að breytileikinn sé hvað mest rannsakaður af þeim breytileikum sem skilgreindir eru sem mögulega verndandi í Landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu. Staðfest sé í umfangsmiklum rannsóknum á raunverulegum riðuhjörðum, í smittilraunum og í tilraunaglasi, að breytileikinn veiti afar sterka mótstöðu gegn riðusmiti. Aldrei hafi fundist riðujákvæð kind með T137 breytileika, hvorki á Íslandi né í öðrum löndum þar sem T137 er talsvert algengara en hér á landi.

Í dag sé talsvert meira vitað um T137 en vitað var um R171 (ARR) breytileikann þegar Evrópusambandið ákvað að innleiða ræktunarstefnu sína gegn riðuveiki á grunni þess breytileika.

Niðurstöður alþjóðlega rannsóknarteymisins, þar sem innanborðs séu leiðandi riðusérfræðingar, bendi ótvírætt til þess að mótstaða T137 gegn riðuveiki á Íslandi sé eins sterk og á Ítalíu, þar sem breytileikinn sé algengur. „Þar með opnast gríðarlega mikilvægir möguleikar til að byggja þolræktun gegn riðu á talsvert breiðari grunni en eingöngu á þeim örfáu gripum, sem fundust upphaflega með R171 (þótt Þernunes sé ekki lengur eina uppspretta R171). Íslenski sauðfjárstofninn býr yfir óvenjumiklum erfðafræðilegum fjölbreytileika, sem hefur vakið athygli á heimsvísu. Ræktunarstefna sem byggir á fáum gripum, stefnir þessum fjölbreytileika í voða; til dæmis getur verið mjög erfitt að losna aftur við erfðagalla sem kunna að tengjast þessum gripum.“

Innleiðing án þess að tapa fjölbreytileikanum

Fram kemur í erindinu að T137 hafi þegar fundist í níu hjörðum á Norður- og Austurlandi og rannsóknir hafa leitt í ljós að engin erfðatengsl eru á milli T137-gripa þessara hjarða.

Allir grunnlitir hafi fundist hjá gripum með breytileikann, einnig kollótt, hyrnt og ferhyrnt fé. Þessir gripir séu því talsvert líkari íslenska fjárstofninum sem heild en R171-gripirnir og dreifist um allan stofninn. Því sé hægt að innleiða T137 mjög hratt, án þess að tapa fjölbreytileikanum.

Til að auka útbreiðslu T137 samhliða R171 – og þar með auka riðuþol stofnsins sem hraðast – sé lykilatriði að íslensk stjórnvöld og matvælaráðuneytið skilgreini T137 sem verndandi breytileika sem fyrst. Bregðast þurfi hratt við þar sem fengitíminn sé fram undan.

Erindið var sent fyrir um mánuði síðan og bíður ráðuneytið nú umsagna fagaðila; Landbúnaðarháskóla Íslands, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Matvælastofnunar.

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...