Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hjónin Helga Hallgrímsdóttir og Hörður Snorrason í Hvammi.
Hjónin Helga Hallgrímsdóttir og Hörður Snorrason í Hvammi.
Mynd / HKr.
Viðtal 22. júlí 2015

Bjartsýn á framtíðarhorfur í mjólkurframleiðslunni

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hjónin Hörður Snorrason og Helga Hallgrímsdóttir reka ásamt fjölskyldu sinni myndarlegt og afar snyrtilegt kúabú í Hvammi í Eyjafirði. Þau eru bjartsýn á framtíð búsins í ljósi sívaxandi eftirspurnar eftir mjólk og mjólkurafurðum. 
 
Á Hvammi eru um 85 mjólkandi kýr, en í heild um 260–270 gripir á öllum aldri. Árið 2006 var tekið í notkun nýtt lausagöngufjós og nú í vor var eldra fjós, sem er 43 ára gömul bygging, endurbætt. Þar voru settir upp legubásar fyrir geldar kýr og kvígur. Í nýju byggingunni er hægt að fjölga mjólkurkúm til að auka framleiðsluna. Í fjósinu er mjaltabás með afkastamiklu Tandem mjaltakerfi sem tekur átta kýr í einu. Það tekur því mest um klukkutíma og þrjú korter fyrir heimilisfólkið að mjólka allar kýrnar.  
 
Fjölga í 100 mjólkandi kýr fyrir árslok 2015
 
„Við stefnum að því að vera komin með 100 mjólkandi kýr í lok þessa árs,“ segir Hörður. Hann segir að vissulega fylgi mjaltabásnum meiri viðvera miðað við mjaltaþjóna, en á móti komi minni kostnaður. Ef skipta ætti yfir í mjaltaþjóna segir hann að fjölga þyrfti kúnum í 120 til 130 og vera þá með tvo mjaltaþjóna. „Þetta er bara spurning um val. Þegar við byggðum nýja fjósið fyrir níu árum var það okkar val að hafa það með mjaltabás. Við töldum það skynsamlegri kost miðað við þann fjölda kúa sem við ætluðum að vera með. Við útilokum svo sem ekkert að það eigi eftir að breytast.“ 
 
Horfurnar bjartar
 
− Hvað með horfurnar í mjólkur­framleiðslunni?
„Horfurnar eru bjartar eins og er, en kannski erfitt að ráða í framtíðina,“ sagði Hörður í samtali við Bændablaðið. „Við reynum að uppfylla þarfir markaðarins og munum leggja allt í til að standa undir því og anna eftirspurn.“
 
− Nú var kvóti settur á mjólkurframleiðsluna á sínum tíma til að takmarka framleiðsluna og á því byggist greiðslumarkið sem miðað er við í stuðningi við þessa grein. Með aukinni eftirspurn þar sem menn geta framleitt nær óheft er sá kvóti að segja má orðinn verðlaus. Sérðu fyrir þér að það verði tekin upp aftur stýring af svipuðum toga ef það reynist þörf á að draga úr framleiðslunni á komandi árum?
„Já, ég sé fyrir mér að það þurfi að vera einhver tæki til að draga úr framleiðslunni komi til offramleiðslu. Þannig að við verðum ekki fyrir því að verðið stýri framboði og eftirspurn. Slíkt getur orðið hættulegt fyrir þá sem hafa skuldsett sig við uppbyggingu til lengri tíma. Ef verðið lækkar yrði erfitt fyrir marga að missa tekjurnar þar sem enginn styrkur er umfram greiðslumarkið. Það þarf því  að finna einhverja leið til að stýra framleiðslunni. Ég hef svo sem ekki fundið þá lausn en bændur eru í dag að ræða þetta sín á milli.“
 
Hörður bendir á að í dag séu kúabændur hvattir til að framleiða meira og því hafi margir bændur farið þá leið að stækka búin og fjölga kúm með tilheyrandi skuldsetningu án þess að nokkur trygging sé á bak við það í formi greiðslumarks. Fyrir þessa bændur gæti staðan orðið mjög erfið ef skyndilega yrði tekin ákvörðun um að draga á ný úr framleiðslunni og þeir sætu uppi með lán vegna framleiðsluaukningarinnar sem áfram þarf að greiða af. 
 
