Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Egill Skúlason, prófessor í efnaverkfræði við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Atmonia.
Egill Skúlason, prófessor í efnaverkfræði við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Atmonia.
Mynd / smh
Fréttir 17. desember 2021

Atmonia með tvenns konar tækjabúnað til áburðarframleiðslu

Höfundur: smh

Eins og fram kemur í frétt í nýju Bændablaði, er verið að athuga hagkvæmni þess að reisa áburðarverksmiðju á Reyðarfirði. Gert er ráð fyrir rafgreiningu vatns og framleiðslu á vetnisgasi til framleiðslu á ammoníaki, sem síðan verði umbreytt yfir í nítratáburð, með nýjum tækjabúnaði nýsköpunar­fyrirtækisins Atmonia.  

Fyrirtækið hefur sótt um einkaleyfi fyrir tækjabúnaðinn sem það hefur þróað á undanförnum árum.  

Tvö tæki til áburðarframleiðslu

Segja má að Egill Skúlason, sem er prófessor í efnaverkfræði við Háskóla Íslands, sé hugmyndafræðingur Atmonia. Hann er stjórnarformaður og einn af stofnendum fyrirtækisins. „Ég kynnist Haber Bosch-ferlinu, sem notað er í dag til framleiðslu ammoníaks, árið 2004 – þegar ég var í meistaranámi mínu. Um tímamótatækni var að ræða á sínum tíma sem veitt voru Nóbelsverðlaun fyrir. Hins vegar hafa lengi verið hugmyndir um að breyta aðferðinni og hún löguð að umhverfisvænni áherslu – og það má segja að það hafi orðið viðfangsefni mitt meira og minna í gegnum allan minn námsferil,“ segir Egill.

Hann segir að reyndar sé fyrirtækið með tvö tæki í þróun, hitt tækið hefur tekið lengri þróunartíma en er hugsað til ammoníaks-áburðarframleiðslu í litlum verksmiðjum, eða jafnvel heima á bæjum ef það hentar.

Fyrstu niðurstöður hafa verið birtar

„Það tæki hefur tekið nokkuð lengri tíma í þróun en við gerðum okkur vonir um – erum búin að vera að gera tilraunir í mörg ár –  en um er að ræða alveg gríðarlega flóknar og vandasamar tilraunir,“ segir Egill. „En það er gaman að segja frá því að við vorum einmitt að birta fyrstu niðurstöður okkar í ritrýndum tímaritum um þær og nú gerum við okkur vonir um að þetta tæki verði tilbúið á næstu árum. Við vildum ekki lenda í sömu gryfju og mjög margir sem hafa birt niðurstöður um þessi efni, en ekki er hægt að sannreyna því þær eru ekki fullkláraðar. Það má segja að það hafi orðið sprenging í virkni á þessu sviði vísinda frá árinu 2017, en við vorum farin af stað þó nokkru fyrir hana.“

Egill útskýrir muninn á tækjunum tveimur þannig, að það sem er komið styttra á veg gengur út á milliliðalausa framleiðslu á ammoníaki, án þess að vetnisgas verði til. Hitt ferlið tekur við ammóníaki sem hráefni og umbreytir því í nítrat. „Framleiðsluferli nítrats er vel þekkt og víða notað, en um gríðarlega mengandi ferli er að ræða sem við verðum laus við,“ segir Egill.

Vandasamt að finna rétta hvatann

Egill segir að þau séu langt komin í þróun á ammoníakstækninni, en kjarninn í því er hvatinn, sem sé vandasamasti hlutinn í þróunarferlinu. Hann umbreyti efniviðnum, andrúmslofti og vatni, yfir í ammoníak – með rafgreiningu. Sérstaðan í þessum verkefnum báðum felist einnig í því að orkan sem notuð er í framleiðsluferlinu sé einmitt íslensk umhverfisvæn raforka, þó annars staðar í heiminum sé vissulega hægt að tengja við rafmagn sem fengið er til dæmis með vind- eða sólarorku.

„Við prófuðum ýmsa efnahvata með skammtafræðilegum tölvu­reikningum fyrst, áður en við fórum með tilraunirnar inn á tilraunastofur – og mjög margar áhugaverðar niðurstöður hafa fengist að undanförnu. Við reiknum með að þessi tækjabúnaður verði á stærð við skipagám og meðfærilegur eftir því.Þannig gætu bændur sameinast um að nota hann eða að einingum væri safnað saman sem litlar verksmiður yrðu reistar úr. Við gerum ráð fyrir því að þetta verði ammoníaksáburður sem er uppleystur í vatni og þannig dreift á ræktarlöndin með úðunarkerfi,“ segir Egill. 

Jarðarber úr tilraunaræktun Atmonia í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti, þar sem nítratáburður er notaður úr tækjabúnaðinum. 

Nokkrar mismunandi áburðartegundir

Hitt tækið er komið mun lengra í þróunarferlinu, að sögn Egils. Ætlunin er, sem fyrr segir, að það verði notað við uppsetningu á áburðarframleiðslu á Reyðarfirði í tengslum við samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Fjarðabyggðar og danska fyrirtækisins Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) um grænan orkugarð. „Á Reyðarfirði verður þannig hægt að framleiða nokkrar mismunandi áburðartegundir; ammoníak, nítrat og ýmsar ammoníum-nítrat blöndur.“  

Við erum komin með afskaplega góð viðskiptasambönd núna úti um allan heim þannig að það eru mjög spennandi tímar fram undan hjá okkur,“ segir Egill, spurður um hvort ekki sé eftirvænting í Atmonia-hópnum að sjá fram á að geta gert þessa tækni að raunverulegri markaðsvöru.

Hann bætir við að tækið verði einnig notað í samstarfsverkefni sem Matís hefur haldið utan um og miðar að því að kortleggja allt lífrænt hráefni á Íslandi til sjálfbærrar áburðarframleiðslu.