Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Asnar á fjórum fótum
Á faglegum nótum 14. júní 2016

Asnar á fjórum fótum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Asnar eru skyldir hestum en langt er frá að þeir njóti sömu virðingar þrátt fyrir að vera harðgerð og öflug dráttar- og burðardýr. Sagt er að Kleópatra drottning hafi baðað sig í ösnumjólk og Jesús reið á asna inn í Jerúsalem á pálmasunnudag.

Áætlað er að í heiminum séu rúmlega 50 milljón ferfættir asnar og er flesta þeirra að finna í efnaminni löndum þar sem þeir eru aðallega notaðir sem dráttar- og burðardýr. Nákvæmar upplýsingar um fjölda asna í heiminum eru á reiki þar sem tölur um fjölda búfjár eru yfirleitt takmarkaðar í þeim löndum þar sem þeir eru flestir. Talið er víst að ösnum hafi fjölgað talsvert undanfarna áratugi og að þeim muni halda áfram að fjölga í framtíðinni.

Fjöldi asna í Kína er áætlaður um 15 milljónir og þar á eftir er fjöldinn talinn mestur í Pakistan, Eþíópíu og Mexíkó. Enga ferfætta asna er að finna á Íslandi og ekki er vitað til að reynt hafi verið að flytja þá inn.

Asnar í ættkvíslinni Equus

Allir núlifandi asnar eru afkomendur villtra asna í Afríku, Equus africanus, sem flokkaðir eru í tvær undirtegundir. Sómalíska villiasna, E. africanus somaliensis, og E. africanus africanus, sem er forfaðir asna eins og við þekkjum þá í dag.

Vitað er um tvær tegundir innan ættkvíslarinnar sem eru útdauðar, asnar sem lifðu villtir í Evrópu, E. hydruntinus, fyrir rúmum tíu þúsund árum og tegund sem lifði í Norður-Afríku E. africanus atlanticus, og dó út á tímum Rómaveldis.

Fjöldi undirtegunda

Latneskt heiti nútíma asna er Equus africanus asinus. Fornafnið vísar til ættkvíslarinnar og skyldleika þeirra við hesta. Millinafnið til upprunans í Afríku en asinus er tegundarheitið. FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, flokkar tegundina í um 200 undirtegundir. Tæplega 50 þessara undirtegunda er að finna í Evrópu og aðra 50 í Mið-Austurlöndum, 35 í Asíu og Kyrrahafslöndunum, um 25 í latnesku Ameríku, aðrar 26 í Afríku og 5 í Norður-Ameríku.

Dæmi um undirtegundir eru absintíuasnar í Eþíópíu, tröllaasnar í Norður-Ameríku, sem eins og nafnið gefur til kynna, eru óvenju stórir og kallast Mammút Jack, anatólíuasnar í Tyrklandi, próvens-, pýrenea- og bourbonasnar í Frakklandi, anes í Tógó, villtir asinaraasnar á Ítalíu, katalínuasnar á Spáni og kiang í Tíbet, Kasmír og Nepal.

Villtir asnar eru víða í heiminum í útrýmingarhættu

Auk náttúrulegra undirtegunda hafa menn haft gaman af því að æxla ösnum við nánustu ættingja sína í dýraríkinu. Múlasni er afkvæmi hests og ösnu sem líkist yfirleitt móðurinni að stærð en höfuðið, fæturnir og taglið föður. Blendingur asnafola og merar kallast múldýr og eru stór eins og hestar, fæturnir grannir, eyrun löng og taglið stutt og þykja góð reiðdýr. Frumleg útgáfa þessarar æxlunar er afkvæmi asna og sebradýra sem kallast líklega sebraasni eða KR-ingur.

Blendingar af þessu tagi eru ófrjóir og geta því ekki eignast afkvæmi.

Uppruni asna

Rannsóknir í erfðafræði benda til að fyrstu asnarnir eða frumasninn sé upprunninn í norðaustanverðri Afríku og er nánustu ættingja þeirra að finna í Afríku í dag.

Asnar hafa einungis verið nýttir í 5.000 ár sem er stutt miðað við önnur húsdýr. Talið er að fyrstu asnarnir hafi verið tamdir í Egyptalandi og Mesapótamíu 3.000 árum fyrir upphaf okkar tímatals sem burðar- og dráttardýr. Asnar eru sterk, þolin og léttfætt dýr sem tóku við af nautgripum sem burðardýr og jók asninn mjög á getu fólks til að flytja á milli svæða og er það talin ein aðalástæðan fyrir hraðri útbreiðslu hans.

Í eignaskrám auðugra fjölskyldna í Egyptalandi á þriðju öld fyrir Krist kemur fram að sumar fjölskyldurnar áttu yfir hundrað asna sem var beitt fyrir plóg á ökrum eða notuð sem burðardýr. Ösnurnar voru mjólkaðar og kjötið borðað. Við uppgröft á grafhýsi fyrsta faraósins í Egyptalandi fundust tíu beinagrindur af ösnum sem fylgja áttu honum til handan heima.