Brýn þörf á langtíma stefnumótun
 
„Ég er mjög bjartsýnn á horfurnar, allavega hvað varðar þá þætti sem við bændur getum stjórnað. Það er hins vegar alltaf þessi óvissa í loftinu sem snýr að pólitíkinni. Við þurfum að vita við hverju er að búast lengra fram í tímann en hægt er í dag. Fólk er að fjárfesta fyrir hundruð milljóna í búnaði sem að hluta kemur til út af kröfum hins opinbera um bættan aðbúnað. Því þurfum við öruggara rekstrarumhverfi til lengri tíma. Nú er búvörusamningur að renna út og fyrir næsta vor þurfa að liggja fyrir klárar línur varðandi nýjan samning. Þá þarf að lágmarki að marka stefnuna tíu ár fram í tímann miðað við allar þær fjárfestingar sem menn þurfa að leggja út í.“  
 
Auka má kjötframleiðsluna með markvissari fóðrun og uppeldi
 
Hörður segir að kjötframleiðsla með íslenska nautgripastofninum sé engan veginn nægileg til að anna eftirspurn.
 
„Menn tala jafnvel um að þó við létum alla kálfa á Íslandi lifa og ala upp til kjötframleiðslu, þá dygði það ekki til. Auðvitað má samt auka framleiðsluna með bættri fóðrun, sérstaklega á mjólkurskeiði og fyrst eftir það og ala kálfana virkilega vel. Maður hefur séð það sjálfur að það er hægt að ná verulegri þyngdaraukningu á þessum tíma með mikilli fóðrun.“
 
− Mun það skila sér fjárhagslega?
„Það á eftir að koma í ljós. Það er stór tilraun í gangi úti á Möðruvöllum í Hörgárdal sem ætti að gefa okkur einhverja niðurstöðu. Það verður fróðlegt að sjá þegar niðurstöður fara að berast úr því hvernig það eldi kemur út.  
 
Með hraðari þyngdaraukningu er verið að stytta líftíma gripanna fyrir slátrun. Þannig ættu menn að geta náð meiri veltu og fleiri gripi í gegnum sama húsið á styttri tíma. Það er í raun það sama og menn byggja á í svínaeldinu með því að ná hraðari afsetningu í gegnum húsin. 
 
Við höfum kannski verið allt að tvö ár að ala naut upp í sláturstærð, en hugsanlega komum við því niður í eitt og hálft ár með aukinni fóðrun. Ég hef sjálfur verið að bæta fóðrun þessara gripa hjá mér og mér finnst það alveg skila sér í hraðari þyngdaraukningu.“
 
Erfðaefnisinnflutningur viðkvæmt mál
 
− Nú lagði  landbúnaðarráðherra fram frumvarp sem samþykkt var á Alþingi nú í júní með 46 atkvæðum gegn 7 og heimilar innflutning erfðaefnis til að endurnýja holdanautgripastofn landsmanna. Hvernig líst þér á þau áform?
 
„Það eru blendnar tilfinningar í því. Það var vissulega flutt hér inn á árum áður svo fordæmin eru fyrir hendi.  Þetta snýr líka að þessum íslenska kúastofni. Með innflutningi á erfðaefni í holdagripi, þá ætla menn væntanlega að fara sömu leið varðandi mjólkurkýrnar. Þar er verið að skapa fordæmi. Ég held að málið snúist mikið um það.“
 
Brýn þörf talin á endurbótum á holdagripastofninum
 
Flestir virðast sammála um að holdanautastofninn sem hér er sé erfðafræðilega of einsleitur. Því þurfi nýtt utanaðkomandi erfðaefni til að stofninn úrkynjist ekki. 
 
