Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þegar minnst varði bregður hún beisli undan svuntu sinni.
Þegar minnst varði bregður hún beisli undan svuntu sinni.
Fræðsluhornið 22. desember 2014

Bregður hún beisli undan svuntu sinni og leggur við dreng og ríður gandreið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jól og áramót eru í huga flestra skemmtilegur tími þegar fjölskyldan kemur saman og gerir sér glaðan dag. Vinir og vandamenn gefa hver öðrum gjafir og gleyma gömlum deilumálum, að minnsta kosti um stundarsakir.

Sumir tengja jólin fæðingu Krists aðrir halda upp á þau til að fagna því að sólin fer að hækka á lofti og börnin bíða spennt eftir því að fá í skóinn.

Þetta er líka sá árstími þegar alls konar kynjaverur fara á stjá, jólasveinarnir koma til byggða, álfar flytja búferlum og tröll halda veislur. Það er því ekki hættulaust að vera einn á ferli á þessum tíma ef mark er tekið á þjóðtrú sem tengist jólunum.

Drykkja var þar mjög óstjórnleg

Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá allsvakalegu jólaboði sem Hít tröllkona stóð fyrir í Hundahelli í Hítardal. Til veislunnar bauð hún meðal annarra Bárði Snæfellsás sem var af risakyni í föðurætt, Gesti syni hans og mörgum tröllum. Þar var Surtur af Hellisfitjum og Jóra úr Jórukleif, Kolbjörn í Breiðdalsbotnum, Glámur og Ámur úr Miðfjarðarnesbjörgum og Guðlaugur úr Guðlaugshöfða. Allt góð og gild þurs og drykkjutröll.

„Voru þá borð upp tekin og matur á borinn, heldur stórkostlegur. Drykkja var þar mjög óstjórnleg, svo að allir urðu þar ginntir. En er máltíð var úti, spurðu þursar og Hít, hvað Bárður vildi til gamans hafa. Bárður bað þá fara til skinnleiks. Stóðu þeir þá upp, Bárður og Surtur, Kolbjörn, Guðlaugur og Gljúfra-Geir, og höfðu hornskinnaleik; var þá ekki svo lítið um þá, – þó var auðséð að Bárður var sterkastur, þótt hann væri gamall. Bjarnfeld einn stóran höfðu þeir fyrir skinn, og vöfðu hann saman og köstuðu honum á milli sín fjórir, en einn var úti og skyldi sá ná. Ekki var gott að vera fyrir hrundningum þeirra. Flestir stóðu uppi á bekkjum nema Gestur, hann sat kyrr á rúmi sínu. En þá er Kolbjörn var úti, ætlar hann að ná skinni fyrir Bárði og hljóp heldur snarlega. En er Gestur sá það, skaut hann fætinum fyrir Kolbjörn, svo þursinn hraut þegar út á bergið svo hart, að brotnaði í honum nefið, – féll þá blóð um hann allan. Varð þá upphlaup og hrundningar heldur sterklegar; vildi Kolbjörn hefna sín á Gesti.“

Gandreiðin

Jólin eru magnaður tími og svo virðist sem öll náttúrulögmál snúist á hvolf.

Á aðfangadagskvöldi jóla er drengur, sem hafði ráðist til starfa á prestsjörð, úti í hesthúsi að kemba og hirða eldishesta prestsins. Hann veit ekki fyrr til en kona prestsins vindur þar inn og gefur hún sig á tal við dreng um ýmis málefni. Þegar minnst varði dregur hún beisli undan svuntu sinni og leggur við drenginn og fylgir því mikið töfraafl. Drengurinn leyfir prestkonunni að fara á bak sér og tekur hann hana svo á loft eins og fuglinn fljúgandi. Fer hann yfir fjöll og dali, kletta og klungur og hvað sem fyrir er með prestkonuna á bakinu. Meðan á þessu stendur þykir drengnum eins og hann vaði reyk.

Dansferðir í mannahíbýlum

Álfar eru mikið á ferð um jólin. Bæði er skemmtanatími þeirra mestur um það leyti ársins því þá halda þeir mikið af samsætum og veislum með hljóðfæraslætti  og dansi ýmist í mannahíbýlum eða í álfabyggðum. Auk þess eru hjá þeim fardagar um nýárið.

