Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bandarísk tollayfirvöld, landa­mæraverðir og bandaríski svína­iðnaðurinn gera nú allt til að koma í veg fyrir að svínapestin komist inn í Bandaríkin.
Bandarísk tollayfirvöld, landa­mæraverðir og bandaríski svína­iðnaðurinn gera nú allt til að koma í veg fyrir að svínapestin komist inn í Bandaríkin.
Mynd / Farm Progress
Fréttir 30. ágúst 2021

Bandarísk yfirvöld reyna allt til að koma í veg fyrir að svínapestarsmit berist til landsins

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ekkert lát er á útbreiðslu afrísku svínapestarinnar (AFS) í Afríku. Dauðatíðni meðal dýra sem sýkjast er 100% og engin lyf eða bóluefni eru til gegn veirunni. Erfiðlega hefur gengið að vinna bug á veirunni sem hefur líka verið að slá niður í Evrópuríkjum á undanförnum misserum. Þá eru bandarískir bændur nú komnir í viðbragðsstöðu vegna veikinnar.

Í Cameroon í Afríku hefur svínapestin verið viðvarandi síðan 1982 en náð mismikilli útbreiðslu. Það ár olli svínapestin dauða 40% af svínastofni landsins. Aftur gaus upp faraldur í landinu árið 2014 og undir lok júní síðastliðins voru staðfest ný tilfelli svínapestarinnar. Fjallað var um málið á Cameroon Radio Television (CRTV) þann 1. ágúst. Að sögn landbúnaðarráðherra Cameroon eru sjö af tíu héruðum landsins nú sýkt af veirunni.

Svínapestin nálgast landamæri Bandaríkjanna

Þann 17. ágúst síðastliðinn gat að líta frétt á vefriti Farm Progress um að afríska svínapestin væri stöðugt að færast nær landamærum Bandaríkjanna. Í kjölfar frétta af útbreiðslu veikinnar í Kína síðsumars 2018 hafi bandarískir svínabændur farið að gera varnarráðstafanir til að sporna gegn því að veikin bærist til þeirra sem og aðrir dýrasjúkdómar.

Öll viðleitni virðist virka og tollayfirvöld reyndu að þefa uppi allar ólöglegar svínakjötsafurðir í höfnum og á flugvöllum. Svínapestin hefur því enn ekki náð að smita svínahjarðir í Bandaríkjunum, en menn óttast að það fari að gerast.

Dauð svín í Voronezh Oblast í Rússlandi 2011. Mynd / Sputnik Science photo library

Svínapestin komin í fimm heimsálfur

Í lok júlí var tilkynnt um smit í Dóminíska lýðveldinu. Er það í fyrsta skipti í um 40 ár sem sjúkdómurinn hefur greinst í Ameríku. Samkvæmt skýrslu frá heilbrigðisupplýsingamiðstöð svína (Swine Health Information Center – SHIC), er svínapestina nú að finna í fimm heimsálfum.

SHIC og háskólinn í Minnesota kynntu skýrslu SHIC-UMN þar sem fram kemur að ráðuneyti Dóminíska lýðveldisins hafi þann 28. júlí staðfest tilvist ASF. Var það í kjölfar niðurstaðna prófana á 389 sýnum sem safnað var frá svínum sem ræktuð voru á sveitabæjum og í bakgörðum hjá fólki. Fimm dögum síðar tilkynntu stjórnvöld í Dóminíska lýðveldinu um greiningu ASF í 11 héruðum landsins. Fyrstu jákvæðu sýnin voru úr hjörð í bakgarði í Sanchez Ramirez héraði, þar sem hjörðin hafði verið fóðruð. Þrátt fyrir að framleiðsla á dóminískum svínum fölni í samanburði við Bandaríkin, þá þarf aðeins eitt sýkt svín eða eina sýkta svínakjötsafurð til að sá snjóbolti verði að snjóflóði. Samkvæmt USDA er bannað að flytja svínakjöt og svínakjötsafurðir frá Dóminíska lýðveldinu til Bandaríkjanna vegna núverandi takmarkana. Það er líka bent á að bannað er að fara yfir leyfilegan hámarkshraða, en venjulegt fólk brýtur samt þau lög.

USDA skuldbindur sig til að aðstoða Dóminíska lýðveldið við að takast á við ASF, býður áframhaldandi prófunarstuðning og mun hafa samráð við þjóðina um frekari skref eða aðgerðir til að styðja við viðbrögðum og mótvægisaðgerðum. Landbúnaðarráðuneyti Bandarík­j­anna segir að það muni einnig bjóða upp á sambærilega aðstoð við Haítí, sem liggur að Dóminíska lýðveldinu og er í mikilli hættu vegna svínapestarinnar.

