Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Bambus – planta fortíðar, nútíðar og framtíðarinnar
Á faglegum nótum 8. ágúst 2017

Bambus – planta fortíðar, nútíðar og framtíðarinnar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bambusrækt á sér langa sögu í Austurlöndum og þar er hann ómissandi hluti af daglegu lífi fólks. Íslendingar þekkja bambus aftur á móti helst sem byggingarefni í húsgögn og sem forvitnileg viðbót í austurlenskri matargerð. Bambusar eru grös og vaxa hraðast allra planta í heim­inum.

Ekki er vitað hversu mikil heimsframleiðsla á bambus er en plantan dafnar best í hitabeltisloftslaginu í kringum miðbaug. Kínverjar framleiða mest allra þjóða af bambus. Indland og Eþíópía eru í öðru og þriðja sæti. Framleiðsla í löndum í Suðaustur-Asíu eins og Indónesíu, Víetnam og Tælandi er talsverð auk þess sem bambus er framleiddur í stórum stíl í Afríku, Suður-Ameríku og suðurfylkjum Bandaríkjanna.
Talið er að villtur og ræktaður bambus vaxi á tæpum 40 milljón hekturum lands í heiminum.

Kína er stærsti útflytjandi bamb­us í heiminum og í kjölfarið koma Pakistan, Víetnam, Indónesía, Eþíópía, Tæland og Kólumbía.

Evrópusambandið sem heild er stærsti innflytjandi bambuss í heiminum. Bandaríkin eru næst­­stærsti innflytjandinn, því næst koma ríki eins og Kína, Japan, Indland, Tæland, Kanada, Ástralía og Bútan.

Ekki er til heilstæð samantekt um innflutning á bambus til Íslands.

Grasafræði

Bambusar eru einkímblöðungar, fjölærar og sígrænar grastegundir af grasaætt. Bambusar skiptast í yfir 100 ættkvíslir sem greinast aftur í vel yfir eitt þúsund mis­munandi tegundir og ræktunarafbrigði.

Bambusar verða yfirleitt nokk­urra áratuga gamlir, 40 til 80, og sumar tegundir verða yfir 100 ára gamlar. Þeir geta geta vaxið sem lágvaxið gras og líka náð allt að 30 metra hæð og stofn hæstu tegundanna verið 30 til 40 sentímetrar að þvermáli. Bambusar geta því verið sannkallað risagras en flestir eru milli tveir og þrír metrar að hæð.

Rót bambusa er jarðstöngull sem sendir frá sér rótarskot sem nýjar plöntur vaxa upp af. Blöðin eru sverðlaga og misstór og breið eftir tegundum. Stöngull bambusa er að öllu jöfn holur og ólíku að lit eftir tegundum, grænn, gulur, rauður, blár, svartur og röndóttur.

Sumar bambustegundir geta lifað í allt að 130 ár en plönturnar eru það sem kallast monocarpi sem þýðir að þær eru þeirri náttúru gæddar að blómstrar einu sinn á ævinni og drepst að lokinni fræmyndun. Blómin vaxa á öxum og fræin kallast bambushrísgrjón í Kína og á Indlandi.

Allir einstaklingar sömu teg­und­ar blómstra á svipuðum tíma á svipuðum slóðum í heiminum og það getur tekur fræin tvö ár að spíra. Risapandabirnir eru mjög háðir bambus og nærast nánast eingöngu á einni tegund af honum og það einhæfa mataræði hefur reynst þeim afdrifaríkt. Meðan á endurnýjun bambusana stendur drepast margir pandabirnir úr hungri og eins og gefur að skilja hefur þetta einnig veruleg áhrif á efnahag bænda sem lifa af bambusrækt. Víða í Austurlöndum var og er sumstaðar litið á það sem merki um komandi harðindi þegar bambusinn fer að blómstra.

Lemúrar á Madagaskar éta bambus með bestu lyst og það gera fjallagórillur í Afríku líka. Górillurnar eru sérstaklega sólgnar í gerjaðan safa í vaxtarsprotum sem gerir þær ölvaðar. 

Bambusinn er harðgerður en þrífst best í hlýju og röku loftslagi og frjósömum jarðvegi og margir tegundir þola talsvert frost, að -30° gráðum á Celsius. Jarðvegurinn sem þeir vaxa í má ekki vera of blautur því þá fúna ræturnar.

Bambus er eina plantan sem lifði af sprenginguna í Hírósíma og geislavirknina sem henni fylgdi þegar Bandaríkjamenn vörpuðu Stóru bombunni á borgina árið 1945. Rótarskot var tekið af plöntunni og komið fyrir í friðarsafninu í Hírósíma sem er í raun safn um ógnir kjarnorkusprengjunnar.

Sagt er að bambuslundur framleiði 35% meira af súrefni er trjálundur af sömu stærð. Bambusar skipta því verulegu máli varðandi súrefnisframleiðslu og kolefnisjöfnun í heiminum.