Að uppruna á hann ættir að rekja til bolakálfs sem hlaut nafnið Brjánn og kom undan Galloway kú og nauti sem flutt voru frá Skotlandi 1933 og voru í einangrun í Þerney. Þetta var jafnframt fyrsti hreinræktaði Galloway gripurinn sem fæðst hefur hér á landi, en foreldrarnir voru felldir vegna sjúkdómsins hringskyrfi sem er smitandi húðsjúkdómur. Frá 1977 fór að koma inn í holdanautgriparæktunina blöndun frá gripum af Galloway, Aberdeen Angus og Limousine stofnum sem aldir voru upp í einangrunarstöðinni í Hrísey. Augljóst er að ræktun þess holdanautgripastofns sem hér er hefur tekið langan tíma, en mjög skiptar skoðanir eru um með hvaða hætti flytja eigi erfðaefni til landsins til að hressa upp á stofninn. 
 
Forystumenn Landssambands kúabænda hafa mjög horft á hagkvæmnissjónarmið í því efni og vilja innflutning á sæði sem flýtt getur ferlinu. Hafa menn m.a. þar bent á svínaræktina máli sínu til stuðnings. Sem málamiðlun hafa verið tillögur um að einungis verði heimilaður innflutningur fósturvísa sem síðan yrði ræktað út frá í lokuðu umhverfi t.d. á tilraunabúinu að Stóra-Ármóti á Suðurlandi. Slíkt tæki vissulega lengri tíma, en fjölmargir þekktir sérfræðingar, dýralæknar og fleiri hafa stutt þá leið, en varað um leið við óheftum innflutningi á sæði vegna sjúkdómahættu. 
 
Snýst í raun um að verja íslenska kúakynið
 
Hörður segir að þetta mál snúist í raun um hvort menn vilji verja íslenska kúakynið. Því skipti máli hvernig staðið verði að innflutningi á erfðaefni fyrir holdanautgripi. Innflutningur á sæði geti t.d. hæglega skapað fordæmi sem erfitt geti orðið að andmæla þegar komi að kröfu um að kynbæta íslenska mjólkurkúastofninn og rækta hér upp t.d. norskar kýr af NRF stofni.  
 
„Ég held að við getum bætt ýmislegt í ræktun okkar gripa. Sérstaklega í uppeldinu og fóðrun, allt frá smákálfum og að burði. Ég held að margir eigi þar ýmsa möguleika til að bæta uppeldið til að fá meiri afurðir út úr gripunum.  
 
Eftir að þessi aukna eftirspurn varð eftir mjólk þá eru menn farnir að fóðra gripina með kraftmeira fóðri. Passa upp á að eiga betra gróffóður og gefa meira kjarnfóður. Það er að skila sér í auknum afurðum. Þegar menn þurftu að draga úr framleiðslunni hér á árum áður þá drógu menn úr fóðrun og við það datt meðalnytin niður.“
 
Töldu íslenska kynið gefa meira af sér miðað við fóður
 
„Ég minnist þess að til mín kom 14 manna hópur fóðurfræðinga á vegum Bústólpa sem fóru hér á fjóra bæi. Þeirra útreikningar sýndu að íslensku kýrnar voru að gefa okkur meira en erlent kúakyn miðað við það fóður sem þurfti til að framleiða hvern lítra af mjólk. Þeirra niðurstaða var sú að íslenska kúakynið gæfi meira af sér miðað við það fóður sem við erum sjálf að framleiða. Með stærri gripum af öðru kyni myndi mjólkurframleiðslan byggjast á meiri gjöf á innfluttu kjarnfóðri og í heild meiri fóðrun með tilheyrandi kostnaði,“ segir Hörður. 

11 myndir:

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...