Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands, segir að mikill hugur sé í ferðaþjónustufólki á svæðinu, uppbygging hafi verið sérlega mikil undanfarin ár, gróska, kraftur og nýsköpun ríkjandi.
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands, segir að mikill hugur sé í ferðaþjónustufólki á svæðinu, uppbygging hafi verið sérlega mikil undanfarin ár, gróska, kraftur og nýsköpun ríkjandi.
Viðtal 5. júní 2014

Beina fólki inn á fáfarnari ferðamannastaði

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Mikill kraftur og gróska hefur einkennt ferðaþjónustu á Norðurlandi á liðnum misserum og hefur ferðafólki sem heimsækir landshlutann fjölgað ár frá ári. Gert er ráð fyrir að nú á komandi sumri muni margir verða á faraldsfæti í landsfjórðungnum og ferðaþjónustufólk hefur að undanförnu verið önnum kafið við að undirbúa komu þessu. Víðfrægar náttúruperlur eru á norðanverðu landinu og hafa þær mikið aðdráttarafl, en fjölbreytnin er einnig mikil þegar kemur að afþreyingu og er hún af ýmsu tagi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni í landshlutanum og ekki útlit fyrir annað en áframhaldandi vöxt í greininni.

Arnheiður Jóhannsdóttir er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, en starfssvæði stofunnar er stórt, nær frá Hrútafirði í vestri og austur um til Bakkafjarðar. Nú þriðja sumarið í röð fara markaðsstofur landshlutanna í samvinnu við Ferðamálastofu af stað með verkefnið Ísland er með‘etta og segir Arnheiður að nú í sumar verði áhersla lögð á minna þekkt og umtöluð svæði og reynt verði að beina umferð ferðafólks inn á jaðarsvæði, svæði þar sem jafnan er ekki eins margt um manninn og á hinum betur þekktu.

„Við leggjum í ár áherslu á að fá Íslendinga til að sækja inn á svæði sem þeir alla jafna eru ekki að heimsækja. Einnig munum við hvetja þá til að njóta upplifunar, kaupa þjónustu af þeim sem bjóða upp á afþreyingu á sínu heimasvæði sem og sækja veitingastaði og annað sem í boði er á hverjum stað. Þannig skilji þeir meðvitað eftir sig tekjur á svæðunum og leggi þannig sitt af mörkum til að heimamenn geti haldið áfram sinni uppbyggingu. Í kjölfar þess að Íslendingar sæki inn á fáfarnari svæði má búast við að útlendingar fylgi í þeirra fótspor og þannig muni þetta á endanum hafa jákvæð áhrif á alla ferðaþjónustu,“ segir Arnheiður.

Gleðilegur árangur af kynningu á jaðarsvæðum

Markvisst átak hefur staðið yfir í þeim efnum að beina ferðafólki inn á fleiri svæði en þau allra þekktustu. Sem árangur af því má nefna að ferðalöngum hefur fjölgað á Norðvesturlandi frá því sem var. „Ferðatímabilið á því svæði hefur lengst og nú er ekki óalgengt að erlendir ferðamenn séu þar á ferðinni í október og nóvember sem var mjög fátítt fyrir fáum misserum,“ segir Arnheiður.

Meðal þess sem fólk fýsir að sjá í þeim landshluta eru selir en óvíða hér við land er betra að fara í selaskoðunarferðir en á Vatnsnesi. Á svæðinu hefur verið byggð upp ákjósanleg aðstaða til selaskoðunar, boðið er upp á selasiglingu og þeim fjölgar sífellt sem fara í slíkar ferðir. „Þetta er ein af þeim nýjungum sem hefur slegið rækileg í gegn og fellur mjög í kramið hjá ferðalöngum,“ segir hún og bætir við að ferðafólk á svæðinu sæki líka í að skoða ullarverksmiðjuna Kidka á Hvammstanga, en þar gefst fólk kostur á að fylgjast með framleiðsluferlinu.
„Ullarverksmiðjan hefur mikið aðdráttarafl og er góð viðbót við þá afþreyingu sem í boði er á svæðinu. Hún fær fólk til að staldra lengur við.“ Hvítserkur hefur að auki sitt að segja, stendur alltaf fyrir sínu eins og Arnheiður orðar það.