Samkvæmt grein í Bloomberg verður hugsanlega að slátra meira en 500.000 svínum, eða um helmingi svínastofnsins í Dóminíska lýðveldinu, til að stemma stigu við faraldrinum. Þar segir:
„Ríkisstjórnin þarf að drepa 100% svína í 11 af 33 héruðum Dóminíska lýðveldisins þar sem sjúkdómurinn hefur greinst. Það eru bæði heilbrigð og sýkt dýr. Ef það tekst ekki, mun mjög smitandi sjúkdómurinn líklega valda endurtekningu á því sem gerðist árið 1978, þegar nauðsynlegt reyndist að slátra öllum svínum í landinu. Í þessum 11 héruðum – þar á meðal höfuðborginni Santo Domingo – eru um 50% til 60% af 1,35 milljónum svína í landinu, að sögn Dóminíska svínabúasambandsins.“

Líka strangar ráðstafanir gagnvart innflutningi á hundum

Bandarísk tollayfirvöld, landa­mæraverðir og bandaríski svína­iðnaðurinn gera nú allt til að koma í veg fyrir að svínapestin komist inn í Bandaríkin. Til viðbótar við ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ólöglegar svínakjötsafurðir berist inn í landið með ferðamönnum, gaf dýra- og plöntuheilbrigðiseftirlit Bandaríkjanna út skipun í byrjun ágúst. Þar voru settar fram frekari kröfur sem taka strax gildi fyrir hunda sem fluttir eru til Bandaríkjanna til endursölu frá löndum þar sem svínapestin hefur geisað.

Svínaframleiðsluráðið fagnaði þessum aðgerðum og fyrr á þessu ári hefur einnig verið vakin athygli á hugsanlegri hættu af innfluttum björgunarhundum sem geta borið smit úr rúmfötum, grindum eða yfirhöfnum.

Smitefni sem berst með einum hundi gæti valdið stórskaða

Á hverju ári eru fluttir inn til Bandaríkjanna nokkur þúsund hundar til endursölu eða ættleiðingar. Ef aðeins einn af þessum hundum ber með sér svínapestarsmit gæti það sett bandaríska svínastofninn og önnur búfjárkyn í hættu. Það gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir landbúnaðinn í Bandaríkjunum, að mati Liz Wagstrom yfirdýralæknis NPPC. 

Áhættukort gefið út vegna afrísku svínapestarinnar

Evrópunefndin hefur gefið út áhættukort vegna útbreiðslu afrísku svínapestarinnar í Evrópu. Þar er áhættusvæðum skipt upp í þrjá meginflokka, I, sem er merktur blár, II, sem er merktur bleikur og III, sem er rauður og skilgreint mesta hættusvæði. Að auki er fjólublá merking sem þýðir sérstakt eftirlitssvæði.

Afríska svínapestin er faraldur í jaðarsvæðum Sahara í Afríku. Þá barst veiran til Sardiníu í Miðjarðarhafi þar sem pestin hefur geisað sem faraldur í nokkra áratugi. Árið 2007 blossaði svínapestin svo upp í Georgíu, Armeníu, Azerbaijan, í Evrópuhluta Rússlands, Úkraínu og í Blearus (Hvíta-Rússlandi). Síðan hefur veiran verið að breiðast út með villtum svínum vestur eftir Evrópu. Hún fannst fyrst í Litháen og Póllandi í janúar og febrúar árið 2014. Síðan í Lettlandi og Eistlandi í september sama ár. Árið 2019 var tilkynnt um smit í níu Evrópusambandslöndum, Belgíu, Búlgaríu, Slóvakíu, Eistlandi, Ungverjalandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi og í Rúmeníu og nú er veiran komin til Þýskalands.

Veiran getur borist með hráu svínakjöti

Innan Evrópusambandsins ríkir töluverður ótti, ekki síst í Þýskalandi og Póllandi, þar sem svínarækt er mjög mikilvægur hlekkur í matvælaframleiðslu. Enn sem komið er hefur engin lækning fundist við pestinni og engin bóluefni eru til að berjast við veiruna. Ef svín sýkjast er nánast öruggt að þau drepist. Veiran hefur borist um álfuna með villtum svínum og þaðan í fóður eldissvína. Einnig hefur veiran borist úr hráu kjöti úr sýktum dýrum og ósoðnum pylsum úr svínakjöti. Vegna þess hafa landamæraverðir haft auga með flutningum á svínakjöti á milli landa.
Í Bandaríkjunum er mjög strangt tekið á slíku og ekki síst smygli ferðamanna á svínakjöti.

Engin dæmi er enn um að veiran hafi stökkbreyst og geti smitað menn eða aðrar dýrategundir en svín. Hins vegar er talið að menn geti auðveldlega borið veiruna með sér á milli staða, m.a. í skóbúnaði og fatnaði.

Blæðingar einkenna veikina

Matvælaöryggisyfirvöld Evrópu EFSA hafa gefið út viðvaranir og leiðbeiningar um hvernig hægt sé að þekkja einkenni afrísku svínapestarinnar. Þar segir m.a.:
„Einkennin eru m.a. hiti, lystarleysi, orkuleysi, fósturdauði, innri blæðingar, með blæðingum sýnilegum á eyrum og síðum dýranna. Skyndilegur dauði getur átt sér stað. Alvarlegir veirustofnar eru yfirleitt banvænir (dauði á sér stað innan 10 daga).“

Þá segir að dýr sýkt af vægum stofnum af afrísku svínaveirunni sýni kannski ekki endilega dæmigerð klínísk merki um sýkingu. 

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...

Sala á 3.357 ærgildum
Fréttir 5. desember 2023

Sala á 3.357 ærgildum

Á innlausnarmarkaði með greiðslumark í sauðfé, sem haldinn var 15. nóvember, bár...

Sæðingar verða niðurgreiddar
Fréttir 5. desember 2023

Sæðingar verða niðurgreiddar

Sæðingar verða niðurgreiddar til að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðu.

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.