Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Baulaðu nú, Búkolla mín
Lesendarýni 17. febrúar 2016

Baulaðu nú, Búkolla mín

Höfundur: Geir Ágústsson
Landssamband kúabænda var stofnað á sínum tíma til að ráðast að félagskerfi bænda og umbylta því.  LK átti sér eitt aðaláhugamál sem var að koma íslensku kúnni, atvinnutæki bændanna, fyrir kattarnef. 
 
Lengi vel náðu þessir menn ekki völdum heldur börðu hurðir og glugga á utan og létu öllum illum látum. Hinir hógværu kúabændur sem áttu Búkollu í sínu fjósi héldu sínu striki og höfðu neytendur með sér og uppreisnarmennirnir komust ekkert áfram með sín áform. Hins vegar er staða dagsins sú að LK-menn hafa tekið völdin, hvort heldur er í Mjólkursamsölunni eða félagskerfinu, og virðast þeir nú hafa náð góðri tengingu við núverandi landbúnaðarráðherra. 
 
Að undanförnu hafa þessir menn setið ásamt fleirum og fulltrúum ríkisins að gerð nýs búvörusamnings bæði í mjólk og sauðfé. En nú lítur svo út fyrir að ekki sé sátt um þennan gjörning meðal bænda. Þegar hinar stéttirnar á Íslandi ganga til kjarasamninga er það í krafti þess að bæta sín lífskjör en bændur mega una við að nýr samningur jafnvel rýri þeirra kjör. Meira að segja byrjaði myndarlegur landbúnaðarráðherra, sem ég ætla ekki að útiloka að snúi blaðinu við og rati upp á veginn á ný, á því að gera afleitan tollasamning við ESB sem leiðir til þess að íslenskir bændur og verkafólk tapa hundruðum starfa í matvælaframleiðslu verði hann staðfestur á Alþingi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar voru mikil áform um að auka framleiðslu í sveitum landsins og efla matvælalandið Ísland. Hvar standa þau áform?
 
Hvað er að frétta af búvörusamningum?
 
Aðalfundir og allir bændafundir bera með sér að til stendur að umbylta kerfinu. Það er látið í veðri vaka að mestu breytingar á landbúnaðarkerfinu séu fram undan, voru almennir bændur að biðja um það? Mörgu af því sem vel hefur reynst skal kastað fyrir róða. 
 
Svör forystumannanna eru loðin og óljós en þeir segja samt að nú skuli bændur keppa um beingreiðslurnar úr ríkissjóði. Hverjir vinna þann slag og hvers vegna er þetta gert. Bændum skal fækka, nú ætla þeir stóru að hirða litlu og meðalstóru búin án þess að þurfa að kaupa framleiðsluréttinn. Komast einhverjir aðrir í þá stöðu að keppa um fjármagn úr ríkissjóði? Beingreiðslurnar hafa gegnt tvíþættu hlutverki, eru hluti af veltu búanna og lækka verð matvælanna til neytenda. Þetta nýja kerfi þeirra þýðir framleiðslusprengingu sem myndi valda verðfalli á afurðum til bænda. 
 
Hvernig á verðmyndun í mjólk að fara fram þegar afleggja á opinbera verðlagsnefnd sem bæði hefur ákvarðað heildsöluverð á mikilvægum mjólkurvörum og hvað bóndinn fær í sinn hlut? Hvað tekur við? Þegar samningamenn úr LK eru spurðir; hvernig ætlið þið að draga úr offramleiðslu? Þá hafa þeir lært það mikið í stjórnunarháttum ESB að þeir segjast munu bjóða í nythæstu kýrnar og þeim verði slátrað fyrir peninga ríkisins. Hvaða íslenskur bóndi leiðir hana Skjöldu til slátrunar í 40 lítrum af mjólk á dag?
 
Mjólkursamsalan hallast þegar
 
Við sjáum þegar forsmekkinn af offramleiðslunni í rekstri  Auðhumlu sem er í eigu 90% kúabænda, því þegar farið er um Selfoss rýkur úr strompi þurrkarans flesta daga nema á sunnudögum. 
 
Ábyrgð formanns og samstjórnarmanna hans í Auðhumlu er mikil en með þeirra ákvörðunum er MS að tapa miklu fé sem talið er í hundr­uðum milljóna króna. Formaður MS og Auðhumlu, Egill Sigurðsson, segir að tap félagsins sé um 250 milljónir á síðasta ári en ákvarðanir sem mjólkuriðnaðurinn ber ábyrgð á eins og krafan um greiðslumark upp á 140 milljónir lítra af mjólk gerir það að verkum að MS er að tapa hvorki meira né minna en 500 til 600 milljónum eins og komið hefur fram í fréttabréfi MS. Egill segir nú er bara að auka söluna? Gott væri ef rétt reyndist. 
 