Vegir víða ekki í góðu ástandi

Samgöngumálin má segja að sé ákveðinn flöskuháls, en vegurinn um Vatnsnes er langt í frá góður og kallar á uppbyggingu að sögn framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.
„Það þarf að gera bragarbót þar á, það yrði mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna. Vatnsnes er fjölfarin ferðamannaslóð, en vegurinn um nesið erfiður,“ segir hún. Aukin umferð kalli á betri veg, auk þess sem nauðsynlegt sé að útbúa útskot fyrir ferðalanga til að staldra við, stíga út úr bílum sínum og taka myndir af því sem fyrir ber.
Sama er uppi á teningnum þegar kemur að Reykjaströndinni, út frá Sauðárkróki. Vegurinn að Grettislaug sem æ fleiri hafa áhuga á að heimsækja er ekki góður og þolir illa aukna umferð. „Umferðin þar um á bara eftir að aukast en því miður er nokkrir vegir í fjórðungnum þessu marki brenndir. Það er mjög brýnt að átak verði gert í vegagerð og ekki síður snjómokstri á þeim svæðum þannig að aðgengi að ýmsum náttúruperlum verði auðveldað,“ segir Arnheiður. Vegurinn yfir Kjöl er líka gott dæmi, hann er langt í frá nægilega góður til að taka við þeirri miklu umferð sem um hann fer að sumarlagi.

Hugað verði betur að öryggi ferðamanna

Arnheiður nefnir að brýnt sé að klára veginn úr Ásbyrgi og að Dettifossi, þannig að hægt sé að aka svonefndan Demantshring – hring með viðkomu á Húsavík, Mývatnssveit, Dettifossi og Ásbyrgi – allt árið um kring, en ferðafólk er ekki síður á ferðinni að vetrarlagi á þessum slóðum.
„Ferðafólk ekur að Dettifossi allt árið um kring en áttar sig oft ekki á veðri og aðstæðum, vegurinn verður gjarnan ófær vegna snjóa,“ segir hún.
Því komi það aftur og aftur fyrir að heimamenn og ferðaþjónustuaðilar þurfi að draga bíla sem sitja fastir í vegköntum.
„Það er ekki reglulegur snjómokstur á Dettifossvegi og það veldur erlendu ferðafólki oft óþægindum. Þetta er atriði sem má laga og snýst um öryggi ferðamanna sem hingað koma. Það gengur ekki upp að við vinnum að því að markaðssetja náttúruperlur á svæðinu og svo er ekki að þeim almennilegt aðgengi. Þetta eru ljón sem auðveldlega má ryðja úr veginum með samstilltu átaki,“ segir Arnheiður.

Brýnt að nýta uppbygginguna árið um kring

Arnheiður segir að átakið Ísland allt árið hafi gengið mjög vel og skilað umtalsverðum árangri sem mælist í auknum komum útlendinga til Íslands yfir vetrarmánuðina.
„Við þurfum núna að huga að innviðunum, við fáum sífellt fleiri ferðamenn til landsins en það er líka mikilvægt að dreifa þeim um landið, það er ekki fýsilegt að þeir séu allir á einum og sama staðnum,“ segir hún. Einkum eru það Bretar, Bandaríkjamenn og eins Þjóðverjar sem hafa heimsótt landið yfir vetrarmánuðina að sögn Arnheiðar.
„Þetta skiptir okkur verulegu máli, það er nauðsynlegt að geta nýtt þá miklu uppbyggingu sem orðið hefur í ferðaþjónustunni á svæðinu yfir lengri tíma en bara sumarið og það hefur í verulegum mæli tekist. Það hefur skapað meiri kjölfestu í ýmsum byggðum á Norðurlandi, skapað atvinnu yfir lengra tímabil en áður þekktist og er þannig af hinu góða fyrir samfélagið.“

Mikill hugur í ferðaþjónustufólki nyrðra

Arnheiður segir að mikill hugur sé í ferðaþjónustufólki á svæðinu, uppbygging hafi verið sérlega mikil undanfarin ár, gróska, kraftur og nýsköpun ríkjandi. „Og við heyrum ekki annað en framhaldið verði á svipuðum nótum, margir eru að byggja upp og gera skemmtilega hluti sem munu enn auka á framboðið hér norðan heiða,“ segir hún. Sem dæmi nefnir hún að á svonefndu norðurhjarasvæði, Melrakkasléttu, Þistilfirði og Langanesi sé víða unnið að undirbúningi þess að taka á móti fleiri ferðamönnum, en landsvæðið hefur verið nokkuð afskipt. Breyting er að verða þar á og æ fleiri sem leggja leið sína um áður fáfarnari slóðir.

„Á þessu svæði eru fjölmörg tækifæri og það verður gaman að sjá hver þróunin verður, ég er viss um að vel mun til takast og þetta verði til framtíðar litið vinsælt svæði fyrir ferðamenn,“ segir Arnheiður. Heimskautsgerðið við Raufarhöfn dregur þegar að sér ferðafólk og þá stendur einnig til að bæta aðgengi fólks sem leggur leið sína út á Font á Langanesi og var nýlega tekinn í notkun glæsilegur útsýnispallur við klettinn Stóra-Karl, en þangað fara margir til að skoða eina stærstu súlubyggð landsins.

Alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að gerast

Fuglaskoðunarferðir njóta vaxandi vinsælda og það sama má segja um norðurljósaferðir að vetri til. Sérferðir ýmiss konar hafa verið að ryðja sér til rúms og nefnir Arnheiður í því sambandi ferðir á tökustaði bandarísku þáttaraðarinnar Game of Thrones. Þó nokkur fjöldi ferðalanga hafi komið sérstaklega til landsins til að skoða tökustaðina og þeim eigi eftir að fjölga.

„Það er alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt í gangi, sífellt að bætast við það sem fyrir er og við njótum vissulega góðs af því,“ segir hún. Þá hafa ferðir sem tengjast matarmenningu svæðisins notið vinsælda.
Mikil þróun er einnig varðandi skíðasvæðin á Norðurlandi og þá ekki aðeins skipulögðu skíðasvæðin heldur ekki síður gönguskíðaleiðir og ósnert fjöll sem draga til sín ævintýramenn víða úr heiminum.
Viðburðir sem tengjast vetrarævintýrum og skíðamennsku eru í boði og æ fleiri sækja þá. Yfir sumarið er fjöldi hátíða í boði, bæjarhátíðar hér og hvar í þéttbýlisstöðum sem flestar eiga það sameiginlegt að laða að sér mikinn fjölda gesta. Þá eru tónleikar ófáir og listviðburðir af fjölbreyttu tagi sem bæði innlendir og erlendir ferðamenn sækja í auknum mæli.

Fjölgun kallar á úrbætur á ferðamannastöðum

Umræður hafa síðustu misseri verið um þörf á því að koma á eins konar náttúrupassa eða ferðakorti og hefur nefnd á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis verið að störfum í vetur ásamt hagsmunaaðilum við að útfæra hugmyndir um slíkan passa nánar. Gera má ráð fyrir að tillögur nefndarinnar liti dagsins ljós næsta haust. Arnheiður segir umræður af því tagi koma upp í kjölfar þess að erlendum ferðamönnum hér á landi fjölgi ár frá ári og því sé ekki að neita að mikill ágangur sé á vinsælum áningarstöðum.

„Það er alveg ljóst að við verðum að halda vel utan um þær perlur sem við eigum hér á landi og sú mikla aukning sem verið hefur og spár um áframhaldandi aukningu erlendra ferðamanna á næstu árum kallar á að úrbætur séu gerðar á fjölsóttum ferðamannastöðum,“ segir Arnheiður.

„Við verðum líka að undirbúa okkur fyrir þann mikla fjölda sem hingað mun sækja á komandi árum, okkar helstu ferðamannasvæði verða að geta borið allan þann mannskap sem sækir inn á þau.“
Þegar er búið að úthluta þó nokkurri upphæð til að standa straum af brýnum úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum og segist Arnheiður fagna því.

Betra að bregðast við áður en í óefni er komið

Arnheiður segir að svæði á norðanverðu landinu séu enn sem komið er ekki í slæmu ástandi, en hins vegar sé rétt að bregðast við áður en í óefni er komið.

„Það er betra að forðast það að lenda í vanda áður en þetta ástand kemur upp. Auðvitað kostar mikla peninga að byggja svæðin upp og einstaklingar og eða sveitarfélög hafa til þess lítið bolmagn ein og sér. Að mínu mati skapar það neikvætt andrúmsloft að rukka ferðamenn um peninga á hverjum stað fyrir sig, það er ótækt. Mér þykir því mikilvægt , verði af því að tekin verði í notkun náttúrupassi hér á landi, að hann verði miðlægur, féð hafi allt í einn sjóð sem síðan er hægt að fá úr stuðning til að vinna að uppbyggingu,“ segir Arnheiður.

„Það er í rauninni mikið þjóðþrifamál að hefjast þegar handa við úrbætur og verkefnin eru næg, það er mjög brýnt að byrja strax og horfa þá til framtíðar þannig að uppbygging eigi sér ekki aðeins stað á stöðum sem eru fjölfarnir nú þegar heldur byggjum við upp með það að markmiði að fjölga vinsælum áfangastöðum. Hún bætir við að mikilvægt sé að um þetta náist samstaða þeirra sem í greininni starfa. Að sátt verði um þá leið sem farin verður. 

10 myndir:

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...