Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
„Bændur hafa lífsviðurværi sitt af íslenskri náttúru, það er þeirra hagur að landið sé vel þétt, gróðri vaxið og undir­búið undir hvaða nýtingu sem er, beit eða aðra uppbyggingu.“
„Bændur hafa lífsviðurværi sitt af íslenskri náttúru, það er þeirra hagur að landið sé vel þétt, gróðri vaxið og undir­búið undir hvaða nýtingu sem er, beit eða aðra uppbyggingu.“
Fréttir 16. desember 2015

Bændur í sátt við náttúru og ferðamenn

„Bændur eru alls konar. Ungir, gamlir, konur, karlar. Þeir nýta landið ekki eingöngu til búskapar, heldur hefur nýsköpun í landbúnaði sótt fram síðustu ár, þar á meðal hefur stétt ferðaþjónustubænda stækkað,“ sagði Jóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður og bóndi, á Umhverfisráðstefnu sem haldin var á Grand hóteli fyrir nokkru.
 
Sagði hún að í dag væri ekkert til sem héti „ómenntaður bóndi“. Bændur hafi grunnskólapróf, stúdentspróf, oft iðnmenntun og eða búfræðipróf. Þá væru bændur einnig að sækja símenntunarnámskeið hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændasamtökum Íslands og fleiri stofnunum.
 
Bændur og landgræðsla
 
Benti Jóhanna á tengingar bóndans við hin ýmsu svið þjóðfélagsins eins og við uppgræðslu lands. 
 „Samstarf bænda í landgræðslu og ferðamennsku snýst mikið um gagnkvæmt traust og skilning. Þeir sem starfa við landgræðslu verða að sýna bændum skilning á þeirra starfi og öfugt, alveg eins og bændur verða að sýna þeim sem nýta landið í ferðaþjónustu skilning og öfugt. Því allir þessir þættir geta vel spilað saman.
 
Réttverkandi samspil er ávinningur bónda, rétt nýting landsins sem hann hugsar um og hefur atvinnu af að nýta.
 
Verkefnið Bændur græða landið hefur verið í gangi frá 1990. Vel flestir þátttakendur verkefnisins eru sauðfjárbændur enda eiga þeir mesta nýtingu á afréttum og beitarlandi – vilja skila til baka. Mikil umræða um beitarþunga, beitarstýringu og ofbeit síðustu misseri.
 
Árið 2000 var gerð viðhorfs­könnun hjá þátttakendum og sýndi hún að enginn var óánægður með verkefnið, svörun könnunarinnar var yfir 95% þeirra sem haft var samband við úr nærri 300 manna hóp.
Landgræðsla er kennd á Hvann­eyri, búfræðingar þurfa að taka áfanga í landgræðslu, í Sauðfjárskólanum er komið inn á fóðuröflun, beitarstjórnun, skipulagða beit vor og haust, sumarbeit á afréttum og heimalöndum. Hvati er til að hafa einnig Nautgripaskóla og Hrossaskóla þar sem inn á þetta væri komið.
Landgræðslufélög eru um allt land ásamt skógræktarfélögum sem spila stóran þátt í landgræðslu bænda (Skógarbændur).
 
Þó að þetta verkefni, Bændur græða landið, hafi byrjað fyrir 25 árum þá hafa íslenskir bændur stundað uppgræðslu lengur en það. Þeir hafa heft sandfok, stöðvað rof, jarðvegseyðingu, dreift heyi og skít á bert land þar sem þeir hafa náð að græða upp, enda fellur til mikið magn af lífrænum úrgangi á hverju býli.
En ætli fólk flokki þetta sem upp- og landgræðslu þegar að hún er óskipulögð? Til dæmis ef heyi og skít er hent á þann bera blett sem næst er vinnusvæði eða búsetu þar sem vinnuhagræðing er að leiðarljósi.“
 
Grunnur að sjálfbærum landbúnaði
 
Jóhanna varpaði upp þeirri spurningu hvers vegna bændur ættu að græða upp land og svaraði henni jafn harðan. 
 
„Bændur hafa lífsviðurværi sitt af íslenskri náttúru, það er þeirra hagur að landið sé vel þétt, gróðri vaxið og undirbúið undir hvaða nýtingu sem er, beit eða aðra uppbyggingu.“
 
„Við fengum jörðina að láni frá börnunum okkar“
 
Þá benti hún á að umhverfissjónarmið væru líka hluti af hag bænda. Þá væri uppgræðsla góð fyrir landkynningu, íslenska náttúru og til að viðhalda lífríki og ákveðinni plöntuflóru.
 