Salan hefur verið í toppi og slegið öll met síðustu tvö árin, allt sem fer upp hefur tilhneigingu til að fara niður aftur, salan er mikil en framleiðslan aldrei meiri en nú. Talið er að með því loforði að ætla að borga fullt verð fyrir alla umframmjólk í ár muni íslensku kýrnar mjólka ca 155–160 milljónir lítra. Þá bætist að minnsta kosti milljarður við tapið á árinu. Auðhumla safnar skuldum og tapar eignum sem nemur t.d. gamla MBF. Kaupfélagi Skagfirðinga munar ekkert um að borga sitt tap og kannski verður KS að leysa til sín Mjólkursamsöluna? Framkvæmdastjóri LK gerir lítið úr tapinu og telur það ekkert mál að framleiða mjólk á fullu verði og flytja út mjöl og smjör á „hrakvirði“, eins og hann orðar það þó.
 
Læmingjarnir stökkva fyrir björg
 
Læmingjarnir eru ekki stór dýr en merkileg samt, þeir eiga það til að bila undan álaginu eða frekjunni, þá stökkva þeir í hópum fyrir björg, enginn veit hvers vegna. Þeir forystumenn okkar sem ráða ferðinni eru margir stórir og myndarlegir menn, nú er veiki læmingjanna búin að heltaka þá, þeir ætlast til að við óbreyttir bændur fylgjum þeim fyrir björg. Ég skora á bændur að staldra við, gleypa ekkert hrátt úr lófa LK, þaðan er fóðrið komið. Og sennilega eru sauðfjárbændur með spegilmynd og alla gallana úr mjólkursamningsdrögunum. 
 
Sigurði Inga ráðherra og Sindra Sigurgeirssyni  bændaforingja er vorkunn en við skulum þétta raðirnar, bændur, og rýna í samningsdrögin áður en þeir undirrita þau. Þau eru nú í biðstöðu í þingflokkum stjórnarflokkanna, kannski strand? Eins og þetta liggur fyrir í dag munu bændur trúlega fella þessa búvörusamninga. Kann að vera að forystumenn okkar fari fyrir björgin, en látum þá ekki smita okkur af læmingjaheilkenninu, við skulum vera upplitsdjarfir og gera kröfu um réttlátan samning fyrir framtíðina, bændum og neytendum til hagsbóta. Búkolla slapp forðum fyrir afrek og vitsmuni stráksins Karlssonar undan tröllskessunni, nú reynir á okkur, hinn almenna bónda, og grasrótina að stoppa tröllin af.

Skylt efni: búvörusamningar

Bændur byggja rétt
Fréttir 22. október 2024

Bændur byggja rétt

Bændur í Steinadal á Ströndum stóðu að byggingu nýrrar réttar í Kollafirði og va...

Stofnverndarsjóður lagður niður
Fréttir 22. október 2024

Stofnverndarsjóður lagður niður

Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins verður lagður niður í lok árs. Sjóðurin...

Fyrirhuguð risaframkvæmd
Fréttir 21. október 2024

Fyrirhuguð risaframkvæmd

Um 220 herbergja hótel, baðlón og 165 smáhýsi er fyrirhugað að rísi í Ásahreppi.

DeLaval til Bústólpa
Fréttir 21. október 2024

DeLaval til Bústólpa

Umboðið á DeLaval-mjaltabúnaði færðist þann 1. október til Bústólpa á Akureyri.

Rýr uppskera af melgresi
Fréttir 18. október 2024

Rýr uppskera af melgresi

Fræskurður hefur staðið yfir í haust á vegum landgræðsluhluta Lands og skógar.

Fuglainflúensa víða
Fréttir 18. október 2024

Fuglainflúensa víða

Rökstuddur grunur er um fuglainflúensu í hröfnum og öðrum villtum fuglum.

Aukið fjármagn til Brothættra byggða
Fréttir 17. október 2024

Aukið fjármagn til Brothættra byggða

Verkefnið Brothættar byggðir hlýtur 135 milljóna króna aukafjárframlag frá Byggð...

Enn reynt að fá leyfi til veiða á ágangsfuglum
Fréttir 17. október 2024

Enn reynt að fá leyfi til veiða á ágangsfuglum

Fimm þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram þingsályktuna...