Stundum hafa mennskir ratað í álfaveislur á jólanótt eins og segir í sögunni Álfar hjá Víðivöllum. Í klöppum hjá Víðivöllum sá maður nokkur á jólanóttina stórt hús allt ljósum prýtt. Hann gekk þar inn og fékk góðar viðtökur og ágætan beina. Morguninn eftir er hann vaknaði lá hann á berum klettunum og sá hvorki veður né reyk eftir af stóra húsinu.

Sögur um jólagleði álfa hefjast iðulega á að heimilisfólkið er á leið til kirkju og að einhver einn, maður eða kona, verður eftir til að gæta bæjarins. Þegar líður fram á kvöld koma álfarnir inn í bæinn og halda skemmtun og sá sem heima situr missir vitið eða deyr. Þeir sem halda glórunni og lifa álfageimið af í fyrsta sinn missa þó yfirleitt vitið eða lífið eftir að djammið hefur endurtekið sig í tvö eða þrjú ár.

Jóladansinn í Hruna

Eins og sannast hefur eru það fleiri en álfar og tröll sem hafa gaman af því að skemmta sér um jólin. Í Hruna í Árnessýslu var prestur sem mjög var gefinn fyrir skemmtanir og gleðskap. Ein jólin messaði hann ekki þegar sóknarfólkið kom til kirkju heldur hélt dansleik með drykkju, spilum og öðrum ósæmilegum skemmtunum langt fram á nótt.

Presturinn átti aldraða móður sem hét Una og var mjög á móti háttalagi sonar síns og bað hann oft um að huga frekar að guði en skemmtanahaldi en hann hirti ekkert um það og hélt uppteknum hætti.

Eina jólanótt var presturinn lengur að en venja var og bað móðir hans hann í þrígang að hætta en hann sagði ávallt: „Einn hring enn, móðir mín.“ Þegar Una gamla gengur frá syni sínum í þriðja sinn heyrir hún kveðið utan við kirkjuna:

Hátt lætur í Hruna
Hirðir þangað bruna;
svo skal dansinn duna
að drengir megi það muna.
Enn er hún Una
og enn er hún Una.

Þegar kerlingin kom út sá hún mann sem hún taldi vera djöfulinn sjálfan. Una söðlaði því hest og reið allt hvað af tók til næsta prestsseturs. Þegar hún kom aftur að Hruna ásamt prestinum og fleiri mönnum var kirkjan og kirkjugarðurinn sokkin með fólkinu í og heyrðist ýlfur og gaul niðri í jörðinni.

Jólasveinninn krossfestur

Þó að sögurnar hér að framan séu gamlar er ekki þar með sagt að nýjar þjóðsögur verði ekki til. Fyrir nokkrum árum fór á kreik saga sem segir frá vilja Austurlandabúa til að gera túristum frá Vesturlöndum til hæfis um jólin. Íbúar þessara landa eru fæstir kristnir og þekking þeirra á jólunum oft takmörkuð.

Aðstandendur stórrar verslunar­miðstöðvar í Austurlöndum tóku sig til og létu smíða fyrir sig margra metra háan kross fyrir jólin. Í stað Krists þótti þeim viðeigandi að negla brosandi jólasvein á krossinn og hengja hann upp til að geðjast viðskiptavinum sínum.

Að sögn kunnugra ganga Japanar allra þjóða lengst í að markaðssetja jólin. Þar í landi er ekki óhugsandi í desember að sjá ungar og eggjandi konur í nunnubúningi syngja auglýsingar við vestræn jólalög og að fólk sendi jólakort sem sýna Maríu mey lyfta sér til flugs á kústi, umkringda jólaálfum sem hafa flösku af saki sér við munn.

Skylt efni: Jól

Ísteka riftir samningum við bændur
Fréttir 8. desember 2021

Ísteka riftir samningum við bændur

Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur rift samningum við þá bændur sem sjást beita hry...

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022
Fréttir 8. desember 2021

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022

New Holland dráttar­véla­framleiðandinn heldur áfram að sópa að sér verðlaunum o...

Konur borða meira af laufabrauði en karlar
Fréttir 8. desember 2021

Konur borða meira af laufabrauði en karlar

Um 90% þjóðarinnar borða laufabrauð um jólin samkvæmt könnun sem Gallup gerði fy...

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum
Fréttir 8. desember 2021

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum

Niðurstöður könnunar benda til skorts á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum. Sa...

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði
Fréttir 6. desember 2021

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði

Það er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. E...

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Fréttir 6. desember 2021

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng

Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyr...