Bændur styrktir til að minnka losun
Alls er stefnt að 50-55% samdrætti í samfélagslosun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2035. Hvað samfélagslosun varðar eru vegasamgöngur og landbúnaður sagðar vera með mestu losunina. Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar markist af því.
„Áætlaður er markviss fjárfestingastuðningur í landbúnaði til að styrkja bændur, m.a. til að rannsaka þörf á áburði, svo rétt magn sé borið á, og styrkja kaup á tækjum til þess sem er kallað nákvæmnisdreifing áburðar, þar sem hver skiki lands fær nákvæmlega þann áburð sem þarf. (...) Greining KPMG fyrr á árinu sýndi okkur að þarna má vænta gríðarlegs loftslagsávinnings. Þetta er líka fjölþættur ávinningur; minnkandi losun, reglulegur sparnaður fyrir bændur, betri meðferð á takmörkuðum auðlindum og minni vistkerfisröskun. Þetta snýst því ekki aðeins um loftslagið heldur líka um framleiðni, fæðuöryggi og verðmætasköpun,“ sagði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, þegar hann kynnti á dögunum þær aðgerðir Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem koma eiga til framkvæmda á árunum 2025 og 2026.
Landbúnaður lykilverkfæri
„Það er fagnaðarefni að finna mikinn vilja hjá stjórnvöldum til að styðja bændur á þeirri vegferð að halda áfram á sömu braut góðra búskaparhátta,“ segir Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
„Við erum að upplifa vitundarvakningu um það að landbúnaðurinn er lykilverkfæri í þeirri vegferð samfélagsins að ná árangri í loftslagsmálum og að þétt samstarf sé leiðin fram á við. Einnig finnum við að samþykki félagskerfis bænda á Loftslagsvegvísi bænda síðastliðið vor og umræðan í kringum það mikilvæga verkfæri hefur lyft upp jákvæðri umræðu um þann mikla árangur sem bændur hafa náð í loftslagsmálum, sem þeir hafa náð með áratugastarfi í því að efla sinn búskap t.d. með öflugu kynbótastarfi og almennt betri nýtingu aðfanga. Orð ráðherra bera með sér að hann skilji stöðuna eins og við sem erum í forsvari fyrir bændur, á þann veg að fjárhagslegur stuðningur og ábati þurfi að vera til staðar fyrir alla aðila til að ná því stökki sem þarf í árangri aðgerða þannig að metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum verði náð,“ segir Trausti.
Ný nálgun stjórnvalda
Umræddur fjárfestingastuðningur stjórnvalda við bændur beinist að því að minnka áburðarnotkun, að gera rannsóknir á jarðvegi og mat á kölkunar- og áburðarþörf og styðja við bændur, samvinnu- og búnaðarfélög til að kaupa tæki til nákvæmnisdreifingar áburðar. Um er að ræða nýja nálgun af hálfu stjórnvalda en frekari útfærslu er að vænta og upphæðir liggja ekki fyrir.
„Ekki er aðeins um að ræða verkefni sem lúta að endurheimt votlendis og vistkerfa, landgræðslu og skógrækt, þ.e. losun sem heyrir til landnotkunarhlutanum, þar sem bændur munu gegna lykilhlutverki. (...) Samstarf við bændur mun ekki síður lúta að því að minnka losun sem heyrir undir samfélagslosunarflokkinn,“ sagði ráðherra. Sóknarfæri í landbúnaði séu gríðarleg.