Sagt er að Kleópatra drottning í Egyptalandi, eiginkona Nerós keisara og systir Napóleons keisara, hafi baðað sig í ösnumjólk til að mýkja húðina og halda sér unglegri.

Asnar voru þekktir sem húsdýr í suðvestanverðri Asíu 2.500 árum fyrir Krist. Frá svipuðum tíma eru frásagnir um stórvaxna hvíta asna í borginni Damaskus sem ætlaðir voru til reiða og í Sýrlandi voru ræktaðir gangþýðir asnar sem sérstaklega voru ætlaðir sem reiðskjótar fyrir konur.

Talið er að asnar berist til Evrópu á annarri öld fyrir Krist eða um svipað leyti og vínviðurinn og ræktun á honum hefst þar. Sýrlenski vínguðinn Díonosíus er oft sýndur í allri sinni dýrð ríðandi á asna í grískri myndlist. Seinni tíma myndir af hinum rómverska Bakkusi sýna hann iðulega sitja á sams konar skepnu.

Grikkir og Rómverjar voru fljótir að taka asnann í sína þjónustu og Rómverjar fluttu þá með sér vítt og breitt um rómverska heimsveldið og þar á meðal um Mið-Evrópu.

Fyrstu asnarnir í Suður-Ameríku voru samferða Kólumbusi vestur um haf í öðrum leiðangri hans til nýja heimsins og stigu á land þar 1495. Líklegt er talið að tveir asnar hafi borist til Mexíkó með biskupnum og trúboðanum Zumárranga árið 1528 og fyrstu heimildir um asna í sunnanverðri Norður-Ameríku eru frá 1598.

Asnar voru fluttir til Ástralíu 1793. Þeir sluppu fljótlega út í náttúruna þar sem þeir hafa fjölgað sér mikið.

Útlit og ævilengd

Verulegur munur er á mismunandi undirtegundum asna í útliti og að stærð. Flestir asnar eru gráir eða jarpir að lit en litaafbrigði geta verið margs konar en kviðurinn og granirnar eru yfirleitt ljósar. Hæð upp á herðakamb fullorðinna asna getur verið frá 80 upp í 160 sentímetrar og þyng þeirra 80 til 480 kíló. Hálsinn er stuttur.

Asnar eru hófdýr og grasbítar með öflugt meltingarkerfi og geta lagt sér til munns gróður sem aðrir grasbítar líta ekki við. Hófar asna eru teygjanlegri og eyðast hægar en hófar hesta. Asnar geta verið sprettharðir og í Asíu eru til asnar sem ná 70 kílómetra hraða á klukkustund á spretti og geta hlaupið samfleytt í um það bil tvær klukkustundir á 25 kílómetra hraða.

Ævilengd asna er nátengd meðferðinni á þeim. Asnar sem púla mikið ná sjaldnast nema 15 ára aldri en vitað er um asna í góðu yfirlæti sem hafa lifað í tæp fimmtíu ár.

Asnar eru harðgerðar og sterkar skepnur sem eru vel aðlagaðir að lífi í þurru og heitu loftslagi við jaðra eyðimarka. Karldýrin helga sér svæði og getur yfirráðasvæði sterks karldýrs verið tugir hektarar að flatarmáli. Samskipti þeirra á milli fer fram með hneggi eða hríni sem getur borist marga kílómetra yfir eyðimerkur, gresjur og gróðursnautland. Eyru asna eru stór og nýtast því vel við slíkar aðstæður auk þess sem blóðflæði í gegnum þau kælir dýrin.

Ösnur eru félagslyndari en karldýrin og saman mynda þær ösnustóð.

Meðganga og burður

Eftir fyljun ganga ösnur að jafnaði með í tólf mánuði en meðgöngutíminn er breytilegur, ellefu til fjórtán mánuðir milli undirtegunda. Að meðgöngu lokinni kasta þær yfirleitt einu folaldi. Ösnur kasta tveimur folöldum í aðeins 14% tilfella og eru lífsmöguleikar tvíburafolalda litlar.

Folöldin eru átta til fjórtán kíló við burð og að jafnaði staðin upp og komin á spenna hálftíma síðar.
Karldýr sem lenda saman vegna ösnu í látum berjast um hana með því að bíta og sparka í hvor annan jafnt með fram- og afturfótunum.

Hegðun og nytjar

Asnar láta ekki eins vel af stjórn eins og hestar og eru orðlagðir fyrir þrjósku og því líklega sjálfstæðari í hugsun en hestar. Atferlisrannsóknir á ösnum benda til að þeir séu greindir, varkárir, leiksamir, almennt vinalegir og fljótir að læra.

Allt frá því að fyrstu asnarnir voru tamdir hafa þeir aðallega verið nýttir til reiða og sem burðar- og dráttardýr. Ösnur hafa verið tamdar, eins og hundar, til að halda saman sauðfé og geitum og verja féð fyrir rándýrum. Ösnur hafa einnig verið tamdar til að gæta ungra barna. Asnar hafa verið notaðir í hernaði til að bera sprengjur þar sem fólk hefur safnast saman og sprengja það í loft upp og til að flytja særða hermenn af vígstöðvunum.