Saga og útbreiðsla

Steingervingar benda til að bambus hafi vaxið villtur í Evrópu þar sem nú er Pólland fyrir fjórum milljónum ára. Bambuss er getið í indversku spekiritunum Rigveda sem rituð voru meira en 1000 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Heimildir vitna um að Kínverjar hafi notað flugdreka með bambus­grind til að senda skilaboð í hernaði tveimur öldum fyrir Kristsburð. Auk þess sem Kínverjar og aðrar þjóðir í Asíu nýttu bambus sem byggingarefni fyrir hús og brýr og sem fæðu.

Rómverski sagnaritarinn Plinius sem var upp á öldinni fyrir fæðingu Krists minnist á bambus í náttúrusögu sinni. Heimild Pliny mun vera bréf sem Alexander mikli átti að hafa skrifað Aristótelesi.

Bambusinn hefur mesta út­breiðslu í Austur- og Suðaustur-Asíu en á náttúruleg heimkynni í öllum heimsálfum, í dag, utan Evrópu og Suðurskautlandsins. Hann finnst sem dæmi villtur í Himalæjafjöllum, Japan, Kóreu, Ástralíu, Afríku sunnan Sahara, á Madagaskar, Andesfjöllum, Argentínu, Síle, Mið-Ameríku og suðurríkjum Bandaríkjanna.

Bambus er ræktaður sem skrau­t­jurt í görðum víða um heim og bambusstangir eru vinsælar sem viðhald fyrir hávaxnar skrautplöntur.

Í náttúrulegum heimkynnum sínum vex hann allt frá sjávarmáli og upp á fjallsbrún. Bambus þykir einstaklega góður til að binda jarðveg vegna rótaskotanna og því oft ræktaður í hlíðum þar sem hætta er á flóðum. Bambus vex mjög hratt og dæmi er um rúmlega 90 sentímetra vöxt á sólarhring og sagt er að það megi horfa á fljótsprottnustu tegundirnar vaxa.

Allt fyrir suma og eitthvað fyrir alla

Talið er að austurlandabúar hafi verið farnir að nýta bambus fyrir rúmum átta þúsund árum. Jurtin er talin svo mikilvæg að kínverskur málsháttur segir að bambusinn sé allt fyrir suma og eitthvað fyrir alla.

Úr þráðum plöntunnar eru ofnir nytjahlutir eins klæði, körfur og mottur, búinn til pappír, blek og skriffæri, burstar og sófar. Smíðaðar eru kerrur, reiðhjól, brim-, snjó- og hjólabretti og húsgögn og margs konar hljóðfæri úr bambus, flautur og trommur. Dæmi er um pípuorgel sem eingöngu var smíðað úr bambus.

Frumbyggjar Ástralíu nota bambus í didgeridú. Sveigjanleiki bambus gerir hann hentugan í veiðistangir.

Bambus er notaður í eldhúsáhöld, ausur, sleifar og skurðarbretti og í potta til að sjóða í súpur og hrísgrjón.

Reist eru hús úr bambus, burðabitar, vegir, gólf, þak og rennur, allt úr bambus. Bambus er einnig notaður sem eldiviður og kol unninn úr honum.

Þegar Thomas Edison var að prófa sig áfram með glóðarperuna var hann búinn að prófa nokkur þúsund mismunandi efni í þráðinn þegar hann reyndi bambusþráð og viti menn, það kom ljós. Burðargrindin í fyrstu flugvél Wright-bræðra var úr bambus.

Stönglar bambussins eru holir að innan og því léttir og þola mikla sveigju. Þetta hafa Austurlandabúar notfært sér og smíðað báta úr bambus. Þessar merkilegur plöntur tengjast bátum einnig á annan hátt og segir Marco Polo frá því í ferðasögu sinni frá þrettándu öld að Kínverjar flétti kaðla úr bambusþráðum og noti þá til að draga báta á land. Persneskir munkar notuðu hola göngustafi úr bambus til að smygla lirfum silkiorma frá Kína til Evrópu á sjöttu öld.

Loftið á Barajas-flugstöðinni í Madrid á Spáni er klætt með bambus.


Bambuseiginkona og pyntingartól

Í Japan er til það sem kallast bam­buseiginkona. Eiginkonan er hólkur ofinn úr bambus sem er lagður í rúm og menn sofa með þá við hliðina á sér. Tilgangurinn er að leggja annan fótinn yfir hólkinn en um hann streymir kalt loft sem kemur í veg fyrir að menn svitni mikið á heitum nóttum.

Bambus hefur ekki alltaf verið notaður í svona friðsamlegum til­gangi. Hann hefur verið notaður til að búa til vopn, barefli, boga og örvar og eldvörpur svo dæmi séu tekin.

Til eru sögur af því að hann hafi verið notaður sem pyntingartól. Menn voru bundnir yfir nýsprota og hann látinn vaxa inn í augun eða kviðarholið og gegnum fórnalambið. Í Víetnamstríðinu voru stríðsfangar vistaðir í búrum gerðum úr bambus og var búrum með föngunum í oft komið fyrir í vatni til að auka óþægindi þeirra.