Með landvinningum og beitarstýringu væru bændur að fá meira land til umráða, meira land til að rækta tún og meira land til að beita. Það léttir um leið þunga af því landi sem fyrir er. Endurheimti landgæði og legði grunn að sjálfbærum landbúnaði og betra ástandi lands til næstu kynslóðar. „Við fengum ekki jörðina að gjöf frá foreldrum okkar, við fengum hana að láni frá börnunum okkar.“
 
Sagði Jóhanna að oft vildu bændur gera enn betur í landgræðslumálum, en á stórum búum væru oft fáir við störf og því væri einfaldlega ekki tími aflögu til að sinna slíkum verkefnum. 
 
 „Það er margt fleira sem þarf til að ná árangri við að græða upp land heldur en að fá fræ og leiðbeiningar, stundum vantar líka fjármagn til viðhalds eða lagningu girðinga til að stjórna ágangi búfénaðar á svæðið. Árið 2014 voru um 500 virkir þátttakendur (sveiflast milli ára) og unnið var með um 5.000 hektara svæði.
Með verkefninu hefur skilningur bænda á landnotkun og landgræðslu aukist og það eflir menn til frekari þátttöku að sjá árangur verkefnisins. 
 
Landið sem áður var ónýtanlegt er orðið flott til útivistar og kræsilegra fyrir uppbyggingu.“ 
Nefndi Jóhanna nokkur dæmi þar sem uppgræðsla og skógrækt hafa breytt aðstæðum. 
Þar sem áður hafi verið nánast auðn, aðeins einstaka snarrót, væri allt í einu orðið gróið land. Það hafi síðan verið hægt að nýta undir sumarhúsabyggð. 
 
Ferðaþjónustubændur nýttu sér uppgræðslu með trjám til að fá skjólsælla svæði þar sem þeir reistu veitingasal, gistihús og tjaldstæði. Árangurinn væri þegar byrjaður að sjást og yrði greinilegri eftir því sem trén hækkuðu.
 
Þá sagði hún að skjólbelti geti myndað falleg svæði í kringum lögbýli, til dæmis komið í veg fyrir að vélaskemma og vélar sjáist frá vegi. Það sé bæði umhverfisbætandi fyrir ferðamanninn sem á leið hjá og gæfi ábúendum meiri frið með sitt. Þá hafi bændur aukið skjólbeltagerð við tún, akra og grænmetisgarða til að ná betri uppskeru.
 
Ferðaþjónusta bænda
 
Jóhanna kom inn á ferðaþjónustuna og þátt bænda í þeirri uppbyggingu. Sagði hún að með því að bændur  hlúðu vel að landinu kæmi það þeim til góða í ferðaþjónustunni.
 
Þegar landið er farið að líta vel út vekur það áhuga og möguleika á gönguferðum, jeppaferðum og veiðiferðum. Þar þyrfti þó að huga að því sem mikið er í umræðunni eins  og utanvegsakstri. Í hestaferðum þyrfti einnig að  huga að umhverfi og ásýnd beitarsvæða og úthaga. Auk þess þyrfti að huga að dýra- og plöntulífríkinu – fuglaskoðun, plöntufræði og merkilegum svarðarnautum, heitum laugum, heitum uppsprettum  og umhverfinu í kringum þær.
 
Þá nefndi hún m.a. að sveitaheimsóknir væru að verða algengari t.d. í smalamennskur og nýtingu náttúru til matargerðar s.s. fjallagrös, ber, kræklingur, vatnafiskur, krydd, og sveppir. Ekki mætti raska tegundum, frekar að búa til vistvænlegt umhverfi fyrir þær. Gróður mætti nýta til að lita garn, og í snyrtivörur og sápur. 
 
Þá spurði Jóhanna hvað við ætluðum að selja ferðamönnum. 
„Við leggjum mikla áherslu á íslenska náttúru, ósnortið landslag, hreina náttúru, gott vatn og loft. Við viljum að fólk upplifi íslenska náttúru, ekki auðn. Sjái fjölbreytileikann en ekki sandfok. Við viljum að á Íslandi séu bændur sem selja heilnæma vöru til að fæða ferðamanninn, þá skiptir sjálfbær landbúnaður meginmáli. 
 
Það eru bændur sem stunda búskap, landgræðslu og ferðaþjónustu saman og þeir eru sönnun þess að þessir þættir geta farið vel saman ef við tökum ákvörðun um það og vinnum vel,“ sagði Jóhanna María Sigmundsdóttir.

Skylt efni: Umhverfisþing 2015

Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.