Kjöt af ösnum þykir víða lostæti, meðal annars í Frakklandi og í Suður-Ameríku og Kína. Á Ítalíu, þar sem neysla á asnakjöti er mest í Evrópu, er það meðal annars notað í rétti eins og pastasósu, stracotto di asino og í pylsur, salame di asino.

Húðir af ösnum eru nýttar á svipaðan hátt og hrosshúðir og í eina tíð voru smíðaðar falskar tennur í fólk úr tönnum asna. George Washington, fyrsti forseti Bandaríkjanna, var til dæmis með þannig stell uppi í sér.

Asnar í bókmenntum og myndlist

Asnar koma nokkrum sinnum fyrir í dæmisögum Esóps. Oftar en ekki koma þeir illa út í þeim en með einni undantekningu þegar asni bjargar sér með hyggindum úr klóm úlfs. Í Gullna asnanum, Asinus Aureus, eftir rómverska rithöfundinn Apuleius, er söguhetjunni Lucius breytt í asna í upphafi sögunnar og í Draumi á Jónsmessunótt eftir Shakespeare breytist höfuð einnar persónunnar í asnahöfuð.

Sansho Panza, hinn trygglyndi samferðamaður Don Kíkóte, ríður á asna og asninn Benjamín á Dýrabæ George Orwell er táknmynd tryggðar og þolgæðis.

Asnar eru víða nefndir í Biblíunni og notaðir í líkingamáli hennar. Í annarri Mósebók 22:3 segir að finnist hið stolna lifandi í vörslu hans, hvort sem það er naut, asni eða sauður, skal hann bæta með tveimur fyrir eitt og í Jobsbók 11:12 segir að ef heimskur maður verður skynsamur geti villiasni eins fæðst sem maður.
Spænski málarinn Goya, sem talinn er einn af höfuðmyndlistarmönnum sögunnar, gerði meðal annars áttatíu ætingar sem ganga undir heitinu Los Caprichos og sína heimsku mannanna í allri sinni fjölbreytni. Á nokkrum þeirra eru asnar þungamiðja ádeilunnar.

Einn besti vinur tröllkarlsins Shrek í samnefndum teiknimyndum er fremur einfaldur en úrræðagóður og trygglyndur asni. Asninn sá er líkur fyrirmynd sinni í náttúrunni að því leyti að hann getur eignast afkvæmi með dýri af annarri tegund en hann sjálfur. Í teiknimyndinni er gengið talsvert lengra en í raunheimum hvað tegundablöndun varðar því asninn eignast asnalík afkvæmi með vængi með stórum fljúgandi og eldspúandi dreka.

Asnar í goðsögnum og trúarbrögðum

Pálmasunnudagur er trúarleg hátíð kristinna sem fellur á sunnudaginn fyrir páskana og er fyrsti dagur dymbilviku. Pálmasunnudagur er haldinn til minningar um innreið Jesú í Jerúsalem, þegar fólkið breiddi klæði sín á veginn og veifaði pálmagreinum til að fagna komu hans, en þannig var konungum fagnað á þeim tímum.

Í Jóhannesarguðspjalli 12:12-16 segir nánar um þennan atburð að Jesús hafi fundið sér ungan asna og sest á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola. Kristur ríður hér asna líkt og Díonosíus og Bakkus í helgisögnum Grikkja og Rómverja.

Á helgimyndum sem sýna komu Jóhannesar og Maríu meyjar með Jesúm undir belti til Betlehem ríður hún iðulega asna sem smiðurinn leiðir.

Asninn er tákn guðsins Ra í ­egypskri guðafræði og samkvæmt grískri goðafræði uxu asnaeyru á Mídas konung þegar upp komst um lélegan tónlistarsmekk hans. Samkvæmt hindúasið er reiðskjóti gyðjunnar Kalarati asni.

Spámaðurinn Múhameð sagði að ef hundur eða asni gengi framan við mann á bæn gerði það bænina gagnslausa.

Að vera asni

Fæstum þykir upphefð í að vera líkt við asna enda slíkt merki um heimsku eða bjánaskap. Menn geta þannig verið hreinir og klárir asnar, asnaprik, asnalegir í hegðun eða útliti eða með asnaeyru og þar fram eftir götunum.

Í Bandaríkjunum er keppt í nýstárlegri útgáfu af körfubolta þar sem leikmenn sitja á ösnum meðan á leiknum stendur og reyna að hitta boltanum í körfu af þeim.

Samkvæmt afgönsku orðatiltæki er asni enn þá asni þrátt fyrir að hann taki sér á hendur pílagrímsferð til Mekka.

Asni á barnum

Tvöfaldur vodka.
Engiferöl.
Einn bátur af sítrónu.

Helt í longdrink glas með klaka. Fyllt upp með engiferöli, sítrónan kreist yfir og látin detta ofan í glasið.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...