Margir indverskir kotbændur lifa í einskonar bambusveröld allt frá vöggu til grafar. Börn sofa í bambusvöggu, fullorðnir vinna á bambusökrum og notast við bambusverkfæri. Bændurnir nota bambus sem fóður fyrir búfé og borða hann sjálfir og að loknu ævistarfinu eru þeir bornir til grafar á bambusbörum.

Bambusbækur

Bambus skipar stóran sess í menn­ingarheimi Austurlanda fjær. Í Kína eru til tvö þúsund ára gamlar, þrjátíu sentímetra langar, bambusrullur sem bundnar eru saman í bók. Rullurnar eru ótrúlega endingargóðar og margar þeirra vel læsilegar enn í dag. Qis Shi Huang keisari, sem uppi var 259 til 210 fyrir Krist, skipaði svo fyrir að bækur Konfúsíusar yrðu brenndar og nokkrir munkar grafnir lifandi.

Bókunum var komið undan með því að grafa þær í jörð. Hundrað árum síðar voru þær teknar í sátt að nýju og grafnar upp. Þær voru að mestu óskemmdar og undirstaða þess sem vitað er um kenningar Konfúsíusar.

Bambus í matinn

Bambus þykir hið mesta lostæti og víða nýttur sem fæða. Búddamunkar líta á bambus sem sælgæti og ekki að undra þar sem hann er ein af fáum fæðutegundum sem þeir mega neyta.

Sprotarnir þykja bestir rétt áður en þeir koma upp úr jörðinni og segir sagan að bændur sem rækta bambus fari um akrana berfættir og leiti þannig að sprotum sem eru að skjóta upp kollinum. Til þess að halda þeim mjúkum hreykja þeir upp smá þúfum til að tefja fyrir því að vaxtarsprotinn komist í birtu.

Í Indónesíu er vinsælt að skera unga vaxtarsprota bambusa í sneiðar og sjóða í kókossafa. Súrsaðir vaxtarsprotar eru vinsælir um alla Asíu og hafa verið á boðstólum hér á landi og ferskir sprotar með baunum og karrý eru taldir lostæti í Nepal.

Bambusjurtin er þekkt sem lækn­ingarjurt og enn eru hefðbundin lyf úr þeim notuð á sjúkrahúsum í Kína gegn margháttar sjúkdómum í öndunarvegi. Jurtin er notuð í ástarlyf en nýsprotarnir líkjast nashyrningshornum. Um tíma og eflaust enn flytja bændur á Indlandi þá út sem slík, en eins og flestir vita þykir fátt betra til að hressa upp á kynlífið en mulið nashyrningshorn.

Trúarbrögð og þjóðtrú

Á Indlandi er bambus tákn um vináttu en í Kína getur hann tákna allt í senn, langlífi, stolt, þolgæði og tómt hjarta.

Samkvænt sköpunarsögu frum­byggja Andamanneyja og fjölda annarra frumbyggja á eyjum í Kyrrahafinu óx fyrsti maðurinn og konan af bambus. Í Malasíu segir frá manni sem sofnaði undir stórum bambus og dreymdi konu. Þegar maður­inn vaknaði klauf hann stofn bambussins og fann draumkonuna inn í honum.

Í sköpunarsögu Patangoros Indí­ána í Kólumbíu reið flóð yfir jörðin og aðeins einn maður lifði af. Síðasti maðurinn ráfaði einmanna um jörðina í mörg ár í leit af félagsskap en fann engan. Að endingu sá meistari himinsins, Guð, aumur á manninum og steig niður til jarðar og gaf manninum tvo bambusa. Meistari himinsins skapaði konu úr öðrum bambusnum og hús handa manninum og konunni úr hinum.

Bambushljóð

Eins og áður hefur komið fram eru smíðuð hljóðfæri úr bambus en bambusinn á líka sín eigin hljóð og sumir segja að það séu fallegustu hljóð í heimi. Þegar vindurinn blæs milli sverðlaga blaðanna myndast eins konar blanda af gusti og skrjáfi sem hefur róandi áhrif á sál og líkama.

Þegar jurtin er í sem örustum vexti gefur hún einnig frá sér hljóð. Krafturinn er svo mikil þegar nývöxturinn brýtur sér leið upp úr jarðveginum og rífur sig gegnum rótarbjörgina að það heyrist hljóð ekki ósvipað því þegar tappi er tekinn úr kampavínsflösku. Þeir sem hafa upplifað þetta segja að það sé eins og að ganga í gegnum ævintýraskóg og heyra skógarpúkana gera sér glaðan dag.

Bambus á Íslandi

Á Íslandi er lítið af bambus í görðum enn sem komið er. Gulbambus sem uppruninn er í Himalajafjöllum hefur reynst ótrúlega harðgerður og hefur vaxið ágætlega í nokkrum görðum Reykjavík.

Þrátt fyrir að bambus sé sjaldgæfur ætti það ekki að koma í veg fyrir að hann sé ræktaður í garðskálum. Bambus er afskaplega blaðfallegur og fljótsprottinn og auðvelt er að fjölga honum með skiptingu og fátt er unaðslegra en að sitja í fallegum gróðurskála eða úti í garði og horfa á lítinn bambus og drekka rauðvín með elskunni sinni.